23.11.2008 21:43

Sunnudagur, 23. 11. 08.

Skruppum í Þjóðminjasafnið og skoðuðum ljósmyndasýningu Vigfúsar Sigurgeirssonar. Það er skemmtilegt að sjá, hve ljósmyndadeild safnsins nýtur sín vel, eftir að flutt var í endurnýjuð húsakynni safnsins. Safnbúðin er einnig góð og þar má meðal annars sjá afrakstur ljósmyndadeildarinnar í mörgum glæsilegum bókum. Ein mynd Vigfúsar er frá Hrafnseyri 1961, þegar Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands,  fór þangað í tilefni af endurreisn fæðingarstaðar Jóns Sigurðssonar. Á myndinni má sjá varðskipið Óðinn úti á Arnarfirðinum. Það minnti mig á, að ég var skipverji um borð í þessari ferð með forsetann en að lokinni athöfn á Hrafnseyri var siglt til Ísafjarðar.

Ég skrifaði einnig pistil á vefsíðu mína og áréttaði þar skoðun mína um hættuna á því, að bankaleynd væri teygð og toguð til að leyna upplýsingum, sem ætti að segja frá eftir bankahrunið.