Dagbók: júlí 2006

Mánudagur, 31. 07. 06. - 31.7.2006 22:23

Fréttir af barsmíðum og meiðingum í miðborg Reykjavíkur hafa dregið athygli að þeirri ákvörðun okkar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra að halda áfram samstarfi dómsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar með þátttöku lögreglu, sem ég stofnaði til skömmu eftir að ég varð dómsmálaráðherra sumarið 2003. Vilhjálmur ritaði mér bréf skömmu, eftir að hann varð borgarstjóri og mæltist til þess, að ég tilefndi mann í starfshóp um öryggi bogarbúa og samstarf ráðuneytis og borgaryfirvalda og varð það niðurstaða okkar, að Stefán Eiríksson, nýskipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, skyldi leiða hópinn.

Mér finnst skrýtið, að látið er í það skína af Degi B. Eggertssyni, forystumanni Samfylkingarinnar í borgarstjórn, að þetta samstarf dómsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar sé á einhvern hátt undan hans rifjum runnið. Þótt Dagur hafi verið og sé einn þeirra, sem sitja í starfshópnum, hefur hann ekki haft neitt frumkvæði að skipan hans.

Svo virðist sem sumir fjölmiðlar líti á Dag sem einskonar samnefnara fyrir þá þrjá flokka, sem eru í minnihluta í borgarstjórn. Hafa vinstri/græn og frjáslynd samþykkt Dag sem talsmanna sinn? Hvers vegna er ekki leitað álits allra minnihlutaflokkanna í borgarstjórn, þegar fjölmiðlar kynna deiluefni á þeim vettvangi?

Laugardagur, 29. 07. 06. - 29.7.2006 12:18

Ég varð undrandi, þegar ég las útleggingu Guðna Elíssonar, bókmenntafræðings, í Lesbók Morgunblaðsins á grein minni um kalda stríðið í þessari sömu Lesbók laugardaginn 22. júlí. Ég ræði útúrsnúninga Guðna í pistli mínum, sem ég setti á vefsíðuna í dag.

Í Lesbókinni í dag, 29. júlí, birtist viðtal Heimis Björgúlfssonar við bandaríska listamanninn Jason Rhoades, sem hélt hér sýningar árið 2004. Um Ísland segir Jason: „En það sem mér fannst ótrúlegt er að það er Evrópa en það er alls ekki eins og Evrópa, Ísland er eins og Bandaríkin.“ Heimir spyr: „Nákvæmlega það sem ber mig að næstu spurningu, fannst þér vera meiri amerísk áhrif á Íslandi en annars staðar í Evrópu?“ Jason svarar: „Já algerlega. Ísland hallar sér að Ameríku en veit samt að það er í Evrópu. Maturinn er líka hræðilegur eins og amerískur matur, eins og steiktur fitugur matsölustaðamatur.“

Forsíða Lesbókarinnar er helguð grein Heimis og tvær síður inni í blaði, þannig að meginkjarni þessa tölublaðs Lesbókarinnar snýst um bandaríska listsköpun og listamann, sem að vísu er sagður hafa áunnið sér jafnvel stærra nafn í Evrópu en heimalandi sínu.

Þegar lesið er framlag blaðamanna Morgunblaðsins og fastra penna Lesbókarinnar í þessu tölublaði Lesbókarinnar, sést, að það snýst að mestu um bandaríska menningu. Heiða Jóhannsdóttir veltir fyrir sér, hver séu áhrif þess, ef bandarískir samtímahöfundar vilji ekkert með það hafa að kallast fulltrúar sinnar kynslóðar. Höskuldur Ólafsson ritar um bandaríska rithöfundinn Philip Roth. Björn Þór Vilhjálmsson leitar svara við því, hvað sé íslensk kvikmynd með því að nota A Little Trip to Heaven eftir Baltasar Kormák sem kvarða, en frásagnarformgerð hennar telur Björn Þór falla að „bandarískri fyrirmynd“. Heiða Jóhannsdóttir skrifar um Róbert Altman í tilefni af því að hann fékk heiðursóskarsverðlaunin sl. vetur. Steinunn Haraldsdóttir skrifar í dálki um poppklassík um Boston-sveitina Throwing Muses. Arnar Eggert Thoroddsen ritar nýjustu plötu Lisu Germano, sem er sögð hafa flutt til Hollywood og farið að vinna í bókabúð.

Læsi Jason Rhoades þetta tölublað Lesbókarinnar teldi hann sig örugglega finna ný rök fyrir þeirri skoðun sinni, að amerísku áhrifin séu hér mikil og Íslendingar halli sér að Ameríku, þótt þeir viti, að þeir séu í Evrópu.

Föstudagur, 28. 07. 06. - 28.7.2006 11:39

Páll E. Winkel, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, ritar grein um málfeni lögreglunnar í Morgunblaðið í dag og hefst hún á þessum orðum:

„Síðastliðið ár hefur umræða um málefni lögreglu verið afar áberandi í fjölmiðlum landsins. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þeirri miklu umfjöllun enda ýmsir fróðir menn sem hafa af mikilli þekkingu sett fram mikilvæg sjónarmið um umræðuefnið. Það sem hefur hins vegar skemmt faglega og fræðilega umfjöllun eru fullyrðingar sjálfskipaðra sérfræðinga sem hafa tjáð sig fjálglega um hinar ýmsu hliðar málefnanna og kastað fram fullyrðingum sem komið hafa í veg fyrir heilbrigðar og eðlilegar umræður um hvað bæta megi í umhverfi lögreglu. Að mati undirritaðs er algengara en ekki að umfjöllun um málefni lögreglu einkennist af lélegum og ómálefnalegum málflutningi.“

Rökstyður Páll þessa skoðun sína með því að taka dæmi um fimm umræðuefni: öryggislögreglu í framhaldi af matsskýrslu sérfræðinga Evrópusambandsins um hryðjuverkavarnir, stækkun sérsveitar lögreglunnar, stækkun lögregluumdæma, löggæslu við Kárahnjúka og Baugsmálið.

