Dagbók: júní 2007

Föstudagur, 29. 06. 07. - 29.6.2007 17:56

Fundur okkar norrænu ráðherranna um útlendingamál hófst kl. 08.30 í Reykholti. Veðrið gat ekki verið fegurra en við sátum á rökstólum fram undir hádegi. Erlendu gestirnir héldu til Keflavíkurflugvallar og tóku síðdegisvél til Kaupmannahafnar.

Ég mæli með Reykholti til funda af þessu tagi - ekki síst fyrir Norðurlandabúa, sem öðlast dýpri skilning á eigin sögu og menningu með því að komast í kynni við Snorra á hans gamla höfuðbóli - nú er unnt að ganga um rústir bæjar hans og sjá með eigin augum, hvar hann var höggvinn.

Á Norðurlöndunum eru ráðherrar að búa sig undir sumarleyfi. Danska ríkisstjórnin kom saman til síns síðasta fundar fyrir sumarfrí í dag og næsti fundur hefur verið boðaður 28. ágúst. Svo löng hlé á fundum ríkisstjórnar Íslands tíðkast ekki - hún kemur saman hvern þriðjudag, þegar þing situr ekki, en þriðjudag og föstudag á þingtíma. Eitt sinn var rætt, hvort frekar ætti að hafa seinni fund vikunnar á fimmtudegi en föstudegi.

Fimmtudagur 28. 06. 07. - 28.6.2007 17:05

Ókum í sólarblíðu upp í Reykholt í Borgarfirði, þar sem í kvöld hefst fundur norrænna ráðherra útlendingamála. Þetta er í fyrsta sinn, sem slíkur fundur er haldinn hér á landi.

Aðstaðan í Reykholti er til mikillar fyrirmyndar og til dæmis auðvelt að tengjast þráðlausu neti á staðnum, eins og þessi færsla sýnir. Ég hlakka til að hlusta á séra Geir Waage kynna gestunum staðinn og sögu hans. Snorri Sturluson er stórmenni í augum menntaðra manna um heim allan, en þó sérstaklega Norðmanna. Þeir hafa einnig lagt góðan skerf af mörkum til endurreisnar Reykholts.

Eitt fyrsta embættisverk mitt sem menntamálaráðherra fyrir rúmum tólf árum var að fara hingað í Reykholt til að kynna mér af eigin raun framhaldsskólastarf hér. Síðan var tekin ákvörðun um að loka skólanum og stefna að því, að í Reykholti yrði kirkju- og menntasetur tengt minningu Snorra. Það hefur gengið eftir og dafnar fræðimennska vel undir merkjum Snorrastofu og kirkjan hjá séra Geir.

Fyrir nokkrum mánuðum hitti ég Norðmenn, sem komu hingað til lands, í því skyni að halda fram hlut Gulaþings og stofna til samstarfs við Þingvallanefnd vörsluaðila hins forna þingstaðar á Þingvöllum. Þeir höfðu farið í Reykholt og hlýtt á séra Geir. Mátti helst ætla, að þá fyrst hefðu þeir áttað sig grundvelli norskrar sögu.

Miðvikudagur, 27. 06. 07. - 27.6.2007 21:19

Tony Blair hvarf úr embætti forsætisráðherra Breta í dag. Hann lék á als oddi í síðasta spurningatímanum í þinginu og þingmenn stóðu á fætur og hylltu hann með lófataki, þegar hann gekk úr salnum - einstæður atburður í sögu þingsins.

Gordon Brown, hinn nýi forsætisráðherra, var þungur á brún, þegar hann flutti ávarp fyrir framan Downing stræti 10 og hét því að gera sitt besta og vinna að breytingum til batnaðar. 

Í sjónvarpsumræðum þingmanna kom fram, að Blair hefði aldrei sinnt þingmennsku af alúð, hann hefði stjórnað flokki sínum og þar með þinginu úr fjarlægð og sagt af sér þingmennsku strax við afsögn sína sem forsætisráherra. Brown mundi sýna þinginu meiri virðingu.

Tony Blair tekur nú að sér að leita að friði fyrir botni Miðjarðarhafs milli Ísraela og Palestínumanna, óvist er þó hvaða umboð hann hefur til samninga í nafni kvartettsins svonefnda: Bandaríkjanna, ESB, SÞ og Rússa.

 

Þriðjudagur, 26. 06. 07. - 26.6.2007 21:11

Nýkjörin Þingvallanefnd kom saman til fyrsta fundar í dag, var ég kjörinn formaður hennar og Össur Skarphéðinsson varaformaður. Nú hefur verið fjölgað í nefndinni úr þremur þingmönnum í sjö með jafnmörgum varamönnum. Starfshættir nefndarinnar breytast í samræmi við aukinn fjölda nefndarmanna og ákváðum við á þessum fyrsta fundi að stefna að fjórum árlegum fundum.

Að loknum fundinum í húsakynnum alþingis ókum við nokkrir nefndarmenn með Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði til Þingvalla og kynntum okkur aðstæður þar og framkvæmdir á vegum þjóðgarðsins á þessu sumri. Sól var á lofti en norðanvindur þyrlaði upp þurru Sandkluftavatni fyrir norðan Þingvelli og liðu rykmekkir með Hrafnabjörgum.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun lagði ég fram minnisblað til upplýsinga um breytta starfshætti innan samsettu nefndarinnar svonefndu, það er ráðherranefndar Schengen-samstarfsins.

