Dagbók: október 2016

Mánudagur 31. 10. 16 - 31.10.2016 14:30

Margar skrýtnar fréttir hafa birst um ummæli manna að loknum kosningum. Í dag var til dæmis sagt frá því í Fréttablaðinu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, teldi að flokknum hefði gengið betur í kosningunum laugardaginn 29. október undir sinni stjórn en arftaka síns, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sigmundur Davíð segir í blaðinu:

„Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu við hefðum getað aukið fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi.“ 

Í þingkosningunum árið 2013 fékk Framsóknarflokkurinn 24,4% atkvæða og 19 þingmenn. Nú fékk hann 11,5% og átta þingmenn. Sigmundur Davíð baðst lausnar sem forsætisráðherra 5. apríl 2016 og um þær mundir mældist fylgi Framsóknarflokksins 7% í könnun hjá Gallup. Hann tapaði í formannskjöri fyrir Sigurði Inga á flokksþingi sunnudaginn 2. október 2016 en frá 10. september 2016 lá ljóst fyrir að stefndi í formannsátök milli þeirra. Sigmundur Davíð lýsti sig andvígan þingkosningum nú og vildi að ríkisstjórnin sæti út kjörtímabilið. Eftir kosningarnar segist hann hafa haft sigurplan á hendi.

Í ágúst 2015 þegar Birgitta Jónsdóttir sagði á aðalfundi Pírata að hún mundi rjúfa heit sitt um að bjóða sig ekki fram í þriðja sinn með því skilyrði að gerður yrði stjórnarsáttmáli fyrir kosningar. Í janúar 2016 mældist fylgi Pírata 42% í könnun Fréttablaðsins. Síðan tók fylgið að minnka og þegar Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærri en Píratar kveinkaði Birgitta sér undan að þurfa að skýra fylgisminnkunina fyrir erlendum blaðamönnum.

Erlendir blaðamenn virtust leggja traust sitt á niðurstöður kannana þegar þeir ákváðu að bóka flug til Íslands vegna þingkosninganna. Þeir ætluðu að segja frá stórsigri Birgittu og félaga. Kosningarnar fóru vissulega á þann veg að Píratar juku fylgi sitt frá kosningunum 2013 og fengu nú 14,5%. Birgitta sagðist ánægð enda hefði hún spáð 10 til 15% fylgi! Eftir kosningar er samdóma álit að Píratar hafi tapað kosningabaráttunni, ekki síst vegna tilraunaviðræðna um stjórnarmyndun að ósk eða kröfu Birgittu. 

Segja verður þá sögu eins og hún er að Birgittu eru ákaflega mislagðar hendur þegar kemur að strategíu og framkvæmd hennar. Best líkar henni að geta sagt eitt í dag og annað á morgun. Nú segist hún ætla að verja einhverja minnihlutastjórn á þingi. Gamalkunna tuggan um að hér eigi að mynda minnihlutastjórn af því að þær starfi stundum annars staðar á Norðurlöndunum er komin á kreik að nýju. Það yrði veik stjórn sem setti traust sitt á Pírata.

Sunnudagur 30. 10. 16 - 30.10.2016 10:40

 

Að Samfylkingin skuli ekki fá nema þrjá þingmenn (alla af landsbyggðinni) út á að hafa fengið einn kjörinn í norðausturkjördæmi en enga þingmenn hvorki í Reykjavík né í suðvesturkjördæmi eru stærstu tíðindi þingkosninganna í gær. Úrslitin sanna réttmæti þess að efna til kosninga nú til að fá úr því skorið hverjum þjóðin treysti til að leiða hana áfram til efnahagslegra framfara. Flokknum sem tók vitlausustu stefnuna eftir hrun með kröfunni um að rífa stjórnarskrána og ganga í Evrópusambandið hefur verið kastað út af þingi. Flokksformaðurinn situr svo í rústunum og á þá von eina að unnt sé að halda sigurvegara kosninganna, Sjálfstæðisflokknum, utan ríkisstjórnar.

Allt þar til síðsumars vonuðu sumir álitsgjafar að framboð undir merkjum Viðreisnar gengi að Sjálfstæðisflokknum dauðum – hann fengi ekki nægilega mikið fylgi til að verða áfram stórveldið á íslenskum stjórnmálavettvangi. Með þetta í huga er góður árangur Sjálfstæðisflokksins sérstakt fagnaðarefni. Hann fékk alls 29% atkvæða, er stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum landsins og bætti við sig tveimur þingmönnum í 21. Bestur er árangur flokksins í kjördæmi Bjarna Benediktssonar flokksformanns rúm 33%. Lakast er fylgið í Reykjavíkurkjördæmunum. Sannast enn að gjörbylting er óhjákvæmileg í starfi sjálfstæðismanna í Reykjavík. Að höfuðborgin skuli vera dragbítur í kosningum staðfestir að þar verður flokkurinn að taka sér tak.

Píratar juku verulega fylgi sitt í kosningunum. Þeir eru hins vegar langt frá settu marki og digurbarkalegt tal Birgittu Jónsdóttur, leiðtoga þeirra, fyrir kosningar er aðeins til marks um pólitískt grobb og ístöðuleysi. Var ágætt að margir erlendir fjölmiðlamenn komu hingað til að kynnast að eigin raun hvers konar félagsskapur Píratar eru, sjá þeir þó aðeins toppinn á ísjakanum.

Sigurður Ingi Jóhannsson biðst í dag lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt sem falið verður að starfa áfram sem starfsstjórn. Slík stjórn hefur lagt fram fjárlagafrumvarp. Forsætisráðherra starfsstjórnar flytur þó ekki stefnuræðu í upphafi þings.

Framsóknarflokkurinn fór ekki eins illa út úr kosningunum og Samfylkingin en illa samt. Hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa nú aðeins 29 þingmenn á þingi í stað 38 áður. Þeir gætu setið saman í minnihlutastjórn með hlutleysi Viðreisnar, BF eða VG eða myndað meirihlutastjórn með einhverjum þeirra. Hvorki Samfylking né Píratar vilja vinna með Sjálfstæðismönnum. Sjálfstæðisflokkur og VG hafa samtals 31 þingmann á þingi. Samstarf þeirra hlýtur að koma til álita með stuðningi þriðja flokks.

Laugardagur 29. 10. 16 - 29.10.2016 15:30

Eðlilegt er að fjölmiðlamenn reyni að fylla dálka sína af efni um kosningarnar á sjálfan kjördag. Þessar fréttir eru í raun innihaldslitlar: um veður og kjörsókn. Það gerist svo lítið raunverulega fréttnæmt hjá okkar fámennu þjóð að lítilfjörleg atriði verða útblásin í fásinni gráa veruleikans. Alltaf má þó reyna að finna einhvern frásagnarflöt.

Á Vísi segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, margt skrýtið við kosningarnar sem nú standa yfir og ómögulegt sé að setja fingur á um hvað kosningarnar snúast. Margir spennuþættir séu í kringum kosningarnar og þá séu þær að setja met í metum:

„Þar má nefna hrun fjórflokksins sem hefur haft ægivald í íslenskum stjórnmálum. Þá er metfjöldi flokka líklegur til að ná inn á landsvísu eða sjö talsins. Íslenskir jafnaðarmenn hafa aldrei legið lægri og þá gæti það gerst að þátttaka fari niður fyrir 80% sem er áhyggjuefni fyrir okkur.  Svo erum við með sérstakt stjórnmálaafl í Pírötum sem dregur að sér alþjóðlega athygli með hætti sem við höfum ekki séð áður.“

Þetta tal prófessora í stjórnmálafræði um „hrun fjórflokksins“ er tugga sem virðist hluti af rannsóknar- og kennsluefni þeirra. Í marga áratugi var unnt að tala um fjóra meginflokka í landinu sem aldrei voru allir samstiga en urðu stundum að setjast saman í ríkisstjórn, þó aldrei allir í einu. Tveir þessara gamalgrónu flokka hurfu úr sögunni um aldamótin, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag með tilkomu VG og Samfylkingar. Að setja þessa tvo flokka undir sama hatt og Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk er fráleitt. Í kosningunum í dag hrynur enginn fjórflokkur, hann finnst hvergi. 

Á undanförnum árum hafa oft heyrst kveinstafir yfir að orðspor Íslands og ímynd kunni að spillast vegna framgöngu íslenskra stjórnmálamanna. Einkennilegt er ef enginn ímyndarfræðingur fær áhyggjur af myndinni sem fólk annars staðar fær af frásögnunum af Birgittu og co. Hún sagði við Le Monde að hér þyrfti enga Marine Le Pen eða Donald Trump og gaf til kynna að hún fyllti það skarð. Hún ætlaði sér annaðhvort að vera forseti alþingis í eitt ár og kollvarpa stjórnarskránni og snúa sér síðan að ljóðagerð eða forsætisráðherra til að færa framkvæmdavaldið til alþingis. 

Halldóra Mogensen Pírati sagðist ætla að afnema fulltrúalýðræðið, það er gera alþingi valdalaust. Annar Pírati, Sunna Ævarsdóttir, sagðist ætla að verða dómsmálaráðherra enda hefði hún heimsótt fangelsin í kosningabaráttunni.

Föstudagur 28. 10. 16 - 28.10.2016 15:30

Samtal mitt við Bjarna Benediktsson á ÍNN má nú nálgast hér á netinu.

Hér varð nokkur umræða í október 2014 þegar upplýst var að IS (Islamic State) – Ríki íslams eða Daesh, hryðjuverksamtökin sem nú eru á undanhaldi í Sýrlandi og Írak notuðu .is, íslenska lénið í netheimum, á áróðurssíður sínar. Ákvörðun var tekin um að loka á þessa notkun hryðjuverkamannanna.

Almenn samstaða var um lokunina. Einn þingmaður snerist þó gegn henni, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata. Hann er ekki í framboði núna en sagði á á FB-síðu sinni 12. október að sér hefði þótt viðundandi að ISNIC hefði lokað á síðu IS með vísan til þess að Íslamska ríkið ætlaði að eigna sér lénið .is til þess hefði þó skort heimild og því hefði ekki átt að loka á síðuna af því að almenningur yrði „að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams“.

Helgi Hrafn rökstudddi þessa undarlegu afstöðu meðal annars á þennan hátt:

„Allt tal um að þessari síðu verði að loka vegna þess að hún breiði út hatur er í grundvallaratriðum byggt á þeirri skelfilegu hugmynd að hluti verksviðs yfirvalda sé að hafa hemil á því hvað almenningur hugsi og hvað honum finnist.“

Í þýskum fjölmiðlum hefur oft komið fram að talið sé að allt að 90%  þeirra ungmenna sem IS tælir til liðs við sig í Evrópu geri það vegna hins lymskulega og snjalla áróðurs sem hryðjuverkasamtökin reka á netinu. Áhuga erlendra fjölmiðla, meðal annars þýskra, á Pírötum á Íslandi má rekja til leitar þeirra að stefnu Pírata. Ein spurningin er sú hvort þeir muni afnema bannið við að Ríki íslam noti lénið .is.

Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, hefur krafist að utanríkismálin falli í hlut flokks síns í stjórninni sem hún vill mynda að kosningum loknum undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Píratar vita að Ríki íslams hefur málað sig út í horn. Slík staða aðila í uppreisn gegn lögum og rétti höfðar sterkt til Birgittu og félaga eins og samúð þeirra með Edward Snowden, þjófi á bandarískum leyniskjölum, sýnir.

Allt bendir nú til að Sjálfstæðisflokkurinn myndi stærsta þingflokkinn að loknum kosningum. Þá liggur í hlutarins eðli að forseti veiti Bjarna Benediktssyni fyrst umboð til stjórnarmyndunar. Þetta hafa Birgitta og Smári McCarthy reynt að útliloka með viðræðum sínum um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Þau vilja þrengja svigrúm forsetans.

 

 

Fimmtudagur 27. 10. 16 - 27.10.2016 20:50

Í dag efndi Varðberg til ráðstefnu í samvinnu við Nexus og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um ný viðhorf í öryggismálum Norðurlanda. Fjórir ræðumenn fluttu erindi frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Af þeim er augljóst að breytingin á sviði öryggismála er mikil, raunar hefur orðið kúvending, einkum í Danmörku og Svíþjóð. Finnar og Norðmenn sem eiga landamæri að Rússlandi hafa aukið árvekni sína og viðbúað en breytingin er ekki eins afgerandi og hjá Dönum og Svíum.

Allt þetta má rekja til ögrandi framgöngu Rússa sem brutu gegn öllum viðurkenndum reglum og alþjóðalögum með innlimun Krímskaga í Rússland. Eitt er að segja að þess sé ekki að vænta að Rússar láti Krímskaga af hendi, annað að sætta sig við yfirgang þeirra. Vissulega voru mörg ríki sem hættu að andmæla innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin, önnur héldu fast í andmæli sín. Þeim varð að ósk sinni um endurheimt sjálfstæðis ríkjanna. Hefðu allir sætt sig við yfirgang Moskvumanna og ráð þeirra yfir Eystrasaltsríkjunum hefði inntak sjálfstæðiskröfunnar einnig horfið.

Að telja yfirgang Rússa gagnvart Úkraínumönnum einangrað, einstakt mál er misskilningur eða skammsýni. Meira er í húfi. Finnski ræðumaðurinn í dag, Charly Salonius-Pasternak, sagði að innan Rússlands höguðu stjórnvöld sér þannig að almenningur gæti ímyndað sér að vera á fyrsta stigi styrjaldar. Þetta er róttæk yfirlýsing sem ekki má hafa að engu í umræðum um öryggismál hér eða annars staðar á Norðurlöndum.

Íslenskir stjórnmála- og fjölmiðlamenn láta sig þessi mál almennt lítið varða. Segi þeir álit sitt á öryggismálum samtímans mætti stundum ætla að það það sé frekar reist á eigin óskhyggju eða fordómum en staðreyndum.

Í dag sannaðist sem lá í augum uppi að vinstri flokkarnir undir forystu Pírata segðu eitthvað sem engu skipti efnislega eftir viðræðurnar að kröfu Birgittu Jónsdóttur um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Í ljós kom að viðræðunum var og er ætlað að binda hendur Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, eftir kosningar, að hann geti ekki hundsað Pírata. Þeir hafi sannað að um fjögurra flokka blokk sé að ræða undir þeirra forystu og þess vegna beri þeim að fá umboð til stjórnarmyndunar.

Að fjölmiðlamenn átti sig ekki á þessari leikfléttu er í samræmi við annað þegar kemur að Pírötum. Sannast hefur að Smári McCarthy, leiðtogi evópskra pírata og frambjóðandi í Suðurkjördæmi, hefur villt á sér heimildir í fleiri en einu tilviki. Þá er augljóst að erlendir aflandskrónueigendur bíða með öndina í hálsinum eftir að Píratar fái undirtökin á alþingi.

 

Miðvikudagur 26. 10. 16 - 26.10.2016 15:00

Í dag ræddi ég við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, efnahags- og fjármálaráðherra, í 52 mínútur í þætti mínum á ÍNN sem verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.

The Financial Times segir þriðjudaginn 25. október að bandarískir fjárfestar sem eiga miklar aflandskrónueignir á Íslandi voni að ríkisstjórn sem tekur við eftir þingkosningarnar 29. október verði þeim hagstæðari.

Í blaðinu segir að fjórir bandarískir sjóðir eigi íslensk ríkisskuldabréf fyrir 1,5 milljarða Bandaríkjadala, sem nemur um 10% af vergri landsframleiðslu. Sjóðirnir, Autonamy Capital, Eaton Vance, Loomis Sayles og Discovery Capital Management, saka íslensk stjórnvöld um að haga sér eins og stjórnvöld í Argentínu með því að ætla að láta þá taka á sig fjárhagslegt tap.

Sjóðirnir hafa kvartað til EFTA fyrir utan að beita sér hér á landi til dæmis með heilsíðu auglýsingum í blöðum.

„Þegar fjaðrafokinu lýkur og nýtt fólk verður í ríkisstjórn, teljum við að þeir muni horfa öðruvísi á málin. Er þörf á þessum aðgerðum? Er nauðsynlegt að vera svona óbilgjarnir?“ segir Pétur Örn Sverrisson lögfræðingur sjóðanna tveggja. „Í mínum huga þá er glórulaust fyrir ríkisstjórnina að hafa þetta hangandi yfir sér.“

Merkilegt er að þessi frétt skuli skrifuð rúmum sólarhring eftir að vinstri flokkarnir hittust undir forystu Pírata til að ræða stjórnarmyndun að kosningum loknum. Forystumenn flokkanna vildu ekki upplýsa neitt um inntak viðræðna sinna. Að lögfræðingur tali um málefni umbjóðenda sinna á þann hátt sem þarna er gert án þess að hafa eitthvað fyrir sér er óhugsandi.

Á vefsíðu Viðskiptablaðsinsvb.is, er vitnað í Ásgeir Jónsson hagfræðing sem segir að núverandi ríkisstjórn hafi verið of drambláta gagnvart kröfuhöfunum og gengið of hart að þeim.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hafnar allri samlíkingu við Argentínumenn. Seðlabankinn taki málefni kröfuhafanna fyrir á næsta ári.

Þegar þessi frétt er lesin vakna minningar um hvernig ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. tók á málum kröfuhafa á fyrstu stjórnarmánuðum sínum eftir 1. febrúar 2009. Fyrrnefndur lögfræðingur kröfuhafanna þekkir þá sögu alla og veit að með Steingrím J. í valdastöðu verður mótuð friðþægingarstefna gagnvart kröfuhöfunum eins og við einkavæðingu bankanna í ráðherratíð hans eða gerð Icesave-samninganna.

Málflutningur lögfræðings kröfuhafanna einkennist af gamalkunnum hræðsluáróðri. Hann veit að sá áróður bítur þegar Steingrímur J. og co. eiga í hlut.

Þriðjudagur 25. 10. 16 - 25.10.2016 14:00

Hér hefur verið vakið máls á þeirri staðreynd að þrátt fyrir yfirlýsingar um virðingu fyrir lýðræðislegum leikreglum ræður lítil klíka flokki Pírata. Saga þess valdabrölts alls er greinilega of flókin fyrir fjölmiðla. Þá kunna fjölmiðlamenn að láta glepjast af málsvörn forystuliðs Pírata sé leitað upplýsinga hjá því.

Í öðru lagi blasir við öllum að Píratar draga forystumenn þriggja vinstri flokka til viðræðna um stjórnarsáttmála og samstarf á fölskum forsendum. Upphaflega var látið eins og viðræðurnar ættu að verða til að auðvelda kjósendum að ákveða hver færi með stjórn landsins að loknum kosningum. Eftir fyrsta viðræðufundinn var svo sagt að trúnaður ríkti um það sem þar fór fram. Ef ekkert má spyrjast út um málefnin, hvers vegna eru formenn flokkanna ekki spurðir um ráðherraefnin: Steingrímur J. fjármálaráðherra að nýju? Smári McCarthy forsætisráðherra? Birgitta forseti alþingis?

Í þriðja lagi fara nú fram miklar umræður á samfélagsmiðlum um að Smári McCarthy, einn þriggja yfir-pírata, og Jón Þór Ólafsson, sem sat á þingi fyrir Pírata og er nú aftur í framboði, hafi látið eins og þeir séu með háskólagráður sem þeir hafa ekki. Má benda þeim á Eyjuna sem vilja vita meira um þetta.

Í fjórða lagi er óþarft að gleymist að eftir að Birgitta braut loforðið um að bjóða sig ekki fram í þriðja sinn sagðist hún á aðalfundi Pírata laugardaginn 29. ágúst 2015 ekki gefa kost á sér aftur til þingstarfa nema samið yrði fyrir kosningar um stjórnarsamstarf sem gerði ráð fyrir að á sex mánuðum yrði stjórnarskránni breytt, þjóðin kysi um aðildarviðræður við ESB og stjórnarráðinu yrði gjörbylt. Kosið yrði að nýju til þings eftir níu mánuði.

Hér hafa verið nefnd fjögur atriði sem öll snúa að ósannsögli og blekkingum. Þetta eru atriði sem við blasa rannsóknarlaust þegar rýnt er í málatilbúnað, framboð og stjórnmálastarf Pírata. Þótt Píratar séu ómarktækir og óhæfir til stjórnmálastarfa af ótta við að taka óvinsælar ákvarðanir eins og sannast á hjásetu Jóns Þórs Ólafssonar í mörg hundruð atkvæðagreiðslum á þingi mælist mikið fylgi við þá í mörgum skoðanakönnunum.

Þeir sem ræða stöðu Pírata í íslenskum stjórnmálum án þess að greina mennina og málefnin taka þátt í blekkingarleiknum með þeim. Þeir munu sitja eftir með sárt enni ef reynir á Pírata við landstjórnina.

 

 

Mánudagur 24. 10. 16 - 24.10.2016 14:15

Þegar ráðist var í endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs undir forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir aldarfjórðungi var höfuðáhersla lögð á að fækka millifærslusjóðum af ýmsu tagi. Þar sátu stjórnmálamenn og embættismenn yfir hlut þeirra sem unnu að verðmætasköpuninni. Sjóðirnir voru leifar þeirrar skoðunar að þeir sem sköpuðu verðmætin hefðu minna vit á ráðstöfun þeirra en stjórnmálamenn og embættismenn.

Nýi flokkurinn, Viðreisn, boðar nú endurkomu millifærslusjóðanna. Flokkurinn boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 23. október á sama tíma og fjórflokkurinn, Píratar, Samfylking, VG og BF, efndi til auglýsts leynifundar í Litlu-Lækjarbrekku. 

