4.4.2024 10:08

Norræn vídd NATO

Við höfum enga sérstöðu þegar kemur að nauðsyn varðstöðu um eigið öryggi. Sérstaða okkar felst í því hve lítið við leggjum af mörkum til að verja það.

Á árunum 75 sem liðin eru frá því að Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað þennan dag (4. apríl) í Washington árið 1949 hefur aðildarríkjum þess fjölgað um 20 og eru nú 32. Bandalagið hefur aldrei verið stærra, öflugra og skipt meira máli fyrir aðildarþjóðir sínar og heimsfriðinn en einmitt um þessar mundir.

Íslendingar voru meðal 12 stofnþjóða bandalagsins. Þeir tóku boði um aðild ásamt Norðmönnum og Dönum eftir að hugmyndin um norrænt varnarbandalag varð að engu. Nú eru norrænu ríkin fimm hins vegar sameinuð innan NATO eftir að innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 leiddi til þess að Finnar og Svíar tóku af skarið um aðild.

Aðild þjóðanna er ein mesta breyting í öryggisumhverfi Íslands á þessum 75 árum. Hugmyndir eru um náið samstarf norrænu ríkjanna fimm í öryggismálum. Þær birtast meðal annars í ákvörðun stjórna landanna fjögurra sem ráða yfir herafla um að sameina flugheri sína í hersveit orrustuvéla á norðanverðum Skandinavíuskaga.

Danir hafa uppi áform um að stórauka hernaðarlega öryggisgæslu sína á Norður-Atlantshafi og á Grænlandi. Grænlendingar hafa í fyrsta sinn mótað sér eigin stefnu í utanríkis- og öryggismálum. Norðmenn boða endurreisn flugherstöðvarinnar á Andøya fyrir norðan Ísland og ætla að hafa þar eftirlitsdróna sem verða á flugi yfir hafsvæðunum á milli Grænlands, Íslands og Bretlands (GIUK-hliðinu).

1600x900_nato_norden_vores_version_jj_20224_0

Aldrei fyrr í sögu NATO hafa norrænar nágrannaþjóðir okkar gripið til sambærilegra aðgerða í öryggisskyni. Nú hefur Bandaríkjaher samið um afnot af um 50 stöðvum í Norðurlöndunum fimm, flugvöllum, höfnum og herbúðum landhers.

Allt gerist þetta á líðandi stundu og er til marks um gjörbreytingu á hernaðarlegri stöðu sem rekja má til yfirgangsstefnu Rússa og ofbeldisfullra stjórnarhátta Vladimirs Pútins Rússlandsforseta. Rússar boða nú að þeir ætli að fara sínu fram á norðurslóðum án samstarfs við aðrar norðurslóðaþjóðir. Allt tal um að norðurslóðir séu lágspennusvæði ýtir undir ranghugmyndir.

Við Íslendingar hljótum að taka mið af þessu eins og gert var með aðildinni að NATO á sínum tíma. Við höfum enga sérstöðu þegar kemur að nauðsyn varðstöðu um eigið öryggi. Sérstaða okkar felst í því hve lítið við leggjum af mörkum til að verja það.

Aðild Finna og Svía að NATO sýnir að lausnir í öryggismálum sem taldar voru stuðla að öryggi fyrir 75 árum duga ekki lengur. Það verður að grípa til nýrra úrræða. Í þeim anda er rætt um að NATO komi á fót 100 milljarða evru sjóði til að standa að baki Úkraínumönnum í stríði þeirra við Rússa næstu fimm árin. Af þessum sökum ætlar ESB að stuðla að aukinni hergagnaframleiðslu í Evrópu.

Það skortir djarfar tillögur og ákvarðanir um auknar varnir hér á landi og framlag okkar sjálfra til þeirra. Nýr lagarammi um verkefni Landhelgisgæslu Íslands innan NATO-samstarfsins, stórefld landamæravarsla og öflugar netvarnir eru verkefni sem við blasa.