1.6.2013 22:15

Laugardagur 01. 06. 13

Beint áætlunarflug Icelandair til St. Pétursborgar í Rússlandi hófst í dag.  Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint áætlunarflug á milli Íslands og lands í Evrópu utan Schengen-samstarfsins – fyrir utan Bretland sem er í ESB. Flogið verður tvisvar í viku til 17. september. Hinn mikli munur á Bretlandi og Rússlandi er að Rússar þurfa vegabréfsáritun til Íslands en ekki Bretar. Áritun til Íslands opnar Rússum leið um allt Schengen-svæðið.

Samhliða því sem þetta flug hefst tekur sendiráð Íslands að sér útgáfu vegabréfsáritunar af sendiráði Dana sem annast hefur þessa þjónustu við þá sem hafa viljað áritun til Íslands.

Íslendingar hafa kynnst því að hingað kemur fólk án áritunar frá löndum utan Schengen-svæðisins, eyðileggur skilríki sín og sækir um hæli sem flóttamenn en leitast síðan við að laumast vestur um haf. Reglur segja að þetta fólk eigi að leita heimildar til dvalar á Schengen-svæðinu í „upphafslandi“ á svæðinu – nú verður Ísland slíkt „upphafsland“ gagnvart þeim sem koma frá Rússlandi.


Í dag hófst sýningin Íslensk myndlist 1900-1950: Frá landslagi til abstraktlistar á Kjarvalsstöðum. Listasafn Reykjavíkur kynnir sýninguna sem sögulegt yfirlit íslenskrar myndlistar frá 1900-1950 þar sem hátt í tvö hundruð málverk og höggmyndir eftir 40 listamenn séu til sýnis í Vestursal og Kjarvalssal. Verkin á sýningunni koma víða að, frá listasöfnum, stofnunum og einkasöfnum. Mörgum verkanna á sýningunni er lýst sem mikilvægum í íslenskri listasögu og hafa ekki verið sýnd um langt árabil. Ólafur Kvaran, fyrrverandi forstöðumaður Listasafns Íslands, er sýningarstjóri.

Sýningin hlýtur að draga að sér marga gesti enda er mjög þess virði að gefa sér tíma til að skoða hana.