31.3.2024 11:22

Steininum var velt - gleðilega páska!

Frans páfi benti hins vegar á að konurnar sem báru þetta myrkur í hjörtum sínum að gröfinni segðu okkur einnig eitthvað algjörlega einstakt.

Í hómilíu sinni á páskanótt lagði Frans páfi (87 ára) út af þessum orðum í Markúsarguðspjalli:

„Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.“

RawImageFrans páfi

Í tíu mínútna ræðu sinni beindi páfi sérstaklega athygli að stóra steininum við grafarmunnann.

„Steinninn var yfirþyrmandi hindrun sem lýsti tilfinningunum í hjarta kvennanna. Hann var til marks um vonleysi þeirra sem varð til vegna myrkvaða og sorglega leyndardómsins sem batt enda á drauma þeirra.“

Páfi sagði að öllum þætti okkur stundum svo komið í lífi okkar að öll sund væru lokuð vegna sorgar og örvæntingar: „Við rekumst á þessa grafsteina í tómleika sem skapast við dauða ástvina okkar, vegna mistaka og ótta sem hindra að við gerum það góða sem við viljum láta af okkur leiða“ en einnig „í hvers konar sjálfsást sem stíflar þörf okkar fyrir að sýna örlæti og sanna ást, í lokuðum heimi sérgæsku og tómlætis sem aftrar því að við leggjum okkur fram um að reisa mannúðlegri borgir og samfélög, í hvert sinn sem þrár okkar um frið verða að engu vegna grimmilegs haturs og hrottaskapar stríðs.“

Frans páfi benti hins vegar á að konurnar sem báru þetta myrkur í hjörtum sínum segðu okkur einnig eitthvað algjörlega einstakt: þegar þær litu upp sáu þær að stóra steininum hafði verið velt frá, við blasti máttur Guðs „sigur lífsins yfir dauðanum, sigur ljóssins yfir myrkrinu, endurfæðing vonar í rústum mistaka.“

Páfinn hvatti þess vegna trúaða til að „líta upp“ til hans. „Ef við leyfum Jesús að leiða okkur á engin reynsla vegna mistaka eða sorgar, sama hve miklum sársauka hún veldur, síðasta orðið um tilgang og örlög lífs okkar.“

Gleðilega páska!