Viðreisn reyndi að beina athygli frá baktjaldamakkinu undir forystu Pírata með því að kynna svonefndan innviðasjóð til sögunnar. Sjóðurinn er hluti afgjaldskerfis innan sjávarútvegsins sem Viðreisn ætlar að nota til að auka gjaldtöku á útgerðarmenn undir því yfirskini að afgjaldinu verði „varið til innviðauppbyggingar á þeim svæðum þar sem kvóti fiskiskipa er upprunninn“. Að sjálfsögðu verður ekkert sjálfvirkt í þessu efni heldur verður komið á fót opinberu kerfi undir stjórn stjórnmálamanna til að halda utan um þennan nýja millifærslusjóð og ráðstafa fé úr honum.

Viðreisn sýnir með þessari tillögu að þar fer gamaldags millifærsluflokkur. Í raun þarf það ekki að koma á óvart vegna aðdáunar flokksins á Evrópusambandinu og áhuga á að Ísland verði hluti ESB-kerfisins sem einkennist af sjóðum og millifærslum. Mikilvægur liður í boðun ESB-aðildarsinna snýr að lofsöng um væntanlega aðild Íslands að ESB-sjóðakerfinu. Hugmyndin um innviðasjóðinn kann raunar að vera komin frá Brussel. Ef til vill ætla Viðreisnarmenn að fela Brusselmönnum að ráðstafa sjóðnum til að treysta tengslin við þá.

Væri ekki bann við reykingum í Litlu-Lækjarbrekku mætti líkja fundi Pírata og co. þar sunnudaginn 23. október við það þegar menn hittast í reykfylltum bakherbergjum til að ráða ráðum sínum. Oftast vilja menn að sem minnst sé vitað um slíka fundi og viðurkenna stundum alls ekki að til þeirra hafi verið efnt.

Þetta á ekki við um fjórflokkafund Pírata. Hann var auglýstur í bak og fyrir og allt kynnt nema niðurstaðan. Þegar spurt var um efni fundarins var það sagt trúnaðarmál. Þrátt fyrir ítrekaðan vilja flokkanna fjögurra til að fá sem mest fylgi mátti alls ekki upplýsa hvað flokkarnir hefðu sameiginlegt að bjóða. 

Þessi leynd er í anda stjórnarhátta Pírata-klíkunnar. Hún ætlar gefa út sína lýsingu á efni fundanna tveimur dögum fyrir kosninga og túlka að hætti Birgittu.

Sunnudagur 23. 10. 16 - 23.10.2016 13:30

Viðtal mitt við Bryndísi Haraldsdóttur, formann bæjarráðs Mosfellsbæjar og 2. mann á lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, á ÍNN miðvikudaginn 19. október má nú sjá hér.

Á vefsíðunni Eyjunni birtist fimmtudaginn 20. október viðtal við Sighvat Björgvinsson, fyrrv. ráðherra og alþingismann, sem stóð að því árið 1999 sem formaður Alþýðuflokksins að mynda Samfylkinguna. Hana skyldi setja til höfuðs Sjálfstæðisflokknum. Hún er þó nú að hruni komin. Sighvatur segir meðal annars:

„Síðan gerist það, að þáverandi formaður Samfylkingarinnar [Ingibjörg Sólrún Gísladóttir] tekur ákvörðun um það að beina flokknum í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Í hrunstjórninni. Það er að segja, hverfur frá því upphaflega markmiði að reyna að gera Samfylkinguna að höfuðandstæðing Sjálfstæðisflokksins og kosti um stjórnarforystu á móti Sjálfstæðisflokknum.“

Í stuttu máli telur Sighvatur þetta upphafið að niðurlægingu Samfylkingarinnar.

Davíð Oddsson, fyrrverandi bogarstjóri, ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallar um stjórnmál líðandi stundar í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem birtist í blaðinu laugardaginn 22. október. Davíð víkur að kjöri Jóns Gnarrs sem borgarstjóra. Hann hafi persónulega svo sem ekki gert neitt annað en þiggja laun sín en seta hans í ráðhúsinu hafi verið „langdregin uppákoma“. Þá segir: „Þáverandi stjórnarandstaða í borginni taldi rétt að flissa með. Hún hefur ekki náð sér síðan.“

Þarna fella tveir fyrrverandi flokksformenn neikvæðan dóm yfir „samræðustjórnmálunum“ svonefndu. Þau nutu sín einmitt á þeim tíma sem þeir ræða og telja upphaf hnignunarskeiðs flokka sinna. Skýring þeirra er síst verri en aðrar. Sé hún rétt vaknar spurning um hvað verður um flokkana fjóra Pírata, Samfylkingu, VG og BF sem lúta forystu fólksins sem hittist í Litlu Lækjarbrekku við Bankastræti í Reykjavík í dag, sunnudaginn 23. október, til að stilla saman strengi sína vegna þess sem gerist eftir þingkosningarnar 29. október.

Vandinn vegna funda af þessu tagi er minnstur hjá Pírötum. Þar ræður lítil klíka för. Hún hefur búið þannig um hnúta að við henni verður ekki hróflað hvað sem á gengur. Flokkarnir þrír Samfylking, VG og BF eiga allt að heita lýðræðisflokkar með stjórnir og ráð til samráðs við ákvarðanir eins og um stjórnarmyndun. Ekkert fólk hefur verið kallað saman til að ræða slíkt í flokkunum. Þess vegna er látið eins og um samræður en ekki stjórnarmyndun sé að ræða. Formennirnir vilja útgönguleið. Allt bendir þó til að þeir hafi fest sig í neti.


Laugardagur 22. 10. 16 - 22.10.2016 11:30

Fyrir fáeinum vikum sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í viðtali í Bretlandi að stjórnarmyndun yrði líklega erfið að kosningum loknum vegna hugsjónaflokksins (!) Pírata. Nú hafa Píratar fengið Samfylkingu, VG og BF í lið með sér til að binda hendur Guðna Th. og neyða hann til að veita Pírötum umboð til stjórnarmyndunar. Birgitta Jónsdóttir efndi oft til samblásturs gegn Ólafi Ragnari nú vegur hún að Guðna Th.

Það sem flokksformennirnir nota til að réttlæta þessar stjórnarmyndunarviðræður sínar er óvild í garð Sjálfstæðisflokksins. Þeir færa sig með viðræðunum nær samstöðu um að halda áfram tilraun til aðildar að ESB, um að hækka skatta, um að vega að fyrirtækjum, um að þrengja svigrúm einstaklinga og um að reka ríkissjóð á ábyrgðarlausan hátt. Allt skilur þetta á milli þeirra og Sjálfstæðisflokksins.

Eitt er að flokkarnir sameinist gegn Sjálfstæðisflokknum, annað að gera það undir forystu flokks sem vill beinlínis ögra forseta Íslands á þann hátt sem Píratar gera. Vissulega var varasamt fyrir Guðna Th. að tala eins og hann gerði í sjónvarpsviðtalinu í Bretlandi. Hann hugsaði greinilega ekki út í að Birgitta hagaði sér eins og Trump sem ræðst markvisst á þá sem hann telur að geri á hlut sinn.

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna og frambjóðandi Bjartrar framtíðar, segir í Fréttablaðinu í dag:

„Því er ekki að leyna að stóraukinn ferðamannastraumur til landsins og hagstætt verðlag á íslenskum sjávarafurðum hefur reynst mikil búbót fyrir íslenskt samfélag. En óveðursskýin hrannast samt upp við sjóndeildarhringinn. Í raun má líkja ástandinu á Íslandi við svikalogn. Miklar sveiflur í gengi íslensku krónunnar er farið að skapa vandamál fyrir íslenska útflytjendur og í raun alla aðila sem standa í verslun og viðskiptum. Erfitt er að reka fyrirtæki í slíku ástandi.“

Andrés getur ekki fengið sig til að viðurkenna að ákvörðun núverandi stjórnarflokka um að hætta ESB-aðildarbröltinu og snúa sér að afnámi hafta, lækkun tolla og vörugjalda í stað þess að ekkert mætti eða ætti að gera nema með samþykki ESB hefur gjörbreytt samfélaginu og efnahagslífinu. Til að réttlæta málstað sinn grípur hann enn og aftur til hræðsluáróðursins um „óveðursskýin“ í anda Icesave-boðskaparins. Hræða á þjóðina til að hún hundskist til að samsinna ESB-aðildarboðskapnum. Ætli Andrés treysti sér ekki lengur til að lesa um ófremdarástandið innan ESB? Er hann hættur að fylgjast með því?

Föstudagur 21. 10. 16 - 21.10.2016 17:45

Píratar mælast stærsti stjórnmálaflokkurinn í könnun Félagsvísindastofnunar sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Nokkur athygli hefur beinst að flokknum í þessari viku en sunnudaginn 16. október töldu fjölmiðlar og stjórnmálafræðingar að forysta flokksins hefði boðað til stjórnarmyndunarviðræðna í því skyni að útiloka Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Þrír einstaklingar leiða þessar viðræður af hálfu Pírata og er augljóst að Smári McCarthy lítur á sig sem forsætisráðherraefni flokksins þótt látið sé í veðri vaka að flokkurinn sækist ekki eftir embættinu. Smári leiðir listann í suðurkjördæmi og hefur verið leiðtogi Evrópusamtaka Pírata sem eru á fallanda fæti megi marka vefsíðu þeirra. Hann blandaði sér í Brexit-kosningarnar á Bretlandi og barðist fyrir aðild Breta að ESB undir slagorðinu: „Ekki vera heimsk þjóð – kjósið að vera í sambandinu“. Hér á landi slær hann úr og í þegar hann er spurður um afstöðu til ESB.

Þótt Píratar ræði mikið um opið stjórnkerfi stjórnar lítil klíka flokki þeirra án gagnsæis og án þess að kalla á almenna þátttöku stuðningsmanna flokksins við töku ákvarðana. Hafa tök klíkunnar verið hert undanfarnar vikur eins og fram kom í prófkjörum, einkum í norðvesturkjördæmi.

Lykilaðili í lokuðu valdakerfi Pírata er Olga Margrét Cilia sem fer með forystuhlutverk í kosningastarfinu núna eftir sviptingar á bak við tjöldin, brottrekstur kosningastjóra og fleira. Valið var í kosningastjórnina á bak við tjöldin. Grasrótin kom ekki að ákvörðunum um hana, fyrir utan að flokksklíkan hefur blásið af opið ráðningarferli til að treysta völd sín.

Einkennilegt er að fjölmiðlar beini ekki meiri athygli að innviðum Pírata og kynni rækilega til sögunnar fólkið sem þar á hlut að máli. Ekki er síður sérkennilegt að enginn úr hópi stjórnmálafræðinga skuli taka sér fyrir hendur að skilgreina hvort líta megi á Pírata sem lýðræðislegt afl í ljósi skipulags þeirra sjálfra og framkvæmdar á því.

Fari svo fram sem horfir fær klíkan sem ræður flokki Pírata ekki aðeins mikil völd í þjóðfélaginu í krafti þess fylgis sem henni er spáð heldur einnig margar milljónir af skattfé almennings. Það er beinlínis nauðsynlegt til að sporna við spillingu að valda-afkimar Pírata séu skoðaðir og skráð hvernig þræðir valdsins í röðum þeirra liggja.

