Dagbók: október 2008

Föstudagur, 31.10. 08. - 31.10.2008 17:37

Málþingi CSIS lauk hér í Washington DC um hádegisbilið eftir umræður um stöðu Rússlands og gasflutninga landleiðina til Evrópu.

Rússar glíma við mikla efnahagserfiðleika auk þess sem framleiðsla þeirra á olíu og gasi er að dragast saman, meðal annars vegna þess að ekki hefur verið fjarfest í endurnýjun eða vinnslu á nýjum slóðum.

Heimferðin hefst síðdegis með flugi til Boston og þaðan heim í kvöld.

Látið er í veðri vaka, að nýtt líf hafi færst í kosningabaráttu Johns McCains og fleira ungt fólk lýsi yfir stuðningi við hann af ótta við skattahækkanastefnu Baracks Obama.

 

Fimmtudagur, 30.10.08. - 30.10.2008 20:28

Í morgun flutti ég fyrirlestur á málþingi Center for Strategic and International Studies (CSIS) hér í Washington DC en málþingið er haldið undir heitinu: Transatlantic Energy Forum og flutti ég fyrirlesturinn undir dagskrárliðnum: The Melting Arctic: Competition or Cooperation? Sherri Goodman, ráðgjafi hjá Center for Naval Analysis (CNA), kynnti bandarísk sjónarmið um þetta málefni.

Athygli á auðlindanýtingu og siglingum á og við Norðurheimskautið vex jafnt og þétt. Þess er beðið, að forseti Bandaríkjanna kynni nýja heimskautastefnu en sú, sem nú er fylgt, er löngu úrelt. Er talið hugsanlegt að þessi stefna verði kynnt fyrir forsetaskiptin í janúar 2009. 

Scott Borgerson, frá Council on Foreign Relations, flutti einnig erindi á málþinginu, en hann hefur hvatt eindregið til þess að Bandaríkjastjórn láti meira að sér kveða við Norðurheimskautið og ritaði um það grein í Foreign Affairs, fyrr á árinu, eins og ég hef sagt frá hér á síðunni.

Hinn 9. október sl. samþykkti þing Evrópusambandsins með 597 atkvæðum gegn 23 en 41 sat hjá, að skora á framkvæmdastjórn ESB að tryggja sér sæti áheyrnarfulltrúa hjá Norðurheimskautsráðinu. Framkvæmdatjórnin birtir líklega fyrir áramót stefnu í sína í heimskautamálum. Erfitt er að sjá rök fyrir því, að ESB eigi erindi inn á Norðurheimskautið.

Það liggur í loftinu hér í Washington, að Barack Obama verði næsti forseti Bandaríkjanna og greinilegt er, að ýmsir, sem nú starfa hjá hugveitum á borð við CSIS og CNA, eru að búa sig undir að komast til starfa hjá nýjum forseta og ríkisstjórn.

Það bendir ekki til þess, að áhuginn á, að Ísland verði tafarlaust aðili að Evrópusambandinu, risti djúpt, þegar ný Gallup-könnun sýnir vinstri/græn bæta við sig mestu fylgi og Samfylkinguna dala. Sjálfstæðisflokkurinn lendir í þriðja sæti í könnuninni og verður Kolbrúnu Bergþórsdóttur og fleirum þar með að þeirri ósk sinni, að flokknum sé refsað fyrir hrun fjármálakerfisins.

Pólitíska staðan er flókin og verður spennandi að vinna úr henni. Ég tel til dæmis nauðsynlegt að ræða utanríkismál af meiri þunga og alvöru en gert hefur verið undanfarin ár, þegar allt hefur verið einfaldað í kringum útrás og ESB, ekki-ESB.

Deilt er um of mikinn hlut RÚV á auglýsingamarkaði. Hvað með hugmyndamarkaðinn? Til dæmis Evrópusambandssinnana Hallgrím Thorsteinsson og Egil Helgason? Hvað segir Páll Magnússon um þá?

 

 

Miðvikudagur, 29.10.08. - 29.10.2008 14:38

Það er sólbjart en dálitið kaldur gustur hér í Washingon. Síðar í dag hitti ég Thad Allen, yfirmann bandarísku strandgæslunnar, og rita undir yfirlýsingu með honum um samstarf strandgæslunnar og Landhelgisgæslu Íslands. Þá ræði ég einnig við embættismenn bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Ég sé að menn eru að æsa sig á netinu vegna greinar, sem ég ritaði í Morgunblaðið í dag um breytta stöðu í evruumræðunni eftir fall bankanna. Ég undrast enn, hver grunnt er á persónulegu skítkasti hjá þeim, sem tala eins og aðild að evrurlandi og Evrópusambandinu sé okkar eina bjargráð. Hvers vegna ræða þessir menn ekki málin á jákvæðum og málefnalegum nótum í stað þess að setja sig á háan hest og tala niður til þeirra, sem vilja viðra önnur sjónarmið? Breytir það í raun engu fyrir krónuna, að alþjóðaumsvif bankanna heyra sögunni til? Hvað með jöklabréfin? Hver verða örlög þeirra? Ef háum vöxtum var haldið uppi til að þjóna jöklabréfunum, hver er nú staðan að því leyti?

Ég hef oft áður sagt og endurtek enn, að í augum margra er engin umræða um Evrópumál, nema hún byggist á blindri ósk um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar rætt er viðmælendur hér í Washington og hugað að hinum áratugalöngu tengslum Íslands og Bandaríkjanna, svo að ekki sé minnst á mikilvægi Bandaríkjamarkaðar, flug, ferðaþjónustu og áhuga bandarískra fyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi, er sú spurning áleitinn, hvort Íslendingar yrðu betur settir, ef þeir yrðu að leggja lykkju á leið sína til Brussel, til að rækta samband sitt við Bandaríkin - ég tel, að svo sé ekki. Tvíhliða samskipti við Bandaríkin ber að rækta áfram án Evrópusambandsins sem milliliðs.

Þriðjudagur, 28.10.08. - 28.10.2008 14:04

Tveir þingmenn spurðu mig um hið sama í óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi, það er dóm hæstaréttar frá 23. október um bann við áfengisauglýsingum. Ég taldi dóminn mikilvæga túlkun á 20. gr. áfengislaga og hann mundi auðvelda ákæurvaldinu að bregðast við gegn þessum auglýsingum.

Klukkan 17.05 flaug ég af stað til New York og þaðan til Washington DC, þar var ég kominn inn á hótel rétt fyrir 01.00 að staðartíma eða 05.00 að íslenskum tíma. Nú er það af, sem áður var, að flogið var til Baltimore vegna funda í Washington og komið þangað um kvöldmatarleyti að tíma heimamanna.

Mánudagur, 27.10.08. - 27.10.2008 21:56

Við Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, vorum viðmælendur Jóhönnu Vilhjálmsdóttur í Kastljósi í kvöld. Umræðurnar voru dálítið skrýtnar að því leyti, að undir okkur voru bornar deilur Björgólfs Thors Björgólfssonar og Seðlabanka Íslands, sem eiga rætur að rekja til samtals við Björgólf Thor, sem verið var að flytja í Kompási Stöðvar 2 og við Guðni sátum í Kastljósi. Að vísu hafði hluti Kompáss verið fluttur áður og þar kom fram, að hefði Landsbanki Íslands (LÍ) fengið 200 milljón punda fyrirgreiðslu í seðlabankanum fyrir hádegi mánudaginn 6. október, hefði það komið í veg fyrir, að ábyrgðir vegna IceSave reikninga féllu á Íslendinga vegna þess, að fjármunirnir hefðu tryggt flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins á því, að IceSave yrði sjálfstæð eining en ekki hluti LÍ.. Seðlabankinn hefur sagt, að LÍ hafi óskað eftir „fyrirgreiðslu að fjárhæð 200 milljónir punda frá Seðlabanka Íslands vegna útstreymis sem orðið hefði í útibúi þeirra í Bretlandi auk 53 milljóna punda láns vegna dótturfélags Landsbankans í Lundúnum.“ Hins vegar hafi ekki verið minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálareftirlitsins í þessu samhengi. Björgólfur Thor hefur mótmælt þessari yfirlýsingu seðlabankans.

