Dagbók: október 2007
Miðvikudagur, 31. 10. 07.
Leyndarhyggjan ræður áfram ríkjum í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og ekki er talin ástæða til að bera mál undir borgarráð og því síður borgarstjórn.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er hættur að gefa svör og snýr þess í stað út úr spurningum fréttamanns sjónvarpsins um dómsmálið um lögmæti ákvarðana um REI. Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna, hætti að láta ljós sitt skína um málið, um leið og hún komst í þá stöðu innan borgarstjórnar að gera haft áhrif á framvinduna.
Þegar ég sat í stjórn OR, var okkur í minnihlutanum gert ókleift að koma að stefnumörkun með því að halda frá okkur upplýsingum. Þrátt fyrir allt, sem á undan er gengið síðustu vikur, virðist enn sem fyrr sama áhersla lögð á að upplýsa ekki um neitt og miðla engu til kjörinna umboðsmanna borgarbúa.
Þriðjudagur, 30. 10. 07.
Kom heim frá Kaupmannahöfn í dag.
Las í Weekendavisen hugleiðingu eftir Thomas Borring Olesen, prófessor við Árósarháskóla, um það, hvort Danir væru að verða utanveltu í norrænu samstarfi. Þannig hefði danski utanríkisráðherrann ekki verið boðinn til Bodö á dögunum af norskum starfsbróður sínum, Jonas Gahr Störe, sem bauð Svíum og Finnum til að ræða um utanríkis- og öryggismál.
Hið sama væri að segja um ræðu, sem Störe hélt í Militær Samfund í Osló 10. október undir fyrirsögninni: Breytingar á Norðurslóðum - hvernig geta Noregur, Finnland og Svíþjóð eflt samstarf sitt? Utanríkisráðherrar Noregs flyttu ekki ræður á þeim vettvangi nema til að boða eitthvað merkilegt.
Í ræðu sinni vék norski utanríkisráðherrann meira að samstarfi við Íslendinga en Dani og minnti á að Norðmenn og Danir hefðu gert samninga við Íslendinga eftir brottför bandaríska varnarliðsins. Samstarfið við Ísland tæki mið af því, að halda yrði úti eftirliti með aukinni skipaumferð á Norðurslóðum.
Að mínu áliti er engin spurning um áhuga Dana á því að tryggja öryggi á siglingaleiðunum yfir N-Atlantshaf og ber að hafa í huga skyldur þeirra í því efni í Færeyjum og Grænlandi.
Mánudagur, 29. 10. 07.
Það rigndi mikið í Kaupmannahöfn í dag. Ég lét það ekki aftra mér frá því að hitta gamla vini, áður en ég hélt fyrirlestur um íslensk öryggismál í Dansk Islands Samfund (DIS) klukkan 19.30.
Fundinn átti að halda í íslenska sendiráðinu en vegna mikils áhuga þar á meðal frá Dansk Udenrigspolitisk Selskab var ákveðið að fllytja hann í stærri sal við hliðina á sendiráðinu, þar sem Færeyjar. Grænland og Ísland standa fyrir kynningu og menningarstarfi undir forystu Helgu Hjörvar.
Steen Lindholm, formaður DIS, setti fundinn en Klaus Otto Kappel, fyrrverandi sendiherra á Íslandi, stjórnaði honum. Á eftir mér talaði Peter Alexa, skrifstofustjóri í varnarmálaráðuneytinu, en hann kom í staðinn fyrir Sören Gade, varnarmálaráðherra, sem var á kosningaferðalagi. Margir spurðu að loknum framsöguræðum en Svavar Gestsson sendiherra mælti lokaorð.
Sunnudagur, 28. 10. 07.
Flaug til Kaupmannahafnar klukkan 14.15 með Icelandair og lenti um 18.30 að staðartíma.
Bendi lesendum síðu minnar á hugleiðingu á www.andriki.is í dag vegna skrifa minna um bók Ólafs Teits um fjölmiðla.
Bendi einnig á þessa færslu Guðbjargar Hildar Kolbeins.
Laugardagur, 27. 10. 07.
Frétt var í sjónvarpinu í kvöld um nýjan vatnsstíg í Norðlingaholti, þar sem íbúar mótmæla vegna ótta um öryggi barna sinna á ferð um stíginn.
Engir íbúar eru í Vatnsmýrinni við Nauthólsvík, svo að ekki berast fréttir af framkvæmdum þar í þágu Háskólans í Reykjavík. Þar hefur stígum verið breytt til að rýma fyrir grunni skólans, sem stækkar jafnt og þétt og skilur á milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur auk þess að færa umferð nær hlíðinni og spillir því andrými hennar.
Í morgun var þarna fjöldi fólks á ferð og hlupu margir haustmaraþon í lognblíðunni, sem var vel þegin eftir rokið og rigninguna.
Föstudagur, 26. 10. 09
Eigendur Grand hótel Reykjavik stóðu einstaklega vel að því að opna turninn við hótelið. Hann er 65 metra hár og 14 hæðir. Móttökusalurinn er 800 fermetrar að stærð og kallast Miðgarður. Þar eru einstök listaverk eftir Leif Breiðfjörð. Í nýja turninum eru 209 herbergi þar af tvær 130 fermetra forsetasvítur á 13. hæð, búnar öllum nútímaþægindum. Útsýnið þaðan gefur enn nýja vídd á Reykjavík og umhverfi hennar.
