Dagbók: nóvember 2007

Föstudagur, 30. 11. 07. - 30.11.2007 17:34

Eftir ríkisstjórnarfund óskuðu fréttakonur útvarps og sjónvarps ríkisins eftir viðtali við mig vegna fréttar í sjónvarpinu kvöldið áður um svonefnda „fangaflugvél" frá Bandaríkjunum. Ég gat ekki veitt þeim aðrar upplýsingar en þær, að vélin hefði verið skoðuð á venjubundinn hátt í samræmi við reglur við komu flugvéla frá ekki-Schengen-ríki, en vélin kom frá Bretlandi. Tveir tollverðir og lögreglumaður fóru um borð í vélina. Mér kom á óvart, að svo virtist sem fréttakonurnar teldu hér eitthvað óvenjulegt á ferð. Ég gat að sjálfsögðu ekki samsinnt því og taldi ekki ástæðu til að taka þátt í neinum vangaveltum um málið. Ég skýrði einnig frá því, að vegna komu þessarar vélar hefði ekki verið neitt samráð milli utanríkisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Utanríkisráðuneytið á raunar ekki aðild að landamæravörslu heldur embættismenn á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins var látið í veðri vaka, að eitthvað grunsamlegt væri við, að fréttastofan teldi sig vita, að tveir menn hefðu verið um borð í vélinni en utanríkisráðherra segði þá hafa verið fimm. Fréttastofan fylgist ekki nægilega vel með, því að það var opinberlega staðfest í dag, að fimm menn hefðu verið um borð í vélinni og lögreglumaður skoðaði vegabréf þeirra allra. Hið skrýtna í málinu fer að verða, hvers vegna fréttastofa sjónvarpsins segir svona einkennilegar fréttir af því.

Klukkan 11.30 vorum við Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, í Þjóðmenningarhúsinu og rituðum undir samkomulag um samvinnu við kaup á björgunarþyrlum. Markar samningurinn tímamót í starfi Landhelgisgæslu Íslands og leggur grunn að endurnýjun þessa mikilvæga björgunarkosts hennar og auk þess nánu samstarfi við Norðmenn á sviði björgunarmála.

Fimmtudagur, 29. 11. 07. - 29.11.2007 0:27

Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, kom til landsins í dag og hittumst við í kvöld. Við munum á morgun skrifa undir samning um sameiginleg kaup á björgunarþyrlum.

Miðvikudagur, 28. 11. 07. - 28.11.2007 21:38

Við lentum á Keflavíkurflugvelli kl. 06.10 í morgun eftir rúmlega fjögurra tíma flug frá Boston, við vorum hins vegar tæpa sex tíma á leiðinni þangað. Háloftastraumar ráða miklu um hraða vélanna.

Síðdegis hitti ég sendinefnd frá Svíþjóð, sem kom hingað til að ræða varnar- og öryggismál og kynnti sér meðal annars starfsemi í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð. Sænska varnarmálaráðuneytið fer með almannavarnir þar í landi og er gagnkvæmur áhugi að efla samstarf milli ríkjanna á þessu sviði.

Rúmlega 18.00 svaraði ég fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar á alþingi um aðgerðir til að efla öryggi í netheimum, ekki síst öryggi barna. Lýsti ég nýjum lögum um þetta efni og aðgerðum lögreglu í samstarfi við Barnaheill og netþjónustufyrirtæki.

Við heimkomuna heyrði ég um þá niðurstöðu í lífskjaramati Sameinuðu þjóðanna, þar sem litið er til 177 landa, að Ísland hefði nú náð efsta sæti. Þetta er glæsilegur árangur af 16 ára stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins. Lagt er mat á alla þætti, sem ráða lífskjörum manna.

Þriðjudagur, 27. 11. 07. - 27.11.2007 18:07

Fór fyrir hádegi í heimsókn í stöð bandarísku strandgæslunnar í Boston. Ég hitti Rear Admiral Sullivan, yfirmann stöðvarinnar, sigldi síðan um höfnina og fór í stjórnstöð stöðvarinnar. Þar var meðal annars kynnt, hvernig tekið er á móti gasflutningaskipum, LNG-skipum, í höfninni. Mikillar varúðar er gætt, enda sigla skipin með farm sinn inn í Boston-borg. Þau koma á fimm til sjö daga fresti með gas frá Trinidad/Tobago.

Hinn 20. október hófust slíkir gasflutningar frá gasstöð fyrir norðan Hammerfest í Noregi, frá eyju, sem breytt hefur verið í safn- og útflutningshöfn, safnað er neðansjávar gasi úr holum á hafsbotni. Þaðan er áætlað að flytja um 70 farma á ári til Spánar eða Bandaríkjanna. Farmur hvers skips nægir til að sjá 45.000 manna borg fyrir orku í eitt ár.

Ef einhver truflun verður á gasflutningum til Boston, leiðir það fljótt til orkuskorts á svæðinu og má því kalla gasskipin lífæð borgarinnar.

Ég hvatti til aukinnar samvinnu Landhelgisgæslu Íslands og bandarísku strandgæslunnar. Hér í Boston þekkja strandgæslumenn vel til þess, sem landhelgisgæslan gerir og landhelgisgæslumenn hafa verið hér á ferð til skrafs og ráðagerða.

Mánudagur, 26. 11. 07. - 26.11.2007 3:16

Það rigndi í Boston í dag. Fyrir hádegið lauk ég við að skrifa ritdóm fyrir Þjóðmál um bókina um Guðna Ágústsson. Ég hafði gaman af því að lesa hana og hefði getað skrifað miklu lengra mál um hana en ég gerði. Harkan í átökunum innan Framsóknarflokksins, þegar ýta átti Guðna til hliðar, var greinilega mun meiri, en áður hefur verið lýst opinberlega. Hið skrýtna er, að Guðni er með pálmann í höndunum, þótt ófarir flokks hans hafi verið miklar.

