Dagbók: apríl 2010

Föstudagur, 30. 04. 10. - 30.4.2010

Í dag voru birtar niðurstöður skoðanakannana, sem sýndu, að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði minnkað verulega frá síðustu Gallup-könnun. Er enginn vafi á því, að birting hrunskýrslunnar hefur þar úrslitaáhrif. Í Reykjavík snarvex fylgi við Besta flokkinn undir forystu Jóns Gnarrs. Er hann nú jafnstór Sjálfstæðisflokknum í borginni, hvor flokkur fengi 4 borgarfulltrúa og Samfylkingin 5 fulltrúa.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn á landsvísu. þrátt fyrir fylgistapið. Ég hafði efasemdir um réttmæti þess að birta hrunskýrsluna, aðeins nokkrum vikum fyrir sveitarstjórnakosningar. Umræður um hana mundu skyggja á álitamál í þeim kosningum, sem snúast að sjálfsögðu um, hverjir eiga að fara með stjórn sveitarstjórna. Frambjóðendur þar koma almennt ekki við sögu í hrunskýrslunni og enginn heldur því fram, að ákvarðanir sveitarstjórnamanna hafi leitt til bankahrunsins.

Skýrslan hefur eðlilega haft mikil áhrif á stjórnmálaviðhorfið. Úr þeirri stöðu verða flokkarnir að vinna og laga sig að henni með málflutningi sínum. Þar geta hins vegar rekist á hagsmunir á flokksvettvangi, þeirra, sem eru að sækjast eftir fylgi til starfa í sveitarstjórnum, og hinna, sem koma fram fyrir flokkana í heild, ef svo má að orði komast.


Fimmtudagur, 29. 04. 10. - 29.4.2010

Viðtökur við nýrri vefsíðu okkar Styrmis Gunnarssonar, www.evropuvaktin.is hafa verið góð, þótt ekki hafi verið efnt til neinnar kynningar á henni, enda erum við enn að fínpússa hana. Raunar er furðulegt, hve lítil markviss kynning er á málefnum Evrópusambandsins nú þegar aðildarferli Íslands er hafið að frumkvæði ríkisstjórnarinnar.

Líklegt er, að aðildarsinnar og ríkisstjórnin finni, hve lítill hljómgrunnur er fyrir ESB-aðildinni. Í stað þess að ræða málið opinberlega hefur ríkisstjórnin valið þann kost að hafa hægt um sig í málinu útá við en gefa embættismönnum fyrirmæli um að vinna að framgangi þess á bak við luktar dyr.

Markmið okkar Styrmis er að opna umræðurnar og skýra frá því helsta, sem hljóti að hafa áhrif á hana.

Miðvikudagur, 28. 04. 10. - 28.4.2010

Séra Bernharður Guðmundsson jarðsöng Þorvald Garðar Kristjánsson, fyrrverandi forseta alþingis, í Dómkirkjunni í dag. Ég kom á þing sama ár og Þorvaldur Garðar hvarf þaðan, svo að ég starfaði aldrei með honum á þingi. Hann studdi mig hins vegar af alúð til þingmennskunnar og lagði mér lið í prófkjörum. Ég leitaði í smiðju til hans, þegar ég settist á ráðgjafarþing Evrópuráðsins í Strassborg, en þar hafði Þorvaldur setið í 25 ár, eða samtals þrjú ár af ævi sinni, þegar hann taldi þann tíma, sem hann dvaldist í Strassborg saman. Ég kveð með Þorvald Garðar þökk og virðingu.

Ég minni að nýju á nýju vefsíðuna www.evropuvaktin.is, sem er í umsjá okkar Styrmis Gunnarssonar. Þar er finna fréttir af þróun mála í Evrópu og um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Salvör Nordal, sem sat í siðfræðihópi rannsóknarnefndarinnar, flutti erindi í Rótary-klúbbnum í dag og fjallaði um virðingu eða virðingarleysi fyrir lögum og reglu. Hugleiðingar sýndu, að hér virðast menn ekki vilja lúta eðlilegum aga og fara sínu fram eins og þeim hentar hverju sinni, síðan sé brugðist með því að benda á reglur eða skort á reglum. Hafi einhverjar haldið, að þetta breytist af sjálfu sér eftir útgáfu hrunskýrslunnar, er ég viss um, að hinir sömu verða fyrir vonbrigðum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur látið eins og nú séu breyttir tímar og hún hafi skipað nefndir til að formbinda nýja starfshætti. Þegar hún er hins vegar spurð um háar styrkveitingar til Steinunnar Valdísar Óskarsdóttir, segir Jóhanna, að það hafi ekki verið neinar reglur auk þess sem menn í öðrum flokkum hafi einnig fengið háa styrki! Bendir þetta til nýs hugarfars? Alls ekki.  Vinstri-grænir veita síðan Steinunni Valdís stuðning til formennsku í allsherjarnefnd, nefndinni, sem fjallar meðal annars um málefni hins sérstaka saksóknara.

Þriðjudagur, 27. 04. 10. - 27.4.2010

Ný vefsíða, Evrópuvaktin.is sá dagsins ljós í dag. Við Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, önnumst umsjón með efni síðunnar, en að rekstrarlegum þætti kemur félagið Evrópuvaktin og annast Friðbjörn Orri Ketilsson umsýslu vegna þess. Vefmiðlun ehf. annast veftæknilegu hliðina. Í kynningu á síðunni segir:

„Á Evrópuvaktinni er lögð áhersla á málefni tengd Evrópusambandinu, þróun evrópskra stjórnmála og efnahagsmála auk umræðna hér á landi um þessi mál og tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Þá verður fylgst með framvindu alþjóðlegra stjórnmála og efnahagsmála í þessu ljósi. Efni síðunnar byggist á fréttum, fréttaskýringum, pistlum og ritstjórnardálkum.“


Í leiðara síðunnar í dag sagði ég:

„Fyrir okkur, sem að Evrópuvaktinni stöndum, vakir að sjá til þess, að Íslendingar fljóti ekki sofandi inn í Evrópusambandið. Við viljum miðla upplýsingum um þróun mála innan sambandsins. Á þann hátt öðlast menn ekki síður góðan skilning á eðli þess og starfsháttum en með fræðilegri umfjöllun.

