14.6.2013 23:30

Föstudagur 14. 06. 13

Ók í dag fram og til baka frá Reykjavík í Reykholt í Borgarfirði og síðan úr Reykjavík í Fljótshlíðina. Milli 17.00 og 18.00 var nær samfelld röð frá Mosfellsbæ um göngin í Borgarnes, vegurinn er einbreiður og þess vegna myndast langar raðir á eftir þeim sem aka undir 90 km. Þetta kallar á hættu við framúrakstur þegar spenna myndast.

Á leiðinni austur fyrir fjall eru tvær akgreinar frá brekkunni við Lækjarbotna og upp á Hellisheiði með fáeinum einbreiðum spottum. Umferðin er mun léttari þar sem menn vita að tækifæri gefast til framúraksturs.

Fyrir um 30 árum ók ég víða í Frakklandi þar sem skilyrði voru svipuð og á leiðinni upp á Hellisheiði, skipst var á einbreiðum og tvíbreiðum spottum og þótti góð lausn fyrir sunnan París þar sem nú eru hraðbrautir.

Tvíbreiðir kaflar á nokkrum stöðum milli Reykjavíkur og Borgarness mundu jafna umferðarhraðann mikið og minnka spennu, sömu sögu er að segja um spölinn milli Hveragerðis og Selfoss. 

Í kvöld er sýnd kvikmynd í sjónvarpinu um Þór en Snorri Sturluson miðlaði vitneskju um hann á sínum tíma. Gestum í Reykholt fjölgar jafnt og þétt og kynna sér sýninguna Saga Snorra sem opnuð var í mars á þessu ári á vegum Snorrastofu.