Dagbók: mars 2006

Föstudagur, 31. 03. 06. - 31.3.2006 21:07

Ríkisstjórn kom saman klukkan 09. 30 eins og venjulega á föstudögum, þegar þing situr. Klukkan 11.00 var þingflokksfundur sjálfstæðismanna og snerust umræður einkum um frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um nýsköpunarmiðstöð og breytingar á vísinda- og tækniráði. Ég sé ekki sömu hættur í þessu frumvarpi og sumir samflokksmenn mínir á þingi, en þingflokkurinn samþykkti framlagningu frumvarpsins, þótt skiptar skoðanir séu um efni þess. Þá eru sjálfstæðisþingmenn einnig reiðir yfir því, hvernig staðið var að kynningu frumvarpsins á opinberum vettvangi, áður en þingmönnum var kynnt efni þess.

Í dag var efnt til viðræðna um varnarmál milli sendinefnda Íslands og Bandaríkjanna og var Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri, fulltrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytis í íslensku nefndinni, en Albert Jónsson leiðir hana. Bandaríkjamenn sendu 26 menn til viðræðnanna, sem segir mér, að þeir hafi ekki gert upp hug sinn um það, hvernig þeir ætla að standa að framkvæmd varnarsamningsins, eftir að þoturnar eru horfnar héðan. Enda kom það fram að loknum fundunum, að þar hefðu málin verið rædd á almennum grunni en innan fárra vikna myndu Bandaríkjamenn leggja fram hugmyndir sínar um það, sem tæki við eftir brottför þotnanna.

Fimmtudagur, 30. 03. 06. - 30.3.2006 18:35

Í dag efndi dóms- og kirkjumálaráðuneytið til forstöðumannafundar í annað sinn og flutti ég þar setningarræðu en útlínur hennar má sjá hér.

Miðvikudagur, 29. 03. 06. - 29.3.2006 11:50

Nú er að líða að lokadegi til að skila frumvörpum í alþingi til að unnt sé að afgreiða þau án afbrigða á vorþingi - en síðasti skiladagur er 1. apríl. Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í dag frumvörp mín, sem eftir voru, og ég legg fram fyrir 1. apríl. Verða þau væntanlega lögð fram á þingi fimmtudag eða föstudag.

Ýmis mikilvæg mál frá mér bíða afgreiðslu þingsins næstu vikur.

Þriðjudagur, 28. 03. 06. - 28.3.2006 19:45

Klukkan 09.00 hélt Evrópunefndin af stað til fundar við forystumenn EUROPOL í höfuðstövum hennar í Haag og vorum við þar fram undir hádegi þegar haldið var til EUROJUST sem einnig er í Haag. Við fræddumst um þessar stofnanir en héldum akandi til flugvallarins um klukkan 15.00 og síðan um London heim og var lent hér kl. 23.30.

Mánudagur, 27. 03. 06. - 27.3.2006 19:49

Fór klukkan 07.45 um Kaupmannahöfn og Amsterdam til Haag, en þangað var komið um kl. 17.30 að staðartíma og klukkutíma síðar hóf Evrópunefndin að funda en Þórir Ibsen í fastanefnd Íslands hjá NATO í Brussel kom til fundar við okkur og ræddi um utanríkis- og öryggismál ESB.

Sunnudagur, 26. 03. 06. - 26.3.2006 18:50

Klukkan rétt fyrir 11.00 var hringt í okkur í Fljótshlíðinni og sagt, að æfing væri hafin vegna eldsumbrota í Mýrdalsjökli og hætta væri á flóði vestur yfir Markarfljót. Samkvæmt áætlun, sem okkur hafði verið kynnt, höfðum við 30 mínútur til að búast til brottfarar og halda til skráningar á stöð Rauða krossins, annað hvort í grunnskólanum á Hvolsvelli eða á Hellu. Við skildum eftir þar til gert skilti um brottför okkar frá bænum og héldum til Hellu og skráðum okkur en síðan héldum við í höfuðstöðvar Flugbjörgunarsveitarinnar, þar sem aðgerðum var stjórnað undir forystu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli. Á heimleiðinni litum við inn í grunnskólann á Hvolsvelli og þar var fjöldi manns að láta skrá sig hjá starfsmönnum Rauða krossins.

Á leið til Reykjavíkur síðdegis leit ég aftur inn í stjórnstöðina en þá var æfingunni lokið og menn sáttir við árangurinn en 656 manns létu skrá sig hjá Rauða krossinum.

Í fréttum er sagt, að milli 1400 og 1500 manns hefðu komið að æfingunni Bergrisinn um helgina og er þakkarvert, hve vel þetta hefur gengið, en aldrei fyrr hefur verið efnt til sambærilegrar æfingar hér á landi.

Fréttablaðið birtir niðurstöðu í skoðanakönnun í dag, þar sem tæp 54% kjósenda í Reykjavík segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum í vor og fengju þeir 9 menn, um 33% Samfylkinguna sem fengi 5 og, 6,7% vinstri/græna, sem fengju 1. Þá koma frjálslyndir með rúmlega 3% og framsóknarmenn reka lestina með 3% en hvorugur fengi mann kjörinn. Framsóknarmenn koma þannig illa frá samstarfinu innan R-listans og hafa ekki haldið þeim byr, sem þeir virtust vera að fá við prófkjör sitt. Þá blasir við, að vinstri/grænir standa illa inna höfuðborgarinnar og gjalda einnig samstarfsins innan R-listans, en augljóst er, að Samfylkingin gerir tilkall til þess, að litið sé á hana sem arftaka R-listans og leitast við að gera sem minnst úr hlut samstarfsmanna sinna innan listans.

Laugardagur, 25. 03. 06. - 25.3.2006 11:40

Klukkan 10.42 var hringt til mín og mér tilkynnt sem hluta af æfingunni Bergrisinn, að eldsumbort væru að hefjast í Kötlu og gerðar hefðu verið ráðstafanir til að virkja samhæfingarmiðstöð almannavarna og kalla saman fund vísindamanna til að leggja mat á stöðuna. Um hálftíma síðar var mér tilkynnt, að rýming fólks á svæðinu væri að hefjast.

Í færslu hér á síðuna í gær vitnaði ég í Ólaf Teit Guðnason, þar sem hann fjallaði meðal annars um blaðamennsku DV. Dæmi um það, hvernig DV tekur á málum, sem snerta mig má sjá í svonefndri fréttakýringu í blaðinu í dag eftir Jakob Bjarnar Grétarsson en þar ræðir hann skipun dómara í hæstarétt og gefur þessa skýringu á því, að ég skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson dómara þar:

„Heimildir DV herma að það skipti máli þegar Björn skipaði óvænt Ragnheiði Torfadóttur rektor við MR, 7. apríl 1995. Meðal umsækjanda þá var Ólafur Oddsson menntaskólakennari. Svo sjálfsagt mun Davíð hafa þótt að Ólafur fengi stöðuna að hann hafði ekki fyrir því að árétta það við Björn. Svo mjög varð Davíð við, samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV, að hann horfði í gegnum Björn næsta árið, yrti hvorki á hann né svaraði símhringingum hans. Þessi meðferð varð svo til þess að Björn hikaði hvergi, þótt það væri gegn öllu öðru, að skipa Ólaf Börk.“

Allt í þessari tilvitnuðu klausu er rangt annað en það, að Ólafur Oddsson, gamall félagi minn úr Háskóla Íslands og hálfbróðir Davíðs, sótti um að verða rektor MR ásamt Ragnheiði Torfadóttur  og ég skipaði Ragnheiði. Dagsetningin er röng - ég varð ekki ráðherra fyrr en 23. apríl 1995 og lýsing Jakobs á samskiptum okkar Davíðs er uppspuni frá upphafi til enda. Ég veit ekki hverjir það eru, sem gera Jakob að ósannindamanni, því að ekki lætur hann heimildamanna sinna getið. Jakob hafði ekki frekar nú en áður, þegar hann skrifar eitthvað til að gera lítið úr hlut mínum, samband við mig til að hafa það sem sannara reynist. Miðað við fyrri vinnubrögð Jakobs kæmi mér ekki á óvart, að hann hefði samið það, sem Ólafur Teitur taldi einsdæmi í fjölmiðlarýni sinni og ég nefndi hér í gær.

