7.4.2024 10:16

Ævintýri í Eldborg Hörpu

Minnist ég þess ekki að í lok klassískra tónleika hafi salargestir sprottið á fætur til að láta í ljós hrifningu og undrun yfir því sem fyrir eyru og augu bar.

Að kvöldi föstudagsins 5. apríl 2024 voru einstakir tónleikar í Hörpu þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir stjórn Barböru Hanningan sem einnig söng í verkinu Mannsröddinni eftir Francis Poulenc. Minnist ég þess ekki að í lok klassískra tónleika hafi salargestir sprottið á fætur til að láta í ljós hrifningu og undrun yfir því sem fyrir eyru og augu bar.

433902212_10168691126270249_4697956062950146961_n

Myndin er tekin á æfingu Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Barböru Hannigan. Á kvikmyndatjaldinu má sjá Hannigan stjórna og syngja í 40 mínútna verki eftir Francis Poulenc. Þakið ætlaði að rifna af Eldborgarsalnum þegar tónleikagestir fögnuðu að flutningnum loknum. Myndin birtist á vefsíðu Hörpu.

Laugardaginn 6. apríl birtist á Eyjunni frásögn af samtali Ólafs Arnarsonar við Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, á hlaðvarpinu Markaðnum. Þar sagði:

„Maður getur ekki nógsamlega þakkað þeim sem höfðu þessa fyrirhyggju og þessa ástríðu fyrir því að tryggja það að hér væri hljómburðurinn af heimsklassa, fyrsta flokks. Það gerðist mjög snemma í þessu ferli að það valdist sem ráðgjafarfyrirtæki og samstarfsaðili félagið sem þá hét Austurhöfn, ríki og borg komu saman og voru að undirbúa þetta verkefni, verið var að skilgreina hvers konar skilmála viljum við setja þegar þetta verður allt saman boðið út, eins og var gert, á Evrópska efnahagssvæðinu – að við viljum hafa hér fyrst flokks arkitektúr og við viljum að þetta hús verði tákn í borginni, við viljum búa til nýtt svona akkeri í miðborginni. Þetta á að vera heimili Sinfóníuhljómsveitarinnar en þetta á samt að vera mjög fjölbreytt og mikið fjölnotahús,“ segir Svanhildur.

Hún segir að strax frá upphafi hafi Hörpu verið ætlað að vera ráðstefnuhöll til að styrkja Reykjavík sem alþjóðlega ráðstefnuborg. „Og það sem var algerlega grundvallaratriði sem var skrifað algerlega út í hörgul, það voru kröfurnar um hljómburðinn og öll þau gæði sem hanga á þeirri spýtu. Það eru svo ofboðslega margar ákvarðanir og margt sem hangir á þeirri spýtu svo að það geti gengið upp.“

Svanhildur segir að til að ná jafn frábærum hljómburði og er í Hörpu þurfi samspil, eðlisfræði, listar og galdurs. Harpa er aðili að samtökum evrópska tónlistarhúsa, sem nefnast ECHO. Á stjórnarfundum þar er iðulega mikið rætt einmitt um hljómburð og sali og þess háttar. „Orðsporið er svo gríðarlega dýrmætt, eins og við vitum, og fyrir svona hús þá skiptir það öllu máli, hingað koma, og hafa gert allt frá byrjun, stórkostlegar hljómsveitir eins og Berlínarfílharmónían og fleiri og fleiri sem komu hér og upplifðu það að spila í Hörpu. Það kom öllum algerlega á óvart hvað þetta var stórfenglegt og svo spyrst þetta út og þá einhvern veginn fór boltinn að rúlla. Þetta er mjög lítill heimur og núna er það þannig að það vilja allir koma hingað.“

Þessum orðum skal haldið til haga hér og minnt á þessa færslu hér á síðunni   frá 4. maí 2011 þegar fyrstu tónleikarnir voru í Hörpu og Vladmir Ashkenazy stjórnaði 9. sinfóníu Beethovens:

„Hér á síðunni má lesa þessa færslu frá árinu 1996:

„Í hádegi fimmtudagsins 4. júlí átti ég þess kost að hitta Vladimir Ashkenazy með Stefáni Pétri Eggertssyni, formanni nefndar, sem kannar kosti og galla nýs tónlistarhúss. Fórum við yfir stöðu málsins en eins og menn hafa séð í blöðum er Ashkenazy mikill áhugamaður um, að í smíði þessa húss verði ráðist og telur raunar hina mestu hneisu, að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu.“

Á þessum fundi benti Ashkenazy okkur Stefáni Pétri á að leita samstarfs við bandaríska hljómburðar sérfræðinga hjá fyrirtækinu Artec í New York, þeir hönnuðu bestu salina. Þetta gekk eftir og Stefán Pétur hefur fylgt málinu til enda. Hljómburðurinn er frábær eins og Ashkenazy spáði. Við ákváðum einnig þennan dag í júlí 1996 að Ashkenazy mundi stjórna 9. sinfóníunni á fyrstu tónleikum í húsinu. Það gekk eftir.“

Stefán Pétur Eggertsson verkfræðingur fylgdi framkvæmdum við Hörpu eftir og gætti þess að staðið yrði við kröfuna um fullkomna hljómburðinn.

Sannaði Eldborgarsalurinn og allur búnaður hans enn einu sinni ágæti sitt að kvöldi 5. apríl.