Mánudagur, 25. 06. 07. - 25.6.2007 21:43

Fór síðdegis á Keflavíkurflugvöll og fylgdist með æfingum íslenskra og norskra sérsveitarmanna. Þegar rætt er um samstarf við aðrar þjóðir í öryggismálum, er nauðsynlegt að hafa í huga, að gagnkvæmt samstarf á milli þeirra, sem sinna öryggisgæslu, getum við aðeins átt við borgaralegar sveitir í nágrannalöndunum - lögreglu og landhelgisgæslu. Þegar kemur að herjum þessara landa, erum við í hlutverki gestgjafans án gagnkvæmrar þátttöku af okkar hálfu.

Íslenskir sérsveitarmenn standa erlendum starfsbræðrum sínum fyllilega á sporði. Raunar slagar fjöldi íslenskra sérsveitarmanna upp í fjölda þeirra annars staðar á Norðurlöndunum. Þar eins og annars staðar er nokkrum erfiðleikum bundið að manna sveitirnar, vegna þess hve miklar kröfur eru gerðar til þeirra, sem í þeim starfa.

Metnaður og kappsemi íslenskra lögreglumanna birtist í því, hve vel hefur tekist til við sérsveit þeirra, en hún fagnar 25 ára afmæli á þessu ári.

Sunnudagur, 24. 06. 07. - 24.6.2007 22:00

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra skýrði frá því í fréttum í dag, að svo virtist sem sjóræningjaskip létu ekki sjá sig á Reykjaneshrygg núna eins og áður um svipað leyti. Í fyrra ákváðu íslensk stjórnvöld að snúast gegn þessum veiðum sem um skipulagða, alþjóðlega glæpastarfsemi væri að ræða.  Lögregla sendi frá sér tilkynningar, sem byggðust á upplýsingum frá landhelgisgæslunni.

Flutningaskipið Polestar, sem kom á miðinn til að sækja hinn ólöglega afla, lenti í miklum vandræðum með hann og gat hvorki landað honum í Japan né S-Kóreu fyrir utan að lenda á svo svörtum lista, að nýlega mátti lesa um sambærileg vandræði skipsins, þegar það var með illa fenginn afla frá miðum við Alaska.

 

Laugardagur, 23. 06. 07. - 23.6.2007 20:41

Í dag birtist forystugrein í The New York Times undir fyrirsögninni: Where are our passports? - Hvar eru vegabréfin okkar? Minnt er á, að síðan í janúar á þessu ári verði Bandaríkjamenn að framvísa vegabréfi, þegar þeir koma fljúgandi heim frá Kanada, Mexíkó, Bermúda og öðrum karabískum eyjum. Utanríkisráðuneytið, sem annist útgáfu vegabréfa, hafi haft tvö ár til að búa sig undir þessa breytingu. Eitthvað hafi greinilega farið í handaskolum, hin venjulega sex vikna bið eftir vegabréfi sé orðin að 10 til 12 vikum og nú séu um þrjár milljónir manna á biðlistanum.

Utanríkisráðuneytið segist ekki hafa átt von á öllum þessum umsóknum, það kosti sitt að fá vegabréf 97 dollara fyrir venjulega afgreiðslu, 60 dollurum meira, ef menn óski eftir hraðafgreiðslu en hún taki tvær til þrjár vikur. Fyrirtæki, sem sérhæfi sig í hraðþjónustu á þessu sviði, taki 100 til 400 dollara fyrir að útvega mönnum vegabréf á nokkrum dögum. Fyrirtækin geta keypt sér afgreiðslutíma hjá útgefanda vegabréfanna.

Útgáfa nýrra íslenskra vegabréfa, sem uppfylla allar alþjóðlegar kröfur, hófst 23. maí 2006 og hefur hún gengið vel. Fræðast má um vegabréfin á vefsíðunni www.vegabref.is. Afgreiðslutími vegabréfa er líklega ekki neins staðar styttri en hér og dæmi eru um, að menn sæki um vegabréf að morgni og taki það í afgreiðslu í Reykjanesbæ á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll og greiði 10.100 kr. fyrir en fyrir venjulega afgreiðslu greiða menn 5.100. Eins er víst, að vegabréfið berist í pósti daginn eftir að sótt er um það hjá sýslumanni,  þar er tekin rafræn mynd af umsækjanda, en hún er innifalin í verðinu. Hæstiréttur felldi nýlega dóm um, að þessi tilhögun á myndatöku væri heimil, en ljósmyndarar stefndu dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til að fá þjónustunni hnekkt.

Útbreiðsla vegabréfa er meiri hér en hjá flestum þjóðum og miklu meiri en í Bandaríkjunum en í byrjun þessa árs var talið að 73% Bandaríkjamanna ættu ekki vegabréf.

Föstudagur, 22. 06. 07. - 22.6.2007 21:46

Þegar þetta er skrifað að kvöldi, hefur ekki náðst samkomulag á leiðtogafundi Evrópusambandsins um framtíðarstjórnskipan þess. Fréttir herma að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi hótað Lech Kazcinsky, forseta Póllands, að kölluð verði saman ríkjaráðstefna til að taka ákvarðanir um hina nýju skipan, þótt Pólverjar fallist ekki á umboð þeirrar ráðstefnu og standi í vegi fyrir samkomulagi ríkjanna 27.

