11.12.2008 22:01

Fimmtudagur, 11. 12. 08.

Göran Persson, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra Svíþjóðar, var hér í heimsókn á miðvikudag og af því tilefni ræddi Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, við hann um bankakreppuna, afleiðingu hennar og ráðgjöf hagfræðinga. Hér er vitnað í svar Perssons:

„Það er engin fræðigrein sem er jafn ofmetin og hagfræði, þetta snýst í reynd mikið um heilbrigða skynsemi. Ef menn bara gæta þess að sjá til að tekjurnar séu hærri en útgjöldin standa þeir sig ágætlega. En það er hefð fyrir því í Svíþjóð að fjármálaráðherrann sé fremur stjórnmálamaður en hagfræðingur. Það er ekki til neitt sem er jafn pólitískt og fjármálaráðuneytið. Það erfiða er ekki að skilja hvað beri að gera, það erfiða er að gera það, að koma á framfæri boðum um pólitískt ferli en ekki að gefa skipun um vísindalega umræðu á sviði hagfræði. Það er auðvelt að sjá hvað þurfi að lækka mikið útgjöldin til ákveðinna málaflokka en að fá pólitískan stuðning við ákvörðunina er allt annað mál. Það er kallað stjórnmál. Bestu fjármálaráðherrarnir sem við höfum haft í Svíþjóð hafa verið stjórnmálamenn. Þegar lögð hefur verið áhersla á að fá í embættið fólk með hagfræðilegan bakgrunn hefur það endað í ringulreið.“

Kristján segir: Formaður stjórnar íslenska seðlabankans er ekki hagfræðimenntaður og það veldur deilum... og Persson svarar:

„Seðlabanki þar sem ekki er til staðar í stjórninni einhver með þekkingu á alþjóðlegum stjórnmálum er illa staddur, það er mjög mikilvæg færni. Og sá sem nú stýrir bankanum er mjög hæfur á því sviði.“

Hvað skyldu hagfræðingarnir segja við þessu? Þess skal getið, að Persson er jafnaðarmaður og flokksbróðir samfylkingarfólksins.

Uffe Elllemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, svaraði spurningum í Kastljósi kvöldsins og hvatti til þess, að menn létu ekki efnahagsrök ein leiða Ísland í Evrópusambandið, aðild snerist um pólitísk gildi og þar með meira en efnahagsmál.

Þegar sagt er, að Svíar og Finnar hafi gengið í Evrópusambandið eftir efnahagskreppu er þeirri stórpólitísku staðreynd sleppt, að þeir voru miklu frekar að flýta sér að yfirgefa hlutleysisstefnuna eftir hrun Sovétríkjanna. Kremlverjar voru á tímum kommúnismans andvígir því, að hlutlaus ríki, Austurríki, Finnland og Svíþjóð væru að gera sér dælt við Evrópusambandið, hvað þá að íhuga inngöngu þangað.