Umsjónarmenn Evrópuvaktarinnar hafa ekki leynt andstöðu sinni við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í þeirri skoðun felst ekki andstaða við Evrópusambandið eða aðildarþjóðir þess, heldur byggist hún á varðstöðu um hagsmuni Íslands og Íslendinga. Afstaðan hefur mótast af áralangri þátttöku í umræðum um íslensk stjórnmál, Evrópu- og alþjóðamál, auk þess sem ég hef kynnst innviðum Evrópusambandsins og þátttöku Íslands í því sem alþingismaður og ráðherra.“

Ég hvet lesendur síðu minnar til fylgjast með Evrópuvaktinni frá upphafi.

Mánudagur, 26. 04. 10. - 26.4.2010

Fræðimenn á öllum sviðum eru nú teknir til við að leggja út af skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Af því, sem ég hef lesið eða heyrt, sýnist mér þeir almennt þeirrar skoðunar, að skýrslan staðfesti einhverja fordóma, sem þeir höfðu um íslenskt þjóðfélag. Þeim komi því fátt á óvart í skýrslunni, þeir hafi vitað þetta flest eða allt áður. Nú gefist þeim nýtt tækifæri til að árétta fyrri skoðanir sínar og þeir séu fúsir til þess, því að nú séu kannski fleiri með eyrun opin en áður.

Líklegt er, að umræður á þessum nótum skili litlu. Við séum því dæmd til að spóla áfram í sama umræðufarinu, þrátt fyrir skýrsluna. Nokkrar spurningar vakna þó um, hvernig fræðimenn skilgreina hugtök, sem þeir nota.

á undanförnum árum hafa umsvif ríkis og opinberra aðila aukist mjög í landinu. Allar tölur benda eindregið til þess. Tekjur ríkisins jukust gífurlega eftir einkavæðingu bankanna og vegna umsvifa fjármálafyrirtækja. Þótt tekjurnar væru notaðar til að greiða niður skuldir ríkisins, rann stór hluti þeirra til aukinna ríkisumsvifa. Hvernig er unnt að kenna stjórnarstefnu af þessum toga við nýfrjálshyggju? Inntak þeirrar stefnu er, að ríkið haldi sér sem mest til hlés og dragi úr umsvifum sínum.

Eitthvað er bogið við þetta nýfrjálshyggjutal allt saman. Líklega af því að það byggist á fordómum en ekki á hrunskýrslunni. Einkavæðing banka er ekki til marks um nýfrjálshyggju. Bankar í einkaeign komu til sögunnar langt á undan nýfrjálshyggjunni. Í hrunskýrslunni er þess hins vegar getið, að í forsetatið Bills Clintons hafi hið afdrifaríka skref verið stigið, að rjúfa múra milli viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Eftir þessu hafi verið hermt hér á landi með hroðalegum afleiðingum. Er Clinton kannski laumu-nýfrjálshyggjumaður?

Sunnudagur, 26. 04. 10. - 25.4.2010

Nú er ár liðið frá þingkosningum og ég hef verið jafnlengi utan þings. Ég hef kunnað því vel og haft nóg fyrir stafni, raunar meira en ég hef getað sinnt. Satt best að segja fylgist ég ekki mikið með þingstörfum, enda eru þingfréttir að engu orðnar í fjölmiðlum. Mér skilst, að þingfréttaritari RÚV sitji oftast einn fjölmiðlamanna í þinginu.

Miðlun þingfrétta er vissulega auðveldari á annan hátt en áður var, þegar unnt er að horfa á sendingar frá þingfundum í sjónvarpi og nálgast þingskjöl á netinu. Stjórnmálaumræður byggjast hins vegar á því, að miðlað sé fréttum af álitaefnum til almennings og umræður um þau meðal hans leiði til skoðanaskipta utan þingsalarins eða þingnefnda.

Í því tómarúmi, sem myndast, þegar ekki er sagt frá því, sem stjórnvöld gera á annan hátt en með endurómi af fréttatilkynningum þeirra eða setningum, sem sagðar eru á hlaupum eða við borðsendann eftir ríkisstjórnarfundi, magnast aðeins leyndarhjúpurinn um viðfangsefni stjórnmálamanna. Hann er vissulega mikill um þessar mundir.

Hér skortir alla fjölmiðlaviðleitni til að setja þingmál í stórt samhengi og skýra áhrif þess, sem er á döfinni hjá stjórnvöldum. Þau ráða ekki heldur við stóru málin og virðast auk þess ekki hafa neitt jarðsamband eins og best sýndi sig, þegar samningum þeirra og stefnu í Icesave-málinu var hafnað á eftirminnilegan og afgerandi hátt. Hvað gerist næst? Ráðherrar lauma inn orðalagi í yfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem sýnir, að þeir eru enn við sama heygarðshornið, þegar Icesave er annars vegar.

Laugardagur, 25. 04. 10. - 24.4.2010

Framsóknarmenn efndu til miðstjórnarfundar í dag, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, flokksformaður, baðst margfaldrar afsökunar fyrir hönd flokksins á bankahruninu. Nýlega ritaði Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður flokksins, grein, þar sem hann velti fyrir sér framtíð hans. Jón er málsvari þess, að Íslendingar gangi í Evrópusambandið, en samkvæmt skoðanakönnunum hefur andstaða aukist við það meðal framsóknarmanna.

Jón Sigurðsson hætti sem seðlabankastjóri og varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra 15. júní 2006, þegar Halldór Ásgrímsson hætti sem forsætisráðherra, Geir H. Haarde tók við af honum og Valgerður Sverrisdóttir varð utanríkisráðherra.  Jón og Valgerður voru ásamt Halldóri helstu talsmenn ESB-aðildar  innan Framsóknarflokksins.

Fréttir af miðstjórnarfundinum benda ekki til þess, að þar hafi verið rætt um ESB-málefni. Fundurinn sýnist hafa snúist um tillögur að siðareglum fyrir Framsóknarflokkinn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, efnir nú til funda um land allt og ræðir stöðu Sjálfstæðisflokksins. Boðað hefur verið aukalandsfundar flokksins í júní til að kjósa varaformann eftir afsögn Þorgerðar Katrínar.

Stjórnarandstöðuflokkarnir eru þannig önnum kafnir við að sinna innri málefnum sínum, sem er vissulega nauðsynlegt. Hitt er ekki síður brýnt að veita ríkisstjórninni aðhald. Þar á bæ eru stunduð vinnubrögð og framfylgt leyndarhyggju, sem er í engu samræmi við boðskapinn í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis.

