Dagbók: desember 1996

Þriðjudagur 31.12.1996 - 31.12.1996 0:00

Gamlársdagur er hefðbundinn fundardagur ríkisráðsins. Þá koma ráðherrar til fundar hjá forseta Íslands að Bessastöðum, bera upp við hann erindi og þiggja síðan kampavínsglas til að kveðja gamla árið. Þegar við komum að forsetasetrinu um klukkan 10.30 var þar margmenni utan dyra og hafði komið í nokkrum rútum, var það líklega hluti þeirra ferðamanna, sem hingað koma til að fylgjast með áramótunum. Klukkan 14 á gamlársdag er önnur hefðbundin athöfn, það er afhending viðurkenningar úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Fer hún fram í húsakynnum RÚV í Efstaleiti. Að þessu sinni hlutu þau systkinin Sigrún og Þórarinn Eldjárn þessa viðurkenningu, 400 þúsund krónur hvor.

Mánudagur 30.12.1996 - 30.12.1996 0:00

Síðdegis mánudaginn 30. desember afhending menningarverðlauna Visa

Sunnudagur 29.12.1996 - 29.12.1996 0:00

Síðdegis sunnudaginn 29. desember var móttaka til heiðurs Aðalsteini Jónssyni, Alla ríka, manni ársins í Sunnusal Hótel Sögu. Frá Sögu héldum við beint í Hallgrímskirkju, þar sem Rut lék í hljómsveitinni með Mótettukórnum og einsöngvurum, þegar fluttir voru fjórir kaflar úr Jólaoratoríu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Sunnudagur 29.12.1996 - 29.12.1996 0:00

Síðdegis sunnudaginn 29. desember var móttaka til heiðurs Aðalsteini Jónssyni, Alla ríka, manni ársins í Sunnusal Hótel Sögu.

Föstudagur 27.12.1996 - 27.12.1996 0:00

Síðdegis föstudaginn 27. desember voru verðlaun Ásu Wright afhent í Norræna húsinu með tilheyrandi glæsibrag.

Miðvikudagur 25.12.1996 - 25.12.1996 0:00

Að kvöldi annars í jólum var það síðan Villöndin í Þjóðleikhúsinu, stórbrotið verk Ibsens og vel leikið, sérstaklega þótti mér gaman að sjá, hve mikið vinur minn Gunnar Eyjólfsson gerði úr hlutverki sínu.

Þriðjudagur 24.12.1996 - 24.12.1996 0:00

Við fórum í Hallgrímskirkju klukkan 18 á aðfangadagskvöld, enda var Bjarni Benedikt að syngja í kórnum hjá Þorgerði Ingólfsdóttur, móðursystur sinni, auk þess sem hann las pistilinn við góðan hljómgrunn.

Mánudagur 23.12.1996 - 23.12.1996 0:00

Í hádeginu á Þorláksmenn brá ég mér í skötu í Þjóðleikhúskjallaranum. Þótt ég gæti aðeins staldrað við í stutta stund, var það nóg til að gæða sér á réttunum á matarmiklu hlaðborðinu.

Sunnudagur 22.12.1996 - 22.12.1996 0:00

Sunnudaginn 22. desember klukkan 17 fór ég á jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Áskirkju, þar sem Roy Goodman stjórnaði, en hann hefur flutt og stjórnað tónlist á meira en 100 hljómdiskum. Var ánægjulegt að hitta hann og ræða við hann um hinar breyttu aðstæður í útgáfu á tónlist á diskum.

Miðvikudagur 18.12.1996 - 18.12.1996 0:00

Síðdegis mánudaginn 18. nóvember spurði Bryndís Hlöðversdóttir, þringmaður Alþýðubandalagsins, mig í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Svaraði ég með því að vísa til ræðu minnar um málið á Alþingi 12. nóvember. Þetta var Bryndís óánægð með og þingflokksformaðurinn, Svavar Gestsson, tók að belgja sig um hroka í garð Alþingis. Var þetta ekki í fyrsta sinn sem stjórnarandstaðan kvartar undan svörum okkar ráðherranna. Finnst mér þær umræður bera málefnafátæktinni best vitni. Auðvitað ráða ráðherrar með hvaða orðum þeir svara spurningum til sín. Þingmenn hafa rétt til að spyrja en ráðherrar skulu svara samkvæmt bestu vitund en ekki í samræmi við vilja spyrjandans, sem oft reynir að búa til einhverja pólitíska leikfléttu. Að kvöldi mánudagsins voru Brahms-tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands.

Laugardagur 15.12.1996 - 15.12.1996 0:00

Laugardaginn 14. desember fórum við í Sólon Íslandus, þegar Cheo Cruz opnaði þar sýningu í boði Ester Ólafsdóttur, Karls Steingrímssonar og Lionel Dominique Véron. Síðan fórum við í Valhöll, þar sem ávarpaði jólagleði sjálfstæðismanna.

Föstudagur 13.12.1996 - 13.12.1996 0:00

Föstudagskvöldið 13. desember vorum við í Listasafni Íslands, þegar sýning Eiríks Smiths var opnuð.

Fimmtudagur 12.12.1996 - 12.12.1996 0:00

Fimmtudagskvöldið 12. desember fórum við Rut á jólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Langholtskirkju.

Þriðjudagur 10.12.1996 - 10.12.1996 0:00

Þriðjudaginn 10. desember kl. 13.00 flutti ég ávarp við upphaf málþings Verkfræðingafélagsins og Félags raungreinakennara um menntun til framtíðar.

Sunnudagur 8.12.1996 - 8.12.1996 0:00

Sunnudagskvöldið 8. desember fórum við Rut á fyrstu tónleikana í hinni nývígðu Grensáskirkju, þar sem Fílharmóníukórinn söng og Sigrún Hjálmtýsdóttir.

Föstudagur 6.12.1996 - 6.12.1996 0:00

Síðdegis föstudaginn 6. desember heimsótti Daði Guðbjörnsson listmálari mig í ráðuneytið og fórum við um ganga þess og skoðuðum myndir Daða, sem þar hanga um nokkurra vikna skeið, en ég ætla beita mér fyrir því, að reglulega verði í ráðuneytinu sýndar myndir íslenskra listamanna. Er Daði hinn fyrsti, sem tekur þátt í þessu verkefni.

Fimmtudagur 5.12.1996 - 5.12.1996 0:00

Síðdegis fimmtudaginn 5. desember fór ég í Þjóðarbókhlöðuna, þar sem Kvennasögusafnið var formlega opnað á þeim stað við hátíðlega athöfn.

Sunnudagur 1.12.1996 - 1.12.1996 0:00

Sunnudaginn 1. desember flaug ég til Kaupmannahafnar síðdegis og sat þar mánudaginn 2. desember fundi mennningarmálráðherra Norðurlanda fyrir hádegi og síðdegis menntamálaráðherranna. Flaug síðan heim með kvöldvélinni.