22.10.2007 19:29

Mánudagur, 22. 10. 07.

Christoph Blocher, dómsmálaráðherra Sviss, leiðtogi Þjóðarflokksins (SVP) er sigurvegari þingkosninganna í Sviss á sunnudaginn. Hann settist í ríkisstjórn Sviss árið 2003 og hef ég hitt hann nokkrum sinnum á ráðherrafundum undanfarin misseri, eftir að Sviss gerðist þátttakandi í Schengen-samstarfinu.

Flokkur Blochers vann sjö þingsæti kosningunum og er með 62 þingmenn af 200 í svissneska þinginu. Sósíaldemókratar töpuðu níu þingsætum. Blocher hefur sett sterkan svip á svissnesk stjórnmál síðustu 20 ár. Hann er nú orðinn 67 ára gamall.

Blocher er málsvari lágra skatta, andstöðu við Evrópusambandið og hann vill setja skorður við komu innflytjenda til Sviss. Flokkur hans nýtur nú fylgis 29% kjósenda og er stærsti stjórnmálaflokkurinn í Sviss.

Allir fjórir flokkar Sviss eiga sæti í ríkisstjórn landsins og ekki verður breyting á því. Hvort Blocher heldur áfram sem dómsmálaráðherra á eftir að koma í ljós.

Vorum klukkan 20.00 í Salnum, þar sem Bergþór Pálsson, óperusöngvari, fagnaði fimmtíu ára afmæli sínu með glæsibrag. Tónleikarnir voru eftirminnilegir fyrir listræn tilþrif söngvara og hljóðfæraleikara og hið snilldarlega skipulag, sem var á öllu.