29.10.1997 0:00

Miðvikudagur 29.10.1997

Þennan dag kom ég aftur til starfa eftir ferðalag okkar Ásdísar Höllu til Parísar og London. Eftir að hafa verið nokkra daga í burtu þarf alltaf dálítinn tíma til að koma skrifborðinu í samt lag og ná utan um þau mál, sem safnast saman. Þessi tími var stuttur að þessu sinni, því að strax að morgni fimmtudagsins flaug ég til Bíldudals og kom ekki aftur fyrr en um hádegi föstudaginn 32. október. Þess vegna var þéttraðað á allan miðvikudaginn frá morgni til kvölds. Viðtöl fyrir hádegi og fundir síðdegis. Klukkan 18. 30 fór ég síðan inn á Stöð 2 til að vera þar í beinni útsendingu upp úr sjö í Íslandi í dag. Voru hugmyndir um flutning stýrimanna- og vélstjóranáms úr Sjómannaskólahúsinu þar til umræðu. Var einnig drepið á það mál á fundinum á Patreksfirði næsta kvöld. Er greinilegt, að margir taka þessar hugmyndir nærri sér. Klukkan 20 fórum við Rut í Þjóðleikhúsið og sáum frumsýningu á leikritinu Grandavegur 7. Var þeirri stund vel varið.