Upp úr hádegi fórum við á Harvard Square og þaðan í John F. Kennedy School of Government. Innan skólans er alþjóðafræðasetur, Belfer Center. og flutti ég erindi á þess vegum og svaraði síðan spurningum - var þetta málstofa um þróun mála á N-Atlantshafi og heimskautasvæðunum.

Erindið flutti ég í sama fyrirlestrasal og ég heimsótti fyrsta daginn minn á leiðtoganámskeiðinu, sem ég sótti í skólanum árið 2000.

Fyrir utan nemendur og kennara í skólanum voru þarna prófessorar úr öðrum háskólum á svæðinu, þeirra á meðal Michael Corgan frá Boston University, sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnur, og Alan K. Henrikson frá Fltecher School. Hann þekkir marga Íslendinga bæði sem kennari og gestur á Íslandi.

Eftir tæplega tveggja tíma málstofu snæddum við kvöldverð í Harvard Faculty Club.

Sunnudagur, 25. 11. 07. - 25.11.2007 16:20

Enn er sólbjart en frekar kalt hér í Boston. Hvar sem komið er hljóma jólalög og jólaskreytingar serja svip á borgina. Eftir þakkargjörðardaginn, sem var á fimmudag, er jólatíðin hafin hér í Bandaríkjunum.

Starfsumhverfi okkar þingmanna er skrýtið og sannaðist mér enn í morgun, þegar ég skoðaði vefsíður fréttamiðla. Þar stóð á ruv.is:

Ráðuneyti gagnrýnir frumvarp Björns

Ég vissi, að nú hlyti eitthvað meira en lítið að vera á ferðinni, úr því að eitthvert frumvarp væri kennt við mig með nafni, ekki einu sinni embættisheiti. Það er ekki gert nema fréttamenn telja sig komast í feitt.

Þegar ég las áfram sá ég, að í raun var þetta engin frétt. Visað er í umsögn fjármálaráðuneytis með frumvarpi til laga um meðferð sakamála, þar sem bent er á, að í fjálörgum ársins 2008 sé ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýs embættis héraðssaksóknara.

Frumvarpið var ekki fullbúið fyrr en frestur ráðuneyta til að skila tillögum til útgjalda á fjarlögum var liðinn auk þess sem frumvarpið, sem er meira en 200 blaðsíður í þingskjali getur hæglega verið til meðferðar á fleiri þingum en því, sem nú situr. Þá er eins víst, að frumvarpið taki breytingum í meðförum alþingis, til dæmis á þann veg, að gefinn verði ákveðinn tími til að stofna hið nýja embætti eins og gert var, þegar embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kom til sögunnar.

Fréttin í þessu máli er ekki sú, að óvist sé um útgjöld á árinu 2008 vegna embættisins heldur hitt, að fjármálaráðuneytið hafi yfirleitt séð ástæðu til að árétta þessa algildu reglu í umsögn sinni um frumvarpið - það liggur í augum uppi, að engin útgjöld eru ákveðin á vegum ríkisins nema með fjárlögum.

Að ruv,is breyti umsögn fjármálaráðuneytis um almennar leikreglur í sérstaka  gagnrýni á frumvarp er í sjálfu sér nýmæli. Spunasíðan eyjan.is spinnur auðvitað þráðinn, eftir að ruv.is kom henni á bragðið.

Laugardagur, 24. 11. 07. - 24.11.2007 21:37

Það er kalt en bjart í Boston. Á götunum og í verslunum má sjá Íslendinga á ferð. Forsíðufrétt Boston Globe var um, að Evrópubúar streymdu til borgarinnar til að nýta sér lágt gengi dollarans og gera hagstæð kaup.

Í Morgunblaðinu birtist grein eftir mig, þar sem ég tek upp hanskann fyrir islenska vegabréfakerfið, sem é tel eitt hið besta í heimi, þrátt fyrir gagnrýni Ómars Valdimarssonar.

Mér finnst með ólikindum að lesa spunann um að ágreiningur sé innan Sjálfstæðislfokksins um málefni OR/REI og að Björn Ingi Hrafnsson skuli telja sig í stöðu til að ráðast á sjálfstæðismenn vegna þessa máls eftir allt, sem á undan er gengið. Þetta er í besta falli gert til að draga athygli frá því, að félagshyggjumenn í borgarstjórn geta ekki koið sér saman um neina stefnu, hvorki í málum OR/EI né borgarstjórnar almennt.

Enn sannast, hve auðvelt er að afvegaleiða umræður, þegar fjölmiðlamenn meta spuna til jafns við staðreyndir. Sjálfstæðismenn fara hvorki með meirihluta í stjórn OR né borgarstjórn um þessar mundir og þess vegna eru allar ákvarðanir, sem teknar eru á þeim vettvangi á ábyrgð annarra, þar á meðal Björns Inga og Samfylkingarinnar. Leiði þær til þess að milljarðir tapast, verða félagshyggjumenn að líta í eigin barm og vasa en ekki annarra.

Föstudagur, 23. 11. 07. - 23.11.2007 21:28

Flugum til Boston síðdegis. Áður en ég fór sendi Guðni Ágústsson mér bók Sigmundar Ernis um Guðna og hafði ég gaman af að lesa hana í flugferðinni. Ég ætla að ljúka við hana, áður en ég segi eitthvað um efni hennar.

Fimmtudagur, 22. 11. 07. - 22.11.2007 19:36

Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem birt var í dag, eru íbúar höfuðborgarsvæðisins ánægðir með störf lögreglunnar, en um 90% töldu lögregluna skila frekar góðu eða góðu starfi. Yfir 90% íbúa telja sig jafnframt almennt vera örugga eina á gangi í sínum eigin hverfum þegar myrkur er skollið á. Þrátt fyrir það sögðust um 55% íbúa á höfuðborgarsvæðinu sig vera mjög eða frekar óörugga eina á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir myrkur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur unað vel við þessa niðurstöðu enda sýnir hún, hve mikils trausts hún nýtur. Staða lögreglunnar er sterk, þrátt fyrir hinar neikvæðu umræður síðsumars um atbeina hennar gegn subbuskap og ómenningu í miðborg Reykjavíkur.