Í Kastljósinu benti ég á, að ekki væri deilt um, að LÍ hefði farið fram á 200 milljónir punda, hitt væri ágreiningsefni, hvort vitað hefði verið, að fyrirgreiðslan myndi greiða fyrir málum vegna IceSave hjá breska fjármálaeftirlitinu. Ég hefði ekki neina vitneskju um það og gæti því ekki tekið aftsöðu til þess þáttar. Vorum við Guðni sammála um nauðsyn óhlutdrægrar úttektar með aðkomu erlendra aðila. Þegar ég benti á, að slík úttekt kynni að kosta hundruð milljóna, sagði Guðni, að ekki ætti að hugsa um kostnað í þessu sambandi og samsinnti ég því.

Oftar en einu sinni hef ég vakið máls á því hér á síðunni, að ég var ósammála þeirri ákvörðun Matthíasar Johannessens ritstjóra Morgunblaðsins, að efna ekki til uppgjörs við kommúnista og kommúnismann á síðum blaðsins. Matthías vildi sýna þeim blíðu, sem áttu um sárt að binda og ekki setja salt í sár þeirra.

 

Lesa meira

Sunnudagur, 26. 10. 08. - 26.10.2008 18:10

Í sundi snemma í morgun hitti ég glöggan mann, sem sagðist hafa séð þau feðginin Kolfinnu og Jón Baldvin Hannibalsson við mótmælaiðju sína við ráðherrabústaðinn í sjónvarpsstöðinni BBC World þá fyrr um morguninn. Þykja það tíðindi víðar en hér, að Jón Baldvin hrópi á nýja tíma á þessum tröppum. Vegna skorts á myndefni til að setja með fréttum héðan, áttu fámenn mótmælin og fánabrennur greiða leið á erlendan fjölmiðlamarkað, þótt myndirnar gefi síður en svo rétta mynd af því, hvernig íslenska þjóðin bregst við erfiðleikum sínum.

Á mbl.is má lesa síðdegis í dag: „Mér finnst okkar norrænu kollegar vera fyrst að átta sig núna hvað þetta er alvarleg aðstaða. Hvað þetta geti haft mikið í för með sér fyrir íslenska þjóð. Og mikilvægi þess að finna heildstæða lausn á þessu máli,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem í dag ávarpaði ráðstefnu þar sem fjallað var um norrænu víddina í Evrópusamstarfinu.“ 

Í lok fréttarinnar segir: „Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, var viðstödd ráðstefnuna og að sögn Árna Páls styður hún ekki aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar.“

Allt lofar þetta góðu um framgang íslensks málstaðar á erlendum vettvangi og hughreystandi að fá þessar fréttir um að nú sé Árni Páll að koma áhrifafólki í skilning um stöðu okkar. Hætta er þó á því, að áhugi erlendra fjölmiðla sé meiri á tröppuhrópum Jóns Baldvins í loðfeldinum en upplýsandi ræðum Árna Páls.

Áhyggjur vekur, hve erlendar fréttir fá lítið rými í íslenskum fjölmiðlum. Metnaðarskortur á því sviði leggst eins og farg á fjölmiðlun auk þess sem hún þrengir sjónarhorn, þegar alþjóðastraumar skipta þjóðina meiru en nokkru sinni fyrr.

Laugardagur, 25.10.08. - 25.10.2008 19:31

Klukkan 10.00 var ég í Grensáskirkju, þar sem kirkjuþing var sett við sérstaklega hátíðlega athöfn, enda var minnst 50 ára afmæli þess. Var ég meðal þeirra, sem fluttu ávörp og hér má lesa framlag mitt.

Fleirum en mér hefur þótt skrýtið að sjá Jón Baldvin Hannibalsson flytja æsingaávarp á tröppum ráðherrabústaðarins í dag en um það fjalla ég meðal annars í pistli, sem ég setti á vefsíðu mína. Hér er nákvæmasta lýsingin á mótmælafundinum við ráðherrabústaðinn.

es. Egill Helgason virðist túlka pistil minn þannig að ég sé með spuna gegn EES-samningnum útaf IceSave-reikningum, af því að ég segi Jón Baldvin hafa hreykt sér af því að hafa breytt Íslandi í frelsisátt með því að draga okkur sjálfstæðismenn til stuðnings við hann. Ég tek undir með þeim, sem telja þetta í besta falli langsótt hjá Agli ef ekki ofurviðkvæmni fyrir öllu, sem varðar samskipti við Evrópusambandið.

Hitt er of snemmt að segja, hvernig Evrulandið kemur frá bankakreppunni - veikleiki þess felst í því, að ekkert fjárveitingavald tengist seðlabanka Evrópu og erfitt er að stilla saman ákvarðanir hans og gífurlegt fjárstreymi úr ríkissjóðum einstakra Evrulanda til að halda eigin bönkum á floti. Líklegt er, að öll Maastricht-skilyrði, sem áttu að koma í stað sameiginlegs fjárveitingavalds, fjúki út í veður og vind í þessu fárviðri í fjármálaheiminum. Hvað gera evrubændur þá?

Föstudagur, 24.10.08. - 24.10.2008 20:38

Í dag var tilkynnt, að sameiginleg niðurstaða hefði náðst í viðræðum fulltrúa ríkisstjórnarinnar og alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF um hvernig unnt yrði að standa að því, að Ísland fengi tveggja milljarða dollara lán frá sjóðnum. Ríkisstjórnin kom saman klukkan 14.00 í ráðherrabústaðnum og samþykkti tillögu forsætisráðherra um þetta efni. Áður hafði niðurstaðan verið rædd við aðila vinnumarkaðarins, stjórnarandstöðu og í utanríkismálanefnd.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynntu niðurstöðuna á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfundinn og klukkan 15.00 kynntu fulltrúar IMF hana í húsakynnum ríkissáttasemjara, en Ásmundur Stefánsson, fráfarandi ríkissáttasemjari, er forsætisráðherra til aðstoðar við samhæfingu og stjórn viðræðna.

Niðurstaðan ætti að auðvelda samstarf við ríkisstjórnir, sem hafa lýst áhuga á að leggja okkur lið við að komast út úr gjaldeyrisvandanum. Með þessu er stigið markvert skref út úr bankahruninu en ljóst er, að ferðin öll verður erfið og sársaukafull fyrir marga.

Þingflokkur sjálfstæðismanna veitti Geir H. Haarde umboð fyrr í vikunni til að ljúka málum gagnvart IMF með fyrirvara um, að lyktirnar leiddu ekki til samþykkis á afarkostum Breta. Þingflokkurinn kom saman klukkan 16.00 og þar voru atburðir dagsins ræddir en Ásmundur Stefánsson sat hluta fundarins.

Víðar en hér á landi ræða menn nauðsyn þess að endurskoða reglur um fjármálakerfi til að tryggja eftirlit með því betur. Fyrrverandi yfirmaður breska fjármálaeftirlitsins telur, að breska ríkisstjórnin hafi beitt Íslendinga rangindum, eins og kemur fram í The Daily Telegraph.

 

 

 

 

Lesa meira

Fimmtudagur, 23. 10. 08. - 23.10.2008 22:36

Nú hefur samtal þeirra Árna M. Mathiesens, fjármálaráðherra, og Alistair Darlings, fjármálaráðherra Breta, í síma að morgni þriðjudagsins 7. október sl. verið birt, bæði í Kastljósi og á mbl.is.

Það var tímabær ráðstöfun að birta þetta samtal opinberlega og á íslensku, svo að allri þjóðinni mætti verða ljóst, hvað fór á milli fjármálaráðherranna. Að sjálfsögðu er ekkert í þessu samtali, sem gaf bresku ríkisstjórninni tilefni til hinna harkalegu aðgerða, sem hún greip til gagnvart íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.

Þá er einnig með ólíkindum, hvernig Darling kaus að túlka þetta samtal í útvarpsviðtali í Bretlandi að morgni miðvikudags 8. október.

