Dagbók: apríl 1998

Fimmtudagur 30.4.1998 - 30.4.1998 0:00

Flugum heim frá München í gegnum Frankfurt og buðum síðan í afmæliskaffi um kvöldið til að minnast 90 ára afmælisdags föður míns.

Miðvikudagur 29.4.1998 - 29.4.1998 0:00

Klukkan 8.20 hélt flugvélin af stað með okkur frá Köln til München en klukkan 11.30 hófst þar minningarathöfn í einum af kirkjugörðum borgarinnar við leiði dr. Konrads Maurers, prófessors og Íslandsvinar, sem ferðaðist um Ísland árið 1858 og ritaði ferðabók, en Ferðafélag Íslands gaf hana út á síðasta ári í þýðingu Baldurs Hafstaðs. (Mæli ég eindregið með bókinni, því að hún bregður upp mjög góðri mynd af Íslandi á þessum tíma.) Maurer studdi okkur auk þess eindregið í sjálfstæðisbaráttunni við Dani og var vinur Jóns Sigurðssonar auk þess sem hann hvatti til þess, að þjóðsögum væri skipulega safnað hér á landi og bjargaði þannig miklum menningarverðmætum frá glötun. Tæplega hundrað manns tóku þátt í þessari hátíðlegu klukkustundarathöfn í kirkjugarðinum og voru margar ræður fluttar, kom það í minn hlut að tala um Maurer og Ísland. Prófessor Kurt Schier, sem hefur kennt norræn fræði í München og er óþreytandi við að halda íslenskri menningu á loft í Þýskalandi, var driffjöðurinn á bakvið þessa athöfn í München en Ferðafélag Íslands gaf þrjá bautasteina sem hafa verið settir upp á gröf Maurers og konu hans með áletrun á þýsku og íslensku. Er íslenski textinn þannig: Brautryðjandi á sviði norrænna fornfræða, frumkvöðull í frelsisbaráttu Íslendinga, velgjörðarmaður Íslands. Að lokinni minningarstundinni buðu sendiherrahjónin öllum viðstöddum til hádegisverðar í nálægu hóteli.

Þriðjudagur 29.4.1998 - 29.4.1998 0:00

Snemma morguns fór ég í utanríkisráðuneytið í Bonn með Helga Ágústssyni, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, og Ingimundi Sigfússyni sendiherra. Hittum við þar Helmut Schäfer, varautanríkisráðherra og þingmann frjáslra demókrata, en hann fer meðal annars með menningarmál innan utanríkisráðuneytisins, og tvo embættismenn ráðuneytisins. Ræddum við menningarsamskipti Íslands og Þýskalands í ljósi þeirrar ákvörðunar Þjóðverja að loka Goethe-stofnuninni á Íslandi. Er ljóst, að Þjóðverjar hafa alls ekki í hyggju að draga úr menningarsamskiptum við Ísland, þótt stofnuninni hafi verið lokað. Eru þeir með áform um að standa að rekstri þýsks bókasafns og styðja almennt menningarstamstarf þjóðanna. Um hádegið hitti ég síðan Hans Friedrich von Ploetz, ráðuneytisstjóra í þýska utanríkisráðuneytinu, og ræddum við almennt um alþjóðamál og sérstaklega um menningarsamskipti Íslands og Þýskalands. Þá flutti ég ræðu í hádegisverðarboði Ingimundar Sigfússonar sendiherra við upphaf ráðstefnu fyrir ræðismenn Íslands í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Komu þeir saman á dagsfundi til að fjalla um ýmis málefni tengd Íslandi og fengu ræðumenn héðan til þess. Um kvöldið var glæsilegur kvöldverður á heimili sendiherrahjónanna Ingimundar og Valgerðar Valsdóttur, þar sem ritöfundarnir Einar Kárason og Einar Már Guðmundsson lásu úr nýútgefnum bókum sínum á þýsku (eru þeir á rúmlega tveggja vikna kynningarferð vegna bókanna í Þýskalandi og Austurríki á vegum útgefenda sinna í þessum löndum) og Rut lék á fiðlu.

Sunnudagur 28.4.1998 - 28.4.1998 0:00

Við Rut flugum til Lúxemborgar og ókum þaðan til Bonn í Þýskalandi.