Í dag skipaði ég Valtý Sigurðsson. fangelsismálastjóra, í embætti ríkissaksóknara frá og með 1. janúar 2008. Var hann meðal sex umsækjenda um embættið.

Í sjónvarpsfréttum ríkisins var í kvöld sagt frá því, að með frumvarpinu um meðferð sakamála væri ég að mæla með því, að lögregla þyrfti úrskurð dómara til að lögregla gæti notað eftirfararbúnað - slíkan úrskurð þyrfti ekki nú.

Sérkennilegt er, að Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, telji, að með þessu sé ég að vega að mannréttindum. - Fjölmiðlamenn hafa talað á sama veg og Atli og talið þetta eitt fréttnæmasta ákvæði frumvarpsins þar sem í því fælist aðför að mannréttindum.  Er það virkilega aðför að mannréttindum að leggja til, að ákvæði um þessa rannsóknaraðferð lögreglu sé lögbundin og háð úrskurði dómara?

Atli Gíslason hefur einfaldlega hlaupið á sig í gagnrýni á frumvarpið um meðferð sakamála eins og hann hljóp á sig í gagnrýni á sölu eigna í Keflavíkurstöðinni - en alþingi samþykkti sérstök lög um, hvernig að sölunni skyldi staðið.

Miðvikudagur, 21. 11. 07. - 21.11.2007 12:03

Í gærkvöldi mælti ég fyrir fjórum lagafrumvörpum á alþingi, þar á meðal frumvarpi um meðferð sakamála og má skoða framsöguræðu mína hér.

Fjölmiðlafrásagnir af þessu mikla frumvarpi, en þingskjalið er rúmar 200 blaðsíður, koma mér á óvart, því að þar er staldrað við þann hluta af óhefðbundnum rannsóknaraðferðum lögreglu, sem byggjast á notun eftirfararbúnaðar og hlerunum. Er skrýtið, að þetta þyki sérstaklega fréttnæmt, þar sem í frumvarpinu er verið að lögfesta reglur, sem hafa verið við lýði án athugasemda dómara. Hið nýja í málinu er, að verið er að lögfesta reglurnar.

Í 24 stundum er rætt við Hörð Helgason héraðsdómslögmann, sem spyr af þessu tilefni, hversu langt stjórnvöld ætli að ganga í því að skerða frelsi hins almenna borgara. Sér hann þá leið helsta út úr vandanum að draga úr bönnum gegn fíkniefnum.

Í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins var rætt við Atla Gíslason þingmann vinstri/grænna um sölu á eignum í Keflavíkurstöðinni, sem hann telur lögbrot og EES-brot - fréttastofan tók fram, að Atli væri hæstaréttarlögmaður, líklega til að gera orð hans merkilegri.

Í Kastljósi kvöldsins krafðist Atli gagna um sölu eigna í Keflavíkurstöðinni í krafti þess, að hann væri fulltrúi almennings og alþingismaður.

Atli Gíslason er vissulega alþingismaður, hæstaréttarlögmaður og fulltrúi almennings - en hann er einnig pólitískur málsvari stjórnmálaflokks, sem ætlar enn og aftur að þrífast á því að gera aðra tortryggilega og væna þá um að kunna ekki að gæta almannahagsmuna. Hvernig væri, að Atli kenndi Svandísi Svavarsdóttur, flokkssystur sinni, að gæta hagsmuna almennings við ráðstöfun á eignum Orkuveitu Reykjavíkur? Tvískinnungur vinstri/grænna gerir þá marklausa.

Markaðsfréttir eru ekki góðar en FL Group er að festa fé á yfirverði með OR í orkuveitu á Filippseyjum, sem hlýtur að sýna sterka stöðu FL - en hvert er hlutverk OR, sem þarna er undir nafninu REI?

Evran er algóð segja sumir en hvað segir þýska vikublaðið Der Spiegel:?

„The strong euro -- and weak dollar -- is making it increasingly difficult for European companies to do business overseas. SPIEGEL ONLINE spoke with German government economic advisor Peter Bofinger about the dangers of an unfettered euro and what the European Central Bank should do.“

Þetta bendir ekki til þess, að lausn alls vanda hafi fundist með evrunni - er það? Að sjálfsögðu ekki. Í Evrulandi kvarta menn ekki síður undan gengi og vöxtum en annars staðar.

Þriðjudagur, 20. 11. 07. - 20.11.2007 8:28

Evrópunefnd, skipuð fulltrúum allra flokka, komst að þeirri meginniðurstöðu í skýrslu, sem birtist í mars 2007, að EES-samningurinn hefði staðist tímans tönn og hann væri sá grundvöllur, sem samskipti Íslands og Evrópusambandsins byggðust á og rétt væri að þróa áfram. Dró nefndin þessa ályktun eftir að hafa rætt alla þætti Evróputengsla Íslands og ritað um þá skýrslu. Nefndin taldi ekki ástæðu til að semja að nýju við Evrópusambandið heldur ætti að nýta þau vannýttu tækifæri, sem samningurinn veitir. Ríkisstjórnin tók síðan undir þetta í stefnuyfirlýsingu sinni.

Nú kemur Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fram í fyrstu morgunfrétt hljóðvarps ríkisins og telur, að endurskoða þurfi EES-samninginn, vegna þess að Íslendingar hafi engin áhrif á grundvelli hans á gerðir Evrópusambandsins. Vissulega er ekki unnt að gera þá kröfu til starfsmanna fréttadeildar hljóðvarps ríkisins, að þeir kynni sér skýrslu Evrópunefndar, en Katrín, sem er fyrir utan að vera þingmaður er einnig formaður EFTA-þingmannanefndarinnar, ætti að hafa gert það. Gott væri, að Katrín svaraði þessari spurningu: Hvað hefur gerst síðan í mars 2007, sem veldur því, að EES-samningurinn er orðinn gagnslaus?