Föstudagur, 23. 04. 10. - 23.4.2010

Ræddi í síma við nágranna minn í Fljótshlíðinni, sem sagðist ekki hafa orðið var við öskufall, þótt vindáttin gæti leitt til þess. Konan sín hefði sett út disk en ekki hefði sest nein aska á hann. Sér sýndist, að Tindfjöllin hefðu fengið á sig dekkri lit, svo að kannski hefði borist aska þangað.

Fimmtudagur, 22. 04. 10. - 22.4.2010


Gleðilegt sumar!

Var austur í Fljótshlíð fram eftir degi. Eyjafjallajökull náði aldrei að hreinsa sig til fulls, svo að mökkurinn sást ekki frá gosinu. Nú er því spáð, að aska berist vestur fyrir jökulinn og þá líklega til okkar í hlíðinni. Við skulum vona, að öskufallið verði ekki mikið. Nágrannar mínir hafa hugað að viðbrögðum fyrir kýr, kindur og hesta. Þegar ég ók vestur fyrir Hvolsvöll blasti fjallahringurinn við undir heiðbláum himni. Þannig hefði þetta þurft að vera í austurátt að gosstöðinni.

Mér hefur verið hugsað til almannavarnafundarins á Hvolsvelli í gærkvöldi. Það var næsta óraunverulegt að sitja fund um framkvæmd viðbragðsáætlana, sem ég kynnti mér vel, þegar þær voru í smíðum á sínum tíma, án þess að mér dytti  í hug, að ég yrði þátttakandi í atburðunum sjálfum, þegar á áætlanirnar reyndi. Á fundinum kom fram, að allt gengi betur en ella vegna hins góða undirbúnings, sem Kjartan Þorkelsson, sýslumaður, átti frumkvæði að á sínum tíma.

Þetta er einnig í fyrsta sinn, sem reynir á framkvæmd nýrra almannavarnalaga. Var mér sagt, að þau stæðust einnig áraunina. Einhver taugaveiklun er þó innan stjórnarráðsins, því að á fundinum á Hvolsvelli voru fjórir ráðherrar.

Í dag var skýrt frá því, að Ólafur Ragnar hefði verið á fræðslufundi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Líklega hefur þar verið um almannavarnaaðgerð að ræða til að draga úr líkum á því, að hann hlypi á sig á sama hátt og á dögunum, þegar hann talaði eins og enn alvarlegra gos í Kötlu væri á næsta leiti.Miðvikudagur, 21. 04. 10. - 21.4.2010

Tók í dag upp þátt á ÍNN með Kristínu Þórðardóttur, staðgengli sýslumannsins á Hvolsvelli. Við ræddum um viðbrögð vegna gossins og væntanlegar sveitarstjórnarkosningar, en Kristín er á lista sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra.

Fór klukkan 20.00 á fund í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. þar sem fulltrúar almannavarna og ýmissa ríkisstofnana auk sveitarstjóra ræddu við heimamenn í Rangárþingi um stöðu mála vegna gossins í Eyjafjallajökli.

Öllum er ljóst, hve mikil hætta getur verið á ferðum. Þótt stöðugt vatnsrennsli sé úr jöklinum, er ekki unnt að útiloka vatnsflóð að nýju og er vel fylgst með þeim þætti.

Askan veldur miklum vanda fyrir bændur undir Eyjafjöllum og er lögð mikil áhersla á að aðstoða þá á alla lund. Næstu daga er spáð vindátt úr austri, sem getur flutt ösku hingað vestur yfir. Vona menn, að ekki verði mikið öskugos.


Mikið lof var borið á framgöngu Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns, og hans manna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu, sem virkjað hefur félaga sína um land allt, almannavarnir undir forystu ríkislögreglustjóra, í stuttu máli alla, sem mest hefur mætt á vegna gossins.

Á dögunum birti ég bréf, sem ég ritaði að gefnu tilefni. Þar minnti ég á Baugsmálið og áróður blaðamanna á Baugsmiðlunum gegn embætti ríkislögreglustjóra og mér í því skyni að brjóta rannsókn málsins á bak aftur. Var sá áróður allur til þess fallinn að grafa undan trausti í garð eftirlitsstofnana. Nú er hins vegar skammast yfir því, jafnvel af sömu blaðamönnum, að þær hafi ekki staðið sig nægilega vel. Það kemur mér ekki á óvart, að Reynir Traustason, ritstjóri og eigandi DV, taki þessari gagnrýni minni illa. Hann tekur hana réttilega til sín.


Þriðjudagur, 20. 04. 10. - 20.4.2010

Datt inn á útsendingu frá alþingi, þar sem rætt var um frumvarp utanríkisráðherra til breytinga á lögum um varnarmálastofnun. Ég hef lesið skýrsluna, sem býr að baki frumvarpinu. Þar er þeirri skoðun hnekkt, sem haldið var fram í utanríkisráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að óhjákvæmilegt væri að koma á fót varnarmálastofnun vegna kröfu frá NATO. Í skýrslunni segir skýrt, að NATO geri engar kröfur í þessu efni aðrar en þær, að gætt sé NATO-öryggis í starfi stofnananna.

Mér þótti einkennilegt eftir allt, sem Ingibjörg Sólrún sagði á sínum tíma og orðaleiki í greinargerð með frumvarpi hennar í kringum hugtakið „varnartengd verkefni“, að heyra Össur Skarphéðinsson segja í ræðustól þingsins, að varnarmálastofnun skilgreindi sjálfa sig sem hernaðarstofnun. Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemd við þessi orð Össurar, dró hann í land og sagði suma starfsmenn varnarmálastofnunar tala á þann veg, að tilgangur starfs þeirra væri hernaðarlegur.

Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun, enda hefur alþingi ekki samþykkt nein lög um íslenska hernaðarstarfsemi. Þess vegna á að laga starfsemi stofnunarinnar að öðrum borgaralegum stofnunum í landinu. Utanríkisráðuneytið vildi hins vegar halda í verkefni við brottför varnarliðsins og þess vegna var varnarmálastofnun komið á fót.  Í því efni var litið til baka en ekki fram á veg. Ákvörðun um stofnunina hafði ekkert með hættumat eða hernaðarlega ógn að gera. Hún byggðist alfarið á tregðu utanríkisráðuneytisins til að missa spón úr aski sínum. 

Hið einkennilega við tillögur utanríkisráðherra er að tengja brotthvarf varnarmálastofnunar við nýtt innanríkisráðuneyti. Engin þörf er á því. Líta má á þessa tengingu sem leikfléttu til að flækja og tefja þessar umbætur. Er það í ætt við annað, sem þessi ríkisstjórn gerir. Sé skýr og einföld leið að markmiði, hafnar ríkisstjórnin henni og festist í eigin flækjufæti.