 

Fimmtudagur 20. 10. 16 - 20.10.2016 11:30

Vegna þess hve augljóst var að Kastljósi gærkvöldsins var beint gegn Sjálfstæðisflokknum aðeins 10 dögum fyrir kosningar setti ég þennan texta inn á síðu mína á Facbook

„Kastljós safnaði í kosningasarpinn í von um að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og gerði tilraun til þess 10 dögum fyrir kosningar með því að birta átta ára gamla frétt um lánið fræga til Kaupþings. Það var veitt með öruggu veði í von um að einn banki lifði. Sagan um hvernig fór fyrir veðinu er athyglisverðari en ákvörðunin um lánið en það passar Kastljósmönnum ekki að segja þá sögu frekar en þeir vilja ekki segja söguna um leynilega einkavæðingu Steingríms J. á bönkunum til kröfuhafanna.“

Viðbrögðin voru mikil og þeim er ekki lokið. Jafnt þeir sem hrósa Kastljósmönnum og hinir sem gagnrýna þá eru sammála um að hér hafi verið um flokkspólitíska aðgerð gegn Sjálfstæðisflokknum að ræða.

Frásögnin og sérstaklega umgjörð hennar var tilefnislaus þegar litið er á efni málsins.

Í fyrsta lagi var upplýst fyrir löngu að Geir H. Haarde forsætisráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri ræddu saman í síma um hvort veita ætti Kaupþingi neyðarlán með veði í dönskum banka í von um að bjarga mætti einum íslenskum banka í hruninu. Vonin brást.

Í öðru lagi vaf vitað að Geir H. Haarde vissi ekki að símtal hans og Davíðs var hljóðritað. Hann hefur þess vegna neitað birtingu þess í krafti réttar síns í því efni. 

Í þriðja lagi var sagt frá því að starfsmaður seðlabankans hefði brotið trúnað með því að ræða við konu sína, lögfræðing hjá samtökum fjármálafyrirtækja, vinnu við gerð neyðarlaganna.

Allir þættir þessara mála hafa sætt rannsókn nefndar á vegum alþingis, sérstaks saksóknara og fyrir Landsdómi. Að málið var tekið upp í Kastljósi núna má auðveldlega flokka undir einhliða áróður á örlagastund fyrir kosningar. Dómgreindarleysi eða bíræfni þeirra sem standa að þessari beitingu opinbers fjölmiðlavalds er augljós. 

Í frásögninni var stuðst við gögn eftir skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara frá árinu 2012 yfir starfsmanni seðlabankans. Einhver hefur lekið þessu trúnaðarskjali og framið með því lögbrot. Þegar heimasömdu minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos var lekið úr innanríkisráðuneytinu fór allt á annan endann. Verður jafnræðisregla brotin með aðgerðarleysi opinberra yfirvalda vegna lekans nú?

 

Miðvikudagur 19. 10. 16 - 19.10.2016 16:30

Í dag ræddi ég við Bryndísi Haraldsdóttur, formann bæjarráðs Mosfellsbæjar og frambjóðanda í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.

Össur Skarphéðinsson var fulltrúi Samfylkingarinnar í sjónvarpsumræðum fulltrúa stjórnmálaflokkanna um Ísland og umheiminn þriðjudaginn 18. október. Össur hætti ESB-viðræðunum í janúar 2013 af því að ekkert hafði miðað við afgreiðslu sjávarútvegskafla þeirra frá því í mars 2011. Það hafði meira að segja engin áhrif á ESB að Jón Bjarnason (VG) var rekinn úr ríkisstjórninni 31. desember 2011og sjálfur Steingrímur J. Sigfússon tók við af honum og brá sér til Brussel í ársbyrjun 2012. Nú vill Össur hefja viðræðurnar að nýju meðal annars með þessum rökum sem hann kynnti í sjónvarpsumræðunum. Össur sagði:

„Þá [snemma árs 2013] lá það fyrir nokkuð vel að við vorum að ná landi í nokkrum mikilvægum málaflokkum. Ég nefni sérstaklega þá sem voru erfiðastir það er í landbúnaði og sjávarútvegi.

Það var mjög merkilegt að sjá það undir lok kjörtímabilsins síðasta þegar staðgengill sendiherra ESB lýsti afstöðu ESB á opnum fundi og refererað var í fjölmiðlum og sagði það einfaldlega að Íslendingar hefðu meitlað það svo fast sín rök til dæmis í sjávarútvegsmálum að það væri augljóslega niðurstaðan að Íslendingar fengju hér sérstakt fiskveiði stjórnsvæði og það væri augljóslega niðurstaðan að ESB eða Brussel mundi ekki hafa áhrif á úthlutun aflaheimilda. Áður hafði þó komið skýrt fram að ESB hafði engan grundvöll til að fá hér einn sporð í aflaheimildir. Þetta skiptir máli að nota þetta færi á meðan það liggur svona. [...]

Ég tel að Brexit ef af því verður það auki líkurnar á því að okkur takist að ná enn betri samningi en menn hefðu getað vænst áður.“

Þetta eru raun furðuleg ummæli mannsins sem hóf og lauk ESB-aðildarviðræðunum. Hann skildi við málið uppi á skeri en hefur síðan talið sér trú um að best sé að láta eins og það hafi ekki gerst og skútan sé enn á floti. Viðræðurnar hófust á röngu stöðumati og ósannindum um eðli þeirra. Stöðumat Össurar á efni viðræðnanna er enn rangt og að Brexit auðveldi viðræður við staðfestir aðeins óraunsæið.

Þriðjudagur 18. 10. 16 - 18.10.2016 11:15

 

Hér var í gær vísað til túlkunar Baldurs Þórhallssonar prófessors á útspili Pírata um helgina. Hann taldi það marka merkileg þáttaskil þótt Pírötum mistækist að gera „stjórnarsáttmála“ fyrir kosningar. Frá því að þessi orð prófessorsins og annarra féllu um stjórnarmyndun Pírata fyrir kosningar hefur komið í ljós að eitthvað annað vakir fyrir Pírötum. Smári McCarthy, umboðsmaður Pírata ásamt Birgittu, sagði í samtali við Eyjuna í gær:

„Við erum ekki að tala um kosningabandalag, við erum að tala um að ákveðnir flokkar sameinist um ákveðið samstarf. Það þýðir ekki að þessi flokkar fari saman í stjórn eða eitthvað svoleiðis, það verður síðan að koma í ljós.“

Hér sannast enn að leiðtogar Pírata kjósa að tala út og suður og velja síðan þá skoðun sem þeim finnst henta best hverju sinni. Óvíst er að prófessor Baldur eða aðrir sem tóku að ræða um væntanlegan stjórnarsáttmála Pírata hafi lesið bréfið sem umboðsmenn Pírata sendu öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sunnudaginn 16. október. Þar segir í upphafi:

„Fyrir hönd Pírata óskum við eftir formlegum fundi við þig á næstu dögum til að ræða hugsanlega samvinnufleti fyrir næsta kjörtímabil. Markmið fundarins verður að átta sig á því hvar okkar flokkar geta unnið saman til að greiða leið þingsins strax að loknum kosningum, óháð niðurstöðum kosninga.“

Fyrir utan klaufalegt orðalag er illskiljanlegt við hvað er átt með samstarfi „til að greiða leið þingsins strax að loknum kosningum“.  Hvað gera stjórnmálamenn til að „greiða leið þingsins“?  Getur einhver prófessor skýrt það? Þýðir þetta að gerður skuli stjórnarsáttmáli fyrir kosningar?

Það verður enginn stjórnarsáttmáli gerður fyrir kosningar eins og Birgitta lofaði. Upphlaupið á sunnudag var hrein sýndarmennska eins og annað sem frá henni kemur. Nú dröslast Píratar með þá yfirlýsingu hennar að næsta kjörtímabil verði aðeins níu mánuðir. Um það segir Smári umboðsmaður á Eyjunni:

„Það hefur verið reynt að hengja okkur í tali um að þetta eigi að vera níu mánuðir, það er ekki endilega markmiðið út af fyrir sig. Níu mánuðir væri kannski fínt, kannski væri átján fínt, ég veit það ekki. Bara á meðan við gerum þetta á réttum tíma.“

Þetta er köld kveðja Smára til Birgittu – það hefur enginn reynt að hengja Pírata í tali um níu mánuðina nema sjálf Birgitta. 

Mánudagur 17. 10. 16 - 17.10.2016 12:30

Hefði Birgitta Jónsdóttir, leiðtogi Pírata, ekki spilað út hugmyndinni um stjórnarsáttmála fyrir kosningar hefði hún reynst með öllu marklaus. Innan flokks hennar var ákveðið að þríeyki fengi umboð til stjórnarmyndunar fyrir kosningar eftir að beitt hafði verið brögðum til að þeir sem telja sig eiga Pírataflokkinn höfðu náð undirtökunum í öllum kjördæmum hans með óskiljanlegum prófkjörsaðferðum.

Tveimur vikum fyrir kjördag, sunnudaginn 16. október boðaði þríeykið síðan blaðamannafund þar sem Birgitta flutti boðskapinn um stjórnarsáttmálann. Píratar hefðu sent fjórum flokkum bréf um mögulegar stjórnarviðræður eftir kosningar. Flokkarnir væru Björt framtíð, Samfylkingin, Vinstri græn og Viðreisn. Píratar ætluðu síðan að skila skýrslu um viðræður við flokkana til kjósenda fimmtudaginn 27. október, tveimur dögum fyrir kosningar.

Á mbl.is er mánudaginn 17. október rætt við Baldur Þórhallsson, deildarforseta stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands, sem segir meðal annars:

„Ég held að þetta útspil sé nokkuð snjallt hjá Pírötum. Þrátt fyrir að þessi tilraun sé dæmd til að mistakast, vegna þess að það er mjög óraunhæft að það náist að gera stjórnarsáttmála á þeim skamma tíma sem er til kosninga, þá staðfestir hún að Píratar eru rótækt umbótaafl sem er staðráðið í því að breyta íslenskum kosningahefðum. Mig grunar að það séu skilaboðin sem Píratar eru að senda með þessu.“

Prófessorinn lítur sem sé á þetta sem snjalla stjórnmálafæðilega tilraun sem sé dæmd til að mistakast. Þetta er með öðrum orðum liður í pólitísku sjónarspili sem sett er á svið til að gefa til kynna að forystusveit Pírata ætli að „vera leiðandi í næstu ríkisstjórn“, hún ætli ekki að „verða þriðja, fjórða eða jafnvel fimmta hjólið undir vagninum,“ segir Baldur og einnig: „Þeir ætla að vera aðal og eru komnir til að breyta. Það verður þeirra krafa í stjórnarmyndunarviðræðum.“

Sé þessi kenning prófessorsins rétt má draga þá ályktun að stjórnmálaforingjar sem taka jákvætt í hugmynd Birgittu játist undir forystu hennar að kosningum loknum þótt tilraunin mistakist fyrir kosningar. Oddný Harðardóttir, Samfylkingu, og Katrín Jakobsdóttir, VG, hafa þegar stigið þetta skref. Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, og Benedikt Jóhannesson, Viðreisn, hika en afneita ekki Birgittu.

