Miðvikudagur 11.11.1998
Klukkan 15.00 hitti ég formann skólanefndar Iðnskólans í Reykjavík, skólameistara og formann kennarafélags skólans. Kynnti ég þeim áform ráðuneytisins um að tilnefna sérstaka fulltrúa til að taka þátt í þeim þætti sjálfsmats skólans, sem lýtur að stjórnsýslu innan hans og samskiptum við stjórnun. Féllust þeir á tillögu mína í þessu efni. Klukkan 17. 30 var ritað undir samkomulag í Iðnskólanum í Hafnarfirði til staðfestingar á því, að nýtt hús skólans verði reist undir merkjum einkaframkvæmdar á vegum Ístaks, Nýsis og Íslandsbanka. Verður nýja húsið komið í gagnið næsta haust, ef áætlanir standa. Var ritað undir á 70 ára afmælishátíð skólans. Um kvöldið efndi menningarnefnd Sjálfstæðisflokksins til opins fundar um menningarmál í Valhöll. Fleiri hefðu mátt sækja fundinn en umræður voru góðar og gagnlegar.