Óvildarorð í garð Árna vegna þessa samtals eiga engan rétt á sér, nema menn vilji afflytja það, sem hann sagði í annarlegum tilgangi. Raunar er erfitt að sjá, hvaða öðrum tilgangi það þjónar en að spilla stöðu Íslands í hinni alvarlegu deilu við Bretland um IceSave-reikningana.

Alistair Darling hringdi, þegar ríksstjórn sat á fundi í stjórnarráðshúsinu, og gekk Árni út af fundinum til samtalsins og skýrði okkur meðráðherrum sínum frá orðaskiptum, strax að þeim loknum. Ekki hvarflaði að neinum okkar, að þarna hefðu fallið orð, sem yrðu bresku ríkisstjórninni tilefni til að setja íslensk fyrirtæki á hryðjuverkalista.

Miðvikudagur, 22. 10. 08. - 22.10.2008 20:25

Framganga Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi í kvöld, þegar Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sat fyrir svörum hjá honum, var ekki til þess fallin að auðvelda neinum að átta sig á hinni alvarlegu stöðu þjóðarbúsins og skynsamlegustu leiðum út úr henni.

Ég hef oft áður vitnað til þess, að helsta verkefni stjórnmálamanna sé að bregðast við atburðum, eftir því sem atburðirnir eru stærri og alvarlegri þeim mun meira reynir á þá, sem leiða þjóðir. Undir forystu Geirs H. Haarde hefur ríkisstjórnin brugðist við hruni íslenska bankakerfisins með töku dramatískra ákvarðana til að forða þjóðarbúinu frá því að verða hruninu að bráð.

Nú skiptir mestu að gefa sér þann tíma sem þarf til að átta sig á stöðunni og við það hafa stjórnvöld notið samstarfs við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, og nú fleiri erlenda sérfræðinga. Geir sagði í samtalinu við Sigmar, að þessir menn væru hér til að leggja okkur lið en ekki til að skapa ný vandamál.

Þegar fjármálakerfi riðar til falls, segir sig sjálft, að tjónið verður mest, þar sem yfirbyggingin er hæst og undirstaðan minnst eins og hér. Umsvif bankanna voru alltof mikil með hliðsjón af íslenska hagkerfinu. Nú er sagt, að þetta hefðu stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir átt að sjá og grípa í taumana. Hvað með alþjóðleg matsfyrirtæki? Fjölmiðlamenn? Eða bankamennina sjálfa? Árið 2006 kom alvarleg viðvörun og mönnum tókst að vinna sig úr þeim vanda, án þess að sjá nægilega að sér - síðan fór fjármálaheimurinn allur á annan endann.

Sagan verður skoðuð og kallað til ábyrgðar í samræmi við niðurstöðu þeirrar athugunar. Hún breytir hins vegar ekki nauðsyn þess, að rétt sé brugðist við núna. Undir forystu Geirs H. Haarde er það gert með samstöðu innan ríkisstjórnar.

Við upphaf bankahrunsins hér á landi var látið að því liggja, að Seðlabanki Íslands hefði spillt fyrir Glitni hf. með því að fá lán frá Bayerische Landes Bank (BLB). Nú hefur Erwin Huber, fjármálaráðherra Bæjaralands, sagt af sér, þar sem tap BLB er meira en talið var og bankinn hefur farið fram á 5,4 milljarði evra úr bankabjarglánasjóði þýska ríkisins og talið er, að BLB þurfi einn milljarð evra að auki til að styrkja eiginfjárstöðuna. BLB er fyrstur þýskra banka til að leita á náðir bankabjarglánasjóðsins. Vandræði BLB eru rakin til gjaldþrots Lehman Brothers í Bandaríkjunum.

Þriðjudagur, 21.10.08. - 21.10.2008 19:05

Ríkisstjórnin kom saman í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun, en þar höfum við hist til fundar oftar en áður síðustu daga. Aðstaða til ríkisstjórnafunda er góð í húsinu, herbergið bjart og hlýlegt. Þar sem fundað er, var á sínum tíma svefnherbergií. Í stofunni á neðri hæðinni hefur verið gerð aðstaða til að efna til funda með fréttamönnum, en þeir bíða gjarnan fyrir utan bústaðinn og sitja fyrir ráðherrum, þegar þeir koma út. Í bjartviðrinu og kaldri stillunni í dag hafði þeim verið borið kaffi út á stétt.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat þennan fund ríkisstjórnarinnar, en hún kom til landsins frá New York laugardaginn 18. október eftir nokkurra vikna dvöl ytra. Eftir aðsvif á fundi í tengslum við framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gekk hún undir uppskurð vegna æxlis í höfði. Er fagnaðarefni, hve vel aðgerðin heppnaðist og Ingibjörg Sólrún hafi snúið að nýju til starfa.

Síðdegis hittist þingflokkur sjálfstæðismanna á fundi í alþingishúsinu og ræddi stöðu mála á löngum fundi. Mikil samstaða er meðal þingmanna flokksins til allra meginmála miðað við stöðu þeirra, eins og hún var kynnt á fundinum.

Mánudagur, 20. 10. 08. - 20.10.2008 20:04

Ég hef sett inn á síðuna útskrift af samtali okkar Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Stöð 2 í gærkvöldi.

Í The New York Times birtist í dag leiðari undir fyrirsögninni Collateral Damage, þar er fjallað um hið afleidda og sameiginlega tjón, sem orðið hefur, vegna þess að ríkustu þjóðir heims, sem hafa verið trilljónum dollara til að bjarga eigin fjármálakerfum. hafa ekki varið milljörðum dollara til að bjarga fátækari þjóðum, sem ollu ekki vandræðunum en urðu engu að síður fórnalömb þeirra.

Bent er á, að lönd í Mið- og Austur-Evrópu, þar sem vestrænir bankar ráði mestu í fjármálalífinu, séu sérstaklega illa sett. Úkraína hafi beðið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um 14 milljarða dollara og Ungverjaland hafi fengið 5 milljarði dollara frá sjóðnum.

Eftir að hafa rakið vanda ýmissa þróunarþjóða, segir leiðarahöfundurinn og nú birti ég enska textann:

„The world's richest countries have exhibited enormous myopia (skammsýni) throughout the crisis - originally scurrying for ad hoc individual "solutions" that worsened the collective mess. Less than two weeks ago, Washingon and Brussels allowed Iceland to go bust.“

Ég hef notað orðið skammsýni um ákvarðanir Bandaríkjastjórnar í varnar- og öryggismálum hér á N-Atlantshafi. Nú notar The New York Times það orð um stefnu stjórnvalda í Washington og Evrópusambandsins í Brussel gagnvart Íslandi, sem hafi verið „leyft“ að fara á hausinn!

 

Sunnudagur, 19. 10. 08. - 19.10.2008 20:57

Sat fyrir svörum hjá Sigmundi Erni í þætti hans Mannamáli á stöð 2 klukkan 19.10. Við ræddum stöðu mála eftir bankahrunið, rannsóknir á vegum ríkissaksóknara, stjórnarsamstarfið og Rússalánið, svo að eitthvað sé nefnt.

Sigmundur Ernir er vel undirbúinn, þegar hann tekur viðtal sem þetta. Spurningar hans eru beinskeyttar og hann virðist ekki hafa að markmiði að slá sér upp á kostnað viðmælenda sinna.

Um þessa helgi beinist athygli fjölmiðlamanna að samskiptum okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hvaða ákvarðanir verða teknar með vísan til aðildar okkar að sjóðnum og vilja hans til að lána þeim þjóðum, sem glíma við vanda vegna bankakreppunnar.

Eins og ég vík að pistli, sem ég ritaði á vefsíðu mína í dag, er hafið ferli í átt til nýrrar alþjóðastofnunar um fjármálafyrirtæki og starfsemi þeirra. Í því efni hefur verið bent á, að til sé alþjóðastofnun um heilbrigðismál (WHO), matvæli (FAO), viðskipti (WTO) og menningarmál (UNESCO) en engin um fjármálastarfsemi. OECD, efnahags- og framfarastofnunin, hefur lítið komið við sögu í bankahremmingunum. Alþjóðabankinn (World Bank) og alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) gegna sínu hlutverki, án þess að hafa eftirlit með fjármálastofnunum. BIS, Bank of International Settlement, í Basel í Sviss er seðlabanki seðlabankanna - yfir honum hvílir einskonar dularhjúpur eins og fjármálakerfinu öllu. Alþjóðasamstarf í nýrri mynd til að auka gegnsæi og öryggi í rekstri fjármálafyrirtækja yrði til þess að endurvekja traust á þessari mikilvægu atvinnustarfsemi.

