11.4.2024 9:57

Stafrænt stríð á Ísland.is

Verði Ísland.is að opinberri skilaboðaskjóðu fyrir nafnlausa einstaklinga sem vilja grafa undan stjórnarskrárbundum kosningum og lýðræðisreglum er illt í efni.

Það er eitthvað skrýtið sé unnt að nota vefsíðuna Ísland.is til að efna til mótmæla gegn forsætisráðherra landsins af pólitískum andstæðingum hans. Söfnun undirskrifta þar gegn ráðherranum er sögð á ábyrgð konu sem líklega tengist Samfylkingunni, sé nafn hennar rétt. Fjölmiðlar keppast í blindni við að segja frá því hve duglegt fólk sé að rita undir mótmælin. Sé farið inn á síðuna virðist stór hluti þeirra, sem fylla töluna sem fjölmiðlar birta, nafnlausir eins og um leynilega atkvæðagreiðslu sé að ræða.

Þegar safnað var undirskriftum í nafni Varins lands snemma árs 1974 og 55.522 einstaklingar mótmæltu áformum um brottför varnarliðsins lögðu þeir sem að söfnuninni stóðu ríka áherslu á að tryggja að ekki eitt einasta nafn væri falsað og könnuðu það með samanburði við opinberar skrár enda var fjöldinn aldrei dreginn í efa. (leiðrétt)

Is-logo-stakt_2x

Þjóðskrá, opinber stofnun, heldur úti Ísland.is og segir á síðunni að hún hafi farið í loftið í núverandi mynd haustið 2020. Hlutverk vefsins sé að vera miðlæg þjónustugátt og koma upplýsingum um opinbera þjónustu á einn stað. Til marks um þá þjónustu sem nú er veitt má nefna söfnun nafna til stuðnings forsetaframbjóðendum. Er sú þjónusta svo virk að hún fjölgar frambjóðendum, meira að segja án þess að þeir viti að síðan segi þá í framboði.

Sé það tilgangur þjónustugáttar Ísland.is að koma í stað kosninga eða atkvæðagreiðslna með því að í skjóli nafnleyndar geti menn sagt skoðun sína á mönnum og málefnum ætti það að koma fram á síðunni ásamt reglum sem um þessa þjónustu hennar gilda.

Gæti til dæmis einhver frambjóðandi í forsetakosningunum 1. júní nk. þjófstartað með því að óska eftir stuðningi á Ísland.is? Ekki aðeins beðið um nöfn meðmælenda heldur einnig stofnað síðu sér til stuðnings og hlaðið „nöfnum“ inn á hana með aðstoð gervigreindar? Slík aðferð gæti dugað til að hræða veiklundaða keppinauta.

Opinberir aðilar um heim allan gera ráðstafanir til að forða borgurum sínum frá fjölþátta stafrænum árásum í netheimum. Hér hefur verið efnt til opinberra ráðstefna um þessa hættu og hve viðkvæm lýðræðisleg samfélög séu að þessu leyti. Hvergi dytti ritstjórn nokkurrar opinberrar þjónustusíðu í hug að heimila þá notkun á þjónustugátt sinni sem birtist nú á Ísland.is. Opni opinberir aðilar gáttina fyrir einum hópi mótmælenda verða þeir að hafa hana opna fyrir alla.

Þegar forsætisráðherra Bjarni Benediktsson flutti yfirlýsingu stjórnar sinnar í sal alþingis í gær neyddist hann til að gera hlé á máli sínu. Þegar hann minntist á fjölda hælisleitenda hingað rak kona upp öskur á þingpöllum. Birgir Ármannsson þingforseti sló í bjöllu sína og sagði: „Gestir á bekkjunum geta ekki kallað fram í. Gestir á bekkjunum verða að víkja og hafa þögn.“ Vísaði lögregla konunni á dyr.

Verði Ísland.is að opinberri skilaboðaskjóðu fyrir nafnlausa einstaklinga sem vilja grafa undan stjórnarskrárbundum kosningum og lýðræðisreglum er illt í efni.