Hvort hernaðarógn steðjar að Íslandi eða ekki, breytir engu um nauðsyn þess, að hér séu traustir innviðir í þágu öryggis þjóðarinnar traustir sveigjanleiki í tækjabúnaði og innan stjórnkerfisins nægur til að bregðast við hverri hættu, sem að steðjar. Þegar lagt var á ráðin um kaup á nýrri flugvél fyrir landhelgisgæsluna, var lögð áhersla á alhliða tækjabúnað til eftirlits um borð í henni. Við eldgosin hefur sannast, hve skynsamleg þessi ákvörðun var. Sama sjónarmið er að baki nýja varðskipsins. Almannavarnakerfinu var breytt með sama hugarfari og sömu sögu er að segja um viðbragðsáætlanir vegna eldgosa í Eyjafjallajökli og Kötlu.

 

Mánudagur, 19. 04. 10. - 19.4.2010

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman í dag og samþykkti tillögu Bjarna Benediktssonar um að efna til auka-landsfundar. Tilefnið er, að Þorgerður Katrín sagði af sér varaformennsku. Á fundinum verður kjörin forysta flokksins og stefnir Bjarni að endurkjöri.

Á bloggsíðum má þegar sjá vangaveltur um, hvort einhver muni sækjast eftir formennskunni gegn Bjarna. Óvildarmenn Sjálfstæðisflokksins vilja að sjálfsögðu ýta undir sem mest átök innan hans.

Í því felst styrkur fyrir flokkinn og Bjarna að taka ákvörðun um landsfund og opna þannig spurninguna um alla flokksforystuna en ekki aðeins varaformennskuna, eins og gert hefði verið, ef ákveðinn hefði verið flokksráðsfundar til að velja arftaka Þorgerðar Katrínar.

Eins og ég sagði í pistli mínum um flokksráðsfundinn síðasliðinn laugardag, er það til marks um hugrekki hjá Þorgerði Katrínu að stíga skref hennar. Í því felst traust til Sjálfstæðisflokksins um, að hann sé fær um að leysa forystuvanda, takast á við áhrif hrunskýrslunnar og ganga í gegnum sveitarstjórnakosningar á sama tíma.

Enginn hinna stjórnmálaflokkanna kemst í hálfkvisti við Sjálfstæðisflokkinn í viðbröðgum hans við hrunskýrslunni.

 

 

Sunnudagur, 18. 04. 10. - 18.4.2010

Ég fékk aðfinnslur vegna pistils míns í gær frá einum lesenda minna. Mér þótti ástæða til að svara því á þennan hátt:

„Pistillinn snerist um fundinn, sem ég sat í gær og þau orð, sem þar féllu. Ég sé enga ástæðu til annars en tala vel um samstarfsfólk mitt og lýsa skoðun minni á því. Ég get ekki talað fyrir munn annarra.

Í þau ár, sem ég sat í embætti dómsmálaráðherra, var stöðugt ráðist á mig af hálfu Baugsmanna, lögfræðinga þeirra og Baugsmiðlanna fyrir að beita mér ekki fyrir því, að Baugsmálið yrði niðurfellt. Til þess voru árásirnar gerðar, þótt gjarnan væri farið í kringum þann kjarna málsins eins og köttur í kringum heitan graut. Jafnframt var ráðist að embætti ríkislögreglustjóra og býsnast yfir öllu eftirliti með þeim mönnum, sem þú telur nú fjárglæframenn. Ég er viss um, ef fleiri hefðu gengið í lið með okkur, sem börðumst gegn Baugsmiðlunum og áróðursmönnum Baugsmanna, hefði andrúmsloftið, þar sem fjárglæfrarnir þryfust, ekki myndast.

Þegar ég lít á þennan hlut minn í aðdraganda hrunsins, sé ég enga ástæðu til að biðjast afsökunar. Ég var ekki í liðinu, sem mærði útrásina. Þegar hrunið varð, lagði ég strax fyrir ríkisstjórn tillögur um, að búið yrði í haginn fyrir öfluga sakarannsókn með því að stofna embætti sérstaks saksóknara. 

Þótt ég sæti í ríkisstjórn, var stjórn efnahagsmála aldrei á mínum herðum. Málið er ekki flóknara en það og furðulegt að sjá tilraunir manna til að draga þá til ábyrgðar fyrir stjórn þeirra mála, sem báru hana ekki, hvorki sem ráðherrar né forystumenn stjórnmálaflokks. Hrunið á ekki upptök sín í þeirri stjórnmálastefnu, sem ég fylgi, heldur hrunadansi bankamanna og fjármálafursta, eins og hrunskýrslan segir.“

Að einhverju hefði breytt um framvindu mála, að ríkisstjórnin hefði verið fjölskipað stjórnvald en ekki hver ráðherra ábyrgur fyrir sínum málaflokki eins og nú er, stenst ekki skoðun að mínu mati. Ég hef kynnst innviðum stjórnarráðsins bæði sem embættismaður og ráðherra. Þeir eru traustir og ástæðulaust að vega að þeim á örlagatímum. Að  sjálfur forsætisráðherra skuli gera það sýnir aðeins, hve glórulaus landstjórnin er undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Laugardagur, 17. 04. 10. - 17.4.2010

Klukkan 09.30 hófst fundur flokksráðs, formanna og sveitarstjórnaframbjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Stapa í Reykjanesbæ. Ég segi frá fundinum í pistli hér á síðunni.IMG_7173IMG_7183 Hér eru fleiri myndir, sem Daði Runólfsson tók undir kvöld, þegar sól er að setjast í vetri og varpar geislum sínum á gjóskumökkinn.

Föstudagur, 16. 04. 10. - 16.4.2010

Hann gengur á með skúrum hér í Fljótshlíðinni. Ég hélt snemma í morgun, að tindur Eyjafjallajökuls mundi gægjast upp úr skýjaslæðunni. Hann lét það ógert, svo að ég hef ekki séð hann enn dagana frá því að gosið hófst. 