Einu sinni áður hefur verið kölluð saman ríkjaráðstefna án samþykkis allra, en það var árið 1988, þegar hún kom saman til að ákveða hina sameiginlegu mynt, evruna, án samþykkis Margrétar Thatcher.

Á leiðtogafundinum í Brussel var talið, að Lech Kazcinzky kynni að samþykkja málamiðlunartillögu um atkvæðaþunga einstakra ríkja í stofnunum sambandsins, en þá bárust fréttir frá Varsjá, um að tvíburabróðir hans Jaroslaw Kaczynzki, forsætisráðherra Póllands, hefði sagt í sjónvarpi, að Pólverjar hefðu gengið á vegg og það væri ekki unnt að láta endalaust undan.

Tvíburabræðurnir hafa sótt gegn Þjóðverjum af miklum þunga og nú síðast sagt, að hefði ekki verið ráðist á Pólland í síðari heimsstyrjöldinni væru íbúar landsins 50% fleiri en núna og þeir ættu ekki að gjalda þess í ósanngjörnu atkvæðavægi við ákvarðanir innan Evrópusambandsins.

ps. kl. 02.56 (04.56 í Brussel) aðfaranótt 23. júni sendi BBC frá sér tilkynningu um, að samkomulag hefði tekist á leiðtogafundinum í Brussel - Pólverjar sættust á þá niðurstöðu, að atkvæðaþungakerfið, sem þeir andmæltu, tæki ekki gildi fyrr en 2014. Lech Kazcinzky, forseti Póllands, sagðist ekki hafa þurft að gleypa neina eitraða pillu.

Samkomulagið leiðir ekki til sáttmálabreytinga hjá ESB, fyrr en það hefur verið samþykkt á ríkjaráðstefnu ESB, sem efnt verður til síðar á árinu. Sáttmálabreytingarnar taka ekki gildi, fyrr en þær hafa verið samþykktar af þjóðþingum ríkjanna 27, miðað er við gildistöku um mitt ár 2009.

Fimmtudagur, 21. 06. 07. - 21.6.2007 15:57

Hélt af stað frá Kólí snemma í morgun til Helsinki en sit nú á Kastrup og bíð eftir flugi til Keflavíkur.

Fróðlegt er að lesa um undirbúning leiðtogafundar ESB-ríkjanna, sem hefst í dag í Brussel. Í einhverju blaðanna sá ég, að Þjóðverjar séu að búa sig undir, að ekki takist að ná samkomulagi um breytingar á stjórnskipan ESB eða bjarga leifunum af stjórnarskrársáttmálanum, sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, segist ætla að halda þannig á málum, að ekki þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Tony Blair talar á sama veg fyrir sína hönd. Ef ríkisstjórnir Danmerkur og Bretlands komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu, verður hún líklega ekki neins staðar innan ESB. Svo virðist sem ráðamenn í ESB-ríkjunum óttist ekkert meira en að þurfa að leggja málefni tengd ESB undir kjósendur sína. Í Finnlandi sýna kannanir meira að segja, að meirihluti manna er orðinn andvígur ESB. Finnska þingið samþykkti hins vegar stjórnarskrársáttmála ESB á sínum tíma.

Það þykir fréttnæmt hér í Danmörku, að forsætisráðherrann opnaði eigin vefsíðu í gær blog.andersfogh.dk . Fyrrverandi spunameistari hans telur það til marks um, að ráðherrann sé að búa sig undir kosningar innan árs.

Miðvikudagur, 20. 06. 07. - 20.6.2007 21:07

Sat dómsmálaráðherrafund Norðurlanda í Koli í Finnlandi og í tilefni af honum sendi ráðuneytið út þessa fréttatilkynningu. Kristófer Helgason á Bylgjunni hringdi í mig fyrir Reykjavík síðdegis og ræddum við saman um fundinn.

Þriðjudagur, 19. 06. 07. - 19.6.2007 20:28

Flaug frá París til Helsinki og þaðan enn austar til að komast á norrænan dómsmálaráðherrafund í Kólí. Dagurinn entist varla til þessara ferðalaga.

Mánudagur, 18. 06. 07. - 18.6.2007 20:56

Við Tómas Ingi Olrich sendiherra fórum á flugsýninguna í París og heimsóttum þrjá þyrluframleiðendur: Eurocopter, Agusta Westland og Sikorsky.

Klukkan 18.00 var haldinn vel sóttur kynningarfundur, þar sem kynnt voru áform Norðmanna um kaup á nýjum björgunarþyrlum. Ég flutti þar stutta ræðu og sagði frá því, að við Íslendingar stefndum að samstarfi við Norðmenn um þyrlukaup.

Stórbrotið var að sjá hina risavöxnu Airbus þotu fljúga yfir sýningarsvæðið, hún var ótrúlega hljóðlát, þar sem hún sveif í áreynslulausum hringjum um loftið.