Fimmtudagur, 27. 07. 06. - 27.7.2006 21:55

Fór til Guðlaugs Jónssonar í hársnyrtistofunni Nikk við Kirkjutorg kl. 14.00 í síðasta sinn á þessum stað, en húsnæði stofunnar hefur verið selt og lokar Guðlaugur henni 1. ágúst og lýkur þar með 105 ára starfrækslu rakarastofu við Kirkjutorg. Ég hef verið meðal viðskiptavina stofunnar frá barnæsku með stuttu hléi og hjá Guðlaugi í um fjóra áratugi. 

Þegar ég kom til Guðlaugs var Sverrir Þórðarson, gamall samstarfsmaður minn af Morgunblaðinu, að spjalla við hann en við Sverrir höfum helst hist þarna síðan við hættum að starfa saman og hann varð eftirlaunamaður. Það er alltaf jafnánægjulegt að hitta Sverri og ræða málin við hann. Taldi hann þetta gott sumar, þar sem marga góða golfdaga hefði gefið.

Miðvikudagur 26. 07. 06. - 26.7.2006 19:24

Hélt frá Brussel með SAS á áætlun klukkan 10.40 til Kaupmannahafnar, þar sem 30 mínútna töf var á brottför Icelandair-vélarinnar, sem lenti á Keflavíkurflugvelli kl. 15.30.

Það var gott að koma út í svalann eftir meira en 30 stiga hita í Brussel.

Þegar ég las blöðin við heimkomuna, sá ég, að Eiríkur Bergmann Einarsson, dálkahöfundur á Blaðinu, bar sig illa undan því, sem sagði í grein minni um kalda stríðið í Lesbók Morgunblaðsins, þegar ég velti  fyrir mér, hvort umræðuhefðin hefði breyst að loknu kalda stríðinu og dró það í efa, meðal annars með þessum orðum: „Andúð á Bandaríkjunum. Í nýlegri blaðagrein segir Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Viðskiptaháskólans á Bifröst, Bandaríkin hafa „svo gott sem breyst í lögregluríki“.“

Eiríkur Bergmann segir mig „saka“ sig um andúð á Bandaríkjunum með þessum orðum. Ég spyr: Hvað er það annað en andúð að segja ríki hafa „svo gott sem breyst í lögregluríki“?

Í Blaðinu þriðjudaginn 25. júlí segist Eiríkur Bergmann vera „einlægur aðdáandi Bandaríkjanna“. Hann hafi hins vegar „sitthvað að athuga við aðgerðir núverandi stjórnvalda, sérstaklega þegar kemur að hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum.“ Honum finnst athuganir bandarískra landamæravarða við komu til Bandaríkjanna of miklar, fingraför og ljósmynd í gagnagrunn. „Lögregluþjónar og hermenn standa nú gráir fyrir járnum út um allar trissur og fjölmiðlarnir ala á óttanum allan sólarhringinn.“ Undir lok greinarinnar segir: „Í skjóli óttans hafa stjórnvöld svo smám saman þrengt að lýðréttindum Bandaríkjamanna, til að mynda með hinum svokölluðu föðurlandslögum sem veita yfirvöldum heimild til að auka allt eftirlit með þegnum sínum.“

Þetta eru sem sagt rök Eiríks Bergmanns fyrir því, að Bandaríkin hafi „svo gott sem breyst í lögregluríki“. Nú er Eiríkur Bergmann eins og kunnugt er sérfróður um málefni Evrópu og aðildarríkja Evrópusambandsins. Fróðlegt væri að fá mat hans á löggjöf og viðbrögðum Evrópuríkja, til dæmis Bretlands og Frakklands, við hættunni á hryðjuverkum.

 

Þriðjudagur, 25. 07. 06. - 25.7.2006 21:18

Var á fundum í Brussel fram að hádegi en síðdegis var ég á ferð um borgina í meira en 30 stiga hita - það verður hressandi að komast aftur heim í svalann.

Mánudagur, 24. 07. 06. - 24.7.2006 21:17

Sat ráðherrafund í samsettu Schengen-nefndinni í húsakynnum ráðherraráðsins í Brussel og var rætt um stækkun Schengen-svæðisins og hvenær borgarar nýju ríkjanna gætu ferðast hindrunarlaust um svæðið og jafnframt var fjallað um nýjar aðgerðir til að verja Schengen-landamærin.

Sunnudagur, 23. 07. 06. - 23.7.2006 21:15

Flaug eftir hádegi til Kaupmannahafnar og þaðan til Brussel, þar sem ég lenti um kl. 22.30 að þarlendum tíma, klukkustund á eftir áætlun.

Laugardagur, 22. 07. 06. - 22.7.2006 23:59

Tók þátt í fyrra degi Skálholtshátíðar og flutti þar ávarp. Þar skýrði ég frá samþykkt ríkisstjórnarinnar um að ganga til samstarfs við kirkjuna um að bæta aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum í Skálholti auk þess sem aðstaða til að nýta bókakost Skálholts yrði bætt en í dag var þar tekið formlega á móti veglegri bóka og nótnagjöf frá hjónunum Agnesi og Jaap Schröder.

