13.6.2013 23:10

Fimmtudagur 13. 06. 13

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hóf embættisrekstur sinn erlendis í Brussel. Hann hitti fyrst Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO, á fundi í höfuðstöðvum bandalagsins og sagði ríkisstjórnina vilja vinna nánar með bandalaginu en vinstri stjórnin með VG-liða innan borðs, yfirlýsta NATO-andstæðinga, gerði.

Það var skynsamlegt hjá ráðherranum að setja NATO fyrst á dagskrá sína. Ekki er ólíklegt að ýmsir innan bandalagsins og í höfuðborgum bandalagsríkjanna hafi undrast þegar íslenskur dipólmat sem aldrei hefur gegnt embætti sendiherra var skipaður fastafulltrúi Íslands hjá NATO í stað hins þaulreynda sendiherra Þorsteins Ingólfssonar sem hverfur nú frá Brussel eftir heilladrjúgt starf. Yfirlýsing hins nýja utanríkisráðherra auðveldar nýjum sendiherra vandasamt starf, enginn getur efast um hið pólitíska umboð fastanefndar Íslands.

Utanríkisráðherra átti síðdegis klukkustundar fund með Ŝtefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og skýrði honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á ESB-viðræðunum. Síðan héldu þeir 10 mínútna blaðamannafund á mjög vinsamlegum nótum enda hefði verið fráleitt ef því sem íslenskir kjósendur og kjörnir fulltrúar þeirra hafa ákveðið hefði verið illa tekið af embættismanni ESB. Eins og fram kemur í frásögn Evrópuvaktarinnar af blaðamannafundinum gaf Füle tvisvar til kynna á honum að vegna aðildarviðræðnanna og aðildar Íslands að EES hefði skapast sérstakt samband milli Íslands og ESB sem bæri að styrkja.

Það var einkennilegt að fréttamaður ríkisútvarpsins  á blaðamannafundinum skyldi ekki spyrja við hvað stækkunarstjórinn ætti með hinu sérstaka sambandi sem hann sæi fyrir sér. Hér má sjá þáttinn.

Í Spegli ríkisútvarpsins var að sjálfsögðu rætt við góðvin þáttarins, Eirík Bergmann Einarsson, sem skynjaði hótanir af hálfu ESB á fundinum og taldi að Füle hefði svarað Ólafi Ragnari Grímssyni fullum hálsi. Auðvelt er að nálgast blaðamannafundinn í heild á netinu og leggja mat á hvort orð á honum falli að hræðsluáróðrinum sem Eiríkur Bergmann flutti í Speglinum. Ég tel að um of- og rangtúlkun sé að ræða hjá góðvini Spegilsins. Fundurinn var vinsamlegur og án hótana.  Gunnar Bragi kom Füle til hjálpar þegar hann var spurður hvort það væri vegna ágalla í aðlögunarferlinu að Íslendingar hefðu ekki áhuga á aðild. Gunnar Bragi sagði svo ekki vera þetta væri einfaldlega afstaða meirihluta Íslendinga sem hann hefði kynnt.

Nýr utanríkísráðherra styrkti mjög stöðu sína inn á við og út á við með Brusselferðinni.