12.6.2011

Sunnudagur 12. 06. 11.

Loksins kom sumardagur í Fljótshlíðinni. Nokkuð öskuryk er í grasrótinni þegar ég slæ og raka. Fíngerð aska leggst á hús og bíla.

Fundum alþingis fyrir sumarleyfi lauk í gærkvöldi. Mest athygli beinist að flausturslegu frumvarpi Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um stjórn fiskveiða. Það er kallað minna frumvarpið því að einhver stærri vitleysa er til í öðru frumvarpi. Frumvörpin eru samsuða á stefnu Samfylkingarinnar og vinstri-grænna líklega með ívafi frá Frjálslynda flokknum sem ekki á lengur mann á þingi en hins vegar fyrrverandi formann sinn, Guðjón Á. Kristjánsson, sem sérlegan ráðgjafa Jóns um sjávarútvegsmál.

Helsta afrek þeirra Jóns og Guðjóns til þessa er að heimila svonefndar strandveiðar. Þar láta þeir að sér kveða sem hafa hagnast á því að selja frá sér kvóta en geta ekki hætt að veiða og byrja því upp á nýtt með ástundun strandveiða án kvóta. Í Frjálslynda flokknum hefur mönnum löngum verið tíðrætt um svonefndan gjafakvóta og vísa þar til þeirra sem fengu kvóta upphaflega í samræmi við veiðireynslu. Nú standa þeir Jón og Guðjón fyrir sannkölluðum gjafakvóta-bónusi, það er þeir sem hafa selt kvótann sinn geta hafið strandveiðar eins og ekkert sé.