22.6.2013 22:40

Laugardagur 22. 06. 13

Frakkar kvarta undan veðrinu, veturinn hafi verið kaldur og sumarið sé ekki byrjað þótt sólstöður séu að baki. Fréttir eru af flóðum í norðri og sumri og frekar vindasamt og kalt í París. Ástæðulaust er þó fyrir Íslending að kvarta, það er betra að fara í jakka en að geta ekki varist of miklum hita.

DataCell hefur sent frá sér tilkynningu um að það hafi engin tengsl við Ólaf Vigni Sigurvinsson sem lætur ljós sitt skína til aðstoðar Edward Snowden uppljóstrara og segist hafa þrjár flugvélar til taks til að flytja hann frá Hong Kong til Íslands fyrir hið minnsta 30 milljónir króna.

Yfirlýsing DataCell hafði ekki fyrr verið birt en Sveinn Andri Sveinsson hrl., lögmaður DataCell í máli gegn kreditkorafyrirtækjum, tók að tjá sig um flutning á Edward Snowden til Íslands. Ákæra Bandaríkjastjórnar á hendur honum leiddi til þess að fljúga yrði með hann í einum áfanga frá Hong Kong til Íslands.

Bein flugleið milli Hong Kong og Íslands er 9.509 km og tekur ferðin 12 tíma og 19 mínútur. Sveinn Andri segir við fréttastofu ríkisútvarpsins að vinir Snowdens [sem þó hafa aldrei talað við hann] hafi vél til taks sem geti farið þessa leið í einum áfanga.

Miðað við almennar upplýsingar um flugþol véla hefur Ólafur Vignir þrjár stórar Airbus- eða Boeing-vélar því til taks á kínverskum flugvöllum til að flytja Snowden frá Hong Kong en þar dvelst hann í „öruggu húsi“ lögreglu staðarins.

Því má velta fyrir sér hvaða tilgangi þessi fréttamatreiðsla á vegum manna sem hafa verið í tengslum við DataCell þjóni, hitt er þó ekki síður sérkennilegt að krásirnar séu gleyptar skýringa- og athugasemdalaust af fréttastofum sem segjast vandar að virðingu sinni.