Glæsilega var á móti miklum fjölda gesta tekið, þegar nýi turninn var opnaður.
Til minnis: Leyfisveitingar vegna hótela og veitingastaða falla undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið samkvæmt lögum, sem tóku gildi sl. sumar og lögreglustjórar gegna lykilhlutverki við framkvæmd laganna.
Helga Seljan í Kastljósi svaraði ég með tölvupósti, þegar hann vildi uppfæra með samtali við mig nokkurra vikna gamalt viðtal við Helga Magnús Gunnarsson saksóknara. Mér þættu heimildarmyndir vissulega eiga erindi, sagði ég. Helga hefur greinilega verið misboðið, því að Reynir Traustason. ritstjóri DV, æpir ógurlega fyrir hönd Helga. Hefur Kastljós Reyni sem blaðafulltrúa?
Ég tel, að valið á Reyni sé misráðið hjá Þórhalli Gunnarssyni. Kristján Kristjánsson sé miklu betri - eða jafnvel G. Pétur Matthíasson, þótt hann sé farinn að deila við sjáfan Ómar um legu Gjábakkavegar.
Fimmtudagur, 25. 10. 07.
Hæstiréttur felldi í dag merkan dóm í máli Ásatrúarfélagsins gegn íslenska ríkinu, þar sem félagið krafðist þess að sitja við sama borð og þjóðkirkjan við greiðslur úr ríkissjóði. Taldi félagið að skýra bæri 62. grein stjórnarskrárinnar um stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í 65. gr. hennar - ólögmætt væri á grundvelli hennar að gera upp á milli trúfélaga um stuðning við þau. Hæstiréttur taldi, að verkefni Ásatrúarfélagsins og skyldur gagnvart samfélaginu yrðu ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar og þess vegna fælist ekki mismunun í því mati löggjafans að ákveða framlög til þjóðkirkjunnar umfram önnur trúfélög og þar væri ekki um neitt brot á jafnræðisreglu 65 gr. stjórnarskrárinnar að ræða. Staðfesti hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ríkisins.
Hér var raunverulega um það fjallað, hvort þjóðkirkjulögin frá 1997, sem hafa að geyma staðfestingu á samningi ríkis og kirkju um fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar stæðust stjórnarskrána.
Skömmu eftir að ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra komu álitaefni þessu tengd inn á mitt borð og var eftir því leitað, að ég beitti mér fyrir greiðslum úr ríkissjóði til þeirra trúfélaga, sem töldu á sig hallað með þjóðkirkjulögunum frá 1997. Ég taldi skynsamlegast að láta á þetta reyna fyrir dómstólum til að fá álit þeirra á því, hvort þessi lög stæðust stjórnarskrána, einkum jafnræðisreglu þeirra.
Niðurstaða hæstaréttar liggur nú fyrir og þjóðkirkjulögin standast stjórnarskrána að hans mati. Er mikils virði, að úr því hafi verið skorið á þennan afdráttarlausa hátt.
Miðvikudagur, 24. 10. 07.
Þriðjudagur, 23. 10. 09.
Franco Frattini, sem fer með dóms- og innflytjendamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), hefur kynnt tillögu um „blátt kort“ sambandsins, sem yrði sambærilegt við „grænt kort“ Bandaríkjanna og mundi auðvelda komu fólks frá þriðju ríkjum inn á vinnumarkað ESB.
Viðbrögðin við tillögunni eru blendin. Sumir telja mikilvægara að útrýma atvinnuleysi innan ESB í stað þess að setja nýjar reglur um komu vinnuafls. Vandinn er hins vegar sá, að í mörgum löndum, til dæmis Þýskalandi, er skortur á sérfræðingum eða sérmenntuðu fólki. Þar hefur ekki tekist að ná pólitískri samstöðu á heimavelli um að opna þýskan vinnumarkað, Þjóðverjar ættu hins vegar auðveldara með að sætta sig við að fólkið kæmi á „bláu korti“ ESB.
Hér á landi hefur verið hvatt til þess, að settar séu sérstakar reglur, sem auðveldi íslenskum fyrirtækjum að fá sérfróða starfsmenn frá löndum utan EES-svæðisins. Lagafrumvörp um það efni verða kynnt á alþingi í vetur, ef áform á vettvangi ríkisstjórnar ná fram að ganga.
Mánudagur, 22. 10. 07.
Christoph Blocher, dómsmálaráðherra Sviss, leiðtogi Þjóðarflokksins (SVP) er sigurvegari þingkosninganna í Sviss á sunnudaginn. Hann settist í ríkisstjórn Sviss árið 2003 og hef ég hitt hann nokkrum sinnum á ráðherrafundum undanfarin misseri, eftir að Sviss gerðist þátttakandi í Schengen-samstarfinu.
Flokkur Blochers vann sjö þingsæti kosningunum og er með 62 þingmenn af 200 í svissneska þinginu. Sósíaldemókratar töpuðu níu þingsætum. Blocher hefur sett sterkan svip á svissnesk stjórnmál síðustu 20 ár. Hann er nú orðinn 67 ára gamall.