Föstudagur, 24. 03. 06. - 25.3.2006 11:02

Í ríkisstjórn lagði ég fram til kynningar, hvernig ég ætlaði að standa að því að komast að niðurstöðu um nýjan þyrlukost fyrir landhelgisgæsluna í bráð og lengd.

Síðdegis komu nemendur frá Viðskiptaháskólanum Bifröst á minn fund til að ræða við mig stöðuna í varnarmálum og ræddum við saman í tæpan klukkutíma. Mér finnst nauðsynlegt að árétta í slíkum viðræðum, að ekki sé við því að búast, að íslensk stjórnvöld dragi úr skúffum sínum hernaðarlegt eða herfræðilegt mat á varnarþörf lands og þjóðar. Þau hafi einfaldlega ekki haft slíkt mat á könnu sinni, Íslendingar hreyki sér einmitt af því, að hafa ekki eigin her - hvers vegna eigi þá að búast við því, að stjórnvöld þeirra séu að velta fyrir sér hlutverki hers? Stjórnvöld eigi hins vegar að sjá um löggæslu og um hana séu skýrar áætlanir.

Ég þakka Ólafi Teiti Guðnasyni á Viðskiptablaðinu þrautseigju hans við að benda á léleg vinnubrögð á íslenskum fjölmiðlum eða ómaklega meðferð þeirra á mönnum og málefnum. Hann hefur oftar en einu sinni tekið upp hanskann fyrir mig og gerir það enn á þennan hátt í blaðinu í dag:

„Í síðasta pistli var bent á að NFS hefði ranglega fullyrt í liðinni viku, að Björn Bjarnason hefði brotið jafnréttislög við skipan hæstaréttardómara haustið 2003. Enginn dómur liggur fyrir um það heldur aðeins álit kærunefndar jafnréttismála - þeirrar sömu og áleit að Valgerður H. Bjarnadóttir hefði brotið jafnréttislög við ráðningu leikhússtjóra á sínum tíma.

En NFS er ekki af baki dottin. Nei, stöðin fullyrti þetta aftur í aðalfréttatíma sínum í fyrradag, eins og ekkert væri sjálfsagðara. - Sagt er að sannleikurinn geri menn frjálsa, en ætli í þessu máli sé ekki óhætt að spá því að lygin geri þá brátt hása.

***

DV segir kosti og galla á fólki í föstum dálki í blaðinu, eða fær nánar tiltekið til þess þrjá einstaklinga sem þekkja vel til viðkomandi. Efst í dálkinum dregur blaðið síðan saman fáeina kosti og galla sem fólk nefnir í viðtölunum sem birt eru fyrir neðan. Téður Björn var nýlega tekinn fyrir með þessum hætti í blaðinu - en þá tók blaðið upp á því. sem er algjör nýbreytni, að búa sjálft til ýmsa galla á honum í samantektinni efst. Enginn viðmælandi hafði nefnt neitt af því sem þar var búið til.“

Fimmtudagur, 23. 03. 06. - 23.3.2006 22:11

Frumvarp, sem ég flutti sl. þriðjudag um ný vegabréf með lífkennum, hefur ekki vakið mikla athygli í fjölmiðlum. Það er skrýtið vegna þess að fyrr í vetur skrifaði til dæmis Morgunblaðið töluvert um þetta mál og þá sérstaklega frá sjónarhóli ljósmyndara, sem töldu að sér vegið með því, að almenningur gæti sjálfur tekið af sér rafræna mynd hjá sýslumanni eða lögreglu, þegar sótt væri um hið nýja vegabréf. Mig minnir einnig að blaðið hafi látið í ljós vanþóknun á því, að rætt væri um, að hin nýju vegabréf yrðu dýrari en þau, sem nú eru útgefin og komu til sögunnar 1999 með tölvulesanlegri rönd.

Samkomulag náðist við ljósmyndara um, að þeir gætu sent rafræna mynd af umsækjanda til útgefanda vegabréfs og þannig yrðu þeir ekki endilega af viðskiptum vegna nýju vegabréfanna. Í ræðu minni vegna frumvarpsins skýrði ég frá því, að það hefðu tekist svo hagstæðir samningar um tæki til að framleiða vegabréfin ( en það verður gert í Reykjanesbæ og skapar 4 ný störf), að ekki þyrfti að hækka verð á vegabréfum vegna breytingarinnar.

Morgunblaðið gerði verði á vegabréfum svo hátt undir höfði, að það birti nöldurleiðara um málið 30. nóvember 2005, þar sem sagði meðal annars:

„Það væri athyglisvert að sjá greiningu á þeim kostnaði sem liggur að baki útgáfu vegabréfa hér á landi. Þótt að sjálfsögðu verði að gæta fyllsta öryggis og beita nýjustu tækni við útgáfu þessara mikilvægu skilríkja er erfitt að gera sér í hugarlund að beinn kostnaður réttlæti þessa háu gjaldtöku.“

Kvartaði blaðið sérstaklega undan því, að menn þyrftu að greiða hátt verð fyrir flýti-afgreitt vegabréf, en sú þjónusta hefur verið einstaklega góð hjá útlendingastofnun. Skyldi Morgunblaðið rita fagnaðarleiðara núna vegna hins óbreytta verðs?  

Það er fjallað um þessi e-vegabréf í fagritinu CardTechnology og sagt frá því, að almennt hækki þau í verði: Ástralíu úr 115 USD í 129 USD; Hong Kong úr 41 USD í 59 USD; Tékklandi úr 8 USD í 37 USD; Þýskalandi úr 31 USD í 71 USD; Bretlandi úr 82 USD í 91 USD; Bandaríkjunum úr 85 USD í 97 USD. Gjaldtakan verður óbreytt í Belgíu 85 USD og Tælandi 50 USD. Hér er gjald fyrir vegabréf fyrir þá, sem eru á aldrinum 18-66 ára 5.100,- kr en 10.100- kr. fyrir hraðafgreiðslu.

 

Miðvikudagur, 22. 03. 06. - 22.3.2006 9:54

Evrópunefndin hélt 26. fund sinn í hádeginu.

Ég þarf ekki að segja lesendum síðu minnar frá því, hve hörð hríð hefur verið gerð að mér til að hætta að tala um Baugsmiðlana. Af þingmönnum og öðrum er umræða mín um ofurvald þeirra á fjölmiðlamarkaðinum færð yfir á Baugsmálið og ranglega sagt, að ég sé að ræða það, sem ég geri ekki.

Sigurður T. Magnússon, settur ríkissaksóknari, ákvað í dag að áfrýja sex ákæruliðum af átta, sem dæmt var um í héraðsdómi og lauk með sýknu.

Í tilefni af áfrýjuninni sá Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, ástæðu til að gefa út yfirlýsingu, þar sem sagði meðal annars:

„Varðandi þann hluta áfrýjunar málsins er lýtur að ársreikningum félagsins er athyglisvert með hvaða hætti samkennarar Sigurðar Tómasar Magnússonar og Jóns H. B. Snorrasonar, fyrrum saksóknara í Baugsmálinu, í Háskólanum í Reykjavík hafa lagt honum lið við að réttlæta ákvörðun um áfrýjun. Þeir vilja leysa úr einhverri fræðilegri óvissu varðandi lög um ársreikninga. Lög kveða skýrt á um að aðeins eigi að áfrýja opinberu máli ef meiri líkur en minni eru til þess að sakfellt verði. Efnislega hefur ekkert komið fram sem getur hnekkt afdráttarlausri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Sú óvissa sem samkennarar saksóknaranna þykjast sjá verður helst leyst af Alþingi og ætti sem slík aðeins að renna frekari stoðum undir sýknudóminn í Baugsmálinu. Kennararnir í Háskólanum í Reykjavík viðurkenna að þeir hafi ekki kynnt sér ákæruliðina í málinu og sögðu að þeim fyndist lagaumhverfi hvað þessa liði varðar afar óskýrt. Samt hvöttu þeir til áfrýjunar málsins og hinn sérstaki saksóknari hefur hlýtt því kalli.“

Þessi hugur Jóhannesar í Bónus í garð kennara við Háskólann í Reykjavík kemur þeim ekki á óvart, sem lásu blöð hans Fréttablaðið og DV í morgun. Þar voru hefbundnir dálka notaðir til að endurspegla hug eigandans.

