15.6.2011

Miðvikudagur 15. 06. 11.

Í dag ræddi ég við Andra Árnason hrl.,verjanda Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn er sendur út á tveggja tíma fresti og síðasta sinn klukkan 18.00 á morgun og síðan að nýju um næstu helgi.

Enginn sem hlustar á Andra getur efast um að einkennilega er staðið að málinu af hálfu alþingis og saksóknara að fyrirmælum þess. Málið er lagt fyrir dómara með ákæru án þess að í henni sé að finna hinn minnsta rökstuðning. Nefnd alþingis sem undirbjó ákæruna hafði ekki upp neina viðleitni til að sinna rannsóknarskyldu sem eðlilegt að liggi að baki ákæru. Ákvörðunin er reist á pólitísku mati og saksóknari alþingis tekur fram í ákærutexta sínum að hann fari að fyrirmælum þingsins.

Ég dreg í efa að lögfræðingarnir í rannsóknarnefnd alþingis, Páll Hreinsson hæstaréttardómari og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, hafi talið skýrslu sína til alþingis hæfilegt skjal að baki ákvörðunar um ákæru Nefnd Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna, stóð hins vegar þannig að málum að skýrsla rannsóknarnefndarinnar dygði til ákæru auk þess sem Atli bar fyrir sig álit sérfróðra manna. Þetta skjól Atla á bakvið sérfróða menn virðist ekki halda vatni.

Andri fer hörðum orðum um óvandaða ákæru í samtalinu við mig. Ég spurði hann hvernig ákæran stæði í samanburði við kröfur dómara til efni ákæru í Baugsmálinu. Svar hans sýndi að landsdómsákæran kolfellur yrði sama kvarta beitt á hana og notaður var í Baugsmálinu. Telur landsdómur sig bundinn af fordæmum frá hæstarétti í sakamálum þar? Það á eftir að koma í ljós.

Frá því að alþingi samþykkti ákæruna hefur meirihluti þess skipað sér í lið með saksóknara sínum með lagabreytingu sem bindur að sjálfsögðu dómaranna. Andri taldi víst að löggjafinn mundi ekki blanda sér meira í málið. Ég tel að ekki eigi að útiloka neitt í því efni. Einbeittur vilji meirihluta þingmanna til að ná sér niðri á Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokknum er slíkur að líklegt er að ekki verður neins svifist til að ná fram sakfellingu.