Blocher er málsvari lágra skatta, andstöðu við Evrópusambandið og hann vill setja skorður við komu innflytjenda til Sviss. Flokkur hans nýtur nú fylgis 29% kjósenda og er stærsti stjórnmálaflokkurinn í Sviss.
Allir fjórir flokkar Sviss eiga sæti í ríkisstjórn landsins og ekki verður breyting á því. Hvort Blocher heldur áfram sem dómsmálaráðherra á eftir að koma í ljós.
Vorum klukkan 20.00 í Salnum, þar sem Bergþór Pálsson, óperusöngvari, fagnaði fimmtíu ára afmæli sínu með glæsibrag. Tónleikarnir voru eftirminnilegir fyrir listræn tilþrif söngvara og hljóðfæraleikara og hið snilldarlega skipulag, sem var á öllu.
Laugardagur, 20. 10. 09.
Kirkjuþing var sett í Grensáskirkju klukkan 09.00 og flutti ég þar ávarp.
Fráleitt er að tala um þjóðkirkjuna á Íslandi sem ríkiskirkju eins og enn sést gert. Hér hefur hvert skrefið verið stigið eftir annað til að losa um stjórnsýsluleg tengsl ríkis og kirkju og eru þau nú orðin að engu. Þjóðkirkjan er hins vegar snar þáttur í íslensku þjóðlífi og menningu, sem hefur alla burði til að dafna á eigin forsendum.
Klukkan 17.00 var athöfn í Valhöll, þar sem málverk af Þorsteini Pálssyni, núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, var afhjúpað í sal þeim, sem hýsir myndir fyrrverandi formanna Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn var formaður 1983 til 1991.
Föstudagur, 19. 10. 07.
Flutti tvö mál á fundi ríkisstjórnar klukkan 09.30, um breytingu á hegningarlögum vegna Palermó-samningsins og vegna Evrópuráðssamninga um hryðjuverk og mansal og um að Íslendingar byðu til North Atlantic Coast Guard Forum árið 2009.
Var klukkan 11.30 í Alþingishúsinu og tók á móti Biblíu í nýrri þýðingu úr hendi biskups.
Klukkan 13.00 var ég í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, þar sem systir María Benedikta af Jesú Hostíu var jarðsett. Systir Benedikta kom hingað til lands 19. mars 1984 frá Póllandi, en þá hófst klaustrið í Hafnarfirði til nýrrar virðingar. Árið áður var á döfinni að selja húsið undir tónlistarskóla eða garðyrkjustöð, eftir að nunnur frá Hollandi höfðu yfirgefið staðinn.
Séra Jakob Rolland flutti minngarorð um systur Benediktu. Hann minnist þess, hve veðrið hefði verið vont, þegar Karmelsysturnar 13 komu 1984. Það hefði þó ekki aftrað þeim frá því að lúta til jarðar og kyssa sitt nýja land.
Alls tóku sjö prestar þátt í athöfninni. Kista Benediktu var í systrahluta kapellunnar og báru tveir starfsmenn útfararstofu hana út á stéttina fyrir framan klausturdyrnar. Tólf líkmenn, fjórar systur utan Karmelreglunnar, og átta karlmenn báru kistuna til grafar í austurenda klausturgarðsins. Fyrri hópur líkmanna bar kistuna frá stéttinni framan við klaustrið inn í klausturgarðinn. Ég var í þeim hópi líkmanna, sem bar kistuna innan klausturgarðsins. Þetta er dálítill spölur og á leiðinni lögðum við kistuna frá okkur til að skipta um hönd.
Veðrið var fallegt í garðinum, sólin skein og ógleymanlegt er, þegar systurnar vörpuðu hvítum rósum í gröfina og vökvuðu hana með vígðu vatni.
Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsi og flutti ávarp á stofnfundi félags ákærenda.
Klukkan 16.30 var ég á æfingasvæði sérsveitar lögreglunnar í Hvalfirði og tók þátt í 25 ára afmæli sveitarinnar.
Mér þótti kostulegt að sjá Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúa Framsóknarflokksins, í Kastljósi sem málsvara nýs meirihluta borgarstjórnar - manninn, sem Dagur & co hafa útmálað sem tákngerving framsóknarspillingar.
Ætlar Framsóknarflokkurinn að verða að fámennu vígi manna, sem virðast til þess búnir að fórna öllu fyrir eigin hagsmuni?
Fimmtudagur, 18. 10. 07.
Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hélt fund í dag með stjórnum hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins um stöðu mála í borgarstjórn. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðusflokksins, flutti ávarp við upphaf fundar en Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, var fundarstjóri. Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar, sagði að fundi loknum, og tók undir með flokksformanninum, að nú væri þessi kapítuli að baki og við tæki glíman við framtíðina.
Geir H. Harde sat einnig fyrir svörum í Kastljósi í kvöld. Hann blés á allt tal um klofning í flokknum, það ætti ekki við nein rök að styðjast, enda sést hvergi neitt klofnings- eða armatal á prenti nema í Baugsmiðlinum DV.