Sunnudagur, 17. 06. 07. - 17.6.2007 20:06

Úrslitin eru skýr í frönsku þingkosningunum - ríkisstjórn Nicolas Sarkozys heldur velli með góðum þingmeirihluta, þótt hann sé ekki eins mikill og spáð hafði verið. Sósíalistar náðu að nokkru vopnum sínum í vikunni milli fyrri og síðari lotu þingkosninganna. Jafnvægið er meira á þingi, en spáð var.

Alain Juppé, sem á sínum tíma var forsætisráðherra, tapaði naumlega í Bordeaux. Juppé stóð næstur forsætisráðherranum í hinni nýju ríkisstjórn en eftir tapið hefur hann ákveðið að segja af sér í fyrramálið. Umræður um kosningaúrslitin í sjónvarpi snúast að verulegu leyti um Juppé og afsögn hans.

Eins og ég get um pistli mínum í dag sæta hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskattinn gagnrýni og hafa dregið úr fylgi við flokk Sarkozys.

Það er léttari brúnin á sósíalistum en verið hefur undanfarið, þegar kosningaúrslit hafa verið kynnt, þeim er greinilega létt yfir því, að flokkur þeirra galt ekki afhroð. Þeir eiga hins vegar erfiða heimavinnu fyrir höndum, því að flokkurinn logar í átökum.

Laugardagur, 16. 06. 07. - 16.6.2007 13:49

Anslem Kiefer ( f. 1945 í Þýskalandi en nú búsettur í Berjat í Frakklandi) er meðal frægustu myndlistarmanna heims og frægð hans eykst enn við stórsýninguna Sternenfall - Chute d'étoiles, Stjörnuhrap, sem opnuð var í Grand Palais í hjarta Parísar 30. maí.

Grand Palais er einstakur staður til að sýna listaverk. Eftir endurreisn hússins hefur verið ákveðið að helga hinn risavaxna sal hallarinnar einum listamanni ár hvert og bera sýningarnar samheitið Monumenta.

Anslem Kiefer er hinn fyrsti, sem sýnir þarna verk sín, Richard Serra, bandaríski myndhöggvarinn, sýnir þar 2008 og franski listamaðurinn Christian Boltanski árið 2009.

Sýningargestir eru leiddir um salinn og hin risavöxnu verk með hljóðlýsingu, þar sem heyra má listamanninn ræða um listsköpun sína auk þess flytja tvö ljóðskáld, Paul Celan og Ingeborg Bachmann, ljóð sín en tvö verkanna eru einmitt gerð undir áhrifum ljóðanna, sem lesin eru.

Í bóksölu sýningarinnar vöktu Íslendingasögur auk Snorra Eddu á frönsku athygli mína. Anslem Kiefer segir, að 60% af tíma hans til listsköpunar snúist um bækur og bókagerð. Íslenskar fornbókmenntir eru greinilega meðal þess, sem hann vill kynna í bóksölu sýningarinnar  í Grand Palais - Gísla saga Súrssonar blasti við, þegar ég borgaði bókina, sem ég keypti.

Í Morgunblaðinu 20. desember 2003 var sagt frá því, að í enskri útgáfu bókaforlagsins Guðrúnar á Snorra Eddu væru 322 myndir eftir nærri 60 listamenn og ætti Anslem Kiefer tvö verk í bókinni og mynd eftir hann prýddi forsíðu hennar - hún ber heitið Miðgarður. 

Á vefsíðu tímaritsins Mannlífs eru sögð ósannindi  um afskipti mín af skattamálum Baugsmanna - en þau eru til opinberrar rannsóknar. Nýlega var í Þjóðmálum farið ofan í saumana á sannleiksgildi orða Jóhannesar Jónssonar kaupmanns um embættisveitingar mínar. Segja má, að eftir höfðinu dansi limirnir, þegar sannleiksástin á í hlut á þessum bæ.

Föstudagur, 15. 06. 07. - 15.6.2007 21:50

Hitti fulltrúa Eurocopter með Tómasi Inga Olrich sendiherra í sendiráðinu hér í París og greindi þeim frá framvindu þyrlumála Landhelgisgæslu Íslands.

Í kvöld fórum við með sendiherrahjónunum á tónleika í Salle Pleyel, þar sem franska útvarpshljómsveitin lék. Myung-Whun Chung stjórnaði en Emanuel Ax lék einleik í píanókonsert Brahms nr. 2.

Tónkeikasalurinni hefur nýlega verið gerður upp eins svo mörg önnur menningarhús hér í París.

Kosningabaráttan fyrir seinni umferð frönsku þingkosninganna á sunnudag hefur einkum snúist um skattamál. Ríkisstjórnin skýrði frá því, að hún hefði hug á að fella félagslega skatta af fyrirtækjum og hækka frekar virðisaukaskatt til að standa undir félagslegum útgjöldum. Sósíalistar gera mikið veður út af þessu og telja sér til framdráttar, að þessi stefna stjórnarinnar hafi verið kynnt. Francois Fillon forsætisráðherra segir þetta eigi ekki að koma neinum á óvart, þetta hafi verið og sé stefna ríkisstjórnarinnar og betra sé að árétta hana í kosningabaráttunni en að vera sakaður um að koma aftan að kjósendum síðar.