Þá var kynnt merkilegt starf, sem er sprottið af sumartónleikunum í Skálholti og starfi Helgu Ingólfsdóttur semballeikara við að rannsaka íslenska tónlistararfinn. Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, kynnti séra Ólaf Jónsson frá Söndum og skáldskap hans og færði sterk rök fyrir áhrifum hans á Hallgrím Pétursson. Kammerkór Suðurlands söng og opnaði nýjar víddir um tónlistararfinn.

Í dag birtist grein eftir mig í greinaflokki Lesbókar Morgunblaðsins um kalda stríðið.

Föstudagur, 21. 07. 06. - 21.7.2006 23:42

Ók síðdegis í Skálholt og tók þar þátt í katólskri messu hjá Jóahnnesi Gijsen Reykjavíkurbiskupi klukkan 18.00. Án þess að ég geti borið ábyrgð á réttmæti þess, var mér sagt, að þetta væri önnur katólska messan í Skálholti frá siðaskiptum.

Átökin um það hvort Samfylkingin eigi að lýsa yfir vilja til að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn halda áfram á síðum Morgunblaðsins og í dag er það Ingólfur Margeirsson sagnfræðingur, sem gengur fram á ritvöllinn og segir meðal annars:

„Björgvin G. Sigurðsson styður greinilega fyrri kostinn (það er að vilja ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum) og kannski sækist hann eftir því að hasla sér völl í forystu vinstri sósíalista innan Samfylkingarinnar, allt að því fast að VG? Kannski stefnir hann á formannsstöðu í Samfylkingunni með stuðningi úr þeirri átt? Það er ekki svo galin stríðsáætlun með stuðningi gamalla alþýðubandalagsmanna, þjóðvakafólks og stuðningsmanna Samtaka um kvennalista. Að vísu talar Björgvin mærðarlega um að Samfylkingin myndi stóra breiðfylkingu jafnaðarstefnunnar. En er hægt að halda því fram í alvöru, að Sjálfstæðisflokkurinn í dag berjist ekki fyrir jafnaðarstefnu?“

Úr því að Björgvin telur mig hafa verið með „yfirgang og bulluhátt“ í hugleiðingum mínum um afstöðu hans í þessu máli - hvað skyldi hann þá segja um þessa hugleiðingu Ingólfs Margeirssonar? Hvaða illa ígrundaða og dónalega dembu skyldi Ingólfgur fá frá Björgvini ?

David Rennie, Brussel-fréttaritari, breska blaðsins The Daily Telegraph, tók við mig viðtal mánudaginn 17. júlí og birtir grein í blaðinu í dag um varnarmál Íslands.

Með greininni fylgir listi yfir ríki án hervarna:

Haiti (Pop: 8,528,000) - Disbanded in June 1995, but rebels have demanded its re-establishment.

Costa Rica (4,401,000) - The constitution has forbidden a standing military in times of peace since 1949. Panama (3,232,000) - Abolished its army in 1990, confirmed by a parliamentary unanimous vote for constitutional change.

Mauritius (1,245,000) - A multicultural country without an army since 1968.

Solomon Islands (478,000) - Has known a heavy ethnic conflict between 1998 and 2006, in which Australia and other Pacific countries finally intervened to restore peace and order.

Iceland (297,139) - No standing army, but is a member of Nato.

Maldives (297,000) - Has had no army since its independence on 1965.

Micronesia (110,000) - Defence is the responsibility of the United States.

Monaco (35,656) - Renounced its military investment in the 17th century because the expansion of ranges of artillery had rendered it defenceless.

Vatican City (783) - The largely ceremonial Swiss Guard acts as a security police force.

 

Fimmtudagur, 20. 07. 06. - 20.7.2006 22:02

Klukkan 15.00 var ég í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð og tók þar á móti Nicole Michelangeli, sendiherra Frakklands, og og Yves Postec, skipherra á frönsku freigátunni Primauguet, sem er í Reykjavíkurhöfn. Fórum við í kynnisferð um stöðina undir leiðsögn fulltrúa þeirra stofnana, sem þar starfa.

Hinn ritglaði Samfylkingarþingmaður Björgvin G. Sigurðsson telur mig hafa verið með „yfirgang og bulluhátt“, þegar ég gat mér þess til hér á síðunni í dagbókarfærslu mánudaginn 17. júlí, að Björgvin hefði ráðfært sig við Össur Skarphéðinsson, leiðtoga sinn innan Samfylkingarinnar, áður en hann réðst á Margeréti S. Björnsdóttur í grein í Morgunblaðinu þennan sama mánudag. Segir Björgvin, að hann hafi ekkert ráðfært sig við Össur, sem hafi ekki vitað um grein sína, fyrr en hún birtist í blaðinu.

Ég bið Björgvin afsökunar á að hafa ályktað á þann veg, sem ég gerði í dagbókarfærslu minni. Uppljóstrun Björgvins um skort hans á samráði við Össur dregur hins vegar mjög úr gildi greinar hans, hún verður aðeins að enn einu dæminu um, að Björgvin bregst aldrei vondum málstað og er til þess búinn að lýsa því yfir á prenti.

Í Morgunblaðinu í dag lýsir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, stuðningi við sjónarmið Margrétar S. Björnsdóttur. Hvers vegna ætli Össur segi ekki neitt um grein Margrétar? Hvers vegna skyldu skjólstæðingar Össurar vilja árétta, að hann sé ekki endilega ósammála Margréti, þótt þeir séu það?