Gunnar Smári Egilsson, blaðakóngur Baugs, gaf Baugsmiðlunum línuna í Fréttablaös-grein í vikunni. Hún snýst um að ráðast á sexmenningana í borgarstjórnarflokknum og láta eins og eitthvert ósamkomulag sé á milli Geirs H. Haarde og mín. Í dag hafa þeir Geir og Þórlindur Kjartansson, nýkjörinn formaður SUS, réttilega vísað þessu tali um tvær fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins á bug.
Geir segir, að Vilhjálmur Þ. verði sjálfur að taka afstöðu um eigin framtíð og hlutverk í borgarstjórn Reykjavíkur.
Félagar í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna hafa skýrt mál sitt fyrir stjórnum hverfafélaganna og öðrum trúnaðarmönnum í Reykjavík. Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna hafa gengið mun lengra en Björn Ingi Hrafnsson gerði í uppgjöri sínu, samt valdi Dagur B. Eggertsson að leita eftir samstarfi við Björn Inga, að því að hann hefði beðist afsökunar!
Miðvikudagur, 17. 10. 09.
Ég svaraði tveimur spurningum Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, á alþingi í dag; um fangelsi og samstarf landhelgisgæslu við Dani og Norðmenn.
Ég er undrandi á því, hve frétt hljóðvarps ríkisins af svari mínu um fangelsin var neikvæð en þar var lögð höfuðáhersla á þá röngu staðhæfingu stjórnarandstöðunnar að húsnæðismál fangelsa væri í „algjörum ólestri“. Þótt margt megi betur fara eru þetta innantóm slagorð um fangelsin. Þar hefur margt verið vel gert eins og á Kvíabryggju og Akureyri og skýr stefna hefur verið mótuð um endurbætur á Litla Hrauni og nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.
Ég sagðist hvorki vera málsvari hegningarhússins við Skólavörðustíg né Kópavogsfangelsis og ég vildi nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, þótt smíði þess yrði ekki lokið 2009. Í meira en 40 ár hefðu menn rætt árangurslaust um nýtt fangelsi, ég væri stoltur af framgangi mála í minni ráðherratíð.
Fréttin í hljóðvarpi ríkisins gaf alls ekki rétta mynd af þeim umræðum, sem urðu vegna spurningar Sivjar. Hún var lituð með alltof dökkum blæ.
Stöð 2 dró athygli að háum launum Páls Magnússonar, útvarpsstjóra RÚV, og bar spurningu um þau undir fólk á förnum vegi og töldu allir ofgert við Pál. Fyrir nokkru „leyfði“ ég mér að vekja máls á þróun starfsmannamála eftir að ohf. var bætt aftan við RÚV. Svaraði Páll á þann veg, að ég saknaði þess að geta ekki ráðið fólk til starfa hjá RÚV!
Þriðjudagur, 16. 19. 07.
Fór klukkan 17.00 í Nýsköpunarmiðstöðina á Keldnaholti og hlustaði á dr. Mamdouh G. Salameh, sérfræðing í heimsmarkaði á olíu, flytja fyrirlestur um olíubúskap heimsins. Hann telur oliuframleiðslu hafa náð hámarki og hún eigi aðeins eftir að dragast saman, þess vegna muni olíuverð halda áfram að hækka.
Við Salameh hittumst á fundi í Washington fyrir nokkrum árum og var ánægjulegt að Bragi Árnason prófessor og Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, skyldu skipuleggja þennan fyrirlestur hans hér. Að honum loknum höfðu menn á orði, að svo svartsýna spá um olíubúskap heimsins hefðu þeir ekki áður heyrt.
Nýr meirihluti tók við völdum í borgarstjórn Reykjavíkur í dag, án þess að nokkuð sé í raun vitað um stefnu hans eða hvernig hann ætlar að taka á málefnum OR/REI/GGE. Meirihlutinn velur þann kost að setja menn utan borgarstjórnar í stjórn OR. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort stjórnarhættir OR opnist við það og meiri upplýsingum verði miðlað til borgarráðs og borgarstjórnar.
Umræðuhefðin, sem skapaðist um OR, á meðan Alfreð Þorsteinsson var stjórnarformaður var á þann veg, að hann montaði sig af ríkidæmi OR og af öllu, sem OR gerði, gagnrýni á verk stjórnar var svarað með skömmum um, að menn dirfðust að tala illa um starfsmenn OR, hvers ættu þeir að gjalda. Já, hvers áttu þeir að gjalda með 4 milljarða umframkeyrslu á kostnaði við höfuðstöðvar OR?
Mér heyrðist ágætur flokksbróðir minn og samþingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, rökstyðja aukið aðgengi að áfengi í verslunum á þann veg, að hér verði til einhver Miðjarðarhafsdrykkjumenning við breytingu í þá átt. Þessi rök voru notuð við breytingar á áfengislöggjöf í Bretlandi fyrir fáeinum árum. Allir virðast nú á einu máli um, að þar hafi drykkjumenning síður en svo færst í átt að Miðjarðarhafi. Drykkjuvandamál hafi stóraukist með auknu aðgengi og stórefla þurfi löggæslu og meðferðarúrræði til að bregðast við þeim.
Mánudagur, 15. 10. 07.
Nú er að skýrast, að Íslendingar fara ekki út á jarðhitamarkað heimsins eins og einu sérfæðingarnir á nýtingu jarðhita. Víða um lönd nýta menn þessa orku og búa yfir þekkingu til þess.
Hvernig er unnt að meta aðgang að þekkingu starfsmanna OR á 10 milljarða? Hafa þeir ritað sérfræðilegar greinargerðir? Starfa hinir fræðilegu sérfræðingar ekki flestir hjá öðrum: Fjarhitun, VGK., ENEX, OS (nú ISOR), o.s.frv.? Enginn þessara sérfræðinga er heldur ráðinn á þann veg, að þeir geti ekki hætt hjá OR með eðlilegum uppsagnarfresti. Nú hefur komið fram sú skýring, að REI á að hafa aðgang að viðskiptaleyndarmálum OR, eða öllu heldur forstjóri REI á að hafa aðgang að þeim, þótt REI verði óháð OR, og þótt Hitaveita Suðurnesja (HS) yrði alfarið í eigu REI og keppinautur OR á markaði. Þá virðist felast í samningnum, að OR verði ásýnd REI gagnvart umheiminum.
Því má velta fyrir sér, hvort þeir, sem sömdu fyrir hönd OR hafi sætt einhverjum afarkostum eða hvort samningar OR hafi í raun verið gerðir af þeim, sem báru hagsmuni REI meira fyrir brjósti en hagsmuni OR.
Fyrsta athugasemd mín hér á síðunni um þetta mál snerist um, hvort enn væri fylgt þeirri stefnu, sem við sjálfstæðismenn gagnrýndum mjög á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar, að mál OR væru hvorki rædd í borgarráði né borgarstjórn. Eftir því sem mál hafa skýrst vakna spurningar um, hvort mál OR hafi verið rædd í stjórn OR.
Sunnudagur, 14. 10. 07.
Í pistli hér á síðunni í dag er fjallað um rás atburða vegna deilnanna um OR/REI/GGE.
Svandís Svavarsdóttir, staðgengill borgarstjóra í nýjum meirihluta, hefur ekki gefið Ragnari H. Hall, lögmanni sínum, fyrirmæli um að hætta við málaferli vegna hins umdeilda eigendafundar OR, sem hratt af stað byltingu í borgarstjórninni og leiddi Svandísi til valda með Framsóknarflokknum. Ragnar H. gaf annað til kynna í viðtali við Fréttablaðið eins og fram kemur í pistli mínum.
Þá var sagt frá því í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins, að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, sem situr í stjórn OR fyrir Sjálfstæðisflokkinn, vilji ógilda fyrri ákvarðanir um OR/REI/GGE, þar sem ekki hafi verið skýrt frá samningi til 20 ára, þar sem OR afsalar sér forræði á erlendum samskiptum.
Föstudagur, 12. 10. 07.
Hver skyldi vera boðskapur Svandísar Svavarsdóttur, eftir að hún hefur komist í meirihluta í borgarstjórn? Jú, nú skiptir mestu að „róa umræðuna“ um OR - það er hætta að tala um málið. Skyldi henni verða að ósk sinni? Gunnar Smári Egilsson, sem hefur reynslu af viðskiptalífinu, sagði í Íslandi í dag á Stöð 2 að kvöldi 11. október:
„Hins vegar held ég að þetta Orkuveitu og REI mál sé alls ekki búið og þar eigi eftir að koma ýmsir hlutir fram sem að bara eru ekki við hæfi og voru ekki við hæfi og ég held að þeir muni eiga eftir að reynast Birni Inga mjög erfiðir.“
Vill Svandís sópa þessum hlutum undir teppið með Birni Inga?
Gunnar Smári sagði einnig:
„Það sem ég held að hafi verið megin, sé meginatriðið í þessu máli er hvernig var staðið að að taka eignir út úr móðurfélaginu sem var Orkuveitan og flytja það yfir í dótturfyrirtæki þar sem að þeir sem voru að vinna að þessu höfðu kauprétt eða jafnvel eignarhluta í dótturfélaginu, þessu REI. Og þetta eru náttúrulega vinnubrögð sem að eru forkastanleg og núverandi meirihluti hlýtur að þurfa að fara í og gera eitthvað í. Það gengur ekki að, hvort sem hann heitir Bjarni Ármannsson eða þeir sem höfðu kauprétt þarna. Tökum til dæmis dæmi með þennan mögulega hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta eru mennirnir sem að ákváðu það að hann yrði ekki í Orkuveitunni heldur færu yfir í REI, þeir höfðu allir kauprétt í REI og höfðu þar af leiðandi hagsmuni þar. Bjarni Ármannsson sem var stjórnarformaður REI og er sjálfsagt guðfaðir þessarar sameiningar hann hafði eignarhluta í REI og var raunverulega trúnaðarmaður borgarinnar í REI. Hann var ráðinn af borginni til þess að gæta hagsmuni Reykvíkinga. Hann hafði eignarhlut í REI á meðan var verið að flytja eignir úr Orkuveitunni yfir í REI. Þetta er hneyksli.“
Hvers vegna vill Svandís „róa umræðuna“, þegar hún er kominn í aðstöðu til að upplýsa málið úr meirihluta?
Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók upp hanskann fyrir Dag B. Eggertsson, verðandi borgarstjóra, á vefsíðu sinni 14. desember, eftir að Björn Ingi hafði deilt við þá Dag og Helga Seljan í Kastljósi. Pistill Guðmundar hófst á þessum orðum:
„Málflutningur Björns Inga Hrafnssonar í Kastljósi í gær var líklega sá óskammfeilnasti og ósvífnasti sem ég hef séð í sjónvarpi um langt árabil.“
Björn Ingi tók þarna upp hanskann fyrir Óskar Bergsson, varamann sinn í borgarstjórn, sem sakaður var um að þiggja bitlinga. Þeir Björn Ingi og Óskar voru klökkir á fundi Framsóknarflokksins í dag og föðmuðu Alfreð Þorsteinsson, guðföður hins nýja meirihluta, fyrir framan sjónvarpsvélarnar.
Fimmtudagur, 11. 10. 07.
Klukkan 16.30 var efnt til blaðamannafundar við Iðnó með ráðhúsið í baksýn, þar sem kynntur var nýr fjögurra flokka meirihluti í Reykjavík með Dag B. Eggertsson í sæti borgarstjóra. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna ágreinings um REI. Ágreiningurinn snýst um, hvort nota eigi gjöld viðskiptavina OR fyrir vatn og rafmagn til áhættufjárfestinga í útlöndum. Björn Ingi vill, að það sé gert en sjálfstæðismenn ekki.
Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna, hefur farið mikinn undanfarið í gagnrýni sinni á OR/REI. Í dag gekk hún hins vegar til samstarfs við þann borgarfulltrúa, Björn Inga, sem ákafast hefur varið allt, sem snertir OR/REI og síst allra séð nokkuð athugavert við það, sem þar hefur gerst.
Svandís og Björn Ingi eru pólitískir loddarar þessara uppskipta í borgarstjórn - einkennilegust er staða Margrétar Sverrisdóttur, sem er borgarfulltrúi fyrir flokk, sem hún klauf til að ganga í annan.
Það hefur enn sannast með atburðum síðasta sólarhrings, að ekki er flókið að halda fundi í borgarstjórnarflokki framsóknarmanna. Líklegt er, að hinn reynslumikli Alfreð Þorsteinsson hafi kippt í eina spottann til að tryggja, að örugglega verði ekki við neinu haggað hjá OR. Svandís handsalaði niðurstöðuna við Björn Inga.
Miðvikudagur, 10. 10. 07.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, stóð sig vel í Kastljósinu í kvöld, þegar hún ræddi OR/REI málið við þá Sigmar Guðmundsson og Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Þorbjörg Helga fipaðist aldrei, af því að hún talaði af einlægni og sagði satt. Dagur B. var að reyna að slá keilur eins og jafnan áður.
Kjarninn í boðskap Dags B. er þessi: Við skulum ekki selja REI núna, síðar græðum við miklu meira en ef við seljum strax! Á þennan veg hefur verið talað um mörg fyrirtæki til að fá fólk til að festa fé í þeim - til dæmis deCode. Hverjir töluðu verðmæti deCode í hæstu hæðir? Hvað græddu margir á þvi tali?
Á hverju á OR/REI að græða svona mikið? Jú, því að hætta fé Reykvíkinga á Filippseyjum eða í Indónesíu.
Spyrja má: Hvers virði eru orð Dags B., á meðan dómstólar hafa ekki komist að niðurstöðu um lögmæti allra furðugerninganna í tengslum við OR/REI? Eða svör við spurningum umboðsmanns alþingis hafa ekki verið kynnt og metin?
Ég ítreka: Ekkert af því, sem sagt hefur verið um tregðu Guðmundar Þóroddsonar til að miðla upplýsingum til kjörinna fulltrúa og jafnvel stjórnarmanna, kemur mér á óvart. Þar tala ég af eigin reynslu. Nærtækt er að rifja upp baráttuna fyrir því að fá að vita, hvað okruveituhúsið varð miklu dýrara en áætlað var - nýjasta talan, sem nefnd hefur verið, er 4 milljarðar króna umfram áætlun.
Þriðjudagur, 09. 10. 07.
Árás Guðna Ágústssonar á Sjálfstæðisflokkinn vegna OR/REI málsins í sjónvarpsfréttum í kvöld var meira en lítið skrýtin, því að allt er þetta sérkennilega mál unnið með eina framsóknarmanninum í borgarstjórn, sem talar fjálglega um stuðning við sig í borgarstjórnarflokki sínum(!). Skyldi Guðni sjá sér þann leik á borði til að losna við Björn Inga Hrafnsson að splundra meirihlutasamstarfinu við sjálfstæðismenn í borgarstjórn?
Ljós í þágu friðar boðaði Yoko Ono með sólgleraugu á nefi í myrkri í Viðey, þegar kveikt var á friðarsúlu til minningar um John Lennon. Orkugjafi friðarsúlunnar er OR, þar sem allt logar í ófriði.
Mánudagur, 08. 10. 07.
Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom sér saman um málefni Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í dag, þ. e. að skipta á Hauki Leóssyni, stjórnarformanni OR, og borgarfulltrúa í stjórn OR og selja hlut borgarinnar í Reykjavík Energy Invest (REI), það er útrásarfyrirtækinu, þar sem Bjarni Ármannsson var gerður að stjórnarformanni og situr með þeim Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, og Hauki í stjórn. REI var stofnað, á meðan Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi heilbrigðis- og tryggingarráðherra, var stjórnarformaður OR á síðasta vetri. Við myndun meirihlutans í borgarstjórn með Framsóknarflokknum var formennsku í stjórn OR á kjörtímabilinu skipt á milli þeirra þriggja Guðlaugs Þórs, Hauks og Björns Inga.
