Dagbók: nóvember 1998
Laugardagur 28.11.1998
Klukkan 17.00 var í Laugardalshöllinni, þar sem Íslendingar og Eistlendingar kepptu í körfubolta. Um kvöldið vorum við Rut gestir nokkurra Sjálfstæðisfélaga, sem efndu til aðventugleði í Valhöll.
Föstudagur 27.11.1998
Klukkan 16.00 var nýr samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla, Mennt, srofnaður við hátíðlega athöfn.
Mánudagur 23.11.1998
Klukkan 14.00 var ritað undir samning, þar sem Landssími Íslands hf. heitir stuðningi við skólakerfið, gerði ég þetta með forstjóra Landssímans í húsakynnum hans.
Laugardagur 21.11.1998
Flokksráðsfundur sjálfstæðismanna stóð allan daginn í Valhöll.
Föstudagur 20.11.1998
Veðurspáin var þannig að ég átti von á því að þurfa að aka til Reykjavíkur. Þennan morgun var hins vegar blankalogn á Ísafirði og flugvélin kom á réttum tíma og ég lenti í Reykjavík klukkan 11.45 samkvæmt áætlun. Áður en ég flaug af stað gafst mér tækifæri til að skoða nýjar kennslustofur grunnskólans á Ísafirði í gamla kaupfélagshúsinu, hefur þar verið fundin góð lausn á húsnæðisvanda skólans, sem olli miklum pólitískum deilum á síðasta kjörtímabili. Einnig fórum við í Framhaldsskóla Vestfjarða og skoðaði ég sérstaklega aðstöðuna til fjarkennslu, sem er að ryðja sér rúms á Ísafirði öllum til mikillar ánægju. Hitti ég meðal annars þær níu konur, sem þarna stunda nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Er ljóst, að þessi kennsluaðferð á eftir að valda byltingu. Um kvöldið átti ég þess kost að ræða við nokkra af þeim erlendu prófessorum, sem tóku fyrr um daginn þátt í ráðstefnu sjálvarútvegsráðuneytisins og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um kvótakerfið. Fer ekki á milli mála, að stjórn okkar á fiskveiðum þykir hafa skilað einstæðum árangri. Einn viðmælanda minna er sérfræðingur í hagfræðilegum þáttum umhverfismála og vorum við sammála um, að menn hefðu farið inn á rangar brautir í Kyoto. Taldi hann, að íslenska ríkisstjórnin hefði tekið mjög skynsamlega afstöðu með því að skrifa ekki undir skjalið frá Kyoto.
Fimmtudagur 19.11.1998
Síðdegis flaug ég vestur á Ísafjörð með þinmönnunum Einar K. Guðfinnssyni og Einari Oddi Kristjánssyni. Höfðu sjálfstæðismenn boðað til fundar um menntamál á hótelinu á Ísafirði þá um kvöldið, en áður fórum við í Bolungarvík og skoðuðum glæsilegt náttúrgripasafn þar. Fundurinn var vel sóttur og urðu umræður miklar.
Miðvikudagur 18.11.1998
Síðdegis svaraði ég fjórum fyrirspurnum á Alþingi. Vék ég athygli lesenda þessarar síðu á því, að fari þeir inn á vefsíðu menntamálaráðuneytisins geta þeir nálgast svör mín við fyrirspurnum á Alþingi. Einnig er unnt að kynnast umræðum á Alþingi með því að fara inn á vefsíðu þingsins.
Sunnudagur 15.11.1998
Við Rut fórum síðdegis austur í Skálholt og hlýddum þar á flutning tónlistar eftir Hildegard von Bingen, sem var uppi um svipað leyti og Skálholt varð biskupsstóll. Voru það norrænir og félagar úr Vox feminae, sem fluttu þessa einstöku hugleiðslutónlist.
Laugardagur 14.11.1998
Klukkan 11.00 hófst málræktarþing, þar sem ég flutti ávarp. Klukkan 14.00 fór ég á málþing Bandalags íslenskra leikfélaga um áhugamannaleikhús. Stóð málþingið fram undir 17.00. Við Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, fluttum stutt erindi og sátum fyrir svörum.