Miðvikudagur,19. 07. 06. - 19.7.2006 21:17

Í dag rituðu ráðherrar og fulltrúar eldri borgara undir samkomulag um bættan hag eldri borgara. Er mikið fagnaðarefni, að niðurstaða hefur náðst í góðri sátt um þessi mál, sem hafa valdið miklum pólitískum deilum undanfarin ár. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði, að samkomulagið mundi einnig verða til hagsbóta fyrir öryrkja.

Glöggur stjórnmálarýnandi hafði á orði við mig, þegar fréttir bárust af undirritun samkomulagsins við eldri borgara, að nú færi aldeilis að þrengjast um baráttumál hjá stjórnarandstöðunni, hvert stórmálið eftir annað væri að leysast í góðri sátt við ríkisstjórnina.

Samfylkingarfólk hefur skynjað þessa þróun og er farið að rífast innbyrðis um það, hvort það eigi að biðla til Sjálfstæðisflokksins eða ekki. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, er meira að segja hættur að skrifa greinina sína um brottfall úr framhaldsskólum og er þess í stað farinn að rífast opinberlega við Margréti S. Björnsdóttur, hugmyndafræðing Ingibjargar Sólrúnar. Brottfallsgreinin var orðin úrelt fyrir löngu en algjör tímaskekkja, eftir að samkomulag tókst um nýjan framhaldsskóla.

 

Þriðjudagur, 18. 07. 06. - 18.7.2006 22:06

Eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag birti ég opinberlega skýrslu um framtíðarskipulag þyrlubjörgunarþjónustu á vegum Landhelgisgæslu Íslands.

Mánudagur, 17. 07. 06. - 17.7.2006 20:25

Var klukkan 12.00 í Þjóðmenningarhúsinu og tók þar þátt í athöfn vegna nýrrar bókar Sögu biskupsstólanna en sr. Gunnar Kristjánsson, formaður ritstjórnar, fylgdi ritinu úr hlaði.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, ritar grein í Morgunblaðið í dag, 17. júlí, þar sem hann ræðst harkalega að Margréti S. Björnsdóttur, ráðgjafa Ingibgargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrir grein Margrétar í Morgunblaðinu 15. júlí, sem ég reifaði í síðasta pistli mínum. Fyrirsögnin á grein Björgvís er þessi:

Ný hækja eða hólmganga við Sjálfstæðisflokkinn

Hún hefst á þessum orðum:

„Samfylkingin var stofnuð með sögulegt hlutverk að markmiði: Að sameina jafnaðarmenn í einum flokki og mynda raunverulegan valkost við Sjálfstæðisflokkinn. Binda þar með enda á langa valdatíð hægrimanna í íslenskum stjórnmálum og breyta samfélaginu í anda jafnaðarstefnunnar. “

Og þá segir:

„Það er þess vegna fráleit hugmynd sem nýverið kom fram í grein eftir Margréti Björnsdóttur á síðum Morgunblaðsins að það væri fýsileg hugmynd að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar komi til greina nú. Til hvers var þá sameinað? Var þá ekki alveg eins gott að starfa áfram í flokkunum fjórum og keppast um að komast í hlutverk hækju Sjálfstæðisflokksins eftir hverjar kosningar eins og var dapurlegt hlutskipti vinstriflokkanna á árum áður?

Í ljósi sögulegs hlutverks Samfylkingarinnar er samstarf við Sjálfstæðisflokk síðasti kostur flokksins. ....Samstarf við Sjálfstæðisflokk myndi marka endi á drauminum um nýja breiðfylkingu sem leysti Sjálfstæðisflokkinn af hólmi. Samfylkingin væri þá ekki að uppfylla sitt sögulega hlutverk. “

Ég hef áður velt því fyrir mér hér á síðunni, hvers sá málstaður á gjalda, sem Björgvin tekur til umræðu - þetta sannast enn í þeirri óvild, sem birtist hjá honum í garð Sjálfstæðisflokksins. Hitt er síðan annað mál að velta fyrir sér hroka hans í garð Margrétar. Þess er rétt að geta, að Björgvin er í innsta hring Össurar Skarphéðinssonar og hefði hvorki skrifað né óskað birtingar á þessari grein án vitneskju leiðtoga síns innan Samfylkingarinnar - en miðað við klofninginn innan hennar er spurning, hvort nokkur flokkur hefur áhuga á að starfa með henni, hvort sem hann er til hægri eða vinstri.

Laugardagur, 15. 07. 06. - 16.7.2006 16:48

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er fjallað um það, sem blaðið kallar hið nýja Ísland og þar segir: „Hið nýja Ísland þéttbýlisins er að snúa heim og leita uppruna síns og rótanna. Kynslóðir þéttbýlisins leita sveitanna og náttúrunnar.“ Síðar segir svo: „Þegar Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, keyrir um á dráttarvél í Fljótshlíðinni eykst skilningur hans á stöðu og högum bænda.“

Ég ætla ekki að deila við Staksteinahöfundinn um skoðun hans á þessu. Frá mínum bæjardyrum séð skiptir þó meiru að fá tækifæri til að kynnast fólkinu í Fljótshlíðinni en að aka um á traktornum -aksturinn minnir mig aðeins á sveitadvölina norður á Reynistað í Skagafirði, þegar ég var ungur og sendur þangað í sveit. Ég man ekki, hvað ég var orðinn gamall, þegar ég fékk að aka dráttarvél þar, en sú, sem ég ek í Fljótshlíðinni er frá því snemma á sjöunda áratugnum og því heldur háþróaðri en sú, sem ég ók fyrir norðan.