Fimmtudagur, 14. 06. 07. - 14.6.2007 20:42

Var í hádeginu á fundi í UNESCO og hitti þar einn af forstöðumönnum heimsminjaskrifstofunnar og ræddi við hann um Þingvelli og tillögur Íslendinga um fleiri staði á skrána, þar á meðal Surtsey. Tillaga um hana er komin til efnislegrar athugunar hjá sérfræðingum skrifstofunnar.

Við fórum í kvöldheimsókn í safnið Les Arts Décoratifs - hönnunarsafnið, sem var opnað að nýju í september 2006 eftir 10 ára lokun - það er víðar en á Íslandi, sem menn gefa sér góðan tíma til að enfurnýja söfn og sýningar. Frökkum tókst vel að endurgera þetta mikla safn sitt, sem er í einni álmu Louvre-hallarinnar við rue de Rivoli. Áhugamenn geta kynnt sér safnið á vefsíðunni www.lesartsdecoratifs.fr

Þegar litið er til baka, verða ræður Marðar Árnasonar og fleiri um Þjóðminjasafnið og endurnýjun þess  taldar til skrýtilegri þátta íslenskra safnamála. 

Frakkar ganga til síðari hluta þingkosninga nk. sunnudag. Ekkert bendir til þess í París, að minnsta kosti ekki í þeim hverfum, sem ég hef heimsótt, að háð sé hörð kosningabarátta. Nicolas Sarkozy og hans menn munu vinna stórsigur og hafa raunar gert það í fyrri umferðinni sl. sunnudag. Sósíalistar eru í sárum.

Miðvikudagur, 13. 06. 07. - 13.6.2007 20:05

Flugum í morgun frá Lúxemborg til Parísar. Það rifjar upp gamlar og góðar minningar að fara um flugstöðina á Findel-flugvelli, en nú fer líklega hver að verða síðastur að nota hana, því að við hlið hennar hefur verið reist ný og mun reisulegri flugstöðvarbygging.

París höfðar alltaf jafn sterkt til mín og við fórum í dag á nýjar slóðir í 2. hverfi og heimsóttum staði, sem við höfum aldrei skoðað áður. Veðrið var milt og gott en undir kvöldmat skall á þrumuveður, eftir að það var gengið yfir skruppum við í kvöldheimsókn í Louvre-safnið, en það er opið tvö kvöld í viku. Þá er bæði færra fólk á ferðinni en á daginn og aðgangseyrir lægri, svo að um kostakjör er að ræða!

Þriðjudagur, 12. 06. 07. - 12.6.2007 19:37

Klukkan 10.00 hófst Schengen-ráðherrafundur hér í Lúxemborg og stjórnaði Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, honum af mikilli festu. Á fundinum hitti ég meðal annarra Michele Alliot-Marie, nýjan innanríkisráðherra Frakka, en á sínum tíma, þegar hún var varnarmálaráðherra, heimsótti ég hana í ráðuneyti hennar í París - hvergi hefur verið tekið á móti mér á virðulegri hátt en þar.

Schengen-fundir eru sóttir af dómsmálaráðherrum, innanríkisráðherrum og innflytjetndaráðherrum. Ræðst það af stjórnarháttum einstakra landa, hvernig þessum verkefnum er skipt á milli manna.

Í Frakklandi var til dæmis stofnað sérstakt innflytjendaráðuneyti, eftir að Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti. Brice Hortefeux, náinn samstarfsmaður forsetans, gegnir því embætti, en við Tómas Ingi Olrich sendiherra hittum Hortefeux í sömu ferð og við sátum fund með Ailliot-Marie. Í þingkosningunum um síðustu helgi styrktist pólitísk staða þessara frönsku stjórnmálamanna mjög - má það meðal annars rekja til þess, hvernig þau hafa tekið á innanríkis- og innflytjendamálum.

Eftir Schengen-fundinn hitti ég fulltrúa úr norsku sendinefndinni og ræddum við þyrlumál.

Í hádegi heimsótti ég EFTA-dómstólinn og tók Carl Baudenbacher, forseti dómstólsins, á móti okkur með þeim Þorgeiri Örlygssyni og Henrik Bull dómurum auk Skúla Magnússonar, framkvæmdastjóra dómstólsins.

Síðdegis heimsóttum við Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Kristrún Kristinsdóttir, fullrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í Brussel, síðan höfuðstöðvar Landsbanka Íslands, þar sem Gunnar Thoroddsen, forstjóri bankans, kynnti okkur starfsemina.

Mánudagur, 11. 06. 07. - 11.6.2007 18:40

Héldum áfram um hádegisbil frá London til Lúxemborgar, ætluðum með hraðlestinni frá Paddington-stöð út á Heathrow. Vorum sest í lestina, þegar tilkynnt var, að stöðin væri lokuð vegna „signal failure“ - við þorðum ekki að taka neina áhættu vegna seinkunar á lestum og tókum því leigubíl á völlinn. Bílstjórinn sagði ákaflega sjaldgæft, að þetta gerðist.

Sunnudagur, 10. 06. 07 - 11.6.2007 18:34

Flugum með morgunflugi til London og hittum fjölskyldu okkar þar.

Laugardagur 09. 06. 07. - 9.6.2007 21:56

Fórum austur að Breiðabólstað í Fljótshlíð í dag til að fagna 200 ára afmæli sr. Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns með því að horfa á leikþátt eftir Guðrúnu Ásmundsdóttur í kirkjunni og þiggja kirkjukaffi.

