Fimmtudagur, 01. 11. 07.
Í morgun, á fæðingardegi móður minnar, sendi ég þremur blöðum fréttatilkynningu um Bjarna Benediktssonar-styrki, sem veittir verða í fyrsta sinn 30. apríl, 2008.
Fór klukkan 14.00 í fyrirtækið CCP, sem hóf og heldur úti tölvuleiknum Eve-Online. Fyrirtækið hefur vaxið ótrúlega hratt og er enn að vaxa.
Borgarráð Reykjavíkur ákvað í dag að hafna samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy (GGE) og þjónustusamningi til 20 ára á milli Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Reykjavik Energy Invest. Þar með hefur klukkan í þessu máli verið færð aftur fyrir ákvörðunina, sem leiddi til þess að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk til vinstri og yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur.
Björn Ingi Hrafnsson sagði í yfirlýsingu á síðasta fundi fyrrverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur:
„Verði eigendafundur af einhverjum ástæðum dæmdur ólögmætur verði boðað til hans aftur og þá muni fulltrúar Reykjavíkur styðja samrunann aftur í samræmi við fyrri stefnumótun.“
Björn Ingi setti sjálfstæðismönnum með öðrum orðum þann kost, að tryggja lögmæti samruna REI og GGE, þótt ákvörðun yrði talin ólögmæt. Ekkert slíkt kemur fram í samþykkt borgarráðs í dag, en Björn Ingi Hrafnsson stóð að henni. Hann segir á vefsíðu sinni í dag:
„Ég hef verið spurður að því í dag hvort niðurstaðan sé ekki ósigur fyrir mig og mína stefnu í málefnum Orkuveitunnar? Svarið er vitaskuld nei, því ég hafði fyrir löngu lagt til að efnt yrði til aukaeigendafundar um samrunann til að eyða öllum vafa um lögmæti fundarins og þeirra gjörninga sem á honum voru afgreiddir.“
Sé Björn Ingi enn þeirrar skoðunar að tryggja eigi lögmæti samrunans með nýjum eigendafundi, liggur beint við að spyrja: Hvar kemur fram, að nýr borgarstjórnarmeirihluti ætli að gera það?
Af ummælum Björns Inga í Kastljósi í kvöld má ráða, að ekki verði boðað til nýs eigendafundar til að samþykkja samruna REI og GGE Björn Ingi segist nú vilja „vinda ofan af þessu máli“ eins og hann orðaði það. Björn Ingi hagaði sér eins og pólitískur loddari síðustu daga samstarfsins við sjálfstæðismenn nú er hann hins vegar að breytast í pólitískan ómerking.