Spurningin sem vaknar er: Hvers vegna að kjósa millilið eða varadekk? Af hverju ekki að kjósa Birgittu milliliðalaust?  

 

 

Sunnudagur 16. 10. 16 - 17.10.2016 11:30

Í morgun setti ég spurningu inn á Facebook síðu mína í tilefni af umræðum um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Ég spurði: Er eðlilegt að ríkisfyrirtæki sveipað leyndarhjúpi standi að öllum þessum framkvæmdum? Þarna vísa ég til Isavia ohf., ríkishlutafélags sem beitir öllum ráðum til að starfa með sem mestri leynd eins og málaferli Kaffitárs á hendur félaginu sýna.

Hér má sjá viðbrögðin við spurningunni. Einn svarenda er Pétur J. Eiríksson, fyrrverandi yfirmaður hjá Flugleiðum. Hann segir: „Verst er að engar framkvæmdir eru ákveðnar þótt þörfin æpi. Hægagangurinn hefur breytt KEF úr einum besta flugvelli Evrópu í einn þann versta.“

Tilefni spurningar minnar er frétt sem birtist á ruv.is laugardaginn 15. október og hefst á þessum orðum:

„Ekki hefur verið ákveðið hvort byrjað verður á fyrsta áfanga framtíðarstækkunar Keflavíkurflugvallar. Hönnun og framkvæmdir tækju fimm ár, og á meðan er útlit fyrir að flugfélögin þurfi að fjölga flugferðum utan háannatíma á daginn ef þau vilja auka umsvif verulega.

Ef fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll verður áfram hröð er útlit fyrir að ráðist verði í meiriháttar framkvæmdir þar. Isavia kynnti í fyrra þróunaráætlun, með metnaðarfullum hugmyndum um uppbyggingu til 2040. Þær eru þó ekki meitlaðar í stein. 

„Þróunaráætlunin sagði ekki endilega „svona munum við byggja“, heldur svona sjáum við framtíðina til 2030-2040,“ segir Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia.“

Allt er þetta sem sagt í véfréttarstíl og lýkur frásögninni á ruv.is á þessum orðum:

„En þurfa flugfélögin þá að breyta sínu leiðarkerfi og nýta dauða tímann ef þau vilja auka umsvifin verulega? „Kannski ekki breyta sínu leiðarkerfi í heild, en hugsa kannski ný tækifæri á öðrum tímum innan flugvallarins, ef þeir vilja gera það strax.““

Svarið við spurningunni sem ég setti á Facebook hlýtur að vera nei. Skýrslan sem skapað hefur umræður um Keflavíkurflugvöll nú er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Aton og eru höfundarnir allir fyrrverandi aðstoðarmenn ráðherra í stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Í kynningu á sér á netinu segir Ingvar Sverrisson, forstjóri Aton: „Aton is a consulting company emphasising on Marketing and PR for companies in the Icelandic market. I have a strong experience in working with politicians and have therefore been able to help companies in representing their cases in order to have influence on decisions (Lobbyism).“ 

 

 

Laugardagur 15. 10. 16 - 15.10.2016 13:00

Fyrir okkur sem höfum lengi stundað skrif um innlend og erlend málefni getur verið erfitt að átta sig á hvað ganga megi langt í frásögnum til að verða ekki sakaðir um haturs- eða kynþáttaskrif.

Um þessar mundir eru sagðar fréttir af því að hollenski stjórnmálamaðurinn Geert Wilders verði lögsóttur í heimalandi sínu fyrir hatursummæli á opinberum vettvangi. Hann flutti ræðu á opinberum stjórnmálafundi og spurði áheyrendur sína hvort þeir vildu fleiri eða færri Marokkóbúa til Hollands. Fólkið hrópaði: Færri! Færri! og Wilders svaraði: Ég kippi þessu í lag. (I will fix it, sagði í fréttum BBC). Fyrir þetta atvik vilja yfirvöld að hann verði dæmdur.

Í Fréttablaðinu birtist í dag frétt sem hefst á þessum orðum:

„Það er merkilegt að þeir vilji tengja við svona gamla kynþáttafordóma,“ segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði. Umræða hefur spunnist síðustu daga um sælgætisgerðina Kólus og umbúðir sem prýða kremlakkrís frá þeim.

Kólus framleiðir lakkrís undir heitinu Sambó en það er einnig rasískt hugtak í ensku. Hugtakið sem á við einstakling sem á hvíta og hörundslitaða forfeður hefur verið notað með niðrandi merkingu frá því um miðja 19. öld.

Kjartan Páll Kjartansson, framkvæmdarstjóri Kólus, segir ekkert rasískt vera við umbúðirnar og segir strákinn á umbúðunum vera litla svarta Sambó sem er indverskur drengur úr bókinni Sagan af litla svarta Sambó. Hann skilur ekki hvers vegna fólk er að gera mál úr þessu og segir þetta einfaldlega vera móðursýki. Bókin hefur verið harðlega gagnrýnd en hún er sögð einkennast af fordómum vegna staðlaðra hugmynda um svart fólk og þá sérstaklega teikningar bókarinnar.“

Í tímaritinu The Spectator mátti nýlega lesa grein um að í breskum háskólum fjölgaði nemendum sem teldu sér ekki annað fært en hefja baráttu fyrir mál- og skoðanafrelsi og beinist hún ekki síst gegn National Union of Students (NUS), landssamtökum breskra stúdentafélaga, sem greinarhöfundur segir að vilji kæfa allar umræður meðal námsmanna með kröfum um pólitískan rétttrúnað. Kallar hann andófsmennina Students for Sanity, baráttumenn fyrir heilbrigðri dómgreind. Núverandi forseti NUS hefur til dæmis neitað að fordæma hryðjuverkasamtökin Daesh (Ríki íslams) vegna þess að þar með kunni að verða til að ýta undir andúð á ísamlistum.

 

 

 

Föstudagur 14. 10. 16 - 14.10.2016 19:00

 

Nú birtast margar skoðanakannanir samdægurs vegna kosninganna 29. október og er augljóst að allir flokkar verða að taka sig á til að gleðja kjósendur sína. Hér skal ekkert sagt um gildi þessara kannana. Nýlega hlustaði ég á samtal við Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, í þættinum Hardtalk á BBC. Spyrjandinn lýsti undrun á að Le Pen vildi berjast fyrir úrsögn Frakklands úr ESB. Bretar hefðu að vísu samþykkt úrsögn en nú sýndu kannanir að svarendur vildu í raun ekki segja skilið við ESB. Le Pen spurði á móti hvernig spryjandanum dytti í hug að vitna í niðurstöður kannana, þær hefðu ekki reynst svo réttar fyrir atkvæðagreiðsluna um aðild að ESB.

Vegna auglýsinga frá VG um að flokkurinn sé traustsins verður beinist enn meiri athygli að bókinni Villikettirnir og vegferð VG eftir Jón Torfason skjalavörð. Í bókinni er meðal annars að finna stórundarlega ræðu sem Svandís Svavarsdóttir flutti þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu til stuðnings ESB-aðildarumsókninni.

Svandís lýsti sannfæringu sinni um að Íslandi væri betur borgið utan ESB en innan, að lýðræði væri fyrir borð borið innan ESB vegna þess að valdið væri „of langt frá fólkinu“, að ESB byggi sig undir að verða „hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða“; ESB snerist um „forréttindi Vesturlanda“. Ræðunni lauk Svandís síðan á þessum orðum:

„Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Áður en þessi einstæða ræða var flutt hafði Svandís greitt atkvæði gegn tillögu um að bera undir þjóðina hvort sækja ætti um aðild að ESB. Rökstuðningur hennar gegn aðild að ESB var allur fluttur í blekkingarskyni. Að Svandís skuli bjóða sig fram nú undir slagorði um traust er aðför að skynsemi kjósenda og argasta móðgun við þá.

Svandís Svavarsdóttir greiddi atkvæði með umsókn um aðild að ESB. Nú segist hún leggja áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu!

 

 

Fimmtudagur 13. 10. 16 - 13.10.2016 14:15

Samtal mitt við Jón Torfason skjalavörð á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.

Við ræðum um bók hans Villikettirnir og vegferð VG. Jón sagði sig tvisvar úr VG á tíma stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar af því að honum blöskraði svo svik forystumanna VG við stefnu flokksins. Um þau er fjallað í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar segir meðal annars undir fyrirsögninni: Hverjum má treysta?

„Nú síðast eru Vinstri græn tekin að auglýsa myndarlega hér og hvar og snýst temað um það hverjum megi helst treysta.

Nú getur enginn með fulla rænu talið að spurning um hverjum megi helst treysta kalli nánast sjálfkrafa á svarið: Vinstri grænum!

Núverandi formaður nýtur þeirrar náðar að hafa þykkari stjórnmálalega teflonhúð en flestir aðrir. Með því að blása upp mynd af formanninum á auglýsingaborðum þá er því treyst að fortíð VG, undir forystu Steingríms J. Sigfússonar, gleymist nægjanlega lengi. En það eru margar hindranir á þeirri vegferð. Það er ekki bara það að Steingrímur er enn á staðnum. Og það er ekki aðeins það að hann sé enn talinn af þeim sem fylgjast með ráða ekki bara því sem hann vill í VG heldur almennt ráða þar öllu. Því það er ekki nóg. Því að jafnvel í því algleymi, sem íslensk stjórnmál hafa smám saman verið að turnast í, muna enn nægjanlega margir að Katrín Jakobsdóttir var eins og hinn síamstvíburinn í öllu svikaferli Steingríms Sigfússonar. Þótt af miklu væri að taka heyrðist aldrei múkk frá Katrínu á meðan hver þingbróðir hennar og systir af öðrum hrökkluðust úr þingflokknum og voru fyrir vikið hrakyrt sem villikettir. En eftir sat Katrín Jakobsdóttir malandi í kjöltu valdsins.

Þegar þau Steingrímur J. tóku heljarstökk afturábak í stærsta og helgasta máli VG, andstöðunni við aðild að ESB, var samhæfingin slík að engin slík hefur enn sést á ólympíuleikum í fimleikum. Þegar næst kom að dýrkeyptasta svikabrallinu, tilraun til að þvinga þjóðina til að kyngja Icesave-samningunum, sungu þau tvíraddað þannig að enginn vissi hvor söng hvaða rödd.“

Þarna er ekkert ofmælt og í bók sinni færir Jón Torfason fram heimildir sem styðja þennan dóm leiðarahöfundar Morgunblaðsins yfir forystumönnum VG. Það er vissulega furðulegt að barátta VG fyrir þessar kosningar skuli reist á áróðri um að flokknum sé unnt að treysta betur en öllum öðrum.

