23.6.2011

Fimmtudagur 23. 06. 11.

Önnur prentun bókar minnar Rosabaugur yfir Íslandi kom út í dag. Hún hefur verið uppseld hjá útgefandanum, Bókafélaginu Uglu, í tvær vikur. Salan varð meiri og örari en ég vænti.

Tal Steingríms J. Sigfússonar í Kastljósi kvöldsins um breytingar á bílaeign landsmanna og aðra slíka hluti þegar hann var gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í vegamálum var ósannfærandi. Það leiddi einnig enn á ný í ljós ágreining milli Steingríms J. og Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um aðgerðir í vegamálum. Þegar Steingrímur J. lýsti eldsneytisverði hér á landi í lægri kantinum spurði Helgi Seljan Kastljósmaður hann hvort ekki ætti að líta á verðið í samhengi við kaupmátt. Steingrímur J. komst upp með að svara ekki spurningunni.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá því að öll verktakastarfsemi í landinu sé að lamast vegna verkefnaskorts. Þá kemur einnig fram að við blasi alvarlegur læknaskortur. Þetta eru váboðar um verra samfélag undir vinstri stjórn.