1.3.2006 21:56

Miðvikudagur, 01. 03. 06.

Evrópunefnd hélt 25. fund sinn í dag.

Þegar ég hlusta á umræður um, að Háskóli Íslands setji markið á að verða meðal 100 bestu háskóla heims, minnist ég fundar, sem ég átti með Anthony Giddens rektor London School of Economics 21. maí 1999 en frá honum er sagt í pistli hér á síðunni, sem ég skrifaði þann sama dag og sagði meðal annars:

„Hann (Giddens) sagði lykilatriði fyrir háskóla, vildu þeir þróast og dafna, að þeir fengju að afla sér tekna með skólagjöldum. Það væri borin von, að unnt væri að auka ríkisútgjöld og þar með skattheimtu í samræmi við auknar fjárþarfir háskóla, sérstaklega þar sem hin alþjóðlega samkeppni þeirra byggðist á því að öflugustu skólarnir gætu aflað sér mikilla tekna með skólagjöldum. Er þetta sú stefna sem hann fylgir sem rektor LSE og hefur kynnt rækilega, hann er því eindreginn talsmaður þeirrar stefnu, sem ríkisstjórn Tonys Blairs hefur fylgt að innheimta í fyrsta sinn skólagjöld af öllum, sem innrita sig í breska háskóla.“

Rektor og forystumenn Stúdentaráðs Háskóla Íslands eru ósammála Giddens - þeir vilja komast í fremstu röð og skattar verði hækkaðir til þess að ná því marki. Skyldi Stefán Ólafsson prófessor vera sömu skoðunar?

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði fylgi flokka hér í Reykjavík strax að loknu prófkjöri Samfylkingarinnar og þá naut hún stuðnings 40,7% borgarbúa en Sjálfstæðisflokkur 45,6% og báðir áttu að fá 7 borgarfulltrúa. Í dag birtir Gallup könnun, sem sýnir 52% fylgi Sjálfstæðisflokks og 34,5% fylgi Samfylkingarinnar.

Svona er sagt frá þessu á ruv.is:

„Gallup kannar líka fylgi í Reykjavík. Þar kemur í ljós að fylgi Samfylkingarinnar eykst þriðja mánuðinn í röð, þar mælist flokkurinn með 34,5% fylgi, eða hið mesta frá slitum R-listans. Fylgi við Sjálfstæðisflokk fer úr 55% í 52%. Samt fengi Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta. Vinstri grænir í Reykjavík mælast með 7% fylgi, Framsókn með tæp 5%, og Frjálslyndir með 2%. Færu kosningar til borgarstjórnar á þann veg sem könnunin sýnir, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 8 borgarfulltrúa, Samfylking 6, Vinstri grænir einn, en Framsókn og Frjálslyndir kæmu engum manni að. Svo mjótt var á munum milli sjötta manns Samfylkingar og níunda manns Sjálfstæðisflokks að aðeins munar einum svaranda.“

Ég feitletra þarna nokkur orð, mér finnst þau gefa til kynna að reynt sé að fegra niðurstöðuna fyrir Samfylkinguna, þegar augljóst er, að síðan 12. febrúar hefur fylgið snarfallið.