 

Miðvikudagur 12. 10. 16 - 12.10.2016 18:45

Í kvöld kl. 20.00 verður frumsýnt viðtal mitt á ÍNN við Jón Torfason skjalavörð um nýja bók hans, Villikettirnir og vegferð VGfrá væntingum til vonbrigða. Þegar bókin er lesin og lýsing Jóns á svikum forystumanna VG við stefnu flokksins í ESB-málinu og fleiri málum til að viðhalda stjórnarsamstarfinu undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur er með ólíkindum að VG haldi velli í skoðanakönnunum en Samfylkingin verði að engu.

Samfylkingarfólkið var þó sjálfu sér samkvæmt þegar ESB-æðið rann á það með hörmulegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Samfylkingin hefði þó aldrei getað skrifað þennan svartasta kafla í utanríkismálasögu lýðveldisins án hlutdeildar VG-manna. Ábyrgð Steingríms J. er því mikið. Hann ýtti meðal annars Jóni Bjarnasyni úr ráðherraembætti til að verða við óskum ESB og Samfylkingarinnar.

Raunar hafði Jóni verið hótað brottrekstri í ríkisstjórninni áður en það gerðist endanlegas 31. desember 2011. Í bók Jóns Torfasonar segir Jón Bjarnason frá því hvernig flokksforysta VG lagðist á hann sumarið 2009 þegar gengið var til atkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsóknina. Fyrst var lögð fram tillaga frá sjálfstæðismönnum um að leggja það í dóm þjóðarinnar að ákveða hvort umsóknin skyldi send til ESB. Jón Bjarnason segir í bókinni (bls. 85):

„Á þingflokksfundi VG um málið var stemmingin þrungin og þegar ég sagðist myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu féll sú ákvörðun vægast sagt í mjög grýttan jarðveg. Var mér þá einfaldlega hótað brottrekstri úr ríkisstjórn af formönnum beggja stjórnarflokkanna. Eða eins og formaður VG [Steingrímur J.] orðaði það, þá var mér ætlað að ganga á fund forsætisráðherra.

Ögmundur Jónasson, sem lagði mikið í sölurnar fyrir myndun fyrrverandi ríkisstjórnar, stóð þá upp og tilkynnti að ef Jón Bjarnason ætti að ganga með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá myndi heilbrigðisráðherra [Ögmundur sjálfur] ganga sömu leið.“

Þetta gerðist um miðjan júlí 2009 þegar ríkisstjórnin var aðeins tveggja mánaða. Af bók Össurar Skarphéðinssonar Ári drekans sem segir frá ráðherrastörfum hans árið 2012 má ráða að hann og Ögmundur hafi í raun haft líf ríkisstjórnar Jóhönnu í hendi sér. Spyrja má í tilefni af tilvitnuðu orðunum hér að framan: Hvað lagði Ögmundur í „sölurnar fyrir myndun“ ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.?

Jón Torfason ritar bók sína vegna ósannsögli Steingríms J. Sigfússonar í sjálfs-upphafningarbók hans um eigin ráðherrastörf. Skyldi Ögmundur Jónasson, hættur þingmennsku, nú segja sína hlið á málum?

Þriðjudagur 11. 10. 16 - 11.10.2016 17:00

Í morgun var skipt um steina í báðum augum í mér hjá Sjónlagi, Glæsibæ í Laugardalnum.  Enn er ský yfir augunum en þó get ég lesið það sem ég set á skjáinn.

Þar sem ég er með þátt á ÍNN var minnst á auglýsingu Sjónlags á stöðinni þar sem sýnt er hvernig steinaskipti í augum eru framkvæmd. Taldi starfsfólkið fullvíst að áhorf á ÍNN væri mjög mikið svo margir hefðu haft auglýsinguna á orði. 

Komu orðin sem féllu þegar ég settist í aðgerðarstólinn heim og saman við reynslu margra viðmælenda minna á ÍNN sem undrast fjölda þeirra sem hafa orð á því að þeir hafi séð þá í þætti mínum.

Á vefsíðunni visir.is mátti mánudaginn 10. október lesa viðtal við Björt Ólafsdóttur, þingmann Bjartrar framtíðar, vegna brotthvarfs Heiðu Kristínuar Helgadóttur úr starfi Bjartrar framtíðar. Heiða Kristín lýsti yfir stuðningi við Viðreisn á Facebook síðu sinni sunnudaginn 9. október. Heiða Kristín aðstoðaði Jón Gnarr sem borgarstjóra og vann gegn Guðmundi Steingrímssyni sem formanni Bjartrar framtíðar. Björt segir meðal annars um Heiðu Kristínu: 

„Hún nefnir engan málefnalegan ágreining eða neitt svoleiðis en það er þessi vinna sem hún er að taka að sér [fyrir Viðreisn]. Og það er kannski líka þar sem skilur á milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, við erum ekki með djúpa vasa og stóreignafólk á bak við okkur sem kostar framboðið. Því ekkert hægt að seilast í það neitt. Við bara rekum okkur öðruvísi. Á bak við þetta framboð [Viðreisnar] er örugglega mikið af góðu fólki en auðvitað líka eins og bersýnilega sést mikið fjármagn og stórir kostunaraðilar. Við tókum meðvitaða ákvörðun um að taka ekki við fé frá fyrirtækjum og rekum okkur bara á löglegum fjárframlögum og þau leyfa ekki miklar auglýsingar eða mikið starfsmannahald eða annað. “

Ritstjórn Vísis segir frá eigin brjósti „Heiða Kristín hefur aðstoðað Viðreisn við mótun stefnu sinnar síðustu misseri en er ekki á launum hjá flokknum.“

Engin skýring er gefin á því hvers vegna ritstjórnin tekur þetta fram eða hver sé heimildarmaður hennar. Heiða Kristín var um tíma þáttarstjórnandi innan 365 samsteypunnar og var ætlað að stórauka áhorf á sjónvarpsstöð fyrirtækisins. Meira var sagt frá komu hennar til stöðvarinnar en því sem síðan gerðist, kannski starfar hún þar enn. Fréttin um inngöngu hennar í Viðreisn vekur spurningar um hvort til sé orðinn hópur fólks sem tekur að sér auglýsta flokksaðild gegn greiðslu.

 

Mánudagur 10. 10. 16 - 10.10.2016 19:15

Allan daginn í gær ræddu menn í bandarískum sjónvarpsstöðvum og annars staðar hvernig kappræðurnar yrðu, einkum með vísan til þess að föstudaginn 7. október sagði Washington Post frá og birti áður óþekkta sjónvarpsupptöku þar sem heyra mátti Trump stæra sig af kvenhylli sinni samtímis því sem hann talaði niður til kvenna og lýsti ruddalegri, kynferðislegri framkomu sinni við þær.

Vegna birtingarinnar lýstu hundruð frammámanna repúblíkana yfir að þeir ætluðu ekki að kjósa Trump. Einn úr röðum þessara manna, Rudy Giulianifyrrv. borgarstjóri í New York tók þó að sér að verja Trump í sunnudags-spjallþáttum sjónvarpsstöðvanna. Hann boðaði meðal annars að Trump mundi minna Hillary á framgöngu eiginmanns hennar gagnvart konum og rifja upp hve illa hún sjálf hefði talað um þessar konur – henni færist með öðrum orðum ekki að gagnrýna sig.

Allt gekk þetta eftir og Trump bauð meira að segja nokkrum konum sem hafa harma að hefna gagnvart Bill Clinton að sitja meðal áhorfenda í St. Louis-háskólasalnum sem breytt var í sjónvarpssal. Upphaf kappræðnanna bar með sér hve mikil spenna ríkti milli frambjóðendanna. Trump gat varla hamið sig og þau skiptust á skammaryrðum. Í einni lýsingu á fyrstu 30 mínútunum segir að Trump hafi hagað sér eins og fimm ára barn og megi þakka fyrir að hann skyldi ekki lemja Hillary.

Kannanir sýna að áhorfendur telja Hillary hafa sigrað í kappræðunum sem einkenndust mest af tilraunum þeirra beggja til að draga upp sem versta mynd af andstæðingi sínum. Trump sagði Hillary lygara og hún ætti heima á bak við lás og slá. Hillary sagði Trump aldrei fara með rétt mál og hann hefði enn einu sinni sýnt að ekki mætti treysta honum fyrir forsetaembættinu.

Ótrúlegast við þetta allt er að bandaríska stjórnmála-, flokka- og fjölmiðlakerfið skuli ekki skila bandarísku þjóðinni betri frambjóðendum en þessum tveimur eftir allt sem gengur á við val á forseta voldugasta ríkis heims og því fremsta á sviði rannsókna, vísinda og menntunar.

Sunnudagur 09. 10. 16 - 9.10.2016 18:30

Eftir hádegið á Arctic Circle var á þinginu sjálfu meðal annars rætt um siglingar í Norður-Íshafi og brugðið upp korti af höfnum við heimskautsbauginn á því sást hve risastór svæði eru án hafna og raunar án byggðar til að þjóna þeim eða njóta þjónustu þeirra. Hópur sérfróðs fólks frá Alaska sem stofnað hefur félag til að greiða fyrir siglingum í Norður-Íshafi greindi frá fjölmörgum atriðum sem nauðsynlegt sé að samræma milli þjóða og staða til að reglufargan og opinberar kröfur verði í raun ekki meiri hindrun á leið skipstjórnarmanna en hafísinn.

Arctic Circle færir jafnt og þétt út kvíarnar og þar á meðal með því að halda minni fundi utan Reykjavíkur. Þeir hafa meðal annars verið í Nuuk og Singapúr. Nú er á döfinni að halda slíkan fund í Québec í Kanada á næstunni og kom fram í dag að þar yrði rætt um hvort læra mætti af regluverkinu sem gildir um siglingar eftir Saint Lawrence-fljóti og Saint Lawrence Seaway, það er siglingaleiðina frá Atlantshafi inn á vötnin miklu í Norður-Ameríku. Þar hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn komið sér saman um reglur og framkvæmd þeirra svo að skipstjórnarmenn eru alltaf í sama reglukerfi hvort sem þeir sigla skipum sínum um kanadískan eða bandarískan hluta leiðarinnar.

Þetta dæmi er nefnt hér til að sýna að fundirnir á Arctic Circle snúast um raunhæf úrlausnarefni og flest þeirra eru þess eðlis að um þau þarf að semja milli nokkurra ríkja.

Á upphafsdegi Arctic Circle kynnti Dmitríj Kolbíjkin, landstjóri í sjálfstjórnarhéraðinu Jamal-Nenets, efnahagsmál þessa rússneska heimskautahéraðs við Kara-haf. Tölurnar sem hann nefndi um gas- og olíuframleiðslu í héraðinu sýna að það er sannkölluð gullkista Rússlands og boðaði hann mikla aukningu gasvinnslu og áform um að flytja LNG-gas með skipum til Asíu.

Í sumar fékkst fjármagn frá rússneskum og kínverskum bönkum til að ráðast í verkefni sem kallað er Jamal LNG sem snýst um vinnslu á jarðgasi, kælingu á því í fljótandi form og flutningi í tankskipum til Asíu. Telur landstjórinn að vinna megi 16,5 milljón tonn af LNG-gasi á ári úr lindum sem talið er að geymi 926 milljarða rúmmetra af gasi. Vegna vinnslunnar verður gerð ný höfn fyrir risaskip og lagður nýr flugvöllur.