Á mbl.is stendur:

„Háskólar á Íslandi sitja ekki við sama borð gagnvart stjórnvöldum, sagði Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, við brautskráningu kandidata í dag. Þorsteinn sagði einkaháskólana njóta mun meira fjárhagslegs frelsis en opinberir háskólar. Þessi mismunun sé afar sérstæð og þekkist slíkt óréttlæti vart í nálægum löndum.“

Þessi mismunun er ekkert sérstæð. Ríkisháskólar geta hvergi keppt við einkarekna háskóla. Hvarvetna þar sem menn horfast í augu við þessa samkeppni af raunsæi átta þeir sig á því, að skólagjöld eru nauðsynleg - eða hækkun skatta. Með þessa staðreynd í huga voru tekin upp skólagjöld í Bretlandi og þau eru að ryðja sér rúms í æ fleiri Evrópulöndum. Ríkisreknir bankar geta ekki keppt við einkarekna - hið sama á við um háskóla.

Föstudagur, 08. 06. 07. - 8.6.2007 22:02

Sumarhefti Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar kom út í dag með fjölbreyttu efni. Skora ég á lesendur síðu minnar að kynna sér þetta nýja hefti og raunar að gerast áskrifendur að tímaritinu en það má gera hér á netinu í hinni ágætu bóksölu á andriki.is.

Jakob sýnir mér þann vináttuvott að taka saman grein um embættisveitingar mínar sem menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálráðherra vegna gagnrýni í aðdraganda kosninganna. Jakob birtir nöfn allra, sem ég hef skipað eða ráðið, frá því að ég varð ráðherra 1995. Hljóta menn að sannfærast um, að María Kristjánsdóttir getur ekki haft rétt fyrir sér, þegar hún segir á vefsíðu sinni, að ég skipi í „embætti óhæfa menn fremur en hæfa.“ Vonandi undirbýr María leikdóma sína fyrir Morgunblaðið betur en þennan sleggjudóm.

Í vorhefti Skírnis skrifar Alda Björk Valdimarsdóttir greinina: Vera Hertzsch. Snýst greinin um örlög Veru, frásögn Halldórs Laxness af handtöku hennar og stöðu atburðarins í höfundarverki Laxness. Hún vitnar í pistil eftir mig frá því í mars 2003 og veltir fyrir sér, hvort í orðum mínum þar felist hugsanlega, að handtöku Veru megi rekja til heimsóknar Halldórs til hennar, eða Halldór beri ábyrgð á henni. Ég hef hvergi ýjað einu orði að því heldur undrast þá tilviljun, að lögreglan skyldi koma til Veru, þegar Halldór var á heimili hennar.

Grein Öldu Bjarkar er í ætt við óleysta leynilögreglugátu, mörgum spurningum er enn ósvarað, eins og þeirri, hvort Halldór hafi hreinlega skáldað það, að hann hafi verið viðstaddur handtökuna - en Hannes Hólmsteinn Gissurarson vitnar í Þórberg Þórðarson, sem taldi þetta uppspuna hjá Laxness.

Fimmtudagur, 07. 06. 07. - 7.6.2007 19:46

Klukkan 16. 30 var ég í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands og fagnaði með starfsmönnum hennar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins komu börgunarþyrlunnar TF-Gná, sem er fullkomin Super-Púma vél, sem enn eflir leitar- og björgunarmátt gæslunnar.

Karl Rosengren og tíu aðrir Svíar stefndu sænska ríkinu fyrir dóm, þegar spænskt vín, sem þeir höfðu pantað á danskri vefsíðu, var gert upptækt við sænsku landamærin. Málið fór fyrir hæstarétt Svía, sem leitað forúrskurðar Evrópusambandsdómstólsins. ESB-dómararnir komust að þeirri niðurstöðu, að ekki mætti banna Svíunum að flytja áfengi til Svíþjóðar, bannið bryti gegn meginreglu ESB um frjáls viðskipti. Samkvæmt sænskum lögum má aðeins kaupa áfengi. sem er sterkara en 3,5%, í Systembolaget, sænska „ríkinu“.

Vörn sænska ríkisins byggðist á því, að í innflutningtakmörkunum fælist viðleitni til að vernda heilsu landsmanna. Dómstóllinn taldi, að viðskiptahindrunin væri „óheppileg til að ná því markmiði að takmarka áfengisneyslu almennt og ekki hæfileg til að ná því markmiði að vernda ungt fólk frá skaðlegum áhrifum áfengis.“

Hæstiréttur Svíþjóðar hefur ekki enn komist að niðurstöðu sinni en Maria Larsson, heilbrigðisráðherra Svía, segir, að áfengiseinkasalan hverfi ekki úr sögunni. Sænsk stjórnvöld muni áfram vinna að því að draga úr áfengisneyslu.

Miðvikudagur, 06. 06. 07. - 6.6.2007 21:59

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar, gagnrýndi kosningaáróðursblað DV og auglýsingu Jóhannesar Jónssonar kaupmanns mér til höfuðs og velti fyrir sér, hvort endurskoða þyrfti lög um fjárstuðning til stjórnmálastarfsemi af þessu tilefni. Geir H. Haarde forsætisráðherra var jákvæður í garð tillögu Guðna.