Fimmtudagur, 13. 07. 06. - 13.7.2006 23:27

Hitti fyrir hádegi fulltrúa frá Interpol, sem hafa verið hér til að kynna sér ákveðna þætti lögreglumála. Þeir lýstu ánægju með, hvernig staðið væri að alþjóðlegum samskiptum af hálfu alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, en bentu á það sama og aðrir sérfróðir menn um öryggismál, að við þyrftu að efla greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar.

Var klukkan 20.00 í Fræðslumiðstöðinni á Þingvöllum, þar sem var hin hefðbundma fimmtudagsganga og leiddi ég hana með stuttu erindi í miðstöðinni um störf og stefnu Þingvallanefndar. Einnig ræddi ég um samstarfið við Gylfa heitinn Gíslason myndlistarmann, sem hefur skilað miklu fyrir þjóðgarðinn ekki síst einstökum göngukortum og nú skiltum við  á nokkrum völdum stöðum við inngöngu í þinghelgina og innan hennar. Voru börn Gylfa með í hópnum og tóku þátt í að afhjúpa þessi skilti, sem eiga eftir að verða mörgum til fóðleiks.

Undir lok göngunnar tók Adolf Friðriksson, fornleifafræðingur og forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, við leiðsögninni og sagði frá fornleifagreftri við Þingvallabæinn.

Fjöldi manna var í göngunni, þrátt fyrir rigningaveður, eins og sjá má af myndum, sem ég hef sett inn á myndasíðuna undir opinberar myndir. 

Miðvikudagur, 12. 07. 06. - 12.7.2006 20:51

Í dag bárust fréttir af réttarhöldum yfir tveimur Litháum í héraðsdómi, en þeir sitja undir ákærum um innflutning á basa til amfetamínframleiðslu. Fyrir skömmu voru tveir Litháar teknir við komu til landsins með Norrænu einnig með vökva til amfetamínframleiðslu.

Hér skal ekkert fullyrt um sekt eða sýknu í þessum málum en þau ýta enn undir umræður um, að hér hafi erlendir glæpahringir stungið niður rótum. Ég hef um langt skeið varað við hættunni á þessu eins og sjá má í ræðum, sem birst hafa hér á síðunni. Ég hef einnig verið eindreginn hvatamaður þess, að lögregla leggi meiri áherslu en áður á greiningu og mat á áhættu. Einfeldningslegt er að álykta á þann veg, að greiningardeildir lögreglu einbeiti sér að því að greina hættu vegna hryðjuverkamanna - að sjálfsögðu spannar mat þeirra alla þætti lögreglustarfa, enda er markmiðið að nýta krafta lögreglu sem best til að snúast gegn þeirri hættu, sem á hverjum tíma snýr að almenningi í hvaða mynd, sem hún birtist.

Valtýr Sigurðsson, fangelsismálastjóri, hefur réttilega vakið máls á hættunni á því, að fjölgun útlendinga í fangeslum leiði til þess, að þar skapist tengsl milli innlendra og erlendra afbortamanna. Fjölgun útlendinga í íslenskum fangelsum kallar á ný viðbrögð og er enn ein röksemdin fyrir því, að gengið verði til þessa að bæta húsakost fangelsa og skipulag hans.

Horfði á viðræður við þá Pál E. Winkel, framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, og Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjón í Reykjavík, í þættinum Ísland í bítið á NFS, en rætt var við þá um stöðu lögreglumála. Ég vona, að efasemdarmenn um gildi greiningarstarfs hjá lögreglunni hafi horft á þennan þátt.

Mánudagur, 10. 07. 06. - 10.7.2006 20:42

Þrjú stór skemmtiferðaskip hafa siglt úr Sundahöfn út Faxaflóann í kvöldblíðunni. Ég man ekki eftir að hafa séð jafmargar rútur með ferðamenn við Perluna og nú um sexleytið, en þær höfðu þá farið með ferðalangana að Gullfossi og Geysi og um Þingvelli fyrr um daginn.

Stefán Eiríksson, nýskipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið önnum kafinn síðan tilkynnt var um skipunina sl. föstudag að svara spruningum fréttamanna um endurskipulagningu lögregluliðanna og framtíðaráformin. Hann bendir réttilega á nauðsyn þess að gera hér ráðstafanir til að bregðast við skipulagðri glæpastarfi og efla greiningu og mat á áhættu af hálfu lögreglu.

Ég undrast að lesa allt það, sem blaðamönnum eða dálkahöfundum dettur í hug að segja eða setja á blað til að ýta undir tortryggni í garð matsskýrslu sérfræðinga Evrópsambandsins í hryðjuverkavörnum og tillagna þeirra um að efla enn frekar greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar hér á landi, svo að hún standi jafnfætis lögregluliðum annarra landa.

Aðalbjörn Sigurðssonm fréttastjóri Blaðsins, skrifar hugleiðingu í Blaðið í dag undir fyrirsögninni: Stjórnað með hræðslu. Henni lýkur á þessum orðum:

„Mér sýnist hinsvegar að nú vilji menn fara að ala meira á ótta en áður var. Stofna á einhverja illskilgreinanlega „leyniþjónustu" hér á landi til að bregðast við mögulegum hryðjuverkum og öðrum illvirkjum. Það er kannski óábyrgt að halda þessu fram en í þessu tilfelli tel ég að það eigi ekki að byrgja brunninn fyrr en barnið er dottið ofaní. Að sjá skrattann í hverju horni næstu árin og búiast stöðugt við hinu versta er hreinlega ekki hollt fyrir þjóðarsálina."

