22.12.2008 22:07

Mánudagur, 22. 12. 08.

Alþingi kom saman til fundar klukkan 09.30 og lauk fundum þess um klukkan 20.00 með samþykkt fjárlaga fyrir árið 2009 og fjáraukalaga 2008. Hraðinn við afgreiðslu fjárlaga hefur verið mikill og þungi hvílt á fjárlaganefnd og embættismönnum þings og ráðuneyta, sem að málinu koma. Næsta skref er að átta sig nákvæmlega á því, hvað í þessu öllu felst og hvernig unnt er að hrinda því í framkvæmd. Vafalaust munu ýmsar stofnanir kveinka sér undan tölunum, sem við blasa.

Klukkan 12.00 var ég í Valhöll og flutti þar stutta ræðu og svaraði spurningum um Evrópumál - en fundurinn var haldinn á vegum undirhóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokkksins og stjórnar Friðrik Sophusson, fyrrverandi varaformaður flokksins, honum. Hlutverk mitt var að ræða, stöðu okkar utan og innan Evrópusambandsins.

Samþætting og hagræðing er meðal þess, sem óhjákvæmilegt er að hafa að leiðarljósi í ríkisrekstri og annars staðar. Hinn 16. desember vakti ég máls í ríkisstjórn á aðgerðum í þessa átt að því er varðar starfsemi á mínu verksviði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Vegna villandi forsíðufréttar um þau mál í Fréttablaðinu í dag, þar sem látið er í veðri vaka, að eitthvert frumkvæði sé á vegum utanríkisráðuneytis vegna varnarmálastofnunar, sem eigi í deilum við Neyðarlínuna vegna útreikninga hennar á sparnaði með brotthvarfi varnarsmálastofnunar, sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu. Þar segir meðal annars:

„Ríkisstjórnin féllst hinn 16. desember sl. á tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að stefnt yrði að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála. Var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu falið að hafa forgöngu um viðræður dóms- og kirkjumálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis í því augnamiði að sameina krafta ríkisstofnana, sem tengjast siglingum, sjósókn, öryggi, löggæslu, eftirliti, sjúkra- og neyðarflugi sem og sjómælingum og rannsóknum í hafinu. Markmiðið er að auka hagræði og skilvirkni í rekstri þeirra stofnana sem hér um ræðir, en það eru einkum Landhelgisgæslan, Varnarmálastofnun, Siglingastofnun, Fiskistofa, Hafrannsóknarstofnun, Vaktstöð siglinga auk þeirra, sem sinna sjúkraflugi.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins dags. 14. nóvember sl. er ráðuneytum falið að leita allra leiða til að draga úr ríkisútgjöldum með hliðsjón af forgangsröðun brýnustu verkefna og kjarnastarfsemi og huga að hagræðingu og skipulagsbreytingum eins og sameiningu stofnana.“