Deila Egils Helgasonar við 365 og Ara Edwalds hefur nú tekið þá stefnu, að Agli hefur verið gert ókleift að tjá sig á visir.is. Er þetta líklega í fyrsta sinn sem bloggsíða er ritskoðuð á þennan hátt. Fyrir bannfæringu hafði Egill ritað athugasemd um samskipti sín við eigendur síðunnar í pistli á henni. Eftir bannfæringu hefur Egill beðið Pétur Gunnarsson að birta fyrir sig athugasemd á síðu Péturs. Ari Edwald hefur svarað athugasemdinni með tölvupósti í athugasemdadálki síðunnar. Ari heldur því  enn fram, að Egill hafi brotið samning við sig. Egill segist aldrei hafa lent í öðru eins og hann þurfi meira að segja að leita til lögfræðings til að gæta hagsmuna sinna. Egill hafnar því að tugir milljóna séu þarna í húfi en Ari segir svo vera.

ps. eftir að ég hafði sett þetta í dagbókina barst mér eftirfarandi bréf frá Þóri Guðmundssyni, ritstjóra visir.is:

„Mig langar að leiðrétta leiðan misskilning sem uppi er um skrif Egils Helgasonar á Vísi og hefur ratað í færslu á síðu þinni í dag. Eftir að Egill sendi mér og öðrum kollegum sínum póst með fyrirsögninni "Takk fyrir og bless", og útskýrði að hann væri hættur störfum hjá 365, gaf ég fyrirmæli um að aðgangi hans inn í ritstjórnarkerfi Vísis væri lokað. Þetta er hefðbundið verklag enda óeðlilegt að fólk sem fer frá miðlinum hafi áfram aðgang að ritstjórnarkerfinu.

Ég ráðfærði mig á engan hátt við Ara Edwald við þessa ákvörðun, enda engin ástæða til. Skilningur Egils var augljóslega sá að hann væri hættur störfum hjá fyrirtækinu og þó sá skilningur væri umdeildur þá fannst mér ekki líklegt að Egill hefði áhuga á að skrifa inn á Vísi nema um það væri samið sérstaklega. Þessa ályktun byggði ég reyndar á póstum okkar í milli.

Rétt er að taka fram að skrif Egils á Vísi voru hluti af starfssamningi hans við 365. Hann fékk því borgað fyrir þau. Vefsíðan er staðsett á ritstjórnarhluta Vísis, ekki á bloggsíðum miðilsins. Aðgangur að henni er í gegnum ritstjórnarkerfið, ekki í gegnum bloggkerfið sem allur almenningur hefur aðgang að.“

pps. Egill hefur ákveðið að „heiðra“ samning við Ara en jafnframt sagt honum upp með 3ja mánaða fyrirvara. 

Þriðjudagur, 05. 06. 07. - 5.6.2007 22:34

George W, Bush, forseti Bandaríkjanna, flutti ræðu í Prag í dag, þar sem hann sagði, að Rússar þyrftu ekki að óttast eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna. Rússland væri ekki óvinur Bandaríkjanna. Vinátta Bandaríkjanna við Rússland og Kína væri „flókin“. Umbætur í Rússlandi, sem á einhverju stigi virtust eiga að færa meira vald til íbúa landsins, hefðu farið út af sporinu og það leiddi til vandræða fyrir lýðræðislega þróun í landinu. Ákveðin lýðræðisleg gildi væru algild, þótt þjóðfélög þróuðust á ólíkum hraða.

Tónninn í yfirlýsingum forseta Rússlands og Bandaríkjanna sýnir, að samskipti þeirra hafa tekið nýja stefnu. Spurning er, hvort hann herðist eða mildast á fundi átta helstu iðnríkja heims, G8-ríkjanna, næstu daga.

Þetta verður síðasti G8-leiðtogarfundurinn, sem Tony Blair situr. Óvissa er um, hvort Gordon Brown, eftirmaður hans, verður eins eindreginn samstarfstarfsmaður Bush. Nicolas Sarkozy, nýr Frakklandsforseti, stendur nær Bush en forveri hans, Jacques Chirac - Sarkozy kann að fylla skarð Blairs, ef Brown hikar.

 

Mánudagur, 04. 06. 07. - 4.6.2007 22:25

Geir H. Haarde mælti á þingi í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á stjórnarráðslögunum, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir flutningi skóla frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Þetta er fyrir löngu tímabært. Fyrir nokkrum árum var atkvæðagreiðsla um málið á landsfundi sjálfstæðismanna og var yfirgnæfandi meirihluti fyrir því, að þessir skólar yrðu hluti af hinu almenna skólakerfi.

Hótanir Vladimirs Putins um að beina kjarnorkueldflaugum að Evrópu er ekki eina merkið um vilja rússneskra ráðmanna til að skerpa andstöðuna við Vesturlönd. Allar nýlegar fréttir af fundum vestrænna ráðamanna með Putin bera með sér kulda hans í garð viðmælenda sinna. Innan lands er öll gagnrýni á Kremlverja kæfð í fæðingu, beitt er fangelsunum og þaggað niður í fjölmiðlum. Taugastríðið milli Rússa og Eista, valdabarátta í Úkraínu eða deilur um landamæri Rússlands og Georgíu, svo að ekki sé talað um stríðið í Tsjetsjeníu eru til marks um, að næstu nágrannar Rússlands þurfa að vera á varðbergi.

