26.12.2008 2:59

Föstudagur, 26. 12. 08.

Á andriki.is stendur hinn 25. desember:

Ef Ísland á ekki heima með evrópuþjóðum innan Evrópusambandsins að þínu mati hvar á Ísland þá heima í alþjóðasamfélaginu ef litið er til efnahagslegra, menningarlegra, pólitískra og stjórnskipulegra þátta ?

- Spurt á fundi einnar af Evrópunefndum Sjálfstæðisflokksins 22. desember 2008.

Spurningunni hér að ofan var beint til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem var einn af gestum fundarins í Valhöll. Vefþjóðviljinn hefur svör Björns ekki á takteinum enda er það spurningin sjálf sem er klassík og mikilvægt sýnishorn um hugarheim forræðishyggjunnar. Hún skýrir svo vel þá nauðhyggju og trú á miðstýringu sem einkennir marga ESB-sinna.“

Ég svaraði á þann veg, að ég teldi Ísland ekki einangrað eins og málum væi nú komið. Við erum þátttakendur í alþjóðasamfélaginu á grundvelli fjölmargra alþjóðasamninga og þar á meðal við Evrópusambandið um viðskiptafrelsi og landamærafrelsi.

Styrmir Gunnarsson ritar grein á vefsíðuna www.evropunefnd.is og ræðir það hugsanleg friðkaup sjálfstæðismanna við Samfylkinguna um Evrópumálin. Styrmir segir:

„Í þeim fróðlegu umræðum, sem nú fara fram á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um málefni Íslands og Evrópusambandsins hefur það sjónarmið komið fram, að þar sé á ferðinni friðþæging (appeasement) gagnvart Samfylkingunni til þess að koma í veg fyrir stjórnarslit. Með þeirri orðanotkun er raunverulega spurt, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en nú í haust voru liðin 70 ár frá því að Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með pappírsblað, sem þeir höfðu sett nafn sitt á, hann og Adolf Hitler og Chamberlain taldi að mundi tryggja frið í heiminum um okkar daga.“

Egill Helgason tók kipp, þegar hann las þetta eftir Styrmi og segir:

Björn Bjarnason hefur skrifað, oftar en einu sinni að mig minnir, að umræðu um málefni ljúki sjálfkrafa þegar annar aðilinn fer að líkja hinum við Hitler eða nasista.

Skyldi þetta líka eiga við Styrmi Gunnarsson þegar hann líkir hugsanlegum aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið við samningana í München 1938?“

Skyldi Egill hafa lesið grein Styrmis? Þar er Styrmir að ræða samstarfið innan ríkisstjórnarinnar, þegar hann grípur til líkingarinnar við samningana í München. Hann er að velta fyrir sér friðkaupum sjálfstæðismanna og samfylkingarfólks til að halda stjórninni á lífi, þrátt fyrir ágreining um Evrópumálin. Ég minnist þess ekki, að menn leggi slíkt líkingamál að jöfnu við að kenna verk eða skoðanir manna við Hitler.

Með vísan til fréttaskýringar, sem birtist á vefsíðunni www.amx.is virðist ekki að ástæðulausu að litið sé á Evrópumálin frá því sjónarhorni, sem gert er í grein Styrmis. Þar segir, að innan Sjálfstæðisflokksins telji margir, að bilið sé frekar að breikka milli stjórnarflokkanna í Evrópumálum vegna framgöngu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar.

Aðildarsinnaðir álitsgjafar bregðast margir illa við vegna sjónarmiða eða raka annarra í Evrópumálum og kjósa frekar að veifa röngu tré en öngvu í umræðunum. Þannig þykir mér Árni Snævarr blogga í langri útlistun um grein eftir mig, sem birtist í nýjasta hefti Þjóðmála. Hann fjargviðrast yfir því, að ég skuli nota orðið „úrslitakostir“ þegar ég vísa til röksemda fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í greininni nefni ég dæmi frá Noregi, þar sem fram kemur, að Íslendingar eigi engra annarra kosta völ en ganga í sambandið enda í „dödens posijon“ eins og norskur stjórnmálafræðiprófessor orðar það svo smekklega. Hvað eru þetta annað er úrslitakostir?

Í grein sinni fer Árni um svo víðan völl, að erfitt er að henda reiður á kjarnann í máli hans, nema hann sé sá, að þeir séu ekki nútímamenn, sem eru honum ósammála. Er þetta ekki dálítið gamaldags málflutningur?

Þeir, sem vilja leggja verulega mikið á sig til að komast ekki í jólaskap, ættu að reyna að brjótast í gegnum þennan texta . Höfundar hans líta á sig sem forystusveit aðgerðasinna til að bæta íslenskt þjóðfélag að föllnum bönkunum.