Hljóðvarp ríkisins birti síðastliðinn sunnudag fréttaviðtal við Atla Gíslason, þingmann vinstri/grænna, um að vegna ákvæða um varnir gegn hryðjuverkum, væri ég að vega að mannréttindum í frumvarpi til breytinga á hegningarlögunum. Ég hef bent á, að þetta frumvarp er samið af refsiréttarnefnd að minni tilstuðlan vegna alþjóðasamninga, meðal annars Evrópuráðsins um baráttuna gegn hryðjuverkum.

Róbert Ragnar Spanó, formaður refsiréttarnefndar, ritar grein um þetta mál í Morgunblaðið í dag og staðfestir þau orð mín, að ákvæðið, sem Atli segir vega að mannréttindum á uppruna í samningi Evrópuráðsins, sem leggur sig fram um að gæta mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum að sögn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns á Evrópuráðsþinginu og formanns vinstri/grænna.

Skyldu sjónarmið Evrópunefndar um gildi EES-samningsins að lokinni mikilli rannsókn eða sjónarmið mín og refsiréttarnefndar varðandi hryðjuverk komast að í fréttatímum hljóðvarps ríkisins? Eða gildir þar sama reglan og um þingfréttir almennt, að vel rökstuddar meginskoðanir víkja fyrir sérsjónarmiðum eða sleggjudómum?

 

Mánudagur, 19. 11. 07. - 19.11.2007 20:06

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hrósar Evrópuráðinu í Kastljósi kvöldsins fyrir að standa vörð um mannréttindi í baráttunni gegn hryðjuverkum. Í gærkvöldi var Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, að býsnast yfir því í fréttum hljóðvarps ríkisins, að í frumvarpi, sem ég hef flutt, um breytingar á hegningarlögum væri gengið of hart að mannréttindum í baráttunni gegn hryðjuverkum. Frumvarpið byggist á samningi Evrópuráðsins um þessa baráttu.

Í pistli um tíðindalitlar þingfréttir sagði ég, að snemma á tíunda áratugnum hefði verið talið kosta um 400 milljónir króna að útvarpa frá fundum alþingis. Mér hefur í dag verið bent á, að þessi tala sé of lág, því að rætt hafi verið um 700 milljónir króna!

Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, benti mér á, að af pistlinum mætti ráða, að hún hefði dregið af því pólitískar ályktanir, að ég hóf að flytja annað mál á dagskrá í stað hins fyrsta - þetta hefði hún ekki gert. Ég breytti textanum til að draga úr líkum á slíkum misskilningi, enda vakti ekki fyrir mér að jafna Höllu við spunameistara.

Sunnudagur, 18. 11. 07. - 18.11.2007 18:53

Einar Þorsteinsson, fréttamaður á hljóðvarpi ríkisins, ræddi við Atla Gíslason, þingmann vinstri/grænna, í kvöldfréttum um frumvarp, sem ég hef flutt um breytingar á almennum hegningarlögum.

Frumvarpið er samið af refsiréttarnefnd og byggist á alþjóðasamningum, annars vegar frá Sameinuðu þjóðunum og hins vegar Evrópuráðinu. Þess var að engu getið í fréttinni. Atli Gíslason taldi frumvarpið byggt á sérkennilegu hættumati og vega að mannréttindum.

Vinstri/græn sýna nokkurn tvískinnung í afstöðu sinni til alþjóðasamninga. Þau krefjast þess annars vegar að ákvæði samninganna séu lögfest hér á landi en segjast á hinn bóginn ósammála því hættumati, sem býr að baki samningunum. Þegar að þeim punkti kemur, vilja þau, oft með aðstoð gagnrýnislausra fréttamanna, láta eins og dómsmálaráðherra sé upphafsmaður þeirra ákvæða, sem þau gagnrýna.

Hættumat og öryggisráðstafanir fara almennt saman. Ísland hefur undanfarin ár tekist á hendur margar alþjóðlegar skuldbindingar, sem byggjast á sameiginlegu hættumati að baki alþjóðasamningum. Alþjóðlegar eftirlitsnefndir eru sendar á vettvang til að rannsaka, hvort farið er að samningum. Frumvarpið, sem þeir Einar og Atli ræddu í fréttunum, er meðal annars sprottið af athugasemdum slíkra eftirlitsnefnda.

Frumvörp eru gjarnan kennd við ráðherra af fréttamönnum, þegar leitað er eftir gagnrýni á þau, en eru hins vegar látin ófeðruð, þegar þau sæta engri gagnrýni. 

 

Laugardagur, 17. 11. 07. - 17.11.2007 16:46

Bylting hefur orðið í fjarskiptamálum í Fljótshlíðinni með komu ljósleiðarans og ADSL-tengingar fyrir tölvur og sjónvarp. Nú er unnt að vinna á tölvu hér eins og í borginni og ná um 80 stöðvum í sjónvarpinu.

Nokkrar umræður urðu um, að það væri aðeins takmarkaður hópur manna, sem gæti notið ljósleiðararans og þess, sem honum fylgir hér í sveitinni. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef, nær ADSL-tenging allt inn í Hlíðarendakot og ef til vill lengra þannig að öll meginbyggðin í Fljótshlíðinni er orðin ljósleiðaratengd.

Ég veit ekki um Múlakot, sem er fyrir innan Hlíðarendakot, en við Múlakot er að rísa mikil sumarbúastaðabyggð.

Föstudagur, 16. 11. 07. - 16.11.2007 17:52

Dagur íslenskrar tungu.

Ég lagði fram tillögu um að halda afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar hátíðlegan sem dag íslenskrar tungu í ríkisstjórn 1995. Í færslu hér á síðunni frá 19. nóvember 1995 segir:

„Raunar gerist svo margt í hverri viku, að hættulegt er að vera með upptalningu sem þessa, því að auðvelt er að gleyma einhverju merkilegu, til dæmis eins og því, að fimmtudagskvöldið 16. nóvember kveikti ég á sjónvarpsstöðinni Sýn og fyrr þann sama dag samþykkti ríkisstjórnin þá tillögu mína, að þessi dagur, 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, skuli framvegis vera Dagur íslenskrar tungu."

Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 1996. Hann var brothættur í fyrstu en hefur sótt í veðrið og aldrei hefur honum verið fagnað jafnveglega og í dag, þegar 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt tillaga mín um að dagurinn yrði framvegis almennur fánadagur og skýrði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra frá samþykktinni á glæsilegri hátíðarsamkomu í Þjóðleikhúsinu í kvöld, þar sem herra Sigurbjörn Einarsson biskup fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Sveinn Einarsson setti dagskrá hátíðarinnar saman og var sjónvarpað beint frá henni.

Margt er gert í tilefni dagsins. Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi íslenskunemi í Háskóla Íslands, sendi mér þetta vinsamlega bréf um einn viðburðinn:

„Í tilefni dagsins vildi ég greina þér frá því að síðasta laugardag var haldið málræktarþing á vegum Íslenskrar málnefndar. Ég flutti þar erindi sem fjallaði um tungumálanotkun og málfar í viðskiptalífinu og hjá hinu opinbera. Við m.a. prófarkarlásum fréttir á heimasíðum allra ráðuneytanna og flokkuðum niður villurnar. Það er skemmst frá því að segja að tvö ráðuneyti skáru sig úr varðandi vandaða málnotkun og það voru forsætis- og dóms- og kirkjumálaráðuneyti." (Leturbreyting mín Bj. Bj.)

Ég flutti ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands klukkan 14.00 og í tilefni dagsins fór ég með Málsvörn eftir Jónas Hallgrímsson:

Feikna þvaður fram hann bar,
fallega þó hann vefur,
lagamaður víst hann var,
varði tófu, refur.

Minnumst þess einnig í dag, að 150 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Af því tilefni er efnt til hátíðar í Köln, þar sem hann er grafinn auk þess sem sýning er í Nonnahúsinu á Akureyri.

Fimmtudagur, 15. 11. 07. - 15.11.2007 6:10

Í hádeginu hitti ég stjórn Sýslumannafélags Íslands á fundi og ræddum við sameiginleg viðfangsefni. Það er samdóma álit allra, að flutningur verkefna úr dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumanna eða sameining verkefna undir stjórn sýslumanns, eins og gert var með Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi hafi skilað mjög góðum árangri.

Ég er undrandi á því, að fleiri ráðuneyti skuli ekki hafa farið að fordæmi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og falið sýslumönnum að sinna sérgreindum verkefnum. Við embættin starfa lögfræðingar með áhuga á úrlausn stjórnsýsluverkefna auk samstarfsmanna, sem sinna verkefnum sínum af kostgæfni og eru flestir með langan starfsaldur, mikla reynslu og þekkingu á heimabyggð sinni.

Miðvikudagur, 14. 11. 07. - 14.11.2007 21:41

Í morgun, á afmælisdegi mínum. fékk ég tölvubréf, þar sem sagði meðal annars:

„Sæll nafni

Á afmælisdegi mínum, 26. ágúst, setti ég upp heimasíðu á slóðinni www.björn.is. Hún olli nokkuð meira fjaðrafoki en ég bjóst við og fór svo að ég lokaði henni viku síðar. Síðan þá hef ég velt því fyrir mér hvað nú væri sniðugt að gera við lénið.

Ný hugmynd kviknaði um miðjan september, þegar ég var að lesa yfir æviágrip þín. Svo hef ég beðið, því hana þarf að framkvæma í dag, á afmælisdegi þínum.

Mig langar að gefa þér lénið björn.is í 63 ára afmælisgjöf.“

Undir þetta vinsamlega bréf ritaði Björn Swift. Ég færði honum innilegar þakkir mínar og nú hef ég eignast lénið björn.is. Ég sagði hinum gjafmilda nafna mínum, að mér hefði síður en svo mislíkað tiltæki hans í sumar, þegar ég sá, að við það fjölgaði heimsóknum á síðuna bjorn.is.

Síðdegis svaraði ég þremur fyrirspurnum á alþingi.

Hreinn Loftsson hrl. heldur áfram að smíða samsæriskenningu sína um þátt minn í lögregluaðgerðum í Baugsmiðlinum DV í morgun. Nú þykist hann hafa himin höndum tekið, af því að ég sagði frá því, að ég hefði gefið út fyrirmæli um að hefja landamæravörslu á innri Schengen-landamærum til að unnt yrði að stöðva Hell´s Engels. Spyrja má: Hver annar en dómsmálaráðherra á að gefa slík fyrirmæli? Ef enginn annar getur gert það, á ráðherrann þá ekki að vita um tilefnið?

 

Þriðjudagur 13. 11. 07. - 13.11.2007 22:29

Klukkan 11.00 var ég í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð, þar sem við Kristján Möller samgönguráðherra rituðum undir samning um endurnýjun á fjarskiptabúnaði Vaktstöðvar siglinga.

Eftir hádegi flutti ég ræður fyrir þremur frumvörpum á alþingi um breytingar á almennum hegningarlögum, það er um mansal, upptöku eigna, hryðjuverk og peningaþvætti, um almannavarnir og neyðarsvörun. Almennt var mikil samstaða um öll frumvörpin.

Anders Fogh Rasmussen situr áfram sem forsætisráðherra Danmerkur eftir kosningarnar í dag. Er það í fyrsta sinn sem Venstre-maður myndar ríkisstjórn þrisvar í röð. Danskir jafnaðarmenn fengu verstu útreið sögunnar í kosningunum. SF, flokkur til vinstri við jafnaðarmenn, var sigurvegari kosninganna með mesta fylgisaukningu.

Mánudagur, 12. 11. 07. - 12.11.2007 22:17

Furðulegt var að lesa forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag um frumvarp mitt til nýrra laga um almannavarnir, þar sem brunamálastjóri og slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu gagnrýna það á algjörlega röngum forsendum og segja, að það miðist við afleiðingar kjarnorkustríðs! Það mátti segja um almannavarnalögin, sem samþykkt voru í upphafi sjöunda áratugs síðustu aldar og gilda að meginstofni enn, enda var Ágúst Valfells, kjarneðlisfræðingur, ráðinn fyrsti forstöðumaður almannavarna.

