14.10.2016 19:00

Föstudagur 14. 10. 16

 

Nú birtast margar skoðanakannanir samdægurs vegna kosninganna 29. október og er augljóst að allir flokkar verða að taka sig á til að gleðja kjósendur sína. Hér skal ekkert sagt um gildi þessara kannana. Nýlega hlustaði ég á samtal við Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, í þættinum Hardtalk á BBC. Spyrjandinn lýsti undrun á að Le Pen vildi berjast fyrir úrsögn Frakklands úr ESB. Bretar hefðu að vísu samþykkt úrsögn en nú sýndu kannanir að svarendur vildu í raun ekki segja skilið við ESB. Le Pen spurði á móti hvernig spryjandanum dytti í hug að vitna í niðurstöður kannana, þær hefðu ekki reynst svo réttar fyrir atkvæðagreiðsluna um aðild að ESB.

Vegna auglýsinga frá VG um að flokkurinn sé traustsins verður beinist enn meiri athygli að bókinni Villikettirnir og vegferð VG eftir Jón Torfason skjalavörð. Í bókinni er meðal annars að finna stórundarlega ræðu sem Svandís Svavarsdóttir flutti þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu til stuðnings ESB-aðildarumsókninni.

Svandís lýsti sannfæringu sinni um að Íslandi væri betur borgið utan ESB en innan, að lýðræði væri fyrir borð borið innan ESB vegna þess að valdið væri „of langt frá fólkinu“, að ESB byggi sig undir að verða „hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða“; ESB snerist um „forréttindi Vesturlanda“. Ræðunni lauk Svandís síðan á þessum orðum:

„Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Áður en þessi einstæða ræða var flutt hafði Svandís greitt atkvæði gegn tillögu um að bera undir þjóðina hvort sækja ætti um aðild að ESB. Rökstuðningur hennar gegn aðild að ESB var allur fluttur í blekkingarskyni. Að Svandís skuli bjóða sig fram nú undir slagorði um traust er aðför að skynsemi kjósenda og argasta móðgun við þá.

Svandís Svavarsdóttir greiddi atkvæði með umsókn um aðild að ESB. Nú segist hún leggja áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu!