8.6.2011

Miðvikudagur 08. 06. 11.

Rosabaugurinn

er í efsta sæti hjá Eymundsson aðra vikuna í röð. Þeir sem eru á gömlu Baugsblöðunum DV og Fréttablaðinu hafa valið þann kost að þegja um bókina í tvær söluvikur hjá Eymundsson. Nú rjúfa þeir þögnina og reyna að gera bókina tortryggilega vegna höfundarins eins og sjá má á umsögn í DV í dag eftir Inga Vilhjálmsson sem er ósammála mati mínu en hrekur ekki neitt af því sem ég kynni til að rökstyðja það. Mér sýnist á skrifum hans að við verðum seint sammála. Ég uni því vel.

Stöð 2 hefur gert nokkuð veður út af því að Össur Skarphéðinsson sagðist á alþingi sjá snertipunkta við framsóknarmenn í tengslum við fiskveiðistjórnun. Flutti stöðin af þessu fréttir í fleiri en eitt skipti og bar orðin meðal annars undir sjálfa Jóhönnu sem vildi ekki ganga gegn Össuri heldur svaraði út í hött eins og venjulega þegar að henni er sótt. Orð Össurar eiga í raun ekkert skylt við fiskveiðistjórnun þau voru flutt til að árétta hve Jóhanna væri einsýn í málinu en hann víðsýnn og þar með betur til þess fallinn en Jóhanna að leiða Samfylkinguna inn á nýjar pólitískar veiðilendur.

Eyjan er vettvangur stuðningsmanna Össurar í valdabaráttunni sem er háð innan Samfylkingarinnar. Þar víkja menn úr vegi til að ergja Jóhönnu og fylgismenn hennar. Þegar litið er yfir sviðið í flokknum sýnist Össur sigurstranglegastur sem eftirmaður Jóhönnu.