Laugardagur, 18. 10. 08. - 18.10.2008 13:11

Klukkan 16.00 hélt Antonin Scalia, hæstaréttardómari frá Bandaríkjunum, fyrirlestur á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu. Salurinn var þéttsetinn og gerður góður rómur að máli Scalia, enda er hann einstakur fyrirlesari.

Scalia er eindreginn talsmaður þess, að dómarar haldi sig við bókstaf laganna í dómum en fari ekki inn á svið löggjafans. Að hans mati er þróunin til þeirrar áttar og nefndi hann til marks um það bæði dóma frá Bandaríkjunum og mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Segir hann, að með vísan til mannréttinda telji dómarar sig geta gengið mun lengra en góðu hófi gegni í niðurstöðum sínum. Það sé ekki þeirra hlutverk að setja lög heldur kjörinna fulltrúa á þjóðþingum.

 

Föstudagur, 17. 10. 08. - 17.10.2008 18:50

Lagadeild Háskóla Íslands hélt hátíðarmálþing í dag í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu í landinu. Ég flutti þar ávarp og ræddi meðal annars vanda okkar vegna bankavandans og hvernig ég teldi hann sneri að lögfræðingum.

Síðdegis ræddi ég málið við þá Þorgeir og Kristófer í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er tekið þau sjónarmið, sem ég setti fram í þingræðu sl. miðvikudag.

Fréttir bárust í dag um, að Ísland hefði ekki náð kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Tyrkir fengu 151 atkv., Austurríki 133 atkv. og 87 atkv. Ég taldi á sínum tíma rétt, að tekið yrði þátt í þessari kosningabaráttu, því að það væri eins og að þjálfa fyrir Ólympíuleikana. Væntanlega verður skrifuð skýrsla um málið, svo að unnt sé að draga af því lærdóm.

Sérfræðingar Europol - Evrópulögreglunnar - sögðu á blaðamannafundi, að afmetamínverksmiðjan, sem lögregla lokaði í gær, sé hin fullkomnasta, sem þeir hefðu séð, og framleiðslan hefði áreiðanlega verið ætluð til útflutnings.

Á vefsíðu BBC News er rætt um fjármálavanda Ungverja og beiðni þeirra um aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir telja illkvittni sé þeim líkt við Íslendinga eins og hér má sjá:

„Portfolio quality is deteriorating and will continue to deteriorate but banks are working with a fairly significant profit margin which provides a nice buffer,“ Peter Felcsuti, chairman of the Hungarian Banking Association, said in an interview to Reuters.

Mr Felcsuti rejected the idea that Hungary would see the same fate as Iceland, whose government seized control of all three of the nation's leading banks recently.

„A comparison with Iceland is unjust and possibly even malicious. There are few if any similarities," said Mr Felcsuti.“

Fimmtudagur, 16. 10. 08. - 16.10.2008 19:27

Í morgun flutti ég framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum á alþingi, það er breytingu á hegningarlögum og lögum um kirkjugarða o. fl.

Frumvörpin voru til meðferðar á síðasta þingi. Allsherjarnefnd hafði afgreitt hegningarlagafrumvarpið frá sér en það komst ekki til lokaafgreiðslu, þar sem Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, kaus að hengja gælumál sín, sem ekki höfðu hlotið meðferð eða afgreiðslu í allsherjarnefnd, utan á frumvarp mitt og olli þar með ágreiningi um afgreiðslu þess við atkvæðagreiðslu.

Þetta er dæmalaus og óþingleg aðferð við að reyna að koma málum fram, án þess að um þau sé rætt til hlítar í þingnefnd. Atli var við sama heygarðshornið í ræðum sínum í morgun. Hann talaði eins og hryðjuverkahugtakið væri of óljóst samkvæmt frumvarpinu, þótt það snúist einmitt um, að skýra hugtakið betur, en í hinu orðinu sagði hann, að líta bæri á nauðgun og heimilsofbeldi sem hryðjuverk.

Í frumvarpinu er meðal annars veitt heimild til upptöku eigna, þegar augljóst er, að viðkomandi getur ekki fært sönnur á, hvernig hann aflaði tekna til að kaupa viðkomandi eignir. Þessu ákvæði mætti til dæmis beita gegn þeim útlendingum, sem hér eru, stunda enga launaða vinnu, en aka um á dýrum bílum og búa ríkulega. 

Þegar Alti Gíslason gengur fram, sem sérstakur málsvari þess, að komið sé til móts við lögreglu og henni auðvelduð störf við nýjar og erfiðar aðstæður, ættu menn að minnast þess, að hann misnotar þingsköp gegn réttarbótum til að auðvelda baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum.

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu og tollgæsla sýndu í dag, hve þessar stofnanir og starfsmenn þeirra eru megnugir, þegar lokað var amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði eftir margra mánaða eftirlit og eftirfylgni. Í frásögn lögreglu af uppljóstrun þessa máls má ráða, að framleiðslugeta verksmiðjunnar hafi verið svo mikil, að hún gæti hafa átt að sinna útflutningi.

Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, benti einmitt á það í þingumræðunum í morgun, að við setningu laga hér um hryðjuverk yrði að hafa í huga, að hér gætu menn leitað skjóls, ef slík lög væru ekki, til að búa sig undir hryðjuverk í öðrum löndum. Íslenska hryðjuverkalöggjöfin tekur mið af alþjóðlegu hættumati og alþjóðlegum skuldbindingum, að ætla að fella nauðgun og heimilisofbeldi undir hana er í ætt við þá ákvörðun Gordons Browns að beita breskum hryðjuverkalögum gegn Landsbanka Íslands í Bretlandi.

Miðvikudagur, 15. 10. 08. - 15.10.2008 18:43

Í dag flutti ég ræðu í umræðum á alþingi um stöðu bankanna. Á ruv.is er sagt frá henni á þennan veg:

„Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, boðaði sérstaka rannsókn á fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins á Alþingi í dag. Til stendur að stofna sérstakt rannsóknarembætti til að skoða kærur um meinta refsiverða verknaði sem tengjast falli bankanna.

Markmiðið er að kanna, hvort tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Skýrsla mun liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2008. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn.

Dómsmálaráðherra hefur fundað með ríkissaksóknara og óskað eftir því bréflega að embættið afli staðreynda um starfsemi bankanna þriggja, útibú þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið er að kanna hvort tilefni sé til lögreglurannsókna.

Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar á að liggja fyrir í árslok. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn. Ríkissaksóknari verður í samstarfi við Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóra. Ráða þarf sérstaka starfsmenn til að vinna skýrsluna og því þarf að tryggja verkinu fjármagn, sem Björn hét á Alþingi að gera. Hann sagði jafnframt að unnið væri að lagafrumvarpi í dómsmálaráðuneytinu um umgjörð þessarar rannsóknar.

Björn segir að stofnað verið til tímabundins rannsóknarembættis sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði sem sprottnir séu af eða tengist falli bankanna. Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinberu stofnun, innanlands eða utan, sem geti lagt lið við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfi undir forræði ríkissaksóknara sem, gæti ásamt forstöðumanni að ákvarða hvaða rannsóknarverkefni falli til þess, sagði Björn á Alþingi í dag.

Björn sagði mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum, gefa sér ekki fyrirfram að lög hafi verið brotin. Hann sagði jafnframt að eðlilegt væri að velta fyrir sér að koma á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem hefði eftirlit með rannsókninni.“

Ég feitletra tvær setningar í þessari frétt, því að þær eiga ekki við rök að styðjast. Í bréfi mínu til ríkissaksóknara er ekki að finna neina ósk til hans heldur staðfesti ég, að ríkissaksóknari hafi tjáð mér, að hann ætlaði að hafa forystu um gerð skýrslu. Það þarf ekki sérstök lög til að semja þessa skýrslu, hins vegar ætla ég að leggja fram frumvarp um það, hvernig staðið verði að rannsókn á kærum um meinta refisverða verknaði, sem sprottnir séu af eða tengjast falli bankanna.

