8.6.2013 23:10

Laugardagur 08. 06. 13

Nú má sjá samtal mitt við Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, á ÍNN frá 5. Júní á netinu ná í það hér.  Við ræðum reglur um hælisleitendur og fleira. Hið sérkennilegra er að þeim fjölgar sem sækja um hæli eftir því sem afgreiðsla hælisbeiðna lengist. Það virðist hafa aðdráttarafl að þurfa að bíða sem lengst eftir afgreiðslu yfirvalda.

Fimmtudagskvöldið 6. Júní minntist Sinfóníuhljómsveit Íslands þess að nú í vor eru 200 ár liðin frá fæðingu snillingsins Richards Wagners. Flutt voru verk eftir Wagner og söng Bjarni Thor Kristinsson bassi í nokkrum þeirra. Ríkharður Örn Pálsson, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, sagði meðal annars í umsögn um tónleikana:

„Eins og ymprað var á í tónleikaskrá hefur tónlist Wagners víða átt erfitt uppdráttar eftir 2. heimsstyrjöld, og m.a.s. sums staðar verið bönnuð eftir uppgjörið við Þriðja ríki nazista og Helförina - jafnvel þótt höfundur gæti séð hvorugt fyrir, þrátt fyrir persónulegan ímugust sinn á gyðingum. Fer þar skýrt dæmi um ruglandi áhrif nútíma rétthugsunaráráttu, er sakir söguvanþekkingar megnar ekki að setja sig inn í umhverfi genginna kynslóða. Allt um það ná nú sem betur fer nógu margir að greina á milli manns og tónverks, enda hefur Wagner á seinni árum m.a.s. oft verið fluttur í Ísrael.“

Í raun er ótrúlegt hve mönnum verður tíðrætt um nasista og Hitler þegar minnst er á Wagner þótt hann hafi aldrei getað gert sér í hugarlund að Þjóðverjar og heimurinn allur yrði ofurseldur hinni grimmdarlegu hugmyndafræði og harðstjóra hennar. Nasistar virkjuðu Wagner og tónlistarverk hans sér í vil en áköfustu talsmenn hugmyndafræðinnar og vinir Hitlers í Wagner-fjölskyldunni voru Bretar en ekki Þjóðverjar.

Í tilefni afmælis Wagners fóru félagar í Wagner-félaginu hér á landi í Reykholt og þökkuðu áhrif Snorra Sturlusonar á Wagner með því að gefa Snorrastofu vangamynd af tónskáldinu.