Skólabíllinn var á ferð milli 07.30 og 08.00 eins og venjulega og sótti börn á nágrannabæi og ók þeim út á Hvolsvöll. Fréttir herma, að tvö flóð hafi verið í Markarfljóti í nótt. Fólk fékk ekki að dveljast á 20 bæjum.IMG_7140

Nú berast fréttir af lokun flugvalla í Mið-Evrópu auk Bretlands en í norðurhluta Noregs er leyft að fljúga að nýju. Í Sky News var skýrt frá því, að vangaveltur væru í Póllandi um að fresta jarðarför forsetahjónanna, sem fórust við Smolensk, þar sem tignir gesir, þar á meðal Bandaríkjaforseti, gætu ekki verið viðstaddir vegna flugbanns.

Vinur minn í alþjóðlegum bankaheimi sendi mér þessa orðsendingu, sem gengur milli manna þar:

Since there is no C in the Icelandic alphabet, instead of cash we have decided to send you some ash. Make good use of it.

Ók til Reykjavíkur, án þess að sjá bólstur gossins nema rétt í stutta stund á fyrsta gosdegi. Samkvæmt sjónvarpsfréttum var farið að draga úr skýjahulunni undir kvöld. Myndina hér með tók Daði Runólfsson að kvöldi 16. apríl frá bænum okkar í Fljótshlíðinni. Þá létti skýjahulunni af jöklinum í skamma stund, áður en dimmdi.

 

Fimmtudagur, 15. 04. 10. - 15.4.2010

Enn sést ekki til Eyjafjallajökuls héðan úr Fljótshlíðinni. Hann er umlukinn skýjahulu eða þoku. Engin aska hefur fallið hér, enda er vindáttin vestlæg. Er í raun næsta óraunverulegt að sitja hér að morgni dags og fylgjast með Sky News, sem flytur stöðugar fréttir af því, að allir flugvellir á Bretlandseyjum séu lokaðir eða að lokast vegna ösku frá gosinu í jöklinum. Stöðin hefur komið fréttamönnum fyrir á ýmsum flugvöllum, sem taka farþega og sérfræðinga tali.

Helsti fréttamaður stöðvarinnar er á Manchester-flugvelli. Hann segir um 10.30, að ekkert verði flogið fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Adam Boulton, stjórnmálafréttaritari stöðvarinnar, segir, að fréttirnar minni sig á Harry Potter-sögu. Boulton er einnig í Manchester, af því að fyrsti sjónvarps-samstalsþáttur formanna þriggja stærstu bresku flokkanna  vegna þingkosninganna 6. maí verður þar í kvöld. Boulton segir, að flugbannið trufli ekki þáttinn, því að leiðtogarnir séu allir í nágrenni Manchester.

Ekkert sást til Eyjafjallajökuls í dag. Í sjónvarpsfréttum klukkan 19.00 heyrði ég um skyndirýmingu í Fljótshlíðinni af öllum bæjum að Deild og þaðan öllum bæjum fyrir neðan veg. Skyldi fólk fara til Hvolsvallar, af því að merki um nýja flóðbylgju hefði sést frá Fljótsdal í Gígjökli, hún væri stærri en hin fyrri og færi með 10 km hraða niður Markarfljót. Um klukkan 20.30 var flóðið að komast niður að nýju Markarfljótsbrunni og um 20.35 sagði Sveinn Guðmarsson, fréttamaður RÚV, að hann sæi krapa og hröngl í flóðinu. Vatnið kæmi ekki eins og flóðbylgja heldur hækkar jafnt og þétt í flóðinu, minnti sig á hafragraut! Klukkan 20.45 virtist flóðið ná hámarki við nýju Markarfljótsbrúna og hún standast það.

Þegar tilkynning um skyndirýmingu barst, sá ég bíla aka á veginum hér fyrir neðan út á Hvolsvöll og um 20.45 jókst umferð að nýju, eins og létt hefði verið á takmörkunum. Þær hafa verið mismunandi strangar í dag. Ég skrapp út á Hvolsvöll fyrir hádegi og tilkynnti mig hjá björgunarsveitarmanni við afleggjarann að Tumastöðum.

Augljóst er, að fréttirnar hafa þau áhrif á þá, sem fjarri eru Fljótshlíðinni, að bráð hætta steðji að okkur hér. Svo er ekki, en allur er varinn góður. Flóðbylgja getur vissulega valdið miklum skaða á því svæði, þar sem hún skellur. Askan er hins vegar mun skaðvænlegri og hefur þegar valdið svo miklu fjárhagstjóni í Evrópu og um heim allan, að ekki er unnt að slá á það tölu. Verður forvitnilegt að fylgjast með því, hvað talið verður nauðsynlegt að gera á heimsvísu til að bregðast við slíkum náttúruhamförum framvegis á þotuöld.

 

Miðvikudagur, 14. 04. 10. - 14.4.2010

Vaknaði klukkan 06.00 í Fljótshlíðinni, leit til Eyjafjallajökuls í átt að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi, eins og ég er vanur, frá því að gosið hófst. Ekkert sást, enda dimmviðri í austurátt. Ég kveikti ekki á útvarpinu fyrr en rétt fyrir átta, til að hlusta á fréttir. Þá heyrði ég, að fréttamenn hefðu verið á vakt alla nóttina vegna gruns manna um, að gos væri hafið í Eyjafjallajökli.  Vatn kemur undan Gígjökli í lón norðan við Eyjafjallajökul.  Vatn hækkar í Markarfljóti. Í fréttunum klukkan 09.00 var skýrt frá því, að sigdæld hefði sést á jökulhettunni suðvestan við gíginn í jöklinum. Gosið þarf að brjóta sig í gegnum 200 til 250 m íshettu að sögn Helga Björnssonar, jöklafræðings.

Ég fór út á stéttina fyrir framan húsið og horfði til jökulsins. Það gekk á með éljum en á milli birti og um níu leytið sá ég mikinn gosmökk stíga upp af jöklinum og blés vindur í háloftunum honum í norður.

Fréttamenn sögðu, að almannavarnaáætlun hefði verið virkjuð og fólk kallað til skráningar á Hvolsvelli, þar sem ég bý í hlíðinni og þarf því ekki að óttast að flæði hjá mér, var ég ekki vakinn í nótt.  Á ruv.is var skráð um klukkan 04.38, að lögreglan á Hvolsvelli hefði lokað fyrir umferð um Suðurlandsveg austan við Hvolsvöll og við Skóga. Fjöldahjálparstöðvar hefðu verið opnaðar. Rauði krossinn, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar hefðu verið virkjaðir. Einkennileg kyrrð er yfir öllu. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði gosðið hafa farið af stað milli sex og sjö um morguninn.