Þriðjudagur, 14. 10. 08. - 14.10.2008 23:08

Kammersveit Reykjavíkur efndi til fyrstu tónleika á vetrardagskránni í kvöld, voru þeir í Þjóðmenningarhúsinu með verkum eftir Smetana og Dvorcak, tvo Tékka, enda eru tónleikar vetrarins helgaðir tékkneskri tónlist.

Afleiðingar þess, að ríkið hefur tekið stærstu bankana þrjá til sín og tryggt innlend umsvif þeirra, eru að skýrast. Eins og við var að búast, tekur einhvern tíma að skapa traust á ný í gjaldeyrisviðskiptum.

Ég verð var við mikla reiði í garð Breta, enda var framkoma Gordons Browns í okkar garð með ólíkindum. Heima fyrir í Bretlandi er spuninn á þann veg, að hann sé með því að þjóðnýta bankana fyrirmynd annarra, meira að segja Bandaríkjamenn feti í fótspor hans. Hvað sem öðru líður er líklegt, að hann afli sér stundarvinsælda með ruddaskap í okkar garð og íhlutunarstefnu gagnvart breskum bönkum. Hve lengi þetta tvennt dugar til að fleyta honum áfram, kemur í ljós.

Í hildarleik eins og þeim, sem nú er háður í fjármálaheiminum, kemur í ljós, hverjir hafa þrek til að horfast í augu við viðfangsefni líðandi stundar og hverjir kjósa frekar að tala um eitthvað allt annað. Tal um eitthvað allt annað skilar engu en getur verið spennandi viðfangsefni, sérstaklega fyrir fjölmiðlamenn, sem forðast flókin úrlausnarefni eða hafa ekki burði til að skilja þau og skýra fyrir öðrum, sem er jú meginhlutverk fjölmiðla.

Í gær vitnaði ég hér í dagbókinni í dr. Gunna, af því að ég safna ummælum þeirra, sem brjótast undan ritstjórnarvaldi eigenda sinna. Dr. Gunni kunni ekki að meta, að ég vitnaði í orð hans (skyldi hann hafa fengið skömm í hattinn?). Hann segir í dag:

„Sjálfur Björn Bjarnason vitnar í lítlfjöllegan mig v/ játninga minna um ósýnilega sjálfsritskoðunarvaldið. Þetta finnst honum spennandi karlinum, ennþá hjakkandi í gömlum og einskisnýtum hjólförum. Þetta gefur honum kannski von um að heimurinn sé ennþá svart/hvítur en ekki í hommafánalitunum, eins og hann er.“

Ég játa, að „einskisnýt" hjólför þekki ég ekki og ekki var ég að vitna dr.-inn með fánaliti í huga heldur vegna þess, sem hann sagði. Hann hlýtur að standa við það - eða hvað? 

 

 

 

Mánudagur, 13.10.08. - 13.10.2008 19:43

Í SpiegelOnline er rætt um skjálfandi víkinga á Íslandi vegna yfirvofandi þjóðargjaldþrots og sagt meðal annars:

„Iceland's economic miracle was wrecked by a new generation of financial market jugglers who took advantage of the new spirit of optimism in the country's burgeoning financial center. The sky seemed the limit after the country's banks were privatized just 10 years ago.“

Dr. Gunni gerir upp við ýmsa viðskiptajöfra á vefsíðu sinni í dag og þar má meðal annars lesa þetta:

„Sjáiði hvað ég er kræfur? Eitt af því fjölmarga góða við hrunið er að maður er ekki lengur HRÆDDUR við þetta lið. Hvernig er hægt að vera hræddur við lið með skít upp á bak sem búið er að koma landinu á kúpuna? Auðvitað þorði maður ekki að tala hreint út eða segja eitthvað því þetta lið átti ALLT. Ég held að hvað sem fólk reyni að stinga hausnum í sandinn með að eignarhald hafi engu skipt þá sé það einfaldlega rangt. Hin ósýnilega hönd sjálfsritskoðunar hvíldi alltaf á lyklaborðinu. Allavega mínu.“

Fyrir utan að skrifa á vefsíðu sína er dr. Gunni meðal annars fastur penni á (Baugs?) Fréttablaðinu. Af ofangreindri tilvitnun má ráða, að eigendavaldið hefur haft veruleg áhrif á það, hvernig dr. Gunni lék á lyklaborðið.

Í Berlingske Tidende er í dag sagt frá því, að Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, hafi í viðtali við Komsomol Pravda sagt, að Rússar yrðu að eignast fleiri flugvélamóðurskip - þeir eiga nú eitt, Aðmírál Kuzbetsov, og þar um borð var forsetinn, þegar hann lét þessi orð falla. Fylgdist hann með tilraunaskoti á nýrri eldflaug, sem skotið var 11.574 km frá Barentshafi til Kyrrahafs og sló þar öll fyrri met. Eldflaugaskotið var liður í æfingum Rússa til að styrkja kjarnorkuherafla sinn. Medvedev sagði, að Rússa skorti ekki fé til að smíða fleiri flugvélamóðurskip, vandinn væri skortur á nægilega stórum skipasmíðastöðvum. Forsetinn sagði, að fyrir árið 2020 yrðu einnig smíðum fleiri herskip og eldflaugakafbátar.

Sunnudagur, 12. 10. 08. - 12.10.2008 12:40

Matthew D'Ancona, ritstjóri The Spectator, ritar um bankakreppuna og stríð Gordons Browns í The Sunday Telegraph í dag og segir meðal annars:

„The faintly ludicrous confrontation with Iceland and Brown's use of anti-terrorist legislation to seize Icelandic assets reminds me of the Robert De Niro movie Wag The Dog, in which a ruthless spin doctor confects a war with Albania to distract attention from the US President's political troubles "What difference does it make if it's true? If it's a story and it breaks, they're gonna run with it," says De Niro's character.“

Í The New York Times í dag er sagt frá því, að Íslendingar bjóði pönnukökur með sultu og rjóma í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna á lokadögum baráttunnar um sæti í öryggisráðinu.

Egill Helgason tók snarpt viðtal við Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfri Egils í dag. Egill sætir ámæli fyrir framgöngu sína en ver sig á visir.is með því að hafa reiðst fyrir hönd þjóðarinnar, hvorki meira né minna.

Þegar horft er á viðtalið, vaknar sú spurning, hvort hafði meiri áhrif á stöðu Baugs, sem riðar nú falls að sögn Jóns Ásgeirs, gjaldþrot Lehman brothers í Bandaríkjunum eða Glitnis. Jón Ásgeir vísaði í þessi gjaldþrot til skiptis í samtalinu. Þá sagðist hann ekki geta sagt, hverjar skuldir Baugs væru, af því að hann vissi ekki, hvert gengi íslensku króunnar væri. Skrýtið, að Egill skyldi ekki biðja Jón Ásgeir að nota aðra mynt til að lýsa skuldastöðunni.

Á vefsíðunni T24 segir, að Sir Philip Green vilji kaupa eignir Baugs með 240 milljarða króna afslætti.

Laugardagur, 11. 10. 08. - 11.10.2008 22:05

Flokksráðs- og formannafundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn í dag og að honum loknum hittist þingflokkur sjálfstæðismanna í Valhöll. Hér segi ég frá fundinum.

Nú skiptir mestu fyrir okkur Íslendinga, að vel sé haldið utan um eignir bankanna í höndum ríkisins. Ekki síst er mikið í húfi varðandi innlánsreikninga í IceSave í Bretlandi og Hollandi og skuldbindingar íslenska ríkisins vegna þeirra - þær munu ráðast af því, hve þungt þessi byrði leggst á okkur íslenska skattgreiðendur.

Í BBC heimssjónvarpinu var önnur frétt í kvöld, að Sir Philip Green væri að sækjast eftir eignum Baugs. Fréttamaður BBC staddur í Reykjavík sagði, að fyrir menn með góð fjárráð væri unnt að gera góð kaup á Íslandi um þessar mundir. Birt var mynd af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugi og síðan listi yfir eignir Baugs í Bretlandi, sem vektu áhuga manna á borð við Sir Philip (sem var einhvers staðar kallaður Sir Green í íslenskum fjölmiðli).