Lesa meira

Þriðjudagur, 21. 03. 06. - 21.3.2006 21:50

Á ríkisstjórnarfundi í morgun lagði ég fram frv. til laga um landhelgisgæsluna og fer það nú fyrir þingflokka. Raunar lagði ég fram fleiri frumvörp, þar á meðal um að heimila happdrættum SÍBS og DAS að greiða út vinninga sína í reiðufé.

Var klukkan 14.00 á borgarstjórnarfundi og tók þátt í umræðum um Hlíðahverfi.

Varð að fara um 15.30 á þingund, þar sem ég flutti framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum um tölvubrot, þar lagabreytingar vegna samnings Evrópuráðsins um cybercrime og um ný vegabréf með lífkennum.

Þá átti ég samtöl við fréttamenn RÚV um málskostnað og gjafsókn og um landhelgisgæsluna.

Mér fannst eins og fréttamenn vildu búa til einhvern ágreining milli okkar Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra um framtíð landhelgisgæslunnar. Það er fráleitt - ef starfsemi flugdeildar gæslunnar rúmast ekki á Reykjavíkurflugvelli erum við sammála um, að hún hlýtur að flytja til Keflavíkurflugvallar - við vorum einnig sammála um það frv. til laga um gæsluna, sem ég lagði fram í ríkisstjórn í morgun.

Ég lagði einnig fram bréf í ríkisstjórn í morgun um, að ég teldi mig vanhæfan til að skipa í það embætti hæstaréttardómara, sem auglýst hefur verið laust til umsóknar og mun Geir H. Haarde utanríkisráðherra væntanlega skipa í embættið.

Mánudagur, 20. 03. 06. - 20.3.2006 22:46

Var klukkan 17.00 á fundi hjá Félagi stjórnmálafræðingja í Öskju með Magneu Marínósdóttur stjórnmálafræðingi og Jóni Hákoni Magnússyni, formanni Samtaka um vestræna samvinnu, þar sem við fluttum ræður um nýja stöðu í varnarmálum og svöruðum spurningum fundarmanna.

Það er að skýrast í stöðunni, að um tvíþætt viðfangsefni er að ræða, annars vegar lausn á atvinnumálum á Suðurnesjum vegna uppsagna hjá varnarliðinu og hins vegar sjálfar varnir landsins. Á fundi stjórnmálafræðinganna ræddum við síðari þátt málsins.

Þegar um það er hugsað, sjá menn, að einkennilegt er að álykta á þann veg, að innan íslenska stjórnkerfisins sé fyrir hendi sérþekking á varnarmálum eða íslenskir stjórnmálamenn fái ráð um þau efni. Hvers vegna skyldu þeir fá það og frá hverjum? Það hefur verið haldið fast í þá stefnu og starfshætti, að íslenska ríkið sinni ekki sjálft varnarmálum eða herfræðilegu mati, enda sé það í höndum annarra, að sumra mati líklega vegna þess að annað sé fyrir neðan virðingu Íslendinga!

Nú á dögum eru ekki margir enn á lífi, sem fylgdust náið með gerð varnarsamningsins veturinn 1950 til 1951 og geta lesið hann með vísan til afstöðu þeirra, sem að honum stóðu hér á landi. Heimildarmaður um þetta er þó enn meðal okkar og hann sagði mér, að markmið samningsins hefði verið að búa þannig um hnúta, að hann tryggði, innan vébanda Norður-Atlantshafssáttmálans, að ávallt yrðu gerðar nauðsynlegar ráðstafnir til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafssvæðinu og þar með varnir Íslands. Þetta yrði gert með sameiginlegu framlagi Íslendinga og Bandaríkjamanna með þeim viðbúnaði, sem þyrfti hverju sinni. Honum þótti þess vegna skrýtið, að látið væri að því liggja, að það ætti að leiða til riftunar á samningnum, þótt Bandaríkjastjórn hættu að láta fjórar orrustuþotur eiga hér heimavöll.

Sunnudagur, 19. 03. 06. - 19.3.2006 19:02

Í fréttum var sagt frá því, að Samfylkingin ætlaði að skipa þverpólitískan (?) hóp undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, til að ræða um varnarmálin. Mér finnst skrýtið, að því skuli ekki hnýtt við þessa frétt, að Samfylkingin hafi ekki komist að einni niðurstöðu um það, hvernig að vörnum landsins skuli staðið - flokksþing Samfylkingarinnar skilaði auðu um þetta mál. Ætla má, að það sé talinn bónus fyrir Samfylkinguna við skipun þessa hóps að breiða yfir ágreining í eigin röðum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sveiflast í afstöðu sinni á þeim dögum, sem liðnir eru frá 15. mars. Á þingi 16. mars flutti Ingibjörg Sólrún ræðu um varnarmál, án þess að minnast á NATO eða varnarsamninginn. Daginn eftir var hún þeirrar skoðunar, að ræða ætti framtíð varnarmálanna með vísan til varnarsáttálans. Í dag gagnrýnir hún forsætisráðherra og utanríkisráðherra fyrir að halda sér um of við varnarsamninginn.

Þegar Ingibjörg Sólrún flutti ræðu sína á þingi, var haft á orði, að líklega hefði Jón Baldvin komið að gerð hennar - hann hefur síðar lýst þeirri skoðun sinni, að hann vilji segja upp varnarsamningnum. Ingibjörg Sólrún hefur núna sveiflast til þeirrar áttar.

Fór kl. 20. 00 á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Salnum, þar var leikið á glerhörpu í fyrsta sinn á Íslandi.

Laugardagur, 18. 03. 06. - 18.3.2006 21:38

Fór í kl. 10.30 á fund í Valhöll, þar sem Geir H. Haarde utanríkisráðherra greindi frá stöðunni í varnarmálum.

Var kl. 12.30 á NFS og ræddi um varnarmálin við Þóri Guðmundsson í þættinum Skaftahlíð.

Sá í sjónvarpsfréttum mynd frá fundi svonefndrar Þjóðarhreyfingar (ekki vantar sjálfstraustið!) vegna innrásarinnar í Írak. Á myndinni sat fjöldi manns við háborð og minnti hún á gamaldags baráttfund marxista fyrr á árum eða fundamyndir frá Kúbu, þegar þykir nauðsynlegt að sýna óvenju breiða samstöðu - rifjaði með öðrum upp baráttufundi á tíma kalda stríðsins. Sömu sögu er að segja um myndirnar frá Ingólfstorgi, þar sem félagar í Samtökum herstöðvaandstæðinga hittust í dag til að minnast dagsins. Stundum dettur manni í hug, að skemmtilegt væri að geta varðveitt gömul pólitísk atvik úr fortíðinni, en líklega er best að láta sjónvarpið geyma þau í safni sínu.

Í fjölmiðlum er látið eins og stúdentamótmæli í París þessa daga sé endurtekning á því, sem þar gerðist árið 1968. Í The Financial Times var málið borið undir Daniel Cohn Bendit, einn helsta forsprakka mótmælanna 1968. Hann sagði:

“The young people have a negative vision of the future. May 1968 was an offensive movement, with a positive vision of the future, but today’s protests are all against things. They are defensive, based on fear of insecurity and change.”