Þegar þetta er skrifað, klukkan 09.50 hefur dregið fyrir sólu vegna éljagangs. Ég bíð eftir því, að jökullinn hreinsi sig og þá sjáist, hvar mökkurinn rís upp af honum.

Um klukkan 10.20 ók ég út á Hvolsvöll, þar sem ég rak erindi. Þegar ég ætlaði að aka heim aftur, var lögregla á veginum skammt fyrir austan afleggjarann að Velli. Ég fékk að aka áfram, eftir að ég hafði farið á lögreglustöðina og fengið fararleyfi. Nú sit ég hér kl. rúmlega 12.00. Í sjónauka sé ég vatn og ís fossa norður af jöklinum og yfirborð Markarfljóts er orðið svo hátt, að ég sé fljótið héðan að heiman.  Í þessum skrifuðu orðum hefur vatnsborðið lækkað aftur, þannig að fyrsta holskeflan hefur kannski náð út í sjó en vegurinn var rofinn við Markarfljótsbrúna til að vernda hana.

Nágranni minn hér í hlíðinni hringdi og tilkynnti mér, að ákveðið hefði verið að aflýsa fundi, sem Heimssýn ætlaði að efna til á Hvolsvelli kvöld, þar sem ég átti að hafa framsögu ásamt Jóni Sigurðssyni, fyrrv. formanni Framsóknarflokksins. Var það samdóma álit, að ekki væri unnt að stefna fólki saman til fundar við þessar aðstæður. Í símtalinu sagðist hann ekki muna eftir að hafa séð Markarfljótið svona stórt, það væri eins og fjörður á að líta heiman frá sér.

Lesa meira

Þriðjudagur, 13. 04. 10. - 13.4.2010

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar á bankahruninu felur ekki í kröfu um, að stjórnarráðinu sé kollvarpað, skipulagi ríkisstjórnarfunda umturnað eða stjórnsýslureglum breytt. Í skýrslunni felst krafa um, að þeir, sem starfa innan kerfisins, virði settar reglur.

Góð stjórnsýsla krefst formfestu og miðlunar upplýsinga til þeirra, sem rétt eiga til þeirra. Sé þess getið í lögum, að ríkisstjórn skuli koma að ákvörðunum, ber að leggja mál fyrir ríkisstjórn. Almennt séð eru fleiri mál lögð fyrir ríkisstjórn en lög krefjast. Rannsóknarnefndin telur, að ríkisstjórn hafi ekki verið greint frá öllu, sem bar, í aðdraganda bankahrunsins.

Ein ástæða þess, að haldið var á málum á þann veg, sem gert var, er, að forystumenn stjórnarflokkanna héldu málunum hjá sér og réðu ráðum sínum utan ríkisstjórnarfunda. Ég sé ekki, að málum sé öðru vísi háttað hjá þeirri ríkisstjórn, sem nú situr. Þvert á móti hreykir Jóhanna Sigurðardóttir sér af því, að hún hafi komið á fót ráðherranefndum, sem hittist reglulega utan ríkisstjórnarfunda, til dæmis til að ræða efnahagsmál.

Jóhanna og Steingrímur J. eru tvíeyki eins og forystumenn stjórnarflokka hafa verið til þessa.  Miðla þau upplýsingum til ríkisstjórnarinnar um allt, sem þeim ber? Leyndarhyggjan gagnvart almenningi er mikil. Í þessari stjórn eru tveir ráðherrar utan stjórnmálaflokka. Þeir sitja ekki fundi þingflokka, þar sem ríkisstjórnarmálum er oft ráðið efnislega til lykta. Þessir ráðherrar koma ekki að slíkum ákvörðunum. Þeir sitja ekki heldur fundi flokkssystkina í hópi ráðherra.

Í rannsóknarskýrslunni er fundið að skorti á formfestu, þegar ákveðið var, að ríkið keypti 75% hlut í Glitni. Hvað ætli nefndin segði um, hvernig staðið var að gerð Icesave-samninganna undir stjórn Steingríms J. og Svavar? Þá voru þau boð látin út ganga, að ekki væri þörf á ráðum frá breskri lögfræðistofu, af því að þeir Svavar og Indriði H. hefðu fundið sigurformúluna.

Það þarf engar tillögur nefnda utan stjórnarráðsins til að bæta starfshætti þar. Stjórnmálamenn verða hins vegar að sýna settum reglum virðingu og hvetja samstarfsmenn sína til að gera það.

Mánudagur, 12. 04. 10. - 12.4.2010

Fylgdist með blaðamannafundi rannsóknarnefndar alþingis og sérnefndar um siðfræðileg álitamál í sjónvarpinu í morgun. Nefndarmenn hafa unnið mikið og þarft verk.  Kynningin var vel af hendi leyst. Um einstök atriði í skýrslunni ætla ég ekkert að segja, fyrr en ég hef kynnt mér þau betur.

Atvikalýsingin staðfestir þá skoðun, að innanmein bankanna hafi orðið þeim að falli. Erlend áhrif séu ekki eins mikil og ætla hefði mátt. Eftirlits- og stjórnkerfið hafi ekki reynst vandanum vaxið.

Nokkrar umræður hafa orðið um aðferð við töku ákvarðana á vettvangi ríkisstjórna. Í samsteypustjórnum ræða formenn samstarfsflokka um mikilvæg mál sín á milli og ákveða hinar pólitísku línur. Þeir hafa pólitíska forystu og ábyrgð gagnvart ráðherrum og þingflokkum. Undir þeim er komið, frá hvaða pólitísku málum er skýrt á fundum ríkisstjórnar eða þingflokka. Þessum starfsháttum verður ekki breytt með lögum. Framkvæmdin verður að lokum alltaf á höndum þeirra, sem eru valdir til forystu í stjórnmálaflokkum.

Hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki en ekki aðrir ráðherrar, jafnvel þótt mál séu kynnt fyrir þeim á fundi ríkisstjórnarinnar. Hið einkennilega í því, sem fram kemur um stjórnarhættina í þessari skýrslu , er, að Björgvini G. Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, skuli hafa verið haldið utan þess þrönga hóps ráðherra, sem fjallaði sérstaklega um málefni bankanna. Hann er hins vegar ábyrgur fyrir vanrækslu í málaflokknum, eins og segir í skýrslu nefndarinnar.

