29.4.1998 0:00

Þriðjudagur 29.4.1998

Snemma morguns fór ég í utanríkisráðuneytið í Bonn með Helga Ágústssyni, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, og Ingimundi Sigfússyni sendiherra. Hittum við þar Helmut Schäfer, varautanríkisráðherra og þingmann frjáslra demókrata, en hann fer meðal annars með menningarmál innan utanríkisráðuneytisins, og tvo embættismenn ráðuneytisins. Ræddum við menningarsamskipti Íslands og Þýskalands í ljósi þeirrar ákvörðunar Þjóðverja að loka Goethe-stofnuninni á Íslandi. Er ljóst, að Þjóðverjar hafa alls ekki í hyggju að draga úr menningarsamskiptum við Ísland, þótt stofnuninni hafi verið lokað. Eru þeir með áform um að standa að rekstri þýsks bókasafns og styðja almennt menningarstamstarf þjóðanna. Um hádegið hitti ég síðan Hans Friedrich von Ploetz, ráðuneytisstjóra í þýska utanríkisráðuneytinu, og ræddum við almennt um alþjóðamál og sérstaklega um menningarsamskipti Íslands og Þýskalands. Þá flutti ég ræðu í hádegisverðarboði Ingimundar Sigfússonar sendiherra við upphaf ráðstefnu fyrir ræðismenn Íslands í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Komu þeir saman á dagsfundi til að fjalla um ýmis málefni tengd Íslandi og fengu ræðumenn héðan til þess. Um kvöldið var glæsilegur kvöldverður á heimili sendiherrahjónanna Ingimundar og Valgerðar Valsdóttur, þar sem ritöfundarnir Einar Kárason og Einar Már Guðmundsson lásu úr nýútgefnum bókum sínum á þýsku (eru þeir á rúmlega tveggja vikna kynningarferð vegna bókanna í Þýskalandi og Austurríki á vegum útgefenda sinna í þessum löndum) og Rut lék á fiðlu.