Að vísa til kjarnorkustríðs vegna þess að ríkislögreglustjóri heldur utan um skipulag almannavarna er heldur síðborin athugasemd, því að ríkislögreglustjóra var falið þetta verkefni árið 2003!

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, vill greinilega halda lögreglu sem lengst frá almannavörnum. Engin rök eru fyrir því. Við gerð frumvarpsins ræddi ég þessi mál oftar en einu sinni við Jón Viðar

Lögregla. björgunarsveitir, slökkvilið og heilbrigðiskerfið eru burðarásar almannavarnakerfisins og sveitarfélögin gegna þar lykil hlutverki. Almannavarnafrumvarpið mótar rammann utan um hlutverk þessara aðila en viðbragðsáætlanir eiga að segja fyrir um, hvernig tekið er á einstökum atvikum.

Einhliða fréttaflutning af þessu tagi og forsíðufrétt, þar sem flaggað er skoðunum, sem ekki eiga við nein rök að styðjast, hlýtur að mega flokka undir mistök hjá Fréttablaðinu. Spurning vaknar um, hvort blaðamaðurinn hafi ekki einu sinni haft fyrir að lesa frumvarpið sjálfur, áður en hann skrifaði fréttina. Viðmælendur hans eru að minnsta kosti að ræða eitthvað annað en frumvarpið.

Sunnudagur, 11. 11. 07. - 11.11.2007 21:42

Flaug síðdegis heim frá Stokkhólmi. Skrifaði pistil út frá Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins og um lánleysi DV, sem burðast við að segja fréttir af mér og hugrenningum mínum en selst lítið sem ekkert og er hætt að láta mæla útbreiðslu sína.

Laugardagur, 10. 11. 07. - 10.11.2007 17:27

John Vinocur frá International Herald Tribune flutti lokaræðuna á ráðstefrnunni í Stokkhólmi í gær og ræddi um Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og hvers vegna hann hefði ákveðið að taka upp nýja stefnu gagnvart Bandaríkjunum og NATO og hve djúpstæð áhrif þessi breyting væri fyrir Frakka. Í samtölum okkar þótti honum, að ákvörðun Frakka um að senda orrrustuþotur til Íslands væri enn til marks um þessar nýju áherslur í utanríkisstefnu Frakka og raunar stórmerkileg í mörgu tilliti.

Vinocur notaði stefnubreytingu Frakka sem dæmisögu fyrir Svía, væru þeir að hugsa um aðild að NATO. Það þyrfti öfluga forystu og skýran vilja til að ræða mál á nýjum grunni, ef ganga ætti til þess verks - raunar gjörbreytt viðhorf heima fyrir, hvað sem liði áhrifum stefnubreytingarinnar út á við.

Hugo Chavez, alvaldur í Venezúela, hiitir Sarkozy í París í næstu viku. Jóhann Spánarkonungur sagði Chavez að þegja á fundi í Chile í dag, eftir að Chavez hafði sagt Asnar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, fasista.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, kallar innlenda og erlenda stjórnmálamenn gjarnan fasista. Skyldi Chavez hafa lært orðbragðið af honum? Jónas hefur að minnsta kosti gripið til þessa orðbragðs lengur en Chavez, eftir því sem best er vitað. Spánarkonungur ætti kannski að taka Jónas í tíma? Víst er þó, að það væri eins og að skvetta vatni á gæs. Jónas gerði hið sama og Chavez, sem lét ekki af derringnum.

Föstudagur, 09. 11. 07. - 9.11.2007 19:27

Nú eru 18 ár síðan Berlínarmúrinn féll. Ég man enn, hvar ég var, þegar þessi tíðindi gerðust, en ég var á ferjuferð milli Finnlands og Svíþjóðar og skrifaði grein fyrir Morgunblaðið um atburðinn, enda sá ég um erlendar fréttir á blaðinu á þeim tíma.

Nú er ég enn á ný í Stokkhólmi og eins og svo oft áður er erindið að ræða um öryggismál.

Ársfundur Sænsku Atlantshafssamtakanna var haldinn í dag og var ég þar meðal ræðumanna ásamt Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, Steen Tolgfors, varnarmálaráðherra Svía, og John Vinocur, sem nú er dálkahöfundur The New York Times, búsettur í París, þar sem hann var áður ritstjóri The International Herald Tribune, en dálkur hans birtist í blaðinu á þriðjudögum.

Ég ræddi um sama efni og ég gerði í Tromsö og síðan í Kaupmannahöfn en hvert erindi hefur sinn sérstaka svip. Að þessu sinni nálgaðist ég viðfangsefnið úr annarri átt en áður. Allt ber þó að sama brunni: Geopólitískar aðstæður á N-Atlantshafi eru að breytast á þann veg, að NATO verður að endurskoða stefnu sína og áréttaði framkvæmdastjóri NATO það á fundinum meðal annars með vísan til nýlegra viðræðna sinna við Geir H. Haarde í tengslum við þingmannafund NATO á Íslandi.

Hér er Stokkhólmserindi mitt.

Fimmtudagur, 08. 11. 07. - 8.11.2007 17:06

Sit á flugvellinum í Brussel og bíð eftir flugvél til Stokkhólms, þar sem ég flyt erindi á morgun á ráðstefnu Swedish Atlantic Association og ræði um öryggismál á Norðurslóðum.

Í tengslum við Schengen-ráðherrafundinn hér í Brussel í dag ræddi ég við Franco Frattini, dómsmálastjóra Evrópusambandsins, og var það niðurstaða okkar að hittast snemma á næsta ári til að ræða um samstarf Íslands og ESB á sviði lög- og réttargæslu. Þar eru að verða miklar breytingar og Frattini hefur kynnt tillögur um að herða baráttuna gegn hryðjuverkum og vill, að EFTA-ríkin séu með í því verkefni.

Ég sé í fréttum, að Frakkar hafa ákveðið að senda fyrstu orrustuþoturnar til Íslands samkvæmt áætlun NATO um lofthelgisgæslu. Áhugi Frakka kemur mér ekki á óvart miðað við samtöl mín við þáverandi varnarmálaráðherra þeirra í apríl 2006.

