24.6.2011

Föstudagur 24. 06. 22.

Nú er Fjalladrottningin mín borin, tvær gimbrar komu í heiminn hjá Viðari í Hliðarbóli sl. nótt. Hér má sjá mynd af Fjalladrottningunni sjálfri:

Fjalladrottning 24/6/11Hún hefur valdið mörgum höfuðverk hér í sveitinni enda hélt hún sig á fjöllum í nokkra vetur þar til hún birtist eftir öskufallið mikla úr Eyjafjallajökli í fyrra. Þá gekk hún innan úr Þórólfsfelli fram hlíðina. Var hún í nokkrar vikur að Hliðarbóli en stökk þaðan þegar öskufallinu lauk. Hún lét ekki ná í sig í smalamennskunni sl. haust. Var gert grín að því á þorrablótinu að ekki hefði náðst í hana. Að morgni sunnudagsins eftir blótið stóð hún hins vegar við fjárhúshliðið að Fljótsdal og beið þess að opnað yrði fyrir henni. Fjalladrottningunni var að sjálfsögðu fagnað og einnig af hrúti þegar hún kom í Hlíðarból. Hér má sjá hana með gimbrunum sínum:

Fjalladrottning með lömb











Nú er að sjá hve lengi hún lætur sig hverfa eftir að hún fær frelsi að nýju á afréttinni.