Fyrir nokkrum dögum sagði ég frá því, að Bergljót Davíðsdóttir, blaðamaður á DV,  hefði gagnrýnt mig harðlega í leiðara blaðsins vegna þess að ég hefði eflt sérsveit lögreglunnar í stað þess að beina lögreglunni alfarið að umferðareftirliti. Björgvin Guðmundsson, ritstjóri DV, er ekki sömu skoðunar og Bergljót. Hann segir í leiðara DV í dag:

„Undanfarna mánuði hefur Björn Bjarnason lýst nauðsyn þess að íslensk yfirvöld séu í stakk búin til að takast á við erlenda glæpahringi. Ráðherrann hefur oft verið gagnrýndur fyrir að mála raunveruleikann dökkum litum. Framsýni hans hefur þó oftast reynst þjóðinni vel. Það er nauðsynlegt að æðsti yfirmaður lögreglu- og dómsmála í landinu sjái þróunina í sínum málaflokki fyrir. Aðeins þannig er tryggt að lögregluyfirvöld geti á trúverðugan hátt tekist á við skipulagða glæpastarfsemi eins og í tilviki Lítháanna þriggja sem nú sitja í gæsluvarðhaldi.“

Í leiðaranum vitnar Björgvin í eftirfarandi ummæli, sem voru höfð eftir mér í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 17. mars:

„Ég tel ástæðu til þess að líta á þetta þannig að við eigum þarna í höggi við alþjóðlegan glæpahring og það eigi að umgangast þetta mál á þennan veg. Ég hef t.d. lagt til að lögreglan fái heimildir undir merkjum greiningardeildar til þess að leggja mat á hættu á slíkri starfsemi og gera þá ráðstafanir eins tímanlega og kostur er til þess að koma í veg fyrir að menn geti hreiðrað um sig hér á þennan hátt. “

 

Föstudagur, 17. 03. 06. - 17.3.2006 9:29

Mér sýnist, að ákvörðun mín um að skrifa hvorki né tala um Baugsmálið hafi vakið eins mikið uppnám hjá sumum á Baugsmiðlunum eins og ef ég hefði sagt eitthvað, eftir að héraðsdómur birti niðurstöðu sína. Það er vandlifað. En hvernig kemst ég að þessari niðurstöðu? Jú, tilvitnun mín í Júlíus Sesar eftir Shakespeare hér á síðunni 15. mars vekur hugarangur og hugrenningar hjá blaðamönnum Baugsmiðlanna - ég hlusta ekki nóg á ljósvakamiðlana til að leggja mat á viðbrögð þeirra.

Stjórnmálablaðamaður Fréttablaðsins, Jóhann Hauksson, segir í dálki blaðins, Frá degi til dags, í dag, eftir að hafa vitnað í dagbókarfærsluna 15. mars: „Hér er þörf á túlkun táknfræðinga. Hvað er dómsmálaráðherrann að segja? Í síðara tilvikinu er líkingin augljós: Þótt varnirnar féllu, eða hertólin færu, fyrir tilverknað Bandaríkjamanna lauk ekki Íslandssögunni, hún hélt áfram. - En hvað um Baugsummælin. „Þótt sjálfur Sesar félli...“ gæti útlagst: Þótt ríkislögreglustjóri félli fyrir Baugsmönnum þennan dag, lauk ekki Íslandssögunni, hún hélt áfram.“ Langsótt er það en þó enn langsóttara hjá Björgvini G. Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, sem Jóhann vitnar í af velþóknun, þegar hann segir 15. mars „líklega einn svartasta dag Sjálfstæðisflokksins í mörg ár“. Enn sannast: Litlu verður Vöggur feginn.

Á blaðsíðu 2 í DV í dag er vitnað í orð mín um að varnarsamstarfið haldi áfram, þótt þoturnar fari og gefið til kynna, að brottför þeirra sé persónulegt áfall fyrir mig vegna einhverra tengsla við bandaríska ráðamenn - ég hef aldrei rætt þetta mál á þeim forsendum. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að hagsmunir frekar en persónuleg tengsl ráði niðurstöðu ágreinings milli ríkja.

Á blaðsíðu 14 í DV í dag skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson og vitnar af velþóknun til sömu orða eftir Björgvin G. Sigurðsson og Jóhann Hauksson. Jakob Bjarnar segir síðan: „Ekki síst er það Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem er í bobba en hann ætlar ekki að tjá sig um Baugsmál. Sjálfur segir Björn þó á síðu sinni að Sesar hafi verið myrtur 15. mars en...„lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.“ Já, áfram allt þar til Róm brann og eru gárungarnir á því að Rut Ingólfsdóttir, kona Björns, verði fengin á fiðluna þegar það verður....“ Ætli Jakob Bjarnar líti á sig sem keppinaut  Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns fjrálslyndra, í drengilegri framgöngu í opinberum umræðum?

Á blaðsíðu 29 í DV í dag skrifar Sigurjón Kjartansson um fjölmiðla og vitnar í færsluna í dagbók minni 15. mars og segir síðan: „Vá! Segi ég nú bara. Er þá Sesar Baugsmálið? Og hvað er þá Róm? Maður spyr sig.“

 

Lesa meira

Fimmtudagur, 16. 03. 06. - 16.3.2006 20:52

Þing hófst kl. 10.30 og fór þá Sigurjón Þórðarson, þingmaður frjálslyndra, í ræðustól og krafðist þess af mér, að ég ræddi við hann um Baugsmálið, af því að ég hefði rætt það hér á síðunni og bæri að því er mér skildist ábyrgð á niðurstöðu héraðsdóms frá því í gær. Þá vék Sigurjón á ómaklegan hátt að fjarstöddu fólki. Ég svaraði og sagði ræðu Sigurjóns fyrir neðan virðingu alþingis, ég hefði ekki rætt Baugsmálið á vefsíðu minni og mundi ekki gera það á alþingi. Mörður Árnason var síðan með sinn venjulega snúð en ég undraðist orð Guðjóns Arnars Kristjánssonar, sem sakaði mig um skrif um Baugsmálið, án þess að hafa nokkuð til síns máls.

Þá gaf Geir H. Haarde utanríkisráðherra skýrslu um stöðu varnarmálanna gagnvart Bandaríkjamönnum eftir atburði gærdagsins og flutti ég ræðu í þeim umræðum, sem ég set hér inn á síðuna, þegar hún kemur úr þingritun, en ég hafði ekki skrifað hana.

Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, einkenndist af þeim þótta, sem hún hefur tileinkað sér, án þess að í raun sé verið að segja neitt, sem máli skiptir. Hún minntist hvorki á aðild Íslands að NATO né varnarsamninginn við Bandaríkin. Össur Skarphéðinsson flutti einnig ræðu fyrir hönd Samfylkingarinnar og hreykti sér af stefnu flokksins í utanríkis- og varnarmálum. Geir H. Haarde vakti hins vegar athygli á því, að þessi stefna lægi alls ekki á lausu, því að flokksþing Samfylkingarinnar hefði orðið sammála um að vera ósammála um þessi mál!

Ögmundur Jónasson talaði tvisvar fyrir vinstri/græna og mátti skilja hann á þann veg, að í stórum dráttum væri hann sammála mér um viðbúnað á vegum lögreglu og landhelgisgæslu - hið eina, sem hann óttaðist væri, að ég ætlaði að einkavæða eða hlutfafélagavæða gæsluna.

Um kvöldið var ég í Kastljósi og ræddi við Kristján Kristjánsson um varnamálin.

Miðvikudagur, 15. 03. 06 - 15.3.2006 21:11

Vara þig fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar, sem svaraði: Svo maðurinn er draumvís! Við skeytum ekk’ um hann; og höldum áfram. Og síðar segir Sesar hjá Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Fimmtándi mars er kominn. Og spámaðurinn svarar: Já kominn Sesar; kominn, ekki liðinn.

Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist.

Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.

Um héraðsdóm í Baugsmáli  í dag ætla ég ekki að ræða. – jafnvel lýsing mín á staðreyndum, getur valdið uppnámi.

Þótt Bandaríkjamenn hafi tilkynnt í dag, að þeir ætli ekki að hafa orrustuþotur með fast aðsetur á Keflavíkurflugvelli, heldur varnarsamstarfið áfram. Frá mínum bæjardyrum séð hefur lengi verið ljóst, að við yrðum að axla meiri ábyrgð á eigin vörnum en á tímum kalda stríðsins. Við verðum einnig að meta hættuna, sem að öryggi okkar steðjar á annan hátt en þá var gert.

Ríkisstjórnin kom saman í alþingishúsinu í dag kl. 17.00 – en við endurbætur á því var innréttað fundarherbergi fyrir hana í þinghúsinu, þar sem á sínum tíma var skrifstofa forseta Íslands en síðan mötuneyti þingsins, þar til það fluttist í nýja skálann. Ég veit ekki til þess, að fyrr hafi verið haldinn ríkisstjórnarfundur á þessum stað, en fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara til að ræða þá ákvörðun, sem Nick Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti Geir H. Haarde utanríkisráðherra fyrr um daginn símleiðis, að Bandaríkjaforseti hefði ákveðið, að frá með september nk. í síðasta lagi myndu bandarísku orrustuþoturnar hverfa frá landinu. Klukkan 15.00 í dag hitti bandaríski sendiherrann forsætisráðherra og utanríkisráðherra og skýrði þeim frá þessari niðurstöðu.