Það er ekki aðeins loftslagið sem gerir kleift að stórauka nýtingu auðlinda á norðurslóðum, tækniframfarir á öllum sviðum gerir slíkt auðveldara en nokkru sinni fyrr.

Laugardagur 08. 10. 16 - 8.10.2016 18:15

Í dag var efnt til fundar í hátíðarsal Háskóla Íslands undir fyrirsögninni: Arfleifð og áhrif leiðtogafundarins og er þar vísað til fundar Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs í Höfða fyrir réttum 30 árum í Höfða. Tilefnið hefur verið notað af Reykjavíkurborg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands til að stofna friðarsetur kennt við Höfða.

Fyrir réttum 30 árum var ég aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og fréttastjóri erlendra frétta og kom því í minn hlut að hafa daglega stjórn á fréttaskrifum blaðsins um leiðtogafundinn auk þess sem blaðið hélt úti mikilli þjónustu fyrir erlenda blaðamenn sem komu til landsins vegna fundarins. Þetta er mjög eftirminnilegur tími eins og rifjað var upp á fundinum í dag þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir sagði frá samskiptum sínum við Reagan og Gorbatsjov og yngra fólk, sem enn var í skóla 1986, rifjaði upp minningar sínar í tengslum við fundinn.

Eftir kaffihlé kom sína Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og flutti ávarp í hátíðarsalnum. Hann minnti okkur á að enn væru 15.000 kjarnorkuvopn til í heiminum svo að Höfða-markmiðið um upprætingu þessara vopna ætti enn langt í land.

Í dag bárust einmitt fréttir um að Rússar hefðu flutt skotflaugar fyrir kjarnorkuvopn til hólmlendu sinnar, Kaliningrad, sem er við Eystrasalt milli Póllands og Liháens. Rússneskir ráðamenn minna nú æ oftar á að þeir ráði yfir kjarnorkuvopnum. Treysta þeir meira á þau nú en áður innan herafla síns vegna þess hve vanbúnir þeir eru í venjulegum herafla miðað við það sem var.

Ojars Kalnins, formaður utanríkismálanefndar þings Lettlands, minnti okkur á það á Varðbergs-ráðstefnunni fimmtudaginn 6. október að eftir innlimun Rússa á Krímskaga hefði afstaðan til Rússa gjörbreyst á verri veg í öllum nágrannaríkjum þeirra. Þessar tilfæringar þeirra með skotflaugarnar í Kaliningrad eru aðeins enn ein áminning af hálfu Rússa um að taka verði ríkara tillit til krafna þeirra í Sýrlandi og gagnvart Úkraínu.

Í krafti hernaðarmáttar og kjarnorkuvopna sat Gorbatsjov andspænis Reagan í Höfða og lét eins og hann stæði jafnfætis Bandaríkjamönnum þrátt fyrir ónýtt hagkerfi og útbrunnið þjóðskipulag. Reagan gaf ekkert eftir heldur sagðist halda sínu striki varðandi eldflaugavarnir og hátæknivopn. Sovétmenn áttu engin svör við því og ríki þeirra varð að engu. Kalda stríðinu lauk en nú 25 árum eftir lyktir þess vill Vladimír Pútín að tekið sé mark á sér vegna kjarnavopna og skotflauga sinna.

 

Föstudagur 07. 10. 16 - 7.10.2016 18:30

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, flutti ræðu á ráðstefnunni Arctic Circle í morgun og síðan stjórnaði Ólafur Ragnar Grímsson viðræðum Sturgeon við fundarmenn í sal. Sturgeon er greinilega mjög öflugur stjórnmálamaður og flytur mál sitt af festu og þrótti. Kona sem spurði úr sal sagði Sturgeon auk þess gáfaðasta stjórnmálamann sem hún hefði kynnst. Eitt af því sem Sturgeon sagði og vakti kátínu fundarmanna var að það væri styttra frá nyrsta odda Skotlands inn á norðurskautssvæðið en til London.

Forvitnilegt er að hlýða á ræðumenn á Arctic Circle í Hörpu en ekki síður að fylgjast með hvernig húsið virkar sem samkomustaður svo mikils fjölda ráðstefnugesta. Ég tek undir með Ólafi Ragnari í viðtali við mig á ÍNN að Harpa sé frábært ráðstefnuhús. Þá er lega hennar einstök að því leyti að hótel eru flest í norðurhluta borgarinnar frá Suðurlandsbraut vestur á Mýrargötu og auðvelt er að finna leið að húsinu hvar sem maður er á þessu svæði.

Á dögunum lenti Össur Skarphéðinsson í einhverjum hremmingum þegar hann vildi setja Samfylkinguna og Pírata undir sama hatt, líklega í von um að kjósendur mundu frekar flykkjast um sig en Pírata þegar þeir áttuðu sig á þessu. Eva H. Baldursdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem skipar 2. sætið á framboðslista flokksins í Reykjavík suður segir í dag á Facebook:

„Píratar birtu í dag stefnuskrá sína. Og ég get svo svarið það krakkar að þetta er stefnuskrá XS klippt og límd í grófum dráttum (hvet einhvern til að taka excel æfingu) að undanskildu því meginatriði að EKKERT er rætt um jafnréttismál, kynbundin launamun og stöðu barnafjölskyldna.

Pólitík snýst um hugsjón og málefni og því fagna ég þessu, en er auðvitað súr yfir því að jafnaðarmannaflokkurinn - með greini, sé ekki að mælast betur. Hugmyndirnar lifa sem er hins vegar vel.“

Mælingin sem Eva H. nefnir birtist í Morgunblaðinu í dag. Blaðið túlkar niðurstöðu könnunarinnar á þann veg að Össur fyrsti maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður nái ekki kjöri hvað þá Eva H. Leið hennar í leit að meira fylgja er hins vegar sú að samsama sig og flokk sinn Pírötum. Skyldi fylgi Samfylkingar aukast við þetta? Eða velja kjósendur eftirlíkinguna?    

 

Fimmtudagur 06. 10. 16 - 6.10.2016 18:50

Viðtal mitt við Ólaf Ragnar Grímsson um Arctic Circle – Hringborð norðurslóða er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag efndu Varðberg, Nexus og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands til fjölsóttrar ráðstefnu undir heitinu Brottför varnarliðsins – þróun varnarmála í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í tilefni af að 10 ár eru nú liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins.

Lilja D. Alfreðsdóttir flutti setningarræðu á ráðstefnunni og má lesa hana hér. 

Aðrir ræðumenn voru:

Robert G. Loftis, prófessor, aðalsamningamaður Bandaríkjastjórnar í varnarmálaviðræðum stjórnvalda Bandaríkjanna og Íslands 2005-2006.

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO.

Ojārs Ēriks Kalniņš, formaður utanríkismálanefndar lettneska þingsins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Á ráðstefnunni var skýrt frá aðdraganda þess að varnarliðið fór af landinu á annan hátt en áður hefur verið gert af hálfu Bandaríkjamanna. Robert G. Loftis lagði áherslu á að viðræður sínar hefðu ekki snúist um lokun Keflavíkurstöðvarinnar heldur skiptingu kostnaðar við rekstur hennar. Það hefði komið sér jafnmikið í opna skjöldu og Íslendingum að ákveðið var að loka stöðinni. Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra, hefði tekið þessa ákvörðun og látið hana berast með snowflakes eins og fyrirmæli sem hann sendi frá sér voru nefnd, það er snjóflygsur. Annaðhvort voru þetta minnisblöð hans sjálfs eða áritanir hans á minnisblöð sem hann fékk til afgreiðslu með tillögum frá öðrum.

Taldi Loftis að þetta hefði verið óheppilegasta niðurstaða viðræðnanna enda hefði hún einkennst af skammsýni og skorti á sameiginlegu mati á efni málsins. Albert Jónsson sendiherra sem leiddi viðræðurnar af Íslands hálfu tók til máls á ráðstefnunni og minnti á að í raun hefðu þessar viðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarliðsins staðið frá árinu 1993. Að lokum hefði spruningin sem blasti við Íslendingum verið hvort þeir vildu greiða fyrir veru varnarliðsins sem hefði verið þeim mjög fjarlægt. Viðræður um það voru aldrei leiddar til lykta vegna einhliða ákvörðunar Rumsfelds.

Árið 2011 skrifaði ég grein í veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla sem ég nefndi þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni. Hana má lesa hér. Var ánægjulegt að fá meginniðustöðuna staðfesta í erindi Loftis í dag. Ætlunin er að birta upptöku frá ráðstefnunni á vefsíðunni vardberg.is þegar frá henni hefur verið gengið.

 

Miðvikudagur 05. 10. 16 - 5.10.2016 17:15

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt viðtal mitt á ÍNN við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, um Arctic Circle ráðstefnuna sem efnt er til í fjórða sinn í Hörpu nú um helgina. Þetta er mikið og merkilegt framtak sem rekja má til áhuga og dugnaðar Ólafs Ragnars.

Leiðinlegustu stjórnmálafréttir sem fluttar eru í nokkurri útvarpsstöð eru þær sem ríkisútvarpið flytur í hvert sinn sem dregur að þinglokum. Þær bera vott um að menn átta sig ekki á að stjórnarandstaðan getur sett þingstörf meira úr skorðum hér á landi en víða annars staðar vegna virðingarleysis gagnvart vilja meirihlutans sem er innbyggt í þingskapalögin. Talið um starfsáætlun þingsins sem getið er í hverjum fréttatíma í stað þess að fræða hlustendur um hvaða mál bíða afgreiðslu endurspeglar hve mikil áhersla er lögð á umgjörð þingstarfanna frekar en viðfangsefni þingmanna.

Árið 2009 var kjördagur ákveðinn 25. apríl en þing var að störfum til 17. apríl. Yrði sami háttur hafður á núna sæti þingið að störfum til 22. október en í dag er 5. október. Er ekki ástæðulaust að láta eins og himinn og jörð farist þótt þing sé enn að störfum? Af hverju skapa menn ekki frið til að unnt sé að afgreiða brýnustu málin?

Árni Páll Árnason var í fremstu röð Samfylkingarmanna vorið 2009 þegar þeir lifðu í von um að geta knúið í gegn stjórnarskrárbreytingar með aðstoð framsóknarmanna og Jóhanna forsætisráðherra vildi alls ekki slíta þingi. Nú segist hann ætla að klaga til Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að þing sitji og kosningar í nánd. Hann nái ekki að hafa samband við kjósendur sína.

Þetta er allt á sömu bókina lært þegar litið er til alþingis. Það er eitur í beinum of margra þingmanna að þurfa að afgreiða mál. Þeir vilja heldur tala um störf þingsins, fundarstjórn forseta og skort á starfsáætlun enda er það vísasti vegurinn til að komast í samband við kjósendur í gegnum ríkisútvarpið.