Hið vinstrisinnaða breska blað The Guardian sagði í forsíðufrétt í dag, að nýtt kalt stríð væri hafið. Í kvöldfréttum BBC var fluttur kafli úr ræðu Churchills, þegar hann sagði járntjald fallið frá Stettin og suður til Trieste í Evrópu og sýnd mynd af skiptingu álfunnar eftir síðari heimsstyrljöldina og hvernig veldi kommúnista hefur minnkað frá lokum kalda stríðsins.

Sunnudagur, 03. 06. 07. - 3.6.2007 22:02

Vladimir Putin, Rússlandsforseti, segir í viðtali við Corriere Della Sera, að Rússar kunni að beina kjarnorkueldflaugum gegn skotmörkum í Evrópu, ef Bandaríkjamenn setji upp gagneldflaugstöðvar í álfunni. Rússar hafa ekki beint eldflaugum gegn Evrópu síðan í kalda stríðinu. 

Síðastliðinn þriðjudag gerðu Rússar tilraun með langdræga kjarnorkueldflaug, RS-24, í því skyni að viðhalda hinu „strategíska jafnvægi“ í heiminum. Með henni hittu þeir skotmark í 5.500 km fjarlægð. Rússar segja flaugina hannaða með það fyrir augum, að hún komist í gegnum eldflauga-varnarkerfi.

Bandaríkjamenn vilja hafa gagneldflaugar í Póllandi og ratsjárstöð í Tékklandi til að geta varist árásum frá ríkjum á borð við Íran og Norður-Kóreu.

Þegar þeir Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov hittust hér í Reykjavík í október 1986, hafnaði Reagan alfarið kröfu Gorbatsjovs um, að Bandaríkjamenn féllu frá áformum um varnir gegn kjarnorkuelflaugum.

Laugardagur, 02. 06. 07. - 2.6.2007 22:58

Skýrt er frá því, að Egill Helgason fari með silfur sitt í sjónvarp ríkisins og verði þar einnig með bókmenntaþátt. Hann segist ekki una við aðstæður í myndveri Stöðvar 2, aðstæður séu mun betri hjá ríkinu og starfsfólk fleira, auk þess sem hann segist telja meira frelsi hjá RÚV en áður, eftir að ohf kom aftan við nafnið, áhrif stjórnmálamanna hafi minnkað og loks þekki hann Pál Magnússon útvarpsstjóra og treysti honum. Egill lauk ferli sínum á Stöð 2 með viðtali við Jóhannes Jónsson kaupmann eiganda stöðvarinnar, en Egill bar blak af auglýsingum Jóhannesar í kosningabaráttunni. Ari Edwald, forstjóri Stöðvar 2, telur Egil brjóta samning við fyrirtækið en Egill hafnar því, hann hafi unnið út umsaminn tíma.

Sama dag og Egill veitir fjölmiðlum samtöl um vistaskipti sín og ágæti RÚV birtir Blaðið viðtal við Björgu Evu Erlendsdóttur, fráfarandi þingfréttaritara hljóðvarps ríkisins, sem hefur látið af störfum á fréttastofunni eftir 17 ár. Hún sættir sig illa við að ohf hafi verið sett aftan við RÚV og gagnrýnir stjórnarhætti á fréttastofunni.

Föstudagur, 01. 06. 07. - 1.6.2007 23:03

Ellert B. Schram segir í DV, að hann hann hafi flúið frjálshyggjuna og skýrir þannig brotthvarf sitt úr Sjálfstæðisflokknum. Nú hefur verið mynduð frjálslynd umbótastjórn með stuðningi Ellerts. Stjórn, sem fellur undir Blairisma og þar með frjálshyggju að skilningi sósíalista.

Ellert flýr ekki frjálshyggjuna með sama óvildarhug og Sverrir Hermannsson gerði og sett hefur svip á óteljandi greinar hans síðan. Ellert fer vinsamlegum orðum um marga af fyrrverandi samherjum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Ég þakka honum vinsamleg orð í minn garð, bæði í þessu viðtali og í annan tíma. 

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir sjálfstæðisstefnuna og hún hefur vissulega skerpst af straumum frjálshyggju - flokkurinn hefur þó aldrei horfið frá uppruna sínum, það er  samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Hitt er athyglisvert fyir þróun stjórnmála, að hægfara hægrimaður á borð við Ellert skuli finna sér sess í Samfylkingunni. Í raun segir það meira um þróun stjórnmála til hægri og þar með frjálshyggju en stefna og gjörðir Sjálfstæðisflokksins.

Bubbi Morthens segir í sama tölublaði DV í dag:„Ef ég væri flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum, þá myndi ég segja að ég væri vinstrisinnaður sjálfstæðismaður. Ég er sjálfstæðismaður að því leyti að ég er það sem ég er og reyni að standa undir því sem ég er. Ég held að ef ég gengi í Sjálfstæðisflokkinn þá væri pláss fyrir mínar skoðanir þar.“