10.6.2011

Föstudagur 10. 06. 11.

Í vikublaðinu Fréttatímanum segir í dag að Rosabaugur sé í 2. sæti á sölulista Eymundsson en samkvæmt auglýsingu sem birtist í gær hefur bókin verið í 1. sæti tvær vikur í röð. Hvaðan blaðið hefur upplýsingar sínar veit ég ekki.


Ég hef hins vegar unnið að því að búa bókina undir 2. prentun og í tilefni af því farið yfir hana og ákveðið að biðja Morgunblaðið að birta eftir eftirfarandi fyrir mig:

Rosabaugur

Bók mín Rosabaugur yfir Íslandi hefur hlotið góðar viðtökur og er uppseld hjá útgefanda.

Við undirbúning 2. prentunar sá ég mér til leiðinda fáeinar villur, einkum Rosabaugur_Kapa_HiResstafa- eða frágangsvillur.  Verst þótti mér að við lokafrágang bókarinnar, við heimildavinnu um dóm hæstaréttar 5. júní 2008, urðu mér á þau leiðu mistök að segja Jón Ásgeir Jóhannesson sakfelldann fyrir fjárdrátt. Með því vakti alls ekki fyrir mér að gera á hlut hans og bið ég hann afsökunar á mistökunum. Jón Ásgeir hlaut dóm samkvæmt 15. ákærulið fyrir meiri háttar bókhaldsbrot samkvæmt 2. mgr. 262 gr. almennra hegningarlaga en var sýknaður að öðru leyti af  ákæruliðum 2 til 17. Hann hlaut engan dóm samkvæmt 19. ákærulið eins og skilja má af texta mínum á bls. 368.  Þetta leiðrétti ég hér með og mun einnig gera í 2. prentun bókar minnar sem væntanleg er á markað innan skamms.

Ég þakka lesendum áhuga þeirra á bókinni og góð orð um hana. Bið ég þá velvirðingar á þeim villum sem hér eru nefndar.

Björn Bjarnason

 Þessi boðskapur á ekki siður erindi til lesenda síðu minnar.

Eftir að ég birti þetta hér að ofan ræddi vefsíðan Eyjan við Jón Ásgeir Jóhannesson sem sagðist ætla að „stefna Birni Bjarnasyni fyrir meiðyrði vegna rangfærslna í bók Björns, Rosabaugi yfir Íslandi“. Þá sagði Jón Ásgeir:

„Það er augljóst að Björn skrifaði þetta í bókina vitandi að hann væri að fara með rangt mál. Hver trúir því að hann hafi ekki vitað hvernig dómur féll í Baugsmálinu þegar hann skrifar 400 síðna bók um málið? Þetta sýnir best innræti Björns og hversu langt hann er tilbúinn að ganga.

Ég sakna þess að hann birti ekki tölvupósta á milli hans og Jónínu Ben. eða samtal hans og Óskars Magnúsonar sem varð til að sá síðarnefndi slapp við Baugs skattamálið. Hlutur hans hlutur í því máli var fimm sinnum stærri en sá hlutur sem menn fóru á eftir mér með.“

Ég verð að halda þessum ummælum til haga stefni Jón Ásgeir mér. Forvitnlegt að fá nánari skýringar á þeim.