Þriðjudagur 04. 10. 16 - 4.10.2016 15:30

Í Morgunblaðinu í dag segir að neyðarskýli fyrir hælisleitendur verði opnað í dag á Krókhálsi í Reykjavík þar sem Lögregluskólinn var áður. Um 40-60 hælisleitendur muni dveljast þar en um sé að ræða bráðabirgðaúrræði. Í frétt á ruv.is segir vegna þessa:

„Aldrei hafa jafn margir sótt um hæli hérlendis líkt og gerðu í ágúst og september síðastliðnum. Húsnæðið sem Útlendingastofnun hefur til umráða fyrir hælisleitendur var fullnýtt um miðjan september og grípa hefur þurft til þess ráðs að koma hælisleitendum fyrir á hótelum og gistiheimilum.“

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasrviðs Rauða krossins, segir Rauða krossinn hafa verið viðbúinn auknum fjölda hælisleitenda hér á landi á þessu ári en ekki hafi verið búist við að svo margir kæmu í einu, líkt og hefur verið á síðustu vikum.

Allt ber hér að sama brunni og áður. Á sama tíma og nágrannaþjóðir fagna fækkun hælisleitenda fjölgar þeim hér. Fjölgunin á einkum rætur að rekja til komu fólks frá Albaníu og Makedóníu sem á engan lagalegan rétt til að fá hér hæli en er í nokkrar vikur, mánuði og jafnvel ár á opinberu framfæri hér á meðan mál þess velkist í kerfinu – nú dragast mál á langinn hjá opinberri kærunefnd og þeim sem framkvæma brottflutning fólksins eftir úrskurð um brottvísun.

Það er í sjálfu sér frekar nöturlegt að gamalt húsnæði Lögregluskólans skuli notað sem neyðarrými til bráðabirgða fyrir hælisleitendur. Virðist þeirri ráðstöfun tekið sem næsta sjálfsögðum hlut í fréttum í stað þess að leita skýringa á hvers vegna svona er komið í þessum málaflokki þegar unnt er að beita mun öflugri úrræðum en gert er til að draga úr fjölda þeirra sem hingað koma.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur lýst áhyggjum af ástandinu. Hún glímir hins vegar við sama vanda og ýmsir forverar hennar á stóli dómsmálaráðherra sem sætt hafa gagnrýni þingmanna vilji þeir efla varnir á þessu sviði sem öðrum.

Sé því hreyft að huga þurfi að hervörnum Íslands eða vopnum fyrir lögreglumenn reka þeir gjarnan upp ramakveim sem mega ekki heyra minnst á að allt sé gert sem lög leyfa til að stemma stigu víð ólöglegri komu fólks hingað. Hér er áhrifamikill hópur sem vill engar ráðstafanir til að verja eða vernda land og þjóð, allt á að standa opið.

 

 

 

Mánudagur 03. 10. 16 - 3.10.2016 18:15

Theresa May, forsætisráðherra Breta, hóf flokksþing íhaldsmanna í Birmingham í gær með skorinorðri ræðu um úrsögn Breta úr ESB. Á sinni vakt yrði ekki vikist undan að framkvæma vilja þjóðarinnar í því efni. Þjóðin hefði milliliðalaust falið ríkisstjórninni að koma sér úr ESB og það yrði gert. Það yrði hvorki litið til EES-samningsins né tvíhliða samninga Sviss og ESB sem fyrirmynda heldur yrði fundin lausn sem félli að hagsmunum Breta og þeim ásetningi þeirra að láta að nýju að sér kveða á eigin forsendum í viðskiptum og fjármálum um heim allan. Bretland yrði að nýju fullvalda og sjálfstætt ríki.

Ræðan tók af öll tvímæli og þarna talaði forsætisráðherra sem baðst ekki afsökunar á einu eða neinu heldur sótti fram fyrir þjóð sína af festu og áræði. Af öllu því sem sagt hefur verið um fyrirhugaða samninga Breta við ESB ber íslenskum stjórnvöldum sérstaklega að fylgjast með hvort til verður nýr samstarfsgrundvöllur milli ESB og Evrópuríkis utan ESB sem þurrkar út vankantana sem menn sjá á EES-samningnum annars vegar og svissneska fyrirkomulaginu hins vegar. Gerist það er líklegt að ESB vilji EFTA-ríkin utan og innan EES inn í slíkt samstarf.

Ég hef bent á að lögfræðilega geti Bretar vísað til fordæmis í EES-samningnum um heimild EFTA-ríkis til að setja hömlur við frjálsri för fólks en leyfi til að setja slíkar hömlur er þungamiðjan í málflutningi úrsagnarsinna í Bretlandi, þeir vilja ná stjórn á komu aðkomufólks til landsins, það fá þeir með því að setja skorður við frjálsri för (Schengen-aðild skiptir þar engu máli þótt sá misskilningur hafi skotið rótum hér). Nú er ljóst að May ætlar ekki að beita sér fyrir neinni EES-lausn heldur þriðju leiðinni í nánum samskiptum Evrópuríkis við ESB.

Bretar ætla sér ekki neinar viðræður við ESB undir formerkjum EFTA og íhuga ekki neina leið sem tekur mið af hagsmunum EFTA-ríkjanna. Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði strax eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi að innan EFTA yrðu menn að skilgreina stöðu sína. Nú blasir við að það verði gert með það í huga að EFTA-ríkin verði áhorfendur sem ef til vill verði boðið að gerast aðilar að samningi Breta og ESB.

Utanríkisráðherra fól Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra að verða sérlegur fulltrúi Íslands gagnvart ESB og Bretum vegna úrsagnar Breta.

 

Sunnudagur 02. 10. 16 - 2.10.2016 19:45

Nú er hálft ár liðið frá því að þingflokkur framsóknarmanna tilkynnti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hann nyti ekki lengur trausts sem forsætisráðherra. Þá vildu þingmenn flokksins ekki ganga gegn honum sem formanni flokksins. Það gerðist ekki opinberlega fyrr en miðstjórnarfundi á Akureyri 10. september 2016. Þá hrundi þagnarmúrinn í kringum vandræðin vegna Sigmundar Davíðs í flokknum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og forsætisráðherra, bauð sig opinberlega fram gegn Sigmundi Davíð sem formanni föstudaginn 23. september, fyrir 9 dögum og í dag 2. október var hann kjörinn formaður Framsóknarflokksins með 370 atkvæðum, 52,7% greiddra atkvæða. Sigmundur Davíð hlaut 329 atkvæði 46,8% greiddra atkvæða. Eygló Harðardóttir, fráfarandi ritari flokksins, dró framboð sitt til varaformanns til baka. Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var kjörin varaformaður með 392 atkvæðum eða 95,8% af 402 gildum atkvæðum í kosningunni. Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra dró framboð sitt í sæti ritara til baka og var Jón Björn Hákonarson, sveitarstjórnarmaður frá Neskaupstað, sjálfkjörinn.

Sé litið yfir sex mánuðina sem liðnir eru frá því að þingflokkur framsóknarmanna skipti um forsætisráðherra er augljóst að Sigurður Ingi hefur haldið betur á spilum sínum en Sigmundur Davíð bæði inn á við í Framsóknarflokknum og út á við gagnvart þjóðinni.

Alltaf þegar Sigmundur Davíð hefur látið að sér kveða magnast órói innan Framsóknarflokksims sem utan. Þótt flokksmenn hans og aðrir beri lof á Sigmund Davíð fyrir það sem hann hefur vel gert er hrjúf hlið á stjórnmálastarfi hans sem veldur greinilega samskiptavanda. Þessi hlið magnast vegna átaka hans við fjölmiðlamenn og raunar fleiri því að réttmætt er spyrja: Hvers vegna skyldu allir segja ósatt þegar Sigmundur Davíð á hlut að máli?

Sigmundur Davíð fór þegjandi af flokksþinginu og án þess að hafa aðra formlega stöðu innan flokksins en sem þingmaður og efsti maður á listanum í norðausturkjördæmi.

Hvað sem öðru líður er líklegt að auðveldara verði fyrir aðra flokka að starfa með Framsóknarflokknum eftir brottför Sigmundar Davíðs úr formannsstólnum að sama skapi er líklegt að hann geti sem þingmaður valdið erfiðleikum innan Framsóknarflokksins og gert hann ólíklegri til stjórnarasamstarfs í ríkisstjórn sem styðst við tæpan þingmeirihluta.

 

Laugardagur 01. 10. 16 - 1.10.2016 10:45

Þegar rætt er um heilbrigðismál, málefni aldraðra, samgöngumál, menntamál, húsnæðismál og löggæslumál nú fyrir kosningar er hvergi slegið af í kröfum og litið á stöðuna eins og hún er nú á líðandi stundu, fortíðin sé gefin stærð og framtíðin óráðin. Hér og nú eigi það að fást sem um er beðið. Stjórnmálamenn eigi að lofa og standa kjósendum skil gerða sinna.

Á meðan ekki næst sátt um hvert skuli stefnt og hvernig fjármagna skuli leiðina að markmiðinu ríkir þetta uppnám sem einkennir umræðurnar. Sáttin næst ekki á meðan allir telja sig aðeins ná til háttvirtra kjósenda með yfirboðum.  Oftast eru yfirboðin ekki annað en lýðskrum því að ekki er unnt að framkvæma þau þegar á reynir.

Í skjóli þess að hér hrundi bankakerfi var gerð misheppnuð og kostnaðarsöm tilraun til að setja íslenskt þjóðfélag algjörlega úr skorðum á árunum 2009 til 2013.

Þetta hófst strax eftir að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon komust til valda með stuðningi Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009. Mest lá þeim á að reka yfirstjórn seðlabankans og ráða Norðmann til að stýra bankanum þar til Már Guðmundsson var skipaður í embættið.

Síðan var ráðist gegn stjórnarskránni, unnið að inngöngu Íslands í ESB, gripið til aðgerða til að friðþægja kröfuhöfum og ráðist í breytingar á skattalögum í anda sósíalista. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var veitt sjálfdæmi og fjármálaráðherra Steingrímur J. gekkst upp í að njóta þar sérstaks trúnaðar. Vegið var að grunnkerfum samfélagsins og beðið eftir að Evrópusambandið leysti þjóðina úr fjármagnshöftum.

Um leið og enn á ný sannaðist að sjávarútvegurinn væri hornsteinn efnahags þjóðarinnar var vélað um leiðir til að eyðileggja stjórnkerfið sem skapað hefur mestan arð í atvinnugreininni. Eitt af markmiðum ESB-aðildarsinna var að ganga að íslenskum landbúnaði dauðum.

Þessir atburðir standa okkur svo nærri að undrun sætir verði þeir ekki kjósendum víti til varnaðar í komandi kosningum og minni þá á að í atkvæðisréttinum felst vald til að marka braut til framtíðar, að velja á milli feigs og ófeigs. Óheillaþræðirnir sem mynduðu kjarnann í stefnu Jóhönnu og Steingríms J. eru enn í höndum ýmissa sem bjóða sig fram í flokkakraðakinu sem er í boði 29. október. Stundarhagsmunir eru vissulega mikils virði mestu skiptir þó að stíga ekki skref sem gera illt verra.