Hér á þessum síðum hef ég oft sagt í áranna rás, að skýrar stjórnsýslureglur og virðing fyrir þeim séu ekki íþyngjandi fyrir þá, sem eftir þeim eiga að starfa, þvert á móti séu reglurnar tæki til að komast að málefnalegri og gegnsærri niðurstöðu. Í slíkum reglum felst meðal annars skylda stjórnvalda til að bregðast skipulega við upplýsingum, sem þeim eru kynntar.

Á blaðamannafundinum var rannsóknarnefndin oftar en einu sinni spurð um refsiþátt og vísaði hún þá lögum samkvæmt á ákæruvaldið. Greinilegt var, að siðferðilega og pólitískt töldu blaðamenn, að rannsóknarnefndin hefði átt að gera meira í þessu efni en hún gerði.

 

 

Sunnudagur, 11. 04. 10. - 11.4.2010

Mér sýnist græni liturinn að aukast í gróðrinum hér í Fljótshlíðinni með úrkomunni. Á leiðinni austur leit ég inn í Bókakaffið hjá Bjarna Harðar á Selfossi.  Hann er í framboði fyrir vinstri-græna til sveitarstjórnar. Aftraði það mér frá því að þiggja tesopa hjá honum. Hlusta á skemmtilegar sögur og árétta, að ekki dytti mér í hug að styðja vinstri-græna. Raunar skil ég ekki, hvernig Bjarni telur það samræmast ESB-aðildar andstöðu sinni að styðja þann flokk, sem gerði Samfylkingunni kleift að koma aðildarumsókninni til Brussel.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa ákveðið framboð sín hér í Rangárþingi eystra. Ísólfur Gylfi Pálmason, ágætur félagi í þinginu á sínum tíma, er í efsta sæti á lista framsóknarmanna. Hann hefur verið sveitarstjóri að Flúðum. Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri og bóndi, er í efsta sæti á lista sjálfstæðismanna, sem hafa myndað meirihluta með K-listanum, en hann býður ekki fram að þessu sinni. Elvar gefur ekki kost á sér sem sveitarstjóri að kosningum loknum. Sjálfstæðismenn hafa ákveðið, að fái þeir meirihluta, verði Kristín Þórðardóttir, lögfræðingur og fulltrúi sýslumanns, sveitarstjóri.

Ég sé, að Hans Magnússon, nágranni minn í Kirkjulækjarkoti, er í heiðurssæti á lista sjálfstæðismanna. Hann var á K-lista fyrir síðustu kosningar.

 

 

Laugardagur, 10. 04. 10. - 10.4.2010

Í dag ritaði ég pistil í tilefni af því, að rannsóknarskýrslan vegna hrunsins verður birt mánudaginn 12. apríl.

Í pistlinum færi ég rök fyrir því, að stjórnsýsla og stjórnmálamenn hafi búið sig undir skýrslu rannsóknarnefndarinnar á ýmsan hátt. Á hinn bóginn sé Jón Ásgeir Jóhannesson við sama heygarðshornið og áður. Hann láti eins og ekkert hafi breyst og sér nægi að skrifa opin bréf til að hafa sitt á hreinu.

Lech Kaczynski, forseti Pólland, eiginkona hans og um 100 manns fórust í flugslysi í morgun við rússnesku borgina Smolensk, en þar var vélin að lenda, og ætluðu farþegarnir að taka þátt í minningarathöfn um Katyn-morðin í síðari heimsstyrjöldinni. Þar myrtu Sovétmenn um 20.000 foringja í her Póllands. Hefur ódæðið hvílt sem mara á pólsku þjóðinni síðan.  Það hefur einnig leitt til spennu í samskiptum Rússa og Pólverja. Hún hefur hins vegar dvínað hin síðari ár og minningarathöfnin nú var með þátttöku Rússa.

Föstudagur, 09. 04. 10. - 9.4.2010

Hér má sjá viðtal mitt við Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa, á ÍNN 7. apríl.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í viðtali við The Financial Times Deutschland, sem sagt var frá í Fréttablaðinu í dag, að fresta eigi aðildarumsókn að ESB. Það sé enginn að mæla með henni við þjóðina. Þetta er stærsta mál Össurar Skarphéðinssonar, flokksbróður hennar og arftaka. Verri kveðju hefði hann varla getað fengið frá henni.

Ég er þeirrar skoðunar, að draga eigi ESB-umsóknina til baka. Hún er í senn ótímabær og illa undir búin. Um hana er engin samstaða í ríkisstjórninni og meirihluti landsmanna er á móti aðild.

Í Vef-Þjóðviljanum segir:

„Á blaðamannafundi í dag ræddi Jóhanna Sigurðardóttir um þessa frestunarhugmynd Ingibjargar Sólrúnar. Steingrímur J. Sigfússon var þar staddur og sá ástæðu til að fræða vitleysingana í kringum sig með eftirfarandi speki: „Það er náttúrlega ekki hægt að fresta því sem ekki er hafið“ og bætti því við að viðræður væru ekki enn hafnar. Og töldu fréttamenn sig þá ekki hafa meira að spyrja hann um.

Já, hvar væru landsmenn staddir ef ekki væri Steingrímur J. Sigfússon til að leiðbeina þeim? Það er auðvitað ekki hægt að fresta viðræðum við Evrópusambandið því þær eru ekki hafnar. Ef menn vilja fresta þeim þá verður að hefja þær strax svo ekki verði frekari bið á frestuninni.

Hver hefði trúað því, ef einhver hefði spáð að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir legði til að aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði frestað og þá myndi formaður Vinstrigrænna gefa svar eins og þetta? “

 

Fimmtudagur, 08. 04. 10. - 8.4.2010

Áminningarmál Álfheiðar er tekið undarlegum tökum af þeim talsmönnum Háskóla Íslands, sem kallaðir eru til álitsgjafar af fréttastofu RÚV. Á ruv.is má lesa:

„Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir samskipti heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands benda til þess að málið eigi sér forsögu. Samskipti þeirra séu mun harkalegri en eðlilegt megi teljast í opinberri stjórnsýslu. Tilefni áminningarinnar sé ansi lítið. ...
Gunnar Helgi telur að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki veikst, þó hún hafi gengið hart fram í málinu. Á meðan hún hafi pólitískan stuðning innan eigin flokks og ríkisstjórnarinnar sé ólíklegt að þetta hafi áhrif.“

Prófessorinn kemur með þann „vinkil“ eða spuna í málið, að eitthvað meira sé á bakvið áminningarhótun Álfheiðar en fyrir liggi. Hvað er hann að fara með því? Auðvelt er að álykta á þann veg, að hann sé að bera blak af Álfheiði með þessum orðum. Styrkist sú ályktun, þegar hann segir Álfheiði ekki hafa veikst á ráðherrastóli, eftir að hafa fengið meiri ofanígjöf frá ríkisendurskoðun en dæmi eru um.

