16.10.2008 19:27

Fimmtudagur, 16. 10. 08.

Í morgun flutti ég framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum á alþingi, það er breytingu á hegningarlögum og lögum um kirkjugarða o. fl.

Frumvörpin voru til meðferðar á síðasta þingi. Allsherjarnefnd hafði afgreitt hegningarlagafrumvarpið frá sér en það komst ekki til lokaafgreiðslu, þar sem Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, kaus að hengja gælumál sín, sem ekki höfðu hlotið meðferð eða afgreiðslu í allsherjarnefnd, utan á frumvarp mitt og olli þar með ágreiningi um afgreiðslu þess við atkvæðagreiðslu.

Þetta er dæmalaus og óþingleg aðferð við að reyna að koma málum fram, án þess að um þau sé rætt til hlítar í þingnefnd. Atli var við sama heygarðshornið í ræðum sínum í morgun. Hann talaði eins og hryðjuverkahugtakið væri of óljóst samkvæmt frumvarpinu, þótt það snúist einmitt um, að skýra hugtakið betur, en í hinu orðinu sagði hann, að líta bæri á nauðgun og heimilsofbeldi sem hryðjuverk.

Í frumvarpinu er meðal annars veitt heimild til upptöku eigna, þegar augljóst er, að viðkomandi getur ekki fært sönnur á, hvernig hann aflaði tekna til að kaupa viðkomandi eignir. Þessu ákvæði mætti til dæmis beita gegn þeim útlendingum, sem hér eru, stunda enga launaða vinnu, en aka um á dýrum bílum og búa ríkulega. 

Þegar Alti Gíslason gengur fram, sem sérstakur málsvari þess, að komið sé til móts við lögreglu og henni auðvelduð störf við nýjar og erfiðar aðstæður, ættu menn að minnast þess, að hann misnotar þingsköp gegn réttarbótum til að auðvelda baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum.

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu og tollgæsla sýndu í dag, hve þessar stofnanir og starfsmenn þeirra eru megnugir, þegar lokað var amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði eftir margra mánaða eftirlit og eftirfylgni. Í frásögn lögreglu af uppljóstrun þessa máls má ráða, að framleiðslugeta verksmiðjunnar hafi verið svo mikil, að hún gæti hafa átt að sinna útflutningi.

Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, benti einmitt á það í þingumræðunum í morgun, að við setningu laga hér um hryðjuverk yrði að hafa í huga, að hér gætu menn leitað skjóls, ef slík lög væru ekki, til að búa sig undir hryðjuverk í öðrum löndum. Íslenska hryðjuverkalöggjöfin tekur mið af alþjóðlegu hættumati og alþjóðlegum skuldbindingum, að ætla að fella nauðgun og heimilisofbeldi undir hana er í ætt við þá ákvörðun Gordons Browns að beita breskum hryðjuverkalögum gegn Landsbanka Íslands í Bretlandi.