19.7.2006 21:17

Miðvikudagur,19. 07. 06.

Í dag rituðu ráðherrar og fulltrúar eldri borgara undir samkomulag um bættan hag eldri borgara. Er mikið fagnaðarefni, að niðurstaða hefur náðst í góðri sátt um þessi mál, sem hafa valdið miklum pólitískum deilum undanfarin ár. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði, að samkomulagið mundi einnig verða til hagsbóta fyrir öryrkja.

Glöggur stjórnmálarýnandi hafði á orði við mig, þegar fréttir bárust af undirritun samkomulagsins við eldri borgara, að nú færi aldeilis að þrengjast um baráttumál hjá stjórnarandstöðunni, hvert stórmálið eftir annað væri að leysast í góðri sátt við ríkisstjórnina.

Samfylkingarfólk hefur skynjað þessa þróun og er farið að rífast innbyrðis um það, hvort það eigi að biðla til Sjálfstæðisflokksins eða ekki. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, er meira að segja hættur að skrifa greinina sína um brottfall úr framhaldsskólum og er þess í stað farinn að rífast opinberlega við Margréti S. Björnsdóttur, hugmyndafræðing Ingibjargar Sólrúnar. Brottfallsgreinin var orðin úrelt fyrir löngu en algjör tímaskekkja, eftir að samkomulag tókst um nýjan framhaldsskóla.