24.3.2024 10:20

Vandræði Jóhanns Páls

Féll boðskapur Jóhanns Páls vægt til orða tekið í grýttan jarðveg innan þingflokksins en þingmanninum var ekki haggað og naut hann stuðnings Kristrúnar flokksformanns.

Samfylkingin á ekki fulltrúa í atvinnuveganefnd alþingis hins vegar er Jóhann Páll Jóhannsson áheyrnarfulltrúi flokksins í nefndinni auk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Athygli beindist að atvinnuveganefndinni í lok liðinnar viku vegna afgreiðslu hennar á breytingu á búvörulögunum sem felur í sér heimild til hagræðingar við kjötvinnslu til að styrkja innlenda kjötframleiðendur gagnvart aukinni erlendri samkeppni vegna tollalækkana. Hvarvetna grípa þjóðir til svipaðra aðgerða til að tryggja stöðu innlends landbúnaðar meðal annars með vísan til fæðuöryggis.

Hér snerust stjórnandstöðuþingmenn í atvinnuveganefnd, Gísli Rafn Ólafsson Pírötum, Hanna Katrín Friðriksson Viðreisn, og Inga Sæland Flokki fólksins, gegn meirihluta nefndarinnar í málinu. Jóhann Páll Jóhannsson stóð hins vegar með niðurstöðu meirihlutans eins og segir í áliti hans. Hvergi er minnst á Sigmund Davíð í þessu sambandi eða hvort hann hafi eitthvað látið að sér kveða í nefndinni vegna þessa mikilvæga máls.

Images-2-ssAf Facebook-síðu Samfylkingarinnar, tvíeykið Kristrún Frostadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson.

Jóhann Páll og Kristrún Frostadóttir flokksformaður eiga oft undir högg að sækja í þingflokki Samfylkingarinnar og kjósa því gjarnan að fara fram hjá honum þegar þau telja sér fært, eins og til dæmis nýlega við kúvendinguna í útlendingamálum. Hún olli miklu uppnámi í flokknum og jók á tortryggni í garð tvíeykisins.

Þingmenn taka almennt ekki afstöðu til þingmála í nefndum án þess að skýra frá afstöðu sinni innan eigin þingflokks áður en hún verður opinber, til dæmis í þingskjölum. Þegar Jóhann Páll hafði ákveðið sem áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd að lýsa yfir stuðningi við afstöðu meirihlutans við breytinguna á búvörulögunum og staðfesta þá skoðun í áliti meirihlutans gerði hann þingflokki sínum grein fyrir ákvörðun sinni.

Féll boðskapur Jóhanns Páls vægt til orða tekið í grýttan jarðveg innan þingflokksins en þingmanninum var ekki haggað og naut hann stuðnings Kristrúnar flokksformanns.

Í sjónvarpsþættinum Pressunni sem Heimildin heldur úti viðurkenndi Jóhann Páll hins vegar 22. mars að hann hefði hlaupið á sig í búvörumálinu. Af ræðu sem hann flutti á alþingi 21. mars má ráða að hann hafi látið fulltrúa samkeppniseftirlitsins og ASÍ snúa sér eftir að nefndarálitið og breytingarnar sem hann studdi birtust.

Ræða sem Kristrún Frostadóttir flutti síðan á þingi 22. mars um málið án þess að segja nokkuð efnislegt um það var við nánari athugun aðeins yfirklór henni sjálfri og Jóhanni Páli til varnar eftir átökin um málið í þingflokki Samfylkingarinnar. Þegar Kristrún segir að stjórnarmeirihlutinn hljóti að vera hugsi yfir stöðu málsins vísar hún jafnframt til Jóhanns Páls sem studdi meirihlutann í nefndinni. Síðan sagði flokksformaðurinn: „Eitthvað hefur brugðist verulega. Samtalið hefur brugðist, framsetning mála hefur brugðist og vinnubrögðin hljóta að hafa brugðist.“

„Já, það voru mistök hjá mér,“ sagði Jóhann Páll í Pressunni. Það var hann sem brást. Þegar á reynir er ekki auðvelt að haga seglum eftir vindi í stjórnmálum.