Eitt orð er þarna feitletrað af mér til að undirstrika boðskapinn. Telur fréttastjórinn, að sérfræðingar Evrópusambandsins hafi verið að skrifa skýrslu sína til að hræða Íslendinga? Ef svo er, af hverju í ósköpunum? Hvað skyldi þurfa að hafa orðið mikið manntjón hér af mannavöldum, áður en fréttastjórinn teldi skynsamlegat að bregðast við ráðum sérfræðinga um, að lögregla hér á landi hafi sömu heimildir til að gæta öryggis borgaranna og tíðkast í öðrum löndum?

Föstudagur, 07. 07. 06. - 7.7.2006 22:32

Var síðdegis í skrifstofu Þjóðskrár við Borgartún, þar sem efnt var til fundar með starfsfólki í tilefni af því, að hinn 1. júlí gengu í gildi lög um flutning Þjóðskrár í dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Fyrst um sinn verður Þjóðskrá ein af skrifstofum ráðuneytisins en markmiðið er, að hún verði síðar sjálfstæð stofnun á vegum ráðuneytisins.

Hinn 7. júlí 1941 sigldu bandarísk herskip til Reykjavíkur með fyrstu bandarísku hermennina, sem komu til evrópsks lands til þátttöku í heimsstyrjöldinni.

Hinn 7. júlí 1983 ritaði Ólafur Ragnar Grímsson grein í Þjóðviljann  í tilefni af komu George Bush, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands fyrr í þeirri sömu viku. Greinin hófst á þessum orðum „Nú er hann farinn, CIA-forstjóirinn sem fluttist í stól varaforseta. Hann gekk um með lýðræði á vörum, frelsi á tungu og bros á sjónvarpsskermi. En á fundum með íslenskum stjórnarherrum hafði hann aukinn hernað í hendi sér, kröfur um efldan stríðsrekstur, bæði hér á landi og annars staðar í veröldinni.“ Ólafur Ragnar sagði einnig í þessari grein: „Gesturinn Bush var nefnilega um áraraðir æðsti prestur alls hins versta í stjórnmálum veraldarinnar. Hann stjórnaði frá degi til dags háþróaðasta kerfi njósna, spillingar, valdaráns og morðsveita sem fundið hefur verið upp í veröldinni.“

Hinn 7. júlí 2006 var efnt til viðræðufundar sendinefnda Bandaríkjanna og Íslands í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem rætt var um viðskilnað bandaríska varnarliðsins við brottför þess.

Hinn 7. júlí 2006 var sagt frá því, að í vikunni hefði George Bush verið að laxveiðum í Selá í Vopnafirði í boði Ólafs Ragnars Grímssonar. Á blaðamannafundi á Bessastöðum sagðist Bush hafa séð til þess, að dagurinn, sem hann fékk boðsbréfið frá Ólafi Ragnari, liði ekki, án þess að hann svaraði því játandi. Ólafur Ragnar gaf gesti sínum flugu og veiðistöng í tilefni komu hans til landsins.

 

Fimmtudagur, 06. 07. 06. - 6.7.2006 21:37

Þegar við héldum að austan var sólin farin að skína eftir rigningarsuddann.

Mér var bent á, að í Víðsjá á rás 1 hefði föstudaginn 30. júní verið fluttur pistill undir heitinu: Litli Björn og öryggi skógarins. Þar sem ég hafði misst af honum fór ég og inn á netið og hlustaði. Því miður kom ekki fram þar, hver það var sem samdi og flutti þennan pistil en kveikjan að honum var matsskýrsla sérfræðinga Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum um Ísland og tillögur þeirra um nauðsynlegar ráðstafanir hér á landi.

Enn sannaðist í þessum pistli, hve heitar tilfinningar og jafnvel skáldlegar geta kviknað, þegar rætt er um öryggismál þjóðarinnar. Miðað við þær skoðanir, sem þarna voru reifaðar, hæfði vel hjá höfundinum að færa þetta í barnalegan búning. Kenningin virtist vera sú, að dýrin í skóginum þyrftu ekkert að óttast, af því að þau vissu ekki, hver ógnaði þeim.

Miðvikudagur, 05. 07. 06. - 5.7.2006 21:51

Las bakþanka eftir Guðrúnu Ásmundsdóttur í Fréttablaðinu. Hún virðist álita, að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hafi þurft leyfi Þingvallanefndar 5. júní, þegar hann tilkynnti blaðamönnum og alþjóð fyrir framan Þingvallabæinn, að hann mundi láta af embætti forsætisráðherra og formennsku í Framsóknarflokknum. Mætti ætla af þessum bakþönkum Guðrúnar, að Þingvallanefnd hefði ákveðið að boða landsstjórn Framsóknarflokksins til fundar í bústað forsætisráðherra í Þingvallabænum.

Þetta er auðvitað fjarri öllum sanni eins og sú skoðun Guðrúnar, að aðstaða forsætisráðherra í Þingvallabænum eigi eitthvað skylt við það, hvort prestur búi þar eða ekki. Það var í upphafi áttunda áratugarins, sem ákveðið var að stækka Þingvallabæinn og skapa þar aðstöðu fyrir forsætisráðherra og síðan er það undir þeim, sem því embætti gegnir hverju sinni, hvernig hann nýtir þessa aðstöðu og hefur Þingvallanefnd engin afskipti af því.

