7.6.2011

Þriðjudagur 07. 06. 11.

Sigurður G. Guðjónsson hrl. gerir þá athugasemd á Eyjunni í dag við bók mína Rosabaug að hann hafi ekki skrifað leiðara í Blaðið 27. september 2005, sama dag og Davíð Oddsson sagði skilið við ráðherraembætti. Davíð gladdist einmitt á þeirri stundu yfir leiðara Blaðsins sem hann taldi að Sigurður G. hefði skrifað (bls. 163) og fullyrti ég það síðan á bls. 168. Gekk ég að því vísu að skoðun Davíðs væri rétt enda tæp sex ár frá því að henni var lýst án athugasemda frá Sigurði G. Verði bókin prentuð að nýju, sem ekki er ólíklegt vegna góðrar sölu á henni, læt ég þessarar ábendingar Sigurðar G. getið.

Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde var þingfest í dag. Stuðningsmenn hans efndu til fundar í Hörpunni síðdegis til að sýna honum samstöðu. Vegna annarra skuldbindinga komst ég ekki á fundinn. Ég hef hins vegar skráð mig á síðuna www.malsvorn.is og hvet alla rétthugsandi menn að sýna Geir stuðning á þann einfalda hátt.