Undir forsæti Nicolas Sarkozys hafa Frakkar einnig ákveðið að verða að nýju virkir í hernaðarsamstarfinu innan NATO en Charles de Gaulle dró þá út úr því árið 1966 í sama mund og ákveðið var að flytja höfuðstöðvar NATO frá París til Brussel.

Flæmingjar í stjórnlaganefnd belgíska þingsins samþykktu í gær, að stækka Flæmingjalandið umhverfis Brussel. Vallónar telja þetta mikla ögrun við sig og gengu af nefndarfundi til að mótmæla því, sem þeir töldu ofríki meirihlutans. Stjórnarkreppan er nú orðin lengri í Belgíu en nokkru sinni fyrr.

Ps. farangurinn minn kom í morgun frá Kaupmannahöfn.

Miðvikudagur, 07. 11. 07. - 7.11.2007 21:11

Flaug klukkan 08.00 til Kaupmannahafnar og hafði gert sérstakar ráðstafanir til að nógu langt yrði á milli fluga til Brussel, svo að taskan fylgdi mér. Hún finnst nú hvergi, þótt aðeins hafi átt að flytja hana milli véla Icelandair og SAS á Kastrup. Enginn virðist á þessari kvöldstundu vita um örlög hennar.

Af dönsku blöðunum má ráða, að allt sé í óvissu um úrslit dönsku þingkosninganna næsta þriðjudag en þó hafi jafnaðarmenn hlaupið á sig í gær með því að gefa út, að þeir vildu, að hælisleitendum yrði heimilað að fara inn á danskan vinnumarkað. Útlendingamálin urðu þannig enn og aftur helsta umræöu- og ágreiningsefnið, þótt talið væri. að flokkarnir væru næsta samstiga í þeim málaflokki, meðal annars um 24-ára-regluna. Sumir sögðu í blöðunum, að úrslit kosninganna hefðu ráðist 6. nóvember með þessu misheppnaða útspili jafnaðarmanna.

Naser Khader, formaður Ny alliance, nýja danska stjórnmálaflokksins, segist vilja Anders Fogh Rasmussen áfram sem forsætisráðherra. Morgum finnst þetta skrýtið, því að málefnalega sé Khader samstiga vinstri flokkunum, andstæðingum Rasmussens.

Þriðjudagur, 06. 11. 07. - 6.11.2007 22:22

Því meira sem framsóknarmennirnir Björn Ingi Hrafnsson, Valgerður Sverrisdóttir og Pétur Gunnarsson blogga um OR/REI málið, því skýrara verður, að ætlun þeirra er að nota málið til að ná sér niðri á Sjálfstæðisflokknum.

Af fréttaskýringu Péturs Blöndals í Morgunblaðinu sunnudaginn 4. nóvember verður ráðið, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, trúði því, þar til Björn Ingi hafði lýst yfir samstarfi með vinstri mönnum, að Björn Ingi mundi halda áfram samstarfi við sjálfstæðismenn. Raunar fluttu fleiri borgarfulltrúum sjálfstæðismanna þennan boðskap frá Birni Inga kvöldið fyrir slit meirihlutans og nefnir Pétur þar Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra til sögunnar. Hvorki Vilhjálmur né Guðlaugur Þór hefðu tekið svona á málum nema af því að þeir trúðu Birni Inga og því, sem hann sagði við þá.

Í ræðu meðal framsóknarmanna í Reykjavík, eftir að hafa skipt um lið, talaði Björn Ingi á þann veg, að fyrr hefðu framsóknarmenn átt að stíga niður fæti gagnvart sjálfstæðismönnum og voru orð hans túlkuð sem sneið til Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi húsbónda Björns Inga í forsætisráðuneytinu. Með þá Alfreð Þorsteinsson og Óskar Bergsson við hlið sér hreykti Björn Ingi sér af því að hafa snúið á sjálfstæðismenn - en Óskar sagði, að Alfreð hefði fengið tíma til að snúa sér aftur að stjórnmálum, eftir að hann var settur af sem formaður bygginganefndar hátæknisjúkrahúss.

Síðast þegar framsóknarmenn voru utan ríkisstjórnar, 1991 til 1995, voru þeir sem friðlausir í sölum alþingis og sama eirðarleysið hefur gripið þá nú og í vandræðum sínum telja þeir sér trú um, að Sjálfstæðisflokkurinn sé upphaf og endir vandræða þeirra.

Eftir að hann hefur gengið í lið með vinstri mönnum, vita þeir, að Björn Ingi mun ekki mynda enn nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Áhrif hans eru því engin innan félagshyggjuliðsins, eins og best sést á því, að hann hefur étið ofan í sig öll stóru orðin um nauðsyn þess að sameina REI og GGE.

Björn Ingi lítur greinilega á það sem pólitískan bjarghring sinn og einu leiðina til að draga að sér fjölmiðlaathygli að ráðast að Sjálfstæðisflokknum - nú síðast að Geir H. Haarde, formanni flokksins, í því skyni að þvæla honum inn í atburðarásina, sem leiddi til hinna örlagaríku ákvarðana 3. október með sameiningu REI og GGE.  Valgerður Sverrisdóttir telur sér síðan sæma að spinna þennan ómerkilega þráð og undir leikur Pétur Gunnarsson, sem kveinkar sér undan því að vera kenndur við Framsóknarflokkinn! Það er þó skiljanlegt, þegar litið er á þennan auma málatilbúnað allan.

 

Mánudagur, 05. 11. 07. - 5.11.2007 21:30

Bónusfeðgar Jóhannes og Jón Ásgeir rita grein í blað sitt Fréttablaðið í morgun og svara gagnrýni á verðlagningu í Bónus. Hér á síðunni vakti ég máls á því, að athyglisvert væri, að gagnrýnendur á Bónus kysu nafnleysi – væntanlega til að komast hjá persónulegum árásum. Í grein feðganna sannast réttmæti þessara orða, því að röksemdir þeirra snúast öðrum þræði um að lýsa einstaklinga ómerkinga til að upphefja sjálfan sig.