Geir H. Haarde skýrði þingflokki sjálfstæðismanna, sem kom saman klukkan 16.00 frá þessu, skömmu áður en fundur ríkisstjórnarinnar hófst. Rétt fyrir klukkan 18.00 var send út fréttatilkynning um málið og lauk ríkisstjórnarfundinum skömmu síðar, en þá var boðaður fundur í utanríkismálanefnd alþingis.

Þriðjudagur, 14. 03. 06. - 14.3.2006 21:46

Í dag var sagt frá því á alþingi, að nafn Ungmennafélags Íslands hefði verið misnotað af þeim, sem halda uppi málþófi vegna vatnalagafrumvarpsins í þingsölunum.

Á vefsíðunni www.ruv.is birtist þessi stórfrétt:

„Þingmaður segir vatnalagadeilu pólitíska
Lúðvík Bergvinsson alþingismaður Samfylkingar, segir að deilan um vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar snúist ekki nema að hluta um lagatúlkun, hún sé pólitísks eðlis. Hann undrast hve ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að frumvarpið fáist afgreitt og telur að skýringin geti að hluta til verið lagaóvissa tengd vatnaflutningum á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.“

Það er gott, að þetta er upplýst. Hefði þó ekki verið meiri frétt, að Lúðvik Bergvinsson sé eini lögfræðingurinn, sem telji frumvarpið leiða til efnisbreytinga á eignarrétti á vatni? Um Kárahnjúkavirkjun gilda sérlög og vatnalögin breyta þeim ekki.

Ég sé að Bergljót Davíðsdóttir, blaðamaður á DV, les þessa síðu mína og hefur þess vegna líklega rekist á gagnrýni mína á leiðaraskrif hennar um Evrópuumræðurnar. Nú gerir hún harða hríð að mér í leiðara DV vegna sorglegra banaslysa í umferðinni. Hún ræðir fjölgun sérsveitarmanna í þessu sambandi og segir: „Það virðist með öðrum orðum vera mun ríkari þörf á að rannsaka brot á borð við landráð, brot gegn stjórnskipun ríkisins og hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi en að bjarga mannslífum í umferðinni.“ Hér sýnist mér Bergljót frekar vera að ræða um fyrirhugaða greiningardeild en sérsveitina, henni er ekki ætlað að stunda rannsóknir.

Leiðara sínum lýkur Bergljót á þessum orðum:

„Mannfall á vígvelli götunnar er eftir sem áður staðreynd, ár eftir ár. En svo mikið er víst að sérsveitir Björns Bjarnasonar munu ekki storma út á þjóðvegi með hraðamælingartæki að vopni. Áfram munum við sjá á eftir fleiri unglingum en við þyrftum falla ár hvert í valinn.“

Ég dreg þá ályktun af þessu, að Bergljót hafi ekki hina minnstu hugmynd um verkaskiptingu innan lögreglunnar og hvað breytt skipulag á sérsveitinni hefur haft í för með sér, þótt sérsveitin hafi ekki það verkefni að sinna umferðareftirliti.

Mánudagur, 13. 03. 06. - 13.3.2006 20:54

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 13.30 eins og venjulega og þá fengum við, sem ekki höfum seti í þingsalnum og hlustað á endalausar ræður stjórnarandstæðinga um vatnalög frásögn af því, hvernig máli hafa gengið fyrir sig. Ég var þeirrar skoðunar, þegar þetta frumvarp var lagt fram, að það snerist meira um form en efni - verið væri að framkvæma tímabæra endurnýjun á vatnalögunum frá 1923, án þess að breyta efni málsins.

Eftir að stjórnarandstæðingar hafa þanið sig um málið undanfarna daga, fór ég að velta fyrir mér, hvort ég hefði misskilið málið. Á þingflokksfundinum var staðfest, að svo væri ekki, frumvarpið leiddi ekki til neinna efnisbreytinga. Þá er rangt, að halda því fram, að það breyti einhverju varðandi Kárahnjúkavirkjun, þar sem um hana gilda sérstök lög.

Rétt fyrir kvöldmat fór ég í heilsubótargöngu með útvarpið í eyrunum og hlustaði þá á viðtal við Lúðvík Bergvinsson, þingmann Samfylkingarinnar, í Speglinum. Þá áttaði ég mig á því hvers vegna vinstrisinnar tala svona mikið um þetta mál á þinginu núna: Þeir eru að minnast 90 ára afmælis Alþýðuflokksins! Þeir telja að sameiginarsinnar hafi orðið undir við setningu vatnalaganna 1923 og nú sé tímabært að ná sér niðri á talsmönnum séreignarréttarins.

Líklegt er að stjórnarandstaðan ákveði að tala í að minnsta kosti níu sólarhringa um málið - einn fyrir hvern áratug Alþýðuflokksins. Hið skrýtna er, að efni frumvarpsins breytist ekkert við þessar ræður. Og þurfi þing að sitja lengur fram á vorið vegna málsins er það aðeins í samræmi við tíðarandann, en samkvæmt honum á þing helst að sitja að störfum allan ársins hring.

Mér er hulin ráðgáta, hvernig unnt er að kalla fram ályktanir alls kyns félaga og jafnvel sjálfrar þjóðkirkjunnar vegna þessa máls.

Sunnudagur, 12. 03. 06. - 12.3.2006 19:24

Fór í morgun með nágrönnum mínum í Fljótshlíðinni inn að Fljótsdal og keypti þar tvær gimbrar. Það er gott að eiga eigið fjármark.

Á leiðinni til Reykjavíkur voru þrír lögreglubílar að störfum á leiðinni frá Hvolsvelli - og ökumenn þeirra voru allir að ræða við bíleigendur við vegabrúnina, þegar ég ók framhjá þeim. Almennt sýndu ökumenn eðlilega varkárni en þó voru tveir, sem virtu hvorki hraðareglur né bann við því að aka fram úr á óbrotinni línu.

Í baráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 hreyktu R-listamenn sér af því, hve vel þeir hefðu staðið að rekstri Strætó og þeir ætluðu sko að halda ótrauðir áfram á sömu braut á því kjörtímabili, sem nú er að líða. Mér datt þetta í hug, þegar ég las grein í Morgunblaðinu í dag um Strætó, þar sem Pétur Gunnarsson rithöfundur segir meðal annars:

„Aðrir vilja meina að vagnarnir séu í raun auglýsingaspjöld á hjólum og gegni svipuðu hlutverki og maður sér í gömlum bíómyndum þar sem auðnuleysingjar ganga með auglýsingafleka á bak og fyrir um gangstéttar stórborganna.“

Vinstri/grænir hafa greinilega hrokkið í kút vegna þess, hve þeir mælast með lítið fylgi í Reykjavík. Hvert er svarið? Jú, það birtast persónulegar lofgreinar um Svandísi Svavarsdóttur frambjóðanda v/g í Morgunblaðinu og skrautviðtöl við hana í Birtu og helgarblaði DV. Síðan er hún vafalaust í spjallþáttum ljósvakamiðlanna eftir því, sem tækifæri gefast. En hvar er stefnan og hugsjónirnar?

Laugardagur, 11. 03. 06. - 11.3.2006 19:46

Í öllum fréttatímum í kvöld var sagt frá ritdeilu Morgunblaðsins og Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í framhaldi af vangaveltum ráðherrans á vefsíðu sinni um, að Íslendingar ættu að íhuga aðild að evruandi, án þess að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er lýst undrun yfir því, að ráðherrann skuli vera þessarar skoðunar, þar sem hún hljóti að byggjast á vanþekkingu. Ráðherrann svarar hins vegar fullum hálsi á vefsíðu sinni og telur afstöðu blaðsins helst byggjast á því, að hún hafi neitað að hitta ritstjóra blaðsins reglulega á einkafundum auk þess sem honum hætti til að tala niður til kvenna.