Ef þetta hefur átt að vera hótfyndni hjá Guðrúnu, missir hún marks vegna fáfræði hennar um ráðstöfun á Þingvallabænum og afskipti Þingvallanefndar af því, sem forsætisráðherra tekur sér fyrir hendur í  opinberum sumarbústað sínum.

Þriðjudagur, 04. 07. 06. - 4.7.2006 8:38

Eftir að hafa setið fundi fram eftir degi og síðan hitt blaðamann frá Le Monde ákváð ég að skreppa austur í Fljótshlíð. Á leiðinni var rigningin stundum svo mikil, að minnti helst á skýfall eftir þrumur og eldingar, þótt ekki yrðum við þeirra vör.

Allt er seinna en undanfarin ár í heypskapnum vegna ótíðarinnar og nú sést hér varla til næstu bæja vegna dimmviðris og rigningar.

Ég spurði franska blaðamanninn um stöðu Le Monde, sem lýtur að meirihluta eignarhaldi starfsmanna við blaðið og blaðamenn ráða þar meiru en almennt gerist á dagblöðum. Hann sagði hag blaðsins vissulega hafa þrengst eins og annarra prentmiðla en blaðið stæði enn vel fyrir sínu.

Í morgun hlustaði ég á viðtal Sveins Helgasonar á Morgunvakt rásar 1 við Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, í tilefni af því, að ritstjórnarskrifstofur blaðsins eru fluttar í Hádegismóa. Ég tók eftir því, að Styrmir sagðist ekki lengur hafa neina skrifstofu á blaðinu heldur sæti í stórum vinnusal blaðamanna og þótti það góð tilbreyting frá því, sem áður var. Einnig sagði hann, að fundir hans með öðrum stjórnendum ritstjórnar væru opnir öllum blaðamönnum, ef ekki öllum starfsmönnum blaðsins, auk þess sem hann hefði gefið fyrirheit um að auka hlut kvenna í forystu á ritstjórn blaðsins.

Í gær las ég viðtal í Berlingske Tidende við Bretann, sem er að kaupa blaðið af Orkla og býr sig undir að keppa við Baugsfyrirtækið Dagsbrún, eins og það er kynnt í Danmörku. Þar telst til nauðsynlegra upplýsinga að kenna fyrirtæki við höfuðeiganda sinn. Spurning er, hvort Baugsmenn líta á þessa einkunn Dagsbrúnar í Danmörku sem ögrun í sinn garð, eins og þeir gera hér.

Dagsbrún býr sig eins og kunnugt er undir að hefja útgáfu á fríðblaðinu Nyhedsavisen  og dreifa inn á heimili Dana. Greinilegt er, að hinn nýi eigandi á Berlingi býr sig undir stríð á danska blaðamarkaðnum. Er augljóst, að meiri viðbúnaður er þar vegna hins nýja fríblaðs en var hér, áður en Fréttablaðið  kom til sögunnar. Þá sá ég viðtal við Gunnar Smára Egilsson, útrásarstjóra Dagsbrúnar, í Berlingi og sagðist hann vera að velta fyrir sér fleiri mörkuðum í Evrópu, þar sem íbúafjöldi landa væri undir 10 milljónum.

Heyrði í 22.00 fréttum sjónvarps ríkisins, að þar eru menn þeirrar skoðunar, eftir að hafa lesið skýrslu bandaríska sendiráðsins, að einhver vafi leiki á því, hvernig staðið er að baráttu gegn mansali hér á landi og hvaða ráðuneyti koma þar að málum. Afskipti af hálfu ráðuneyta ráðast af þeim aðgerðum, sem gripið er til hverju sinni, ef um félagsleg úrræði er að ræða eða spurningu um atvinnuleyfi snertir það félagsmálaráðuneyti ef um lögreglumál eða refsimál er að ræða kann dóms- og kirkjumálaráðuneytið að koma við sögu.

Lesa meira

Mánudagur, 03. 07. 06. - 3.7.2006 21:36

Fékk í dag í hendur tvo hljómdiska, sem Karmelnunnur í Hafnarfirði hafa gefið út - fyrri diskurinn hefur að geyma pólsk lög en hinn seinni Davíðssálma. Þeim fylgir glæsilegur bæklingur, þar sem Karmelreglunni er lýst í fáum orðum og birtir textar pólsku laganna auk fallegra mynda frá Íslandi, sem nunnurnar hafa tekið. Við Gunnar Eyjólfsson höfum aðstoðað þær lítillega við útgáfuna ásamt Óttari Felix Haukssyni en Páll Sveinn Guðmundsson var hljóðmeistari. Diskarnir eru saman í öskju og er unnt að kaupa þá í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Vona ég, að tónlistin verði sem flestum til gleði og blessunar.

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og einn ötulasti málsvari Evrópusambandsins hér á landi, ritar grein í Blaðið í dag undir fyrirsögninni: Leyniþjónusta Björns Bjarnasonar. Hún er skrifuð af vinstrisinnaðri meinfýsi í minn garð, enda segir Evrópusérfræðingurinn, að hann átti sig „ekki alveg á hvað þessi þjóðaröryggisdeild, sem dómsmálaráðherra boðar nú samkvæmt skýrslu tveggja evrópska (sic!) sérfræðinga, á eiginlega að gera."