Björn Ingi sat fyrir svörum í Kastljósi kvöldsins og nefndi mitt nafn til að verja málstað sinn, af því að ég sat í nokkra mánuði árið 2002 fram á ár 2003 í stjórn OR og þar var meðal annars rætt um ENEX, sem er útrásarfyrirtæki til margra ára og átti að duga til að ná árangri á heimsmælikvarða en mátti sín greinilega ekki nægilega mikils og því kom REI til sögunnar. Ég biðst eindregið undan því, að nafn mitt sé nefnt í tengslum við þessar uppákomur hjá OR og REI síðustu daga. Ég hef gagnrýnt þá málsmeðferð alla og tel hana engum til sóma.
Um langt árabil hefur Íslendinga dreymt um að geta nýtt jarðhitaþekkingu sína á alþjóðavettvangi. Þróun orkuverðs undanfarin misseri gerir kleift að nýta orkugjafa, sem áður vöktu ekki sérstakan áhuga. Að verja eigi eignum Reykvíkinga til áhættufjárfestinga á Filippseyjum eða í Indónesíu á ekkert skylt við skoðanir mínar á útrás á þessu sviði - vilji einstaklingar eða fyrirtæki þeirra hætta fé sínu á þennan hátt hafa þeir fullt frelsi til þess.
Hitt skil ég ekki, að á sviði jarhitanýtingar á alþjóðavettvangi skipti sköpum fyrir Íslendinga, að aðeins eitt fyrirtæki sækist eftir verkefnum héðan. Hvers vegna eru svona margar íslenskar fjármálastofnanir að sinna alþjóðlegum verkefnum? Af hverju taka þær ekki höndum saman í einu íslensku fjármálafyrirtæki á alþjóðavettvangi? Á sínum tíma sameinuðust fiskframleiðendur um sölusamtök til að styrkja stöðu sína á alþjóðamörkuðum - sá tími er liðinn við fisksölu. Nú er hins vegar talað um þessa aðferð sem sérstakt bjargráð við útflutning á jarðhitaþekkingu.
Sunnudagur, 07. 10. 07.
Enn sannast kenning Harolds Wilsons, forsætisráðherra Breta, að vika sé langur tími í stjórnmálum. Um síðustu helgi sýndu kannanir breska Verkamannaflokkinn með 11% forskot á Íhaldsflokkinn og flestir spáðu, að nú um helgina myndi Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, boða til kosninga í haust. Nú mælast íhaldsmenn með 3% forkost og Brown segist ekki ætla að rjúfa þing á þessu ári og líklega ekki hinu næsta, hann vilji sanna þjóðinni áhrif eigin stjórnlistar, áður en kosið er.
Í The Economist, sem fór í prentun sl. fimmtudag er gengið að því vísu, að Brown boði til kosninga í haust.
Hvað gerðist? David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, sló í gegn á flokksþingi í vikunni sem leið með því að flytja í meira en klukkustund blaðalaust ræðu, þar sem hann lýsti því, hvernig hann myndi halda á málum sem forsætisráðherra. Geri aðrir betur!
Nú er hart sótt að Gordon Brown og hann sakaður um hik og hugleysi. Breskur þingmaður, sem ég hitti á NATO-þinginu hér í Reykjavík, sagði niðurstöðu Browns ekki koma sér á óvart. Hann hefði sem fjármálaráðherra allaf haft vaðið fyrir neðan sig, það breyttist ekki, þótt hann væri orðinn forsætisráðherra.
Laugardagur, 06. 10. 07.
Í morgun flutti ég ræðu í þeirri nefnd NATO-þingsins, sem fjallar um borgaralega hlið öryggis. Ræddi ég um breytinguna í íslenskum varnarmálum við brottför Bandaríkjahers héðan, við nýjar aðstæður á N-Atlantshafi vegna ferða risaolíu- og gasflutningaskipa frá Barentshafi til N-Ameríku og vegna ferða rússneskra spengjuvéla í nágrenni Íslands.
Í umræðum að erindinu loknu, kvaddi rússneskur þingmaður sér hljóðs og spurði, hvers vegna Ísland væri að efla landhelgisgæslu sína með nýrri flugvél, nýju varðskipi og nýjum þyrlum. Gegn hverjum við ætluðum að berjast? Við ættum að semja við Rússa um gæslu á hafsvæðinu í kringum landið, þeir sendu sprengjuvélar til að fylgjast með hryðjuverkamönnum og gætu komið í stað þyrlanna.
Ég taldi þetta af og frá. Íslendingar hefðu ekki her og væru ekki að búa sig undir stríð við neinn. Að spengjuvélar Rússa væru að leita að hryðjuverkamönnum umhverfis Ísland hljómaði ótrúlega og þessar vélar kæmu aldrei stað leitar- og björgunarþyrla við Ísland.