Sama dag og þessar fréttir um heitar ritdeilur birtast er enn sagt frá áköfum deilum á alþingi vegna frumvarps iðnaðarráðherra um ný vatnalög - lauk þeim síðdegis, þegar Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar þingsins, boðaði til fundar í nefndinni til að ræða frumvarpið. Var þetta skynsamlegt skref hjá Birki og hafa stjórnarandstæðingar vafalaust verið honum þakklátir, því að þeir voru komnir í öngstræti, sem lýsti sér meðal annars að því, að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, stjakaði við Sigurði Kára Kristjánssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í þingsalnum.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun, að án aðildar að Evrópusambandinu sé ekki unnt að verða hluti að evrulandi, þótt öll ESB-ríkin væru ekki í evrulönd. Ólík lögfræðileg sjónarmið hafa birst, eftir að Valgerður Sverrisdóttir kynnti hugmynd sína - í Háskóla Íslands telja menn aðild að evrulandi án ESB-aðildar lögfræðilega í lagi en ekki í Háskólanum í Reykjavík. Skyldi evruaðild rúmast innan stjórnarskrárinnar? Ég man ekki eftir að hafa heyrt álit lögfræðinga á því. Þyrfti ekki að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um evruaðild? Sérfræðingar innan seðlabankans telja evruaðild án ESB-aðildar ekki fýsilega - við öxluðum evruskyldur án þess að njóta öryggisnetsins, ef eitthvað færi úrskeiðis

Föstudagur, 10. 03. 06. - 10.3.2006 19:45

Var í Lögregluskóla ríkisins klukkan 14.30 og flutti erindi fyrir þá, sem eru þar í stjórnendanámi. Ræddi ég um nýskipan lögreglumála og aðferðafræðina við að ná þeim áfanga, að semja frumvarp um málið og leggja það fyrir alþingi. Að loknu erindinu svaraði ég fyrirspurnum og kvaddi nemendur klukkan 16.00.

Ég skil ekki, hvers vegna stjórnarandstæðingar kjósa að gera þetta veður út af frumvarpi til vatnalaga - nema þeir vilji taka upp hanskann fyrir þá, sem urðu undir í deilunum um eignarrétt á vatni fyrir um það bil áttatíu árum. Vissulega var hart deilt um málið á þeim tíma, en ætla hefði mátt, að reynslan síðan væri ekki á þann veg, að stofna til þeirra deilna, sem nú standa á þingi.

Deilurnar á þingi snúast þó ekki einungis um þetta frumvarp heldur og ekki síður um þá ákvörðun forseta alþingis, að breyta skuli starfsáætlun þingsins og fjölga fundum til að stjórnarandstaðan fái tækifæri til að lýsa skoðunum sínum á frumvarpinu í löngum ræðum.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður frjálslyndra, reyndi í Kastljósi að afsaka nafnlausu hugleysingjanna á malefni.com með þeim rökum, að ég héldi úti þessari síðu. Í umræðum um sérsveit lögreglunnar á þingi í mars 2004 sagði sami Sigurjón meðal annars:

„Menn hafa reynt að geta í eyðurnar og sumir hafa látið sér detta í hug að verið sé að láta gamlan bernskudraum rætast með því að efla sérsveitina. Ekki ætla ég að fullyrða að svo sé, en það er eins og mig minni að hæstv. ráðherra hafi fengið fleiri hugmyndir sem ég vonast til að verði ekki framkvæmdar með sama hraði, svo sem stofnun íslensks hers, endurreisn klausturs í Viðey og að senda varðskip til Júgóslavíu á meðan stríð geisaði.“

Fimmtudagur, 09. 03. 06. - 9.3.2006 21:02

Í dag var ritað undir samning við Portus, sem gerir kleift að ráðast í smíði tónlistar og ráðstefnuhúss við austurhöfnina í Reykjavík og á það að verða tilbúið árið 2009.

Í færslu hér á síðunni segir frá því, að ég heimsótti Sinfóníuhljómsveit Íslands 21. október 1995 og þar er skráð: „Hvorki ríki né Reykjavíkurborg hafa viðurkennt, að framkvæmdin (við tónlistarhús) væri á þeirra verksviði. Ég vil beita mér fyrir því, að hlutur ríkisvaldsins verði skilgreindur og viðurkenndur jafnframt því, sem komist verði að niðurstöðu um það, hvernig hús er nauðsynlegt að byggja, hvar og hverjir standi að því. Slík vinna tekur nokkurn tíma, en sé skipulega að henni staðið ætti henni að ljúka, svo að málið væri hæft til ákvörðunar á kjörtímabilinu.“

Í febrúar 1996 skipaði ég nefnd til að huga að þátttöku ríkisins í gerð tónlistarhúss og var Stefán P. Eggertsson formaður hennra. Hún skilaði áliti 10. júní 1997 og ákvað ríkisstjórnin að halda málinu áfram. 5. janúar 1999 samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi tillögu mína:

„Menntamálaráðuneyti og samgönguráðuneyti verði heimilað að leita samninga við Reykjavíkurborg um að ríki og borg beiti sér fyrir byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar á grundvelli greinargerðar, er fylgir minnisblaði þessu [þar er vísað til álitsgerðar, sem unnin er af VSÓ-ráðgjöf undir forystu stýrihóps]. Húsið verði reist í miðborginni en nánari staðsetning og afmörkun lóðar verði ákveðin síðar.“

Þar með gekk fyrirheit mitt til starfsmanna sinfóníunnar eftir - hlutur ríkisvaldsins var skilgreindur og ákveðinn á kjörtímabilinu. Síðan hefur verið unnið að málinu í samvinnu ríkis og borgar og í dag var framkvæmdin færð í hendur Portus - einkafyrirtækis undir forystu Landsbanka Íslands. 

Fyrir tilviljun heyrði ég í dag viðtal Þorfinns Ómarssonar á NFS við Stefán Jón Hafstein, formann menningarmálaráðs Reykjavíkurborgar, þar sem hann virtist vera að hreykja sér af því, að tónlistarhúsið væri að rísa og við sjálfstæðismenn værum að reyna að eigna okkur eitthvað í því! Mér þótti þetta dæmigert montviðtal í R-lista dúr - ég veit ekki, hvað Stefán Jón Hafstein telur sér til tekna vegna tónlistarhússins, annað en að vera formaður menningarmálaráðs, þegar enn eitt skrefið er stigið á braut, sem aðrir mótuðu fyrir áratug. 

Miðvikudagur, 08. 03. 06. - 8.3.2006 21:25

Var klukkan 08.10 í qi gong eins og venjulega, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Nú var óvenjulega vel sótt og klukkan 08.30 lauk ég æfingunum og við fórum öll í matsal Þjóðleikhússins, þar sem beið okkur glæsileg afmælisterta og ég afhenti meistara Gunnari Eyjólfssyni áttræðis afmælisgjöf frá hópnum með áletruninni: Líf í orku, lifðu heill! Qi gong félagar.

Klukkan 13.30 kom Ragnheiður Bragadóttir, lagaprófessor við Háskóla Íslands, til fundar við mig og gengum við frá frumvarpi, sem hún hefur samið um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Nú hefur verið skýrt frá því, að fullyrðingar fulltrúa Bauhaus um lóðamál í Garðabæ og hlutdeild Ásdísar Höllu Bragadóttur séu hreinn uppspuni - en í miðopnu Morgunblaðsins er t. d. fyrirsögn á viðtali við þennan Bauhaus-mann þess efnis, að BYKO ráði hér lögum og lofum og sé að leggja stein í götu Bauhaus.

Í borgarstjórn í gær var varað við því, að menn létu ekki snobb fyrir útlendingum villa sér sýn við ákvarðanir vegna tilboðs frá Yoko Ono um það, sem hún kallar friðarsúlu. Að manni hvarflar, að einhvers konar útlendingasnobb ráði að nokkru afstöðu til Bauhaus - hvers vegna þarf þetta fyrirtæki sérmeðferð við úthlutun lóðar? Fulltrúi Bauhaus talaði á sérkennilegan hátt niður til Tyrkja og Króata en bætti þó hlut þeirra með því að segja Íslendinga öllu verri - allt út af því, að hann fékk ekki lóð í Urriðaholti á þeim kjörum, sem hann vildi.

Enn eru erlendir sérfræðingar að benda á veikleika í íslenska efnahagskerfinu - nú einkum bankakerfinu. Og við erum hvött til að rétta stólbökin og spenna beltin - enginn viti þó, hvort lendingin verði hörð eða mjúk, en við séum þó örugglega byrjuð að lækka flugið.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir best að ganga varlega að krásunum og ekki láta eins gráðug börn við tertudiska í afmælisboði. Í marga mánuði hefur verið býsnast yfir að krónan hafi hækkað en nú er býsnast yfir, að hún hafi lækkað. Hvað skyldi hún þurfa að lækka mikið til að Marel sjái sér hag í því að halda áfram að vaxa hér á landi en ekki í Slóvakíu?

Þriðjudagur, 07. 03. 06. - 7.3.2006 19:01

Ríkisstjórnin kom til fundar klukkan 09.30 eins og vejulega á þriðjudögum en að þessu sinni sat Árni Magnússon með okkur í síðasta sinn sem félagsmálaráðherra.

Klukkan 11.00 var boðað til ríkisráðsfundar á Bessastöðum, þar var formlega gengið frá afsögn Árna Magnússonar og Jóns Kristjánssonar sem heilbrigðis- og tryggingarráðherra, áður en Jón var síðan skipaður félagsmálaráðherra. Síðan var Siv Friðleifsdóttir skipuð heilbrigðis- og tryggingarráðherra.

Allt hefur þetta gengið hratt og skipulega fyrir sig. Mér finnst skrýtið að fylgjast með því, hvað Össuri Skarphéðinssyni er mikið í mun að koma illu af stað innan Framsóknarflokksins í tilefni af þessari uppstokkun. Dálæti Össurar á Jónínu Bjartmarz á þessum tímamótum í sögu Framsóknarflokksins kemur líklega fleirum en mér í opna skjöldu.

Borgarstjórnarfundur, sem hófst klukkan 14.00 stóð innan við klukkutíma - út af dagskrá hans voru tekin tvö höfuðmál, umræður um málefni Hlíðahverfis og lóðaúthlutanir við Úlfarsfell voru teknar af dagskrá vegna fjarveru Dags B. Eggertssonar, eftir því sem mér var sagt. Eina málið til umræðu var friðarsúlan frá Yoko Ono en samþykkt var að taka málið fyrir í nefndum borgarstjórnar til að átta sig betur á öllum þáttum þess og hvar best væri að velja súlunni stað í borgarlandinu - en Viðey hefur verið nefnd þar til sögunnar.

Í umræðum um þessa súlu hafa menn varað við því að yfirvöld láti ekki stjórnast af snobbi fyrir frægum útlendingum og Ingólfi Margeirssyni rithöfundi finnst viðbrögð borgaryfirvalda hafa einkennst minnimáttarkennd.

Dagur B. Eggertsson var því miður ekki til viðræðna um lóðir við Úlfarsfell í borgarstjórn í dag - hann hefur eins og kunnugt er forðast opinberar umræður um skipbrot uppboðsstefnu R-listans vegna lóða til einstaklinga við Úlfarsfell. Dagur B. hefur á hinn bóginn talað þeim mun meira um eina lóð á þessum slóðum, það er lóðina handa Bauhaus. Dagur telur sig greinilega getað slegið pólitískar keilur með því að hampa Bauhaus - erlendu stórfyrirtæki - gagnvart BYKO. Degi finnst hitt ekki til pólitískra vinsælda að ræða lóðirnar til einstaklinga. Í báðum tilvikum situr R-listinn hins vegar undir ámæli fyrir að virða ekki góða stjórnsýsluhætti.

Bauhaus á örugglega erindi inn á íslenskan byggingarvörumarkað - en hvers vegna telja Dagur og nú stjórnendur Bauhaus sér hag af því að setja komu Bauhaus á markaðinn í þann búning, sem við blasir í fjölmiðlum?

Mánudagur, 06. 03. 06. - 6.3.2006 22:59

Flaug frá Ósló kl. 14.05 og lenti í Keflavík um kl. 16.00 í töluverðu hvassviðri - síðar um daginn varð vélin á leið til New York að snúa til baka, af því að hún varð fyrir eldingu.

Ég sá á netinu, að Dagur B. Eggertsson, efsti maður á væntanlegum lista Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum, telur, að auka þurfi löggæslu í miðborg Reykjavíkur, eftir að fréttir bárust af hnífstungum þar um helgina. Mér kom þessi yfirlýsing á óvart, því að ég minntist ummæla samflokksmanns hans, Helga Hjörvars, þingmanns og varaborgarfulltrúa, sem taldi hina mestu fásinnu að efla þyrfti sérsveit lögreglunnar og þar með löggæslu í Reykjavík. Sérsveitinni er einmitt ætlað að glíma við  ofbeldisfulla og vopnaða afbrotamenn. Helgi veittist að mér á alþingi  með þeim málefnalegu rökum, að ég skyldi ekki halda, að ég kæmist upp með að efla lögregluna á þennan hátt, þótt ég væri hrifinn af kvikmyndinni Die Hard  og héldi kannski, að ég væri Bruce Willis!

Með breytingu á skipulagi sérsveitarinnar 1. mars 2004 var stigið mikilvægt og árangursríkt skref til að auka löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu.

Sjónarmið Helga Hjörvars náðu því ekki fram að ganga og sérsveitin hefur verið efld stig af stigi síðan 2004. Dagur ætti að ræða við Helga í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar og einnig  á vettvangi flokksins við Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar (kjörinn með um 900 atkvæðum á um 500 manna fundi) - en varaformaðurinn flytur ávallt sömu ræðuna um, að ég fari villur vega, þegar ég ræði á alþingi um nauðsyn þess að efla löggæslu.

Ég veit, að Dagur er nýkominn í Samfylkinguna og honum hefur ef til vill ekki gefist tóm til að kynna sér sjónarmið flokksbræðra sinna þar - en vilji hann efla pólitískan stuðning við auka löggæslu ættu honum að vera hæg heimatökin á heimavelli í Samfylkingunni. Ég er hins vegar ekki alveg viss um, að hugur fylgi máli hjá Degi. Mig grunar, að afstaða hans til löggæslu sé nú jafntækifærissinnuð og afstaða hans til annars máls fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, þegar hann taldi ekki koma til greina að selja ríkinu Keldnalandið, enda mætti ekki hrófla við rannsóknarstöðinni að Keldum. Hver skyldi afstaða hans til þess máls vera nú?

Sunnudagur, 05. 03. 06. - 5.3.2006 22:20

Það var kalt í Ósló í dag og gönguferð mín um miðborgina var því skemmri en ég ætlaði, eftir að ég hafði lokið við að skrifa pistilinn minn í morgun.

70 ára afmælishóf Lars Roars Langslets, fyrrverandi menningarmálaráðherra, hófst klukkan 17.00 á þriðju hæð í hótel Continental og vorum við 135, sem þar snæddum saman kvöldverð. Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar fluttu ræður, Kaare Willoch og Kjeld Magne Bondevík, auk þess Aase Kleveland, fyrrverandi menningarmálaráðherra - en Lars Roar var fyrsti menningarmálaráðherra Noregs í ríkisstjórn Willochs snemma á níunda áratugnum og beitti sér þá fyrir róttækum breytingum á útvarpslögunum og afnám einkaleyfi norska ríkisútvarpsins, NRK. Ég flutti ræðu og kveðju frá íslenskum vinum Lars Roars, sem eru margir.

Síðdegis barst mér hin óvænta fregn um ákvörðun Árna Magnússonar að segja af sér sem félagsmálaráðherra. Við Árni höfum átt ágætt samstarf í ríkisstjórninni og höfum unnið saman að ýmsum verkefnum, sem nú flytjast til Jóns Kristjánssonar.

Laugardagur, 04. 03. 06. - 4.3.2006 21:54

Flaug í morgun til Óslóar - átti að fara kl. 07.35 en fór ekki af stað fyrr en rúmlega 08.00 vegna seinkunar á flugi frá New York.

