22.3.2024 10:02

Eftirlitsþörfin gegn landbúnaði

Hvarvetna er viðurkennt að samkeppnisreglur verði að víkja þegar fæðuöryggi er í húfi svo ekki sé minnst á gildi byggðafestu.

Landbúnaðarstefnan sem samþykkt var á alþingi 1. júní 2023 og gildir til ársins 2040 er reist á því sjónarmiði að óhjákvæmilegt sé að horfa til þess hvaða reglur gilda um starfsemi bænda og afurðastöðva í nágrannalöndum okkar og skapa aðilum hér ekki lakari skilyrði til rekstrar og hagræðingar en þar gilda, eftir því sem landfræðilegar aðstæður leyfa.

Í stefnuskjalinu Ræktum Ísland! sem kom út síðsumars 2021 segir að móta verði tollastefnu, innan gildandi alþjóðasamninga, þannig að landbúnaðurinn og úrvinnsluiðnaður hans geti staðið traustum fótum en búi þó við aðhald sem tryggi sanngirni gagnvart neytendum. Á þennan hátt megi skapa svigrúm afurðastöðva og vinnslustöðva til hagræðingar komi til lækkunar tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir.

Bent er á að bæði í Noregi og Evrópusambandinu séu almennari og rýmri ákvæði í löggjöf sem víki til hliðar ákvæðum samkeppnislaga standi þau í vegi fyrir landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Landbúnaður njóti sérstöðu innan EES og þar gildi samkeppnisreglur einungis um afmörkuð svið landbúnaðar.

IMG_9480Horft til Eyjafjallajökuls.

Alþingi samþykkti fimmtudaginn 21. mars 2024 breytingu á búvörulögunum eftir að meirihluti atvinnuveganefndar þingsins hafði gert verulegar breytingar á frumvarpinu eins og það kom frá matvælaráðherra.

Í greinargerð meirihluta nefndarinnar fyrir breytingartillögum hennar segir meðal annars að tillögurnar eigi að tryggja að „afurðastöðvar geti notið ekki lakari efnislegra heimilda á markaði, að gættum samkeppnissjónarmiðum, en þekkjast í samanburðarlöndum“. Sé það í samræmi við landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040 um að tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað sé samkvæmt EES-löggjöf.

Í fréttum er sagt frá því að samkeppniseftirlitið hafi fram á lokastig afgreiðslu þingnefndarinnar lagt þunga áherslu á að tekið yrði tillit til sjónarmiða sinna. Er það ekki í fyrsta skipti sem eftirlitið beitir sér á þann hátt gagnvart löggjafarvaldinu að eftirtekt veki.

Eftirlitsstofnanir framfylgja gífurlega þungu regluverki um íslenskan landbúnað. Bændur stunda hver og einn sjálfstæðan atvinnurekstur og verða því sem einstaklingar af eigin styrk og forsjálni að glíma við fulltrúa regluvaldsins sem standa vörð um eigin hag og eftirlitsstofnana. Þær þola illa framtakssemi sem stuðlar að fjölbreytni, hún fellur ekki að takti kerfisins.

Hér er í húfi að atvinnugrein, landbúnaður, fái þrifist í landinu og rekstargrundvelli sé ekki kippt undan honum á sama tíma og opnað er fyrir innflutning ódýrari varnings. Engin þjóð stendur þannig að verki nema hún vilji eigin landbúnað feigan. Hvarvetna er viðurkennt að samkeppnisreglur verði að víkja þegar fæðuöryggi er í húfi svo ekki sé minnst á gildi byggðafestu.

Samkeppniseftirlitið virðist ekki telja það í sínum verkahring að tryggja fullveldið með varðstöðu um íslenskan sjávarútveg og landbúnað í alþjóðasamkeppni. Sjóndeildarhringur eftirlitsins og talsmanna þess sem mótmæla samþykkt nýju laganna þyrfti að vera stærri.