29.6.2007 17:56

Föstudagur, 29. 06. 07.

Fundur okkar norrænu ráðherranna um útlendingamál hófst kl. 08.30 í Reykholti. Veðrið gat ekki verið fegurra en við sátum á rökstólum fram undir hádegi. Erlendu gestirnir héldu til Keflavíkurflugvallar og tóku síðdegisvél til Kaupmannahafnar.

Ég mæli með Reykholti til funda af þessu tagi - ekki síst fyrir Norðurlandabúa, sem öðlast dýpri skilning á eigin sögu og menningu með því að komast í kynni við Snorra á hans gamla höfuðbóli - nú er unnt að ganga um rústir bæjar hans og sjá með eigin augum, hvar hann var höggvinn.

Á Norðurlöndunum eru ráðherrar að búa sig undir sumarleyfi. Danska ríkisstjórnin kom saman til síns síðasta fundar fyrir sumarfrí í dag og næsti fundur hefur verið boðaður 28. ágúst. Svo löng hlé á fundum ríkisstjórnar Íslands tíðkast ekki - hún kemur saman hvern þriðjudag, þegar þing situr ekki, en þriðjudag og föstudag á þingtíma. Eitt sinn var rætt, hvort frekar ætti að hafa seinni fund vikunnar á fimmtudegi en föstudegi.