Um 10 stiga frost í Ósló - þegar ekið er inn í borgina eru skilti um að greiða gjald vegna nagla í dekkum. Hvers vegna skyldi slíkt gjald á bílaeigendur ekki hafa verið rætt á Íslandi? Hvað um svifrykið? Enginn ekur í gegnum Ósló, án þess að greiða veggjald - án tillits til nagladekkja en notkun þeirra hríðféll eftir tilkomum nagladekkja-gjaldsins.

Las í Morgunblaðinu, að greinarhöfundur kvartaði undan því, að ég hefði ekki verið nógu sýnilegur sem menntamálaráðherra. Þegar ég hafði lesið þetta, gat ég ekki tekið annað í greininni alvarlega. Erindið við lesendur blaðsins sýndist mér vera að kvarta undan því, að Þorgerðue Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefði ekki tjáð sig nóg um tónlistarskóla. Bréfritari virtist ekki hafa hugmynd um, að lögum samkvæmt er rekstur þessara skóla á vegum sveitarfélaga.

Deilurnar vegna tónlistarskólanna stafa af því, að undir forystu Stefáns Jóns Hafsteins, formanns menntaráðs Reykjavíkur, var hróflað við þeirri skipan, sem ríkt hefur um greiðslur til þeirra, án þess að fundin væri lausn á þeim vanda, sem við það skapaðist. Honum var í raun velt yfir á nemendur og kennara.

 

Föstudagur, 03. 03. 06. - 3.3.2006 22:44

Íslenskir lögfræðingar, sem vilja njóta virðingar, án tilliits til umbjóðenda sinna, hafa gengið of langt í nafni Baugs til að sporna við því, að ég segði skoðun mína hér á síðunni.

Hitt er einkennilegra, að danskur lögfræðingur skuli telja sig geta fellt dóma um málfrelsi mitt, jafnvel þótt hann sé ráðinn til starfa af Baugi. Hann ætti að minnsta kosti að líta til þess, sem danskir dómarar hafa sagt um málfrelsi stjórnmálamanna, áður en hann tekur sér fyrir hendur að túlka dóma mannréttindadómstólsins í Strassborg í þágu Baugs með því að leggja ummæli hér á vefsíðu minni að jöfnu við eitthvað allt annað.

Viðskiptablaðið birtir frétt í dag um ótrúlegar fjárhæðir, sem Baugur þarf að greiða til að halda sjó vegna ákæra. Eftir að ég las grein Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu í dag um frásagnir Baugsmiðlanna af Baugsmálinu fyrir dómstólum, vaknar spurning um, hvort útgáfa Fréttablaðsins og DV  eða rekstur NFS telst til herkostnaðar Baugs til að rétta hlut eigenda sinna vegna Baugsmálsins.

Fimmtudagur, 02. 03. 06. - 2.3.2006 21:52

Klukkan 11.30 var umræða utan dagskrár á alþingi um tálbeitur og fleira og má lesa ræðu mína hér á síðunni.

Klukkan 16.00 var ég í Iðnskólanum í Reykjavík en þangað hafði ég verið beðinn að koma til að ræða varnamál og var það skemmtilegur fundur, þar sem rætt var um öryggismál, hryðjuverkaógnina, innrásina í Írak, samskipti okkar við Bandaríkjamenn og Schengen-samstarfið. Ég hef aldrei séð eins margar myndir af sjálfum mér og hengdar höfðu verið upp á göngum skólans til að kynna fundinn og höfðu fundarboðendur greinilega lagt mikið á sig til að kynna viðburðinn sem best.

Fyrir fundinn hitti ég Baldur Gíslason skólameistara en Iðnskólinn í Reykjavík hefur dafnað vel undir hans stjórn. Innan skólans er unnið nýsköpunarstarf á mörgum sviðum og leggja stjórnendur hans áherslu á að ná til mjög fjölbreytts hóps nemenda. Nemendur eru auk þess framtakssamir eins og sýnir sig í boði þeirra til mín um að ræða þessi mál. Eiit er víst, ég hef alltaf mikla ánægju af því að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum um utanríkis- og öryggismál við þá, sem ekki eru á sama máli og ég, en nokkrir meðal fundarmanna voru greinilega í þeim hópi.

Birt var niðurstaða úr könnun Gallup á trausti til einstakra stofnana.

Gallup hefur frá árinu 1993 spurt um traust til stofnana og embætta. Í ár eru helstu breytingar þær, að traust til lögreglunnar hefur aukist mikið eða um 12 prósentustig. Traust til lögreglunnar hefur ekki mælst eins mikið síðan í ágúst '93.

Traust til Alþingis og dómskerfisins jókst einnig nokkuð eða um 8 prósentur. Traust til umboðsmanns Alþingis hefur minnkað um 5 prósentustig og er það eina embættið sem nýtur minna trausts nú en í síðustu mælingu.

Traust til heilbrigðiskerfisins jókst um 3 prósentustig en traust til ríkissáttasemjara og þjóðkirkjunnar stóð í stað.

Eftirfarandi tafla sýnir hve margir í könnuninni sögðust bera traust til viðkomandi stofnana:

Háskóli Íslands 86%

Lögreglan 79%

Heilbrigðiskerfið 73%

Umboðsmaður Alþingis 57%

Ríkissáttasemjari 56%

Þjóðkirkjan 55%

Dómskerfið 43

Alþingi 43%.

Miðvikudagur, 01. 03. 06. - 1.3.2006 21:56

Evrópunefnd hélt 25. fund sinn í dag.

Þegar ég hlusta á umræður um, að Háskóli Íslands setji markið á að verða meðal 100 bestu háskóla heims, minnist ég fundar, sem ég átti með Anthony Giddens rektor London School of Economics 21. maí 1999 en frá honum er sagt í pistli hér á síðunni, sem ég skrifaði þann sama dag og sagði meðal annars:

„Hann (Giddens) sagði lykilatriði fyrir háskóla, vildu þeir þróast og dafna, að þeir fengju að afla sér tekna með skólagjöldum. Það væri borin von, að unnt væri að auka ríkisútgjöld og þar með skattheimtu í samræmi við auknar fjárþarfir háskóla, sérstaklega þar sem hin alþjóðlega samkeppni þeirra byggðist á því að öflugustu skólarnir gætu aflað sér mikilla tekna með skólagjöldum. Er þetta sú stefna sem hann fylgir sem rektor LSE og hefur kynnt rækilega, hann er því eindreginn talsmaður þeirrar stefnu, sem ríkisstjórn Tonys Blairs hefur fylgt að innheimta í fyrsta sinn skólagjöld af öllum, sem innrita sig í breska háskóla.“

Rektor og forystumenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands eru ósammála Giddens - þeir vilja komast í fremstu röð og skattar verði hækkaðir til þess að ná því marki. Skyldi Stefán Ólafsson prófessor vera sömu skoðunar?

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði fylgi flokka hér í Reykjavík strax að loknu prófkjöri Samfylkingarinnar og þá naut hún stuðnings 40,7% borgarbúa en Sjálfstæðisflokkur 45,6% og báðir áttu að fá 7 borgarfulltrúa. Í dag birtir Gallup könnun, sem sýnir 52% fylgi Sjálfstæðisflokks og 34,5% fylgi Samfylkingarinnar.

Svona er sagt frá þessu á ruv.is:

„Gallup kannar líka fylgi í Reykjavík. Þar kemur í ljós að fylgi Samfylkingarinnar eykst þriðja mánuðinn í röð, þar mælist flokkurinn með 34,5% fylgi, eða hið mesta frá slitum R-listans. Fylgi við Sjálfstæðisflokk fer úr 55% í 52%. Samt fengi Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta. Vinstri grænir í Reykjavík mælast með 7% fylgi, Framsókn með tæp 5%, og Frjálslyndir með 2%. Færu kosningar til borgarstjórnar á þann veg sem könnunin sýnir, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 8 borgarfulltrúa, Samfylking 6, Vinstri grænir einn, en Framsókn og Frjálslyndir kæmu engum manni að. Svo mjótt var á munum milli sjötta manns Samfylkingar og níunda manns Sjálfstæðisflokks að aðeins munar einum svaranda.“

Ég feitletra þarna nokkur orð, mér finnst þau gefa til kynna að reynt sé að fegra niðurstöðuna fyrir Samfylkinguna, þegar augljóst er, að síðan 12. febrúar hefur fylgið snarfallið.