BBC sagði einnig frá viðræðum íslenskra og breskra embættismanna um, hvernig ætti að leysa deiluna um IceSave reikningana í Bretlandi. 

  

 

Föstudagur, 10. 10. 08. - 10.10.2008 17:47

Ríkisstjórn kom saman klukkan 09.30 og fór yfir stöðu mála. Á fundinum skýrðist enn frekar en áður, að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, virðist ekki hafa haft réttar upplýsingar í höndum í gær, þegar hann veittist að Íslendingum, lýsti þjóðina vera orðna gjaldþrota eða á hraðri leið þangað, og taldi réttlætanlegt að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum bönkum ef ekki íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.

Síðdegis hringdi Hollendingur og lýsti, hve illa væri talað um Ísland og Íslendinga í Hollandi. Þar væri gefið í skyn, ef ekki beinlínis sagt, að Landsbanki Íslands hefði opnað netbanka í Hollandi síðastliðið vor, fengið fólk til að leggja þar inn fé til að bæta lausafjárstöðu sína, nú kæmist enginn inn á vefsíðuna, peningarnir væru horfnir úr landi og Landsbanki Íslands horfinn auk allra starfsmanna hans í Hollandi. Þetta væri ófögur lýsing fyrir orðspor Íslands og Íslendinga og gegn henni yrði að snúast.

Í dag var tilkynnt, að fríblaðið 24 stundir hefði komið út í síðasta sinn og Fréttablaðið og Morgunblaðið hefðu runnið inn í sama útgáfufyrirtæki, Árvakur. Hvar er samkeppniseftirlit? Hér er líka stórt spurt hjá virtum álitsgjafa.

DV er ekki undir Árvakurshatti - lifir það í samkeppni við nýja risann? Sagt er að feðgarnir, sem ritstýra DV , reki það fyrir svo lítið fé, að hvorki léleg söludreifing né uppsögn áskrifta ógni fjárhagslegum styrk blaðsins. Viðskiptablaðið fékk nýtt útlit í dag. Skyldi sú upplyfting duga til að blaðið lifi, þótt Exista deyi?

Nú ættu þeir, sem voru miður sín, þegar talað var um Baugsmiðla en ekki Árvakursmiðla, að ná gleði sinni. Það kemur í ljós, hvort skírskotun til eigenda á rétt á sér eftir lestur blaðanna undir hatti Árvakurs.

Nú þarf ekki lengur að ræða um fréttastofu hljóðvarps ríkisins eða sjónvarps ríkisins, því að kynningin er í upphafi hvers fréttatíma: Fréttastofa ríkisútvarpsins - útvarp er samheiti yfir hljóðvarp og sjónvarp. Þarna eru menn ekki hræddir við að kenna sig við eigandann.

Fimmtudagur, 09. 10. 08. - 9.10.2008 8:47

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom tvisvar saman til fundar í dag, í hádeginu og síðan að nýju 16.30. Rætt var um framvindu mála og hver ættu að viðbrögð við henni auk þess sem lagt var á ráðin um næstu skref og aðgerðir. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, nýtur óskoraðs trausts þingflokksins við úrlausn hinna gífurlega erfiðu viðfangsefna.

Í atburðarás af þessum toga er erfitt að sjá fyrir, hvað þykir fréttnæmast. Í dag var það afstaða bresku ríkisstjórnarinnar til hinnar íslensku vegna þess, sem Bretar telja óviðunandi framgöngu íslenskra stjórnvalda og banka gagnvart reikningseigendum í Bretlandi.

Í ljós hefur komið, að sveitarstjórnir um allar Bretlandseyjar hafa lagt fé inn í íslenska banka og þær sæta nú mikilli gagnrýni fyrir að fara svo óvarlega með fé skattgreiðenda. Gordon Brown, forsætisráðherra, leitast við að varpa ábyrgðinni á herðar íslenskra stjórnvalda á sama tíma og hann hallmælir íslensku bönkunum. Bresk stjórnvöld hafa gengið á eignir þeirra í Bretlandi og þar á meðal banka í eigu Kaupþings.

Hér á landi er sagt, að upptaka breska fjármálaeftirlitsins á banka Kaupþings hafi riðið Kaupþingi að fullu og Sigurður Einarsson, fráfarandi stjórnarformaður Kaupþings, rakti ákvörðun Breta til orða, sem Davíð Oddsson lét falla í Kastljósi að kvöldi þriðjudags 7. október, eins og sjá má á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Þegar leið á daginn var harka breskra stjórnvalda rakin til „misskilnings“ í samtali Árna M. Mathiesens, fjármálaráðherra, við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, að morgni þriðjudagsins 7. október, það er áður en Davíð ræddi við Sigmar Guðmundsson í Kastljósi.

Geir H. Haarde ræddi við Darling í síma í dag og taldi sig hafa komið málinu í sæmilegt, diplómatískt horf, en um svipað leyti fer Gordon Brown fram með ódiplómatískri hörku gagnvart Íslendingum í Sky sjónvarpsstöðinni. Geir hefur skýrt þetta sem sambandsleysi innan bresku ríkisstjórnarinnar.

Geir mótmælti því harðlega í hádeginu, að Bretar hefðu beitt hryðjuverkalöggjöf til að hrifsa eigur íslensku bankanna. Brown var kannski að svara þeim ummælum á Sky en líklega var hann frekar að beina athygli að Íslendingum til að létta þrýstingi af sér og bresku ríkisstjórninni, enda hefur hún mikið á sinni könnu vegna vandræða breskra banka.

Í sögulegu ljósi verður þessi flétta í allri þessari dramatísku atburðarás ekki talinn til þess mikilvægasta, sem gerist hjá okkur á líðandi stundu - samskipti Bretlands og Íslands hafa tekið margar dýfur í aldanna rás. Hitt held ég, að komi öllum stjórnmálamönnum á óvart í Bretlandi og hér á landi, hve vel íslensku bankarnir höfðu komið ár sinni fyrir borð í Bretlandi. Að láta sér til hugar koma, að öll þau viðskipti hafi verið á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, er í raun ótrúleg bíræfni.

Lesa meira

Miðvikudagur 08. 10. 08. - 8.10.2008 22:19

Klukkan 13.15 var ég í Háskóla Íslands og flutti fyrirlestur um Schengen-samstarfið hjá meistaranámsnemum Baldurs Þórhallssonar prófessors.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 15.00 til að ræða stöðu fjármálakerfisins og viðbrögð innan lands og utan við neyðarlögunum frá því á mánudag og því, sem síðan hefur gerst.

Alþjóðaviðbrögðin eru nokkuð hörð og ekki síst frá ríkisstjórn Bretlands, sem lýsti hneykslan sinni á því, að ábyrgð á greiðslum af reikningum Icesave banka Landsbanka Íslands í Bretlandi yrði ekki varpað á herðar íslenskra skattgreiðenda.

Fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru staddir hér á landi og hafa þeir ráðherrar, sem fara með forystu vegna vanda fjármálakerfisins, það er forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra, rætt við þá um stöðu mála og næstu skref.

Klukkan 16.00 hófst fundur í þingflokki sjálfstæðismanna en í upphafi hans fylgdumst við með blaðamannafundi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra í Iðnó. Blaðamannafundurinn var tvískiptur, annars vegar á íslensku og hins vegar á ensku fyrir hinn fjölmenna hóp erlendra blaðamanna, sem hingað er kominn.

Þingflokksfundurinn stóð fram yfir klukkan 19.00.

Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, var í Kastljósi og skýrði þróun mála frá sínum bæjardyrum. Hann telur, að bakland íslensku bankanna, það er stærð gjaldeyrisvarasjóðs og innviðir Seðlabanka Íslands, hafi ekki haldist í hendur við vöxt bankakerfisins. Síðan hafi það gerst í fárviðrinu undanfarið, að vestrænar þjóðir hafi ekki lagt okkur nægilegt lið. Sigurjón sagði, að fráleitt væri í þeirri stöðu, sem nú er, væri fráleitt að hverfa frá krónunni.

