31.12.1996 0:00

Þriðjudagur 31.12.1996

Gamlársdagur er hefðbundinn fundardagur ríkisráðsins. Þá koma ráðherrar til fundar hjá forseta Íslands að Bessastöðum, bera upp við hann erindi og þiggja síðan kampavínsglas til að kveðja gamla árið. Þegar við komum að forsetasetrinu um klukkan 10.30 var þar margmenni utan dyra og hafði komið í nokkrum rútum, var það líklega hluti þeirra ferðamanna, sem hingað koma til að fylgjast með áramótunum. Klukkan 14 á gamlársdag er önnur hefðbundin athöfn, það er afhending viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Fer hún fram í húsakynnum RÚV í Efstaleiti. Að þessu sinni hlutu þau systkinin Sigrún og Þórarinn Eldjárn þessa viðurkenningu, 400 þúsund krónur hvor.