Vek athygli á feitletruðu orðunum - ég boðaði ekki þessa deild heldur er hún kynnt til sögunnar af tveimur sérfræðingum ráðherraráðs Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum og er að þeirra mati forsenda fyrir því, að við getum slegist í hóp Evrópusambandsríkja á þessu sviði. Ég minnist þess ekki, að Eiríkur Bergmann hafi ekki áttað sig á boðskapnum frá Brussel - einu sinni verður allt fyrst.

Til að útlista áhyggjur sínar vegna skýrslunnar frá Brussel kýs Eiríkur Bergmann að skeyta skapi sínu enn einu sinni á Bandaríkjunum og segir „eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september hefur það ágæta land svo gott sem breyst í lögregluríki." Enn sannast að Bandaríkjaóvild vinstrisinna er ekki bundin við kalda stríðið - og raunar er með öllu óþarft að draga upp þá mynd, að þessi óvild hafi verið ómálefnalegri þá en nú á tímum.

Það er rétt hjá Eiríki Bergmann, að við dr. Niels Bracke, annar skýrsluhöfunda, erum ekki sammála um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það kemur bara ekkert þessu máli við og setur engan skugga á samstarf okkar. - Ég bað dr. Bracke að líta til þessa þáttar í öryggiskerfi íslensku þjóðarinnar vegna yfirburðaþekkingar hans á þessu sviði. Tillaga hans er skýr og hana ber að ræða af meiri víðsýni en Eiríkur Bergmann getur. Dr. Bracke ætlar svo að koma hingað aftur  í september með sérfræðingum Evrópusambandsins og tala á ráðstefnu sem Evrópunefndin og Viðskiptaháskólinn á Bifröst hafa undirbúið og mun snúast um samstarfið undir merkjum Schengen-samningsins, þriðju stoð Evrópusambandsins og EES-samstarfið.

Sunnudagur, 02. 07. 06. - 2.7.2006 21:51

Fórum klukkan 17.00 í Gerðarsafn, þar sem opnuð var sýning á Kjarvalsverkum í Landsbanka Íslands í tilefni af 120 ára afmæli bankans.

Í Morgunblaðinu í dag birtist lesendabréf eftir Tryggva Gíslason, fyrrverandi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, en hann titlar sig sem fyrrverandi fréttamann RÚV undir bréfinu en þar segir:

„Enn einu sinni hef ég orðið vitni að því, að starfsmaður Ríkisútvarpsins gerir sér mannamun, gerir upp á milli manna - nú í viðtali í Kastljósi við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fimmtudagskvöld 29da júní 2006. Dæmin eru því miður mörg. Að svo komnu máli nefni ég hins vegar ekki nöfn. En það er krafa okkar „hollvina Ríkisútvarpsins", að fréttamenn sýni öllum viðmælendum sínum sömu virðingu, enda þótt þeir kunni að vera ósammála viðmælanda. Skoðanir fréttamanna koma okkur nefnilega ekkert við - og skulu hvorki koma fram í orðum né athöfnum - viðmóti -fréttamannsins. Til þess að stuðla að frjálsri skoðanamyndun, undirstöðu lýðræðis, á ríkisfjölmiðill eins og Ríkisútvarpið að koma eins fram við alla, einfaldlega af því að allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum og Ríkisútvarpinu. "

Ég skil þetta bréf á þann veg, að Tryggva hafi þótt Eyrún Magnúsdóttir, Kastljós-starfsmaður, sækja þannig að mér í þessum þætti, að hún gætti ekki óhlutdrægni. Ég hef heyrt fleiri lýsa svipaðri skoðun. Svo virðist sem gagnvart sumum viðmælendum telji fréttamenn það einhverju skipta fyrir sig að láta eins og þeir geti komið viðmælendum sínum í vanda með spurningum eða viðmóti. Mér finnst þetta bera vott um öryggisleysi eða skort á vitneskju um það mál, sem er til umræðu hverju sinni.

Rétt er að halda því til haga að Kristófer Helgason ræddi við mig á Bylgjunni síðdegis 29. júní og síðan voru hlustendur spurðir: „Ertu hlynt(ur) stofnun þjóðaröryggisdeildar til að berjast gegn hryðjuverkum og alþjóðlegri glæpastarfsemi á Íslandi?"

Já sögðu 54%.

Nei sögðu 46%.

Laugardagur, 01. 07. 06. - 1.7.2006 21:10

Rétt fyrir kl. 10.00 var ég í Bakkavör á Seltjarnarnesi og fór þaðan með léttabát út í varðskipið Óðin og sigli síðan með því í fylgd varðskipsins Ægis inn í Reykjavíkurhöfn, þar sem á móti okkur var tekið með átta fallbyssuskotum. Eftir að lagst hafði verið að bryggju hófst 80 ára afmæliskaffi Landhelgisgæslu Íslands um borð í Óðni auk þess sem gildistöku nýrra laga um gæsluna var fagnað.

Ég minnist þess, þegar Óðinn kom fyrst til hafnar árið 1960 og faðir minn flutti ræðu sem dómsmálaráðherra við komu skipsins. Nú kom það í minn hlut að segja nokkur orð, þegar skipið er að ljúka þjónustu sinni fyrir land og þjóð. Ég minnti á hina miklu eflingu gæslunnar með nýju varðskipi, en væntanlega verður skrifað undir samning um smíði þess í desember á þessu ári, með nýrri flugvél og nýjum þyrlum, en þegar hefur verið ritað undir samninga um leigu á þremur þyrlum, tveimur, sem koma 1. október, og einni frá og með 1. maí 2007. Skýrsla um framtíðarlausn á þyrlumálum gæslunnar verður kynnt næstu daga.

Lesa meira