Fréttir frá Evrópu sýna, að nú reynir verulega á innviði Evrópusambandsins, þegar hvert ríki leitar eigin leiða til að leysa bankakreppuna. Seðlabanki Evrópu ákveður vexti og peningamagn fyrir 320 milljón íbúa á evrusvæðinu, en hann ræður engu um það, hvernig einstök ríki ráðstafa skattfé almennings - sú ráðstöfun er á valdi einstakra ríkisstjórna og beita þær því valdi af sífellt meiri þunga til að bjarga eigin fjármála- og bankakerfi.

Þriðjudagur, 07. 10. 08. - 7.10.2008 8:34

Tilkynnt, að Rússar vilji lána Seðlabanka Íslands stórfé til að tryggja gjaldeyrisforðann. Minnir á það, þegar Bretar settu löndunarbann á íslenskan fisk í landhelgisdeilunni 1952 til 1953 og Sovétmenn tóku að kaupa af okkur fisk og við olíu af þeim. Hér er skýrt frá því, að Seðlabanki Íslands hafi sagt of mikið í fyrstu tilkynningu sinni um málið.

Í frétt The New York Times um óvissuna á fjármálamörkunum segir í dag:

„The immediate danger, economists say, are countries in Eastern and Central Europe, like Bulgaria and Estonia, which run steep trade deficits and are vulnerable to a sudden flight of foreign capital.

Iceland, with an overheated economy and suffocating foreign debt, may prove to be the first national casualty of the crisis. On Monday, threatened by a wholesale financial collapse, the government in Reykjavik assumed sweeping powers to intervene in its banking industry.

“We were faced with the real possibility that the national economy would be sucked into the global banking swell and end in national bankruptcy,” Prime Minister Geir H. Haarde said on Monday.

But with global growth slowing sharply, the problems could spread to larger emerging markets, even China, which has a hefty current account surplus and immense foreign reserves.“

Berlingske Tidende lýsir stöðunni þannig:

„På Island vedtog man i går en redningsplan, hvor staten samler de islandske banker op. Men samtidig tvinges bankerne til at frasælge udenlandske aktier, og det kan betyde et storudsalg af ejerposter i Danmark.“

Mánudagur, 06. 10. 08. - 6.10.2008 19:28

Ríkisstjórnin var boðuð til fundar klukkan 08.30 í morgun og fyrir hann var lagt frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o. fl. eins og frumvarpið um heimild til fjármálaeftirlitsins til inngrips í starfsemi fjármálastofnana heitir. Ríkisstjórnin gekk frá frumvarpinu af sinni hálfu fyrir klukkan 09.30 en þá héldu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, til fundar við formenn stjórnarandstöðunnar.

Ríkisstjórn hafði komið saman til fundar að kvöldi sunnudags 05. 10. 06 í Ráðherrabústaðnum og síðan var efnt til funda í þingflokkum stjórnarinnar fram undir miðnætti. Þá töldu menn, að íslenska fjármálakerfið gæti staðist áraun heims-bankakreppunnar án beinnar íhlutunar ríkisins. Síðar kom í ljós, að vonir um þetta voru tálvonir.

Vissulega hafði það komið til tals í umræðum síðustu daga, að ef til vill yrði nauðsynlegt að grípa inn í fjármálakerfið á annan hátt en þegar Glitnir banka var bjargað. Ríkisstjórnin vildi hins vegar í lengstu lög segja nokkuð eða gera, sem gæti truflað baráttu bankanna fyrir eigin lífi. Þess vegna var Geir H. Haarde mjög varkár í sínum orðum og mátti sæta gagnrýni á þann veg, að hann hefði ekki neitt að segja, þegar eftir var gengið um lánalínur frá útlöndum og annað slíkt.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 15.00 og þar var frumvarpið lagt fyrir þingmenn og kynnti Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra það í fjarveru Geirs H. Haarde, sem var að búa sig undir ávarp til þjóðarinnar, sem hann flutti í sjónvarpi og útvarpi klukkan 16.00. Þar lýsti hann því, hvernig fyrir fjármálakerfi þjóðarinnar væri komið. Við hlustuðum á hann í þingflokksherberginu og að máli hans loknu var honum klappað verðskuldað lof í lófa.

Þingfundur var settur klukkan 16.30 og þar var frumvarpinu dreift, rétt fyrir klukkan 17.00 var settur nýr fundur og frumvarpið tekið til umræðu og hafði Geir H. Haarde framsögu, formenn stjórnarandstöðu flokkanna fluttu stuttar ræður og lýstu stuðningi við, að frumvarpið fengi skjóta ferð í gegnum þingið.

Klukkan 18.00 efndi Geir H. Haarde til blaðamannafundar í þinghúsinu fyrir innlenda og erlenda fjölmiðlamenn. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar vekur nokkra athygli erlendis.

Klukkan 21.30 var boðað til þingfundar að nýju og varð frumvarpið að lögum 23. 20. Síðan efndum við sjálfstæðismenn til þingflokksfundar í tæpa klukkustund og ræddum atburði dagsins. 62 þingmenn tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, en óvenjulegt er, að þingfundir séu svo vel sóttir.

Á vefsíðu The Economist má meðal annars lesa þetta í dag:

Lesa meira

Sunnudagur, 05. 10. 08. - 5.10.2008 18:46

Þegar fylgst er með fjölmiðlamönnum, sem standa í rigningarsuddanum fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu, mætti halda, að þar væri upphaf og endir þess, sem við er að glíma í fjármálaheiminum.

Glíman hér á hliðstæður víða. Við sjáum þó ekki fréttamyndir frá öðrum löndum, þar sem hlaupið er á eftir fólki upp og niður tröppur. Almennt láta fjölmiðlamenn sér nægja að bíða eftir því, að þeir, sem vitað er, að skýra frá niðurstöðu flókinna umræðna, geri það.

Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, sneri sér sl. fimmutdag til bandaríska fjármálaráðuneytisins með ósk um sjö milljarða dollara stuðning, til að unnt yrði að gera ríkissjóði Kaliforníu kleift að standa við greiðsluskuldbindingar sínar. Skuldabréfamarkaðurinn hefur lokað á Kalíforníu og þess vegna getur ríkið ekki brúað fjárhagslegar skuldbindingar fram að jólum, þegar von er á söluskattstekjum af jólasölu í verslunum.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti síðdegis, að þýska ríkið ábyrgðist alla sparifjárreikninga í landinu. Tilkynningin var gefin eftir neyðarfund kanslarans með þýska seðlabankanum og fjármálaeftirilitinu. Ástæðan er erfið staða þýska fasteignalánabankans Hypo Real Estate, en vandræði hans má rekja til þess, að hann fékk ekki 35 milljarði evra að láni. Unnið er að björgunaraðgerðum fyrir bankann en hann geldur þess, að bankar eru hættir að treysta hver öðrum og halda því aftur af sér við lánveitingar. Merkel segir, að stjórnendur fjármálastofnana eigi að sæta ábyrgð fyrir „ábyrgðarlausa framgöngu“ sína.

Þýska ríkisstjórnin fetar með sparifjárábyrgð sinni í fótspor Íra og Grikkja. Fjármálasérfræðingur BBC telur, að breska ríkisstjórnin geti ekki látið sinn hlut eftir liggja.

Ríkisstjórnir Belgíu, Hollands og Lúxemborgar ákváðu í síðustu viku að leggja fram 11,2 milljarði evra til að bjarga stórbankanum Fortis og eignaðist þá hvert ríki 49% af hlut bankans í sínu landi. Aðgerðin varð ekki til að treysta stöðu bankans og sl. föstudag ákvað hollenska ríkisstjórnin að þjóðnýta þann hluta af starfsemi bankans, sem er í Hollandi.

Í kvöld tilkynnti Yves Leterme, belgíski forsætisráðherrann, að ríkisstjórn Belgíu mundi gera ráðstafanir vegna Fortis, áður en evrópskir hlutabréfamarkaðir verða opnaðir á morgun. Vandi Fortis hófst á síðasta ári, þegar hann tók höndum saman við Royal Bank of Scotland og spánska bankann Santander um að kaupa hollenska bankann ABN Amro fyrir 70 milljarði evra.