Þingmaður frá Bretlandi sagði Bandaríkjamenn hafa gert „monumental“ mistök með því að fara með herafla sinn frá Íslandi og hann mótmælti eindregið málflutningi rússneska þingmannsins um eðli flugs rússnesku sprengjuvélanna.
Föstudagur, 05. 10. 07.
Undarlegt er að sjá efasemdir um, að hugað sé að því, hvort einkaaðilar geti tekið að sér að reisa og reka nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Á sínum tíma beitti ég mér fyrir því, að einkaaðilar reistu og önnuðust rekstur Iðnskólans í Hafnarfirði. Um langt árabil hafði verið rætt um nauðsyn þess, að skólinn kæmist í betra húsnæði. Fjármálaráðuneytið féllst á tillögu menntamálaráðuneytisins um einkaframkvæmd og reis skólahúsið á skömmum tíma en Nýsir á húsið og tók að sér að reka skólann.
Engum datt á þeim tíma í hug, að Nýsir mundi ráða kennara eða bera ábyrgð á kennslu í skólanum. Þá var heldur ekki snúist gegn þessari einkaframkvæmd, af því að einhver kynni að græða á henni. Nú er látið eins og hugmynd um fangelsi í einkaframkvæmd leiði til þess, að einkaaðilar muni leggja sig fram um að fá sem flesta fanga til langs tíma - ósiðlegt sé að græða á fangavist annarra!
Í meira en 40 ár hefur verið rætt um að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Sýnir skorturinn á því mikla framtaksemi af hálfu ríkisvaldsins? Hvað tapast, þótt litið sé til þess að fela einkaaðila framkvæmd málsins?
Eftir allt, sem á undan er gengið og gagnrýni sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur á Alfreð Þorsteinsson vegna stjórnarhátta hans í Orkuveitu Reykjavíkur (OR), var það frekar dapurlegt tímanna tákn, að hann skyldi sitja í Kastljósi í kvöld og verja stjórnarhætti núverandi meirihluta í OR. Taldi hann sig meira að segja hafa verið tompaðan að því er varðar Línu-net!
Sagt er frá því í norska blaðinu Aftenposten í dag, að af Norðurlöndunum hafi Ísland flesta lögregluþjóna á íbúa, en fæstir séu þeir í Noregi.
Fimmtudagur, 04. 10. 07.
Miðvikudagur, 03. 10. 07.
Hélt rétt fyrir 10.00 til Grundarfjarðar og var þar í hádeginu í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, þar sem vel var á móti okkur tekið. Skólinn er einstakur að innri gerð bæði að því er varðar rafræna kennsluhætti og innréttingar. Var ánægjulegt að kynnast því, hve vel hefur til tekist og hve mikill áhugi er á því að stunda nám við skólann. Hér á síðunni má áreiðanlega finna frásagnir af uppruna skólans, því að ég sat fundi um stofnun hans og skipulag.
Klukkan 13.00 hófst athöfn að Kvíabryggju til að fagna því, að fangelsið hefur verið endurgert og stækkað. Fangaklefum hefur verið fjölgað úr 14 í 22 og öll sameiginleg aðstaða er meiri og betri en áður. Flutti ég ávarp við athöfnina, sem var vel sótt og hátíðleg.
Við fengum að kynnast afstöðu Dana til opinna fangelsa á borð við fangelsið á Kvíabryggju. Fyrirlesari var spurð að því, hvaða ókosti hún teldi helst við þessa gerð fangelsa. Hún sagðist ekki sjá neinn, en þó helst, að erfitt gæti verið að finna fyrir þau stað vegna fordóma nágranna, sem vildu ekki fá slíka starfsemi í nágrenni við sig. Slíkra fordóma gætir alls ekki í Gundarfirði, þvert á móti. Við athöfnina í dag var enn áréttað, hve vel Grundfirðingar kunna að meta nábýlið við Kvíabryggju.
Rétt fyrir 18.00 var ég kominn heim aftur.
Þriðjudagur, 02. 10. 07.
Geir H. Haarde forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á alþingi í kvöld og síðan voru hefðbundnar umræður, þar sem menn tíunduðu þau atriði, sem hverjum og einum þótti mestu skipta.
Gagnrýni stjórnarandstöðu var máttlítil, enda ekki auðvelt að finna snöggan blett á stöðu og stefnu ríkisstjórnarinnar.
Mánudagur, 01. 10. 07.
Alþingi var sett í dag og hófst athöfnin með því, að þingmenn gengu til kirkju. Þegar komið var að nýju í þinghúsið, var sú nýbreytni, að stengjakvartett sat í Kringlunni og lék íslenska tónlist, þegar gengið var í þingsal. Yfirbragð salarins var annað en áður, því að íslenski fáninn var á stöng aftan við forseta, honum á hægri hönd svo sem vera ber. Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi alþingismaður, barðist fyrir þessari nýbreytni með tillögum, á meðan hann sat á þingi.
Tónlistin við þingsetningu setti á hana hátíðlegan blæ. Eftir að þingmenn höfðu sest í sæti sín, lék kvartettinn af þingpalli. Að loknum ræðum forseta Íslands og forseta alþingis var þingmönnum og gestum boðið að þiggja veitingar í Skála þingsins og þar lék kvartettinn einnig en hann skipuðu: Auður Hafsteinsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Pálína Árnadóttir og Svava Bernharðsdóttir.