Þeir vega að ritstjóra Morgunblaðsins:

„Nafnlaust bréf sem Morgunblaðið birti svo ósmekklega sl. föstudag er algjörlega marklaust enda nær daglegur viðburður að ráðist sé að fyrirtækjum okkar í nafnlausum dálkum Morgunblaðsins. Frægt er þegar upp komst að ritstjóri Morgunblaðsins hefði bruggað ráð um að koma okkur feðgum fyrir kattarnef, eins og hægt var að lesa um í þeim tölvupóstum sem birtir voru í Fréttablaðinu í september 2005.“

Og framkvæmdastjóri ASÍ fær þessa sneið:


„ASÍ hefur í tvö ár neitað að viðurkenna að helsti samkeppnisaðili Bónuss hefði rangt við í verðkönnunum, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar. Skyldi það vera vegna þess að framkvæmdastjóri ASÍ er fyrrum stjórnarformaður Kaupás, sem rekur Krónuna og fyrrum samstarfsmaður núverandi framkvæmdastjóra Kaupás, hver veit?“

Markmiðið er gamalkunngugt: Að þagga niður í þeim, sem þeir telja sér andstæða.


Sunnudagur, 04. 11. 07. - 4.11.2007 22:32

Fyrstu tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur voru í kvöld í Listasafni Íslands og fór vel á því að flytja tónlist eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Stravinsky og Webern í sal prýddum málverkum Kristjáns Davíðssonar.

Skrifaði pistil um REI, Falungong og Hell's Angels.

Setti einnig langan annál um samruna og sundrungu REI á síðuna.

Föstudagur, 02. 11. 07. - 2.11.2007 21:40

Í umræðunum um verðkannanir, samráð og framgöngu stórmarkaða gagnvart birgjum vekur enginn máls á því, að viðmælendur fjölmiðla kjósa almennt að koma fram á þann veg, að þeir þekkist ekki í sjón og ekki sé unnt að greina rétta rödd þeirra. „Vitnavernd“ af þessum toga tíðkast almennt ekki nema fjallað sé um þá, sem beita viðmælendur fjölmiðla eða opinberra eftirlitsaðila ofbeldi af einhverju tagi. Skyldi bara þykja sjálfsagt og eðlilegt, að þannig finnist hinum almenna borgara að hann þurfi að haga sér, þegar hann ræðir málefni þessara fyrirtækja opinberlega?

Kannski kjósa menn þessa nafnleynd, eftir að hafa fylgst með því, hvernig vegið er á opinberum vettvangi að þeim, sem eigendur sumra þessara markaða telja sér andsnúna? Með auglýsingu í öllum blöðum skömmu fyrir síðustu kosningar var ráðist gegn mér og fólk hvatt til að strika yfir nafn mitt. Eftir það fékk ég orðsendingar frá einstaklingum, sem töldu sig hafa sætt yfirgangi úr sömu átt.

Fréttir berast af því, að vegur Reynis Traustasonar, núverandi ritstjóra DV, sé að vaxa innan fjölmiðlaarms Baugsveldisins. Skyldi það vera vegna vinsælda DV  undir hans stjórn? Fréttablaðið segir 2 til 3% lesa DV daglega. Eða er það vegna þess á hvern hátt hann skrifar um þá, sem hann telur óþægilega fyrir eigendur DV? Skyldu einhverjir vilja vera í friði fyrir slíku og þess vegna kjósa að leyna nafni og númeri í opinberri umræðu?

 

Fimmtudagur, 01. 11. 07. - 1.11.2007 19:49

Í morgun, á fæðingardegi móður minnar, sendi ég þremur blöðum fréttatilkynningu um Bjarna Benediktssonar-styrki, sem veittir verða í fyrsta sinn 30. apríl, 2008.

Fór klukkan 14.00 í fyrirtækið CCP, sem hóf og heldur úti tölvuleiknum Eve-Online. Fyrirtækið hefur vaxið ótrúlega hratt og er enn að vaxa.

Borgarráð Reykjavíkur ákvað í dag að hafna samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy (GGE) og þjónustusamningi til 20 ára á milli Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Reykjavik Energy Invest. Þar með hefur klukkan í þessu máli verið færð aftur fyrir ákvörðunina, sem leiddi til þess að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk til vinstri og yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur.

Björn Ingi Hrafnsson sagði í yfirlýsingu á síðasta fundi fyrrverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur:

„Verði eigendafundur af einhverjum ástæðum dæmdur ólögmætur verði boðað til hans aftur og þá muni fulltrúar Reykjavíkur styðja samrunann aftur í samræmi við fyrri stefnumótun.“

Björn Ingi setti sjálfstæðismönnum með öðrum orðum þann kost, að tryggja lögmæti samruna REI og GGE, þótt ákvörðun yrði talin ólögmæt. Ekkert slíkt kemur fram í samþykkt borgarráðs í dag, en Björn Ingi Hrafnsson stóð að henni. Hann segir á vefsíðu sinni í dag:

Ég hef verið spurður að því í dag hvort niðurstaðan sé ekki ósigur fyrir mig og mína stefnu í málefnum Orkuveitunnar? Svarið er vitaskuld nei, því ég hafði fyrir löngu lagt til að efnt yrði til aukaeigendafundar um samrunann til að eyða öllum vafa um lögmæti fundarins og þeirra gjörninga sem á honum voru afgreiddir.“

Sé Björn Ingi enn þeirrar skoðunar að tryggja eigi lögmæti samrunans með nýjum eigendafundi, liggur beint við að spyrja: Hvar kemur fram, að nýr borgarstjórnarmeirihluti ætli að gera það?

Af ummælum Björns Inga í Kastljósi í kvöld má ráða, að ekki verði boðað til nýs eigendafundar til að samþykkja samruna REI og GGE Björn Ingi segist nú vilja „vinda ofan af þessu máli“ eins og hann orðaði það. Björn Ingi hagaði sér eins og pólitískur loddari síðustu daga samstarfsins við sjálfstæðismenn nú er hann hins vegar að breytast í pólitískan ómerking.