18.12.1996 0:00

Miðvikudagur 18.12.1996

Síðdegis mánudaginn 18. nóvember spurði Bryndís Hlöðversdóttir, þringmaður Alþýðubandalagsins, mig í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Svaraði ég með því að vísa til ræðu minnar um málið á Alþingi 12. nóvember. Þetta var Bryndís óánægð með og þingflokksformaðurinn, Svavar Gestsson, tók að belgja sig um hroka í garð Alþingis. Var þetta ekki í fyrsta sinn sem stjórnarandstaðan kvartar undan svörum okkar ráðherranna. Finnst mér þær umræður bera málefnafátæktinni best vitni. Auðvitað ráða ráðherrar með hvaða orðum þeir svara spurningum til sín. Þingmenn hafa rétt til að spyrja en ráðherrar skulu svara samkvæmt bestu vitund en ekki í samræmi við vilja spyrjandans, sem oft reynir að búa til einhverja pólitíska leikfléttu. Að kvöldi mánudagsins voru Brahms-tónleikar Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands.