16.6.2011

Fimmtudagur 16. 06. 11.

Ólafur Arnarson álitsgjafi ritaði um Rosabaug yfir Íslandi á vefsíðuna Pressuna í dag, Umsögnin var eins og við mátti búast úr þeirri átt. Ég átti ekki von á því að Ólafur yrði sammála skoðun minni á Baugsmálinu. Eitt er að vera ósammála höfundi annað telja það bók til lasts að höfundur hafi skoðun. Ólafur fann að því að prentvillupúkinn hefði tekið fram fyrir hendur á mér. Hann er hins vegar svo óheppinn að sjálfur fer hann rangt með brotið sem leiddi til refsingar yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Ólafur segir það hafa verið „minniháttar“ bókhaldsbrot - það var hins vegar meiri háttar og varðar við almenn hegningarlög.

Hér má sjá þátt minn á ÍNN frá því 15. júní þegar ég ræddi við Andra Árnason hrl., lögmann Geirs H. Haarde, í landsdómsmálinu. Þeir sem hafa fylgst með málinu og umræðum um pólitíska hlið þess ættu að skoða þennan þátt og fá sýn á lögfræðilega hlið þess. Með því átta þeir sig betur en ella á því hve fráleit málshöfðunin og ákæran er.