Föstudagur 13.11.1998
Klukkan 9.00 flutti ég ræðu við upphaf Evrópudaga. Um klukkan 10.30 skalf allt og nötraði á skrifborðinu hjá mér, þegar jarðskjálfti, um 5 á Richter-skala, gekk yfir. Klukkan 14.00 var vefbókasafniðopnað í Bókasafni Seltjarnarness.
Fimmtudagur 12.11.1998
Klukkan 15. 00 var ritað undir samkomulag menntamálaráðuneytisins og Menntafélags byggingariðnaðarins um að félagið tæki við umsjá sveinsprófa og fleiri verkefnum af ráðuneytinu. Held ég, að fáir geri sér grein fyrir þeirri miklu breytingu, sem er að verða á skipan starfsnám og stjórn þess. Til dæmis lauk ráðuneytið nú í vikunni við að gera samstarfssamninga við öll starfsgreinaráðin 14, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessu efni. Klukkan 16.00 opnaði Orðabók háskólans aðgang að sinni á vefnum. Um kvöldið fór ég með Árna Johnsen til Þorlákshafnar og tók þar þátt í almennum fundi, sem var vel sóttur, en auk okkar Árna höfðu Þorsteinn Pálsson og Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður framsögumenn á fundinum.
Miðvikudagur 11.11.1998
Klukkan 15.00 hitti ég formann skólanefndar Iðnskólans í Reykjavík, skólameistara og formann kennarafélags skólans. Kynnti ég þeim áform ráðuneytisins um að tilnefna sérstaka fulltrúa til að taka þátt í þeim þætti sjálfsmats skólans, sem lýtur að stjórnsýslu innan hans og samskiptum við stjórnun. Féllust þeir á tillögu mína í þessu efni. Klukkan 17. 30 var ritað undir samkomulag í Iðnskólanum í Hafnarfirði til staðfestingar á því, að nýtt hús skólans verði reist undir merkjum einkaframkvæmdar á vegum Ístaks, Nýsis og Íslandsbanka. Verður nýja húsið komið í gagnið næsta haust, ef áætlanir standa. Var ritað undir á 70 ára afmælishátíð skólans. Um kvöldið efndi menningarnefnd Sjálfstæðisflokksins til opins fundar um menningarmál í Valhöll. Fleiri hefðu mátt sækja fundinn en umræður voru góðar og gagnlegar.
Þriðjudagur 10.11.1998
Klukkan 17 kom það í minn hlut að opna vefsíðu Upplýsingamiðstöðvar myndlistar við hátíðlega athöfn í hinu nýja kvikmyndaveri Loftkastalans og Kvikmyndasamsteypunnar í Héðinshúsinu.
Laugardagur 7.11.1998
Fórum og sáum Svikamylluna í Kaffileikhúsinu.
Föstudagur 6.11.1998
Klukkan 20 opnaði ég sýninguna 80/90 Speglar samtímans í Listasafni Íslands.
Fimmtudagur 5.11.1998
Flutti um morguninn ræðu á ársfundi íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa, sem komu víða að af landinu. Gerði meðal annars grein fyrir hugmyndum um ný lög í stað laga um æskulýðsmál frá 1970. Klukkan 15.00 var ég á blaðamannafundi á vegum Húsafriðunarnefndar ríkisins með Herði Ágústssyni til að kynna nýja bók eftir hann um íslenska byggingararfleifð. Klukkan 17.00 fórum við Rut í Þjóðarbókhlöðu, þar sem Sindri Freysson fékk bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, sem Vaka-Helgafell veitir.
Miðvikudagur 4.11.1998
Umræður utan dagskrár á Alþingi um fíkniefnavandann. Síðan svaraði ég fyrirspurnum um fækkun starfsmanna í menntamálaráðuneytinu eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og um rannsóknahús við Háskólann á Akureyri. Svör mín við fyrirspurnum er unnt að sjá á heimasíðu menntamálaráðuneytisins.
Mánudagur 2.11.1998
Um kvöldið sýndi sjónvarpið viðtal mitt við Kenneth East sendiherra Breta. Varð ég var við, að mörgum þótti gaman að því að fylgjast með þessum samræðum okkar og þó sérstaklega framgöngu Kenneths.