Þessi lýsing á þróun mála í öðrum löndum bregður í raun ljósi á viðfangsefni, sem blasir við stjórnvöldum í öllum löndum. Við þessar aðstæður verður hver og einn fyrst og síðast að hugsa um eigin hag.

 

Laugardagur, 04. 10. 08. - 4.10.2008 20:06

Jafnt í Reykjavík sem París komu menn saman í dag til að ræða aðgerðir vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Eftir að Bandaríkjaþing ákvað að verja mætti 700 milljörðum dollara til að tryggja bandaríska fjármálakerfið, er talið líklegt, að aukin festa hafi skapast.

Í Reykjavík hittust ráðherrar, verkalýðsforingjar, atvinnurekendur og bankastjórar. Leitað var leiða til að mynda víðtæka samstöðu um leið til að tryggja stöðu íslenska fjármálakerfisins.

Í París hittust forseti Frakklands, kanslari Þýskalands og forsætisráðherrar Bretlands og Ítalíu auk seðlabankastjóra Evrópu og forsætisráðherra Lúxemborgar, en hann tók þátt í fundinum sem talsmaður fjármálaráðherra 27 ESB-ríkja. Tilgangur fundarins var að ákveða, hvaða úrræði myndi best duga til að treysta evrópska fjármálakerfið.

Fjármálaráðherra Finnlands sagðist sætta sig illa við, að þessi hópur mann tæki ákvarðanir fyrir öll ESB-ríki um þessi efni.

Helstu fréttir fjölmiðla af fundinum í Reykjavík voru þess efnis, að sett yrði það skilyrði fyrir sameiginlegu átaki fyrir íslenska fjármálakerfið, að Íslendingar óskuðu eftir aðild að Evrópusambandinu - það er þeir yrðu í sömu stöðu og ESB-þjóðirnar, sem biðu í dag eftir niðurstöðunni í París.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV, að þessar fréttir um ESB-skilyrðið ættu ekki við rök að styðjast. Fundirnir í dag hefðu alls ekki snúist um það mál. Morgunblaðið er þó með forsíðufrétt um þetta sunnudaginn 4. október!

 

Föstudagur, 03. 10. 08. - 3.10.2008 20:59

Björn Ingi Hrafnsson, markaðsritstjóri Fréttablaðsins, ritaði forsíðufrétt blaðsins í gær um, að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefði nefnt þjóðstjórn á fundi ríkisstjórnarinnar þriðjudaginn 30. september og einnig á öðrum fundi. Í kvöld sagði Björn Ingi frá því í Íslandi í dag á Stöð 2, að hann hefði þetta frá heimildum innan ríkisstjórnarinnar. Fyrir sérhverja ríkisstjórn er alvarlegt, ef ekki er unnt að ræða þar mál milli manna eða við þá, sem koma á hennar fund, án þess að blaðamönnum sé sagt frá því, sem á fundinum gerist. Miðað við andann í stjórnarsamstarfinu þykir mér með nokkrum ólíkindum, að Björn Ingi fari með rétt mál um heimild sína fyrir þessari frétt.

Jónas H. Haralz sagði í Spegli RÚV í kvöld, að í sinni tíð sem efnahagsráðgjafi hefði tíminn frá 1967 til 1969 verið hinn erfiðasti. Þá hefði undirstaða efnahagsstarfsemi þjóðarinnar hrunið. Nú væri yfirbyggingin í hættu.

Ég man vel þessa tíma. Þá taldi faðir minn, að ástandið kynni að kalla á þjóðstjórn, en úr henni varð ekki og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks leiddi þjóðina í gegnum vandann og lagði grunn að endurnýjun hagkerfisins, sem skilaði betri lífskjörum fyrir alla á undraskömmum tíma.

Að menn velti fyrir sér þjóðstjórn hátt og í hljóði er frekar til marks um, að þeir telji brýnt að samhæfa alla krafta þjóðarinnar, pólitíska sem aðra, en þeir sjái slíka stjórn sem einhverja töfralausn á vandanum - ég er þeirrar skoðunar, að svo yrði ekki við núverandi aðstæður.

Forsíðu nýjasta heftis The Economist prýðir mynd af manni, sem stendur fremst á sprunginni bjargbrún og horfir ofan í hyldýpið og fyrirsögnin er: World on the edge. Þetta er einnig fyrirsögn aðalleiðara blaðsins og þar er ein millifyrirsögnin: What's the Icelandic for "domino"? Með spurningunni er vísað þess, hve margir bankar hafa lent í vandræðum og þurft opinbera aðstoð undanfarið, þar á meðal hafi Ísland bjargað Glitni. Og á bls. 69 segir um þá björgun: The Icelandic government has taken a 75% stake in Glitnir, a bank with outrageous reliance on gummed-up wholesale funding markets. Ég ætla ekki að íslenska þessa döpru setningu.

Fimmtudagur, 02. 10. 08. - 2.10.2008 22:46

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll klukkan 11.00 og er augljóst, hvert var helsta umræðuefni þar.

Klukkan 13.00 var ég í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, og setti þar málþing um félagslegar forvarnir og gat þess í ræðu minni, að við qi gong félagar fengjum þrisvar í viku afnot af fundarsalnum til æfinga.

Klukkan 19.50 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, stefnuræðu sina og síðan voru umræður um hana til klukkan rúmlega 22.00.

Ég tek undir með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra, sem lýsti undrun sinni á því, hvernig Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, talaði um samning ríkisstjórnarinnar við stjórn Glitnis um kaup á hlutabréfum í bankanum og gerði hann grunsamlegan.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, og Birkir J. Jónsson, samflokks- og samþingmaður hennar í Norðausturkjördæmi, gældu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með því eru þau í senn að biðla til Samfylkingar og ögra Guðna Ágústssyni innan Framsóknarflokksins. Þeir Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, voru einnig með hugann við Evrópusambandið í ræðum sínum.

Öllum ræðumönnum bar saman um, að sýna ætti samstöðu þvert á flokkslínur til að leiða þjóðina út úr hinum hrikalega vanda, sem ógnar fjármálakerfi landsins. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, vill, að forystumenn stjórnmála og atvinnulífs verði lokaðir inni í Höfða og fái ekki að stíga þaðan út, fyrr en þeir senda frá sér hvítan reyk til marks um, að sameiginleg leið hafi fundist út úr vandanum.

Miðvikudagur, 01. 10. 08. - 1.10.2008 18:16

Alþingi var sett í dag séra Anna Pálsdóttir flutti góða prédikun í Dómkirkju, það setur hátíðlegri svip en áður á athöfnina í þinghúsinu, að þar leikur strengjakvartett ættjarðarlög.

Forseti Íslands flutti ræðu, sem snerist um að gleyma ekki fullveldisdeginum 1. desember og gæta þess, sem áunnist hefur með útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Skýrari varnaðarorð gegn aðild að Evrópusambandinu hefur núverandi forseti ekki flutt yfir þingheimi, síðan hann barðist gegn aðild að evrópska efnahagssvæðinu sem þingmaður í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar.

Ég sé að glöggir bloggarar sakna þess, að forseti skyldi ekki ræða um uppnámið í fjármálakerfinu. Vissulega hefði verið forvitnilegt að hlusta á skilgreiningu Ólafs Ragnars á stöðu útrásarfyrirtækjanna um þessar mundir. Að vísu má segja, að í orðum hans hafi komið fram, að hann teldi ekki ástæðu til að gera of mikið úr viðfangsefni líðandi stundar miðað við það, sem áður var. Dregið skal í efa. að þessi samanburður sé réttmætur.

Í fjölmiðlamálinu gekk Sigurður G. Guðjónsson hrl. fram fyrir skjöldu til að verja hagsmuni auðmanna gegn almannavaldi. Þegar Glitni er bjargað af almannavaldi gengur Sigurður G. Guðjónsson hrl. fram fyrir skjöldu í þágu auðmanna, af því að þeir telja sig tapa á því, að almannavald bjargi Glitni.

Er ekki komið nóg af þessum söng í fjölmiðlum?