Steingrímur Ari hefur svarað hótun Álfheiðar um áminningu og hafnar því, að nokkur rök séu fyrir henni. Ætli ráðherra að áminna embættismann, verður hann að tilgreina, hvers vegna það er gert. Ekki er unnt að vísa til einhverrar „forsögu“, eins og Gunnar Helgi gerir.

Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir bloggar á þann veg um málið í dag, að ætla má, að hún vilji, að ríkisendurskoðandi víki fyrir að hafa mótmælt vinnubrögðum Álfheiðar. Sigurbjörg sóttist á sínum tíma eftir starfi Steingríms Ara og væri henni helst til sóma, að blanda sér ekki í þessar umræður sökum vanhæfis.

Líklegast er, að stjórnmálafræðingarnir innan Háskóla Íslands séu að bregða mildum blæ á ofstopa Álfheiðar til að létta á þungum kröfum á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur um, að hún víki Álfheiði úr ríkisstjórninni. Þeir, sem hafa kynnt sér ótal þingræður Jóhönnu um ábyrgð ráðherra og kröfur hennar um, að ráðherrar axli  ábyrgð, átta sig á því, að aðhafist Jóhanna ekki neitt í þessu máli, verði hún í raun samábyrg Álfheiði á forkastanlegum vinnubrögðum.

 

Miðvikudagur, 07. 04. 10. - 7.4.2010

Í dag ræddi ég við Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa, í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN.

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, ritaði forseta Alþingis bréf, sem birt var í dag, þar sem hann mótmælir harðlega framkomu Álfheiðar Ingadóttur í garð Steingríms Ara Arasonar í máli því, sem ég lýsti í pistli mínum sl. mánudag. Segir hann „ólíðandi“ hvernig Álfheiður hafi gripið á málinu, að sjálfsögðu hafi embættismenn frelsi til að leita beint og milliliðalaust álits ríkisendurskoðanda á úrlausnarefnum sem þessu.

Álfheiður brást við á þann veg að segja ríkisendurskoðanda misskilja afstöðu sína. Hún hefði fundið að því, að Steingrímur Ari hefði ekki ráðgast við ráðuneytið vegna málsins. Þetta er einkennileg afstaða, þar sem fyrir liggur að efnt hafði verið til funda með ráðuneytinu af hálfu stofnunar Steingríms Ara.

Þungi í málflutningi ríkisendurskoðanda birtist skýrt í því, að hann ritar bréf sitt til forseta alþingis. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir grípur á málinu. Hún hlýtur að svara bréfi ríkisendurskoðanda, sé hún ósammála mati hans á ámælisverðum vinnubrögðum Álfheiðar, þögn hennar jafngildir á hinn bóginn samþykki.

 

Þriðjudagur, 06. 04. 10. - 6.4.2010

Sagt var frá því í Le Figaro  í morgun, að Rachida Dati, fyrrverandi dómsmálaráðherra Frakka og núverandi ESB-þingmaður, hefði verið svipt öryggisvörðum, bíl og bílstjóra samkvæmt beinum fyrirmælum Nicolas Sarkozys, Frakklandsforseta, þar sem hún lægi undir grun um að koma af stað orðrómi um, að hjónaband forsetans væri í molum. Dati hefur verið talin til nánasta hóps Sarkozys til þessa.

Jafnframt hefur verið greint frá því, að franska lögreglan hafi hafið rannsókn til að finna bloggarana, sem stóðu að baki orðrómnum. Blaðið Journal du Dimanche bað lögregluna að hlutast til um málið, því að á bloggsíðu þess fór þessi kvittur fyrst á kreik nú í mars. Hann barst um heim allan og á forsíður margra blaða en BBC segir í dag, að þetta hafi allt verið úr lausu lofti gripið.

Tveimur starfsmönnum við vefsíðu blaðsins hefur verið sagt upp störfum vegna hneykslisins. Annar þeirra segist hafa sett efnið á síðuna en hann sé ekki upphafsmaður sögunnar. Eigandi Journal du Dimanche er náinn vinur Sarkozys og fullyrða ýmsir, að forsetinn hafi hvatt til þess, að lögreglan yrði sett í málið.

Vinsældir Sarkozys hafa aldrei verið minni síðan hann varð forseti. Látið er í veðri vaka af stuðningsmönnum hans, að söguburðurinn um hjónaband hans sé aðeins einn liður í því að veikja forsetann enn frekar eða jafnvel franskan efnahag með tilstyrk alþjóðlegra fjármálastofnana.

Á meðan Frakklandsforseti á í þessu basli, búa breskir stjórnmálaforingjar sig undir fjögurra vikna snarpa baráttu fyrir þingkosningar þar 6. maí næstkomandi. Gordon Brown tikynnti kjördag í dag, þing situr til 12. apríl. Fréttir berast af því, að ekki verði tóm til að ræða Icesave-mál, fyrr en að kosningum loknum.

 

 

 

 

 

.

Mánudagur, 05. 04. 10. - 5.4.2010

Ritaði í dag pistil hér á síðuna um hótun Álfheiðar Ingadóttur í garð Steingríms Ara Arasonar fyrir, að hann leitaði álits ríkisendurskoðanda á skilyrðum, sem setja ætti vegna fjárgreiðslna á grundvelli reglugerðar, sem Álfheiður setti. Hótun Álfheiðar er líklega einstök síðan stjórnsýslulög voru sett hér á landi og þótt farið yrði lengra aftur.

Ég vek jafnframt athygli á, hve sérkennilegt er, að dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur, telji sér sæma að tjá sig um þetta mál sem óhlutdrægur álitsgjafi. Hún sótti um embætti Steingríms Ara á móti honum á sínum tíma.

 

Sunnudagur, 04. 04. 10. - 4.4.2010

Gleðilega páska!

Himinn hefur verið skafheiður í Fljótshlíðinni í dag, eina skýið, sem sést, er gufustrókur yfir eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Umferðin virðist minni en í gær, enda hefur verið varað við því, að veður versni í nótt og hríð verði á gosslóðum.

Í gær var skýrt frá því, að Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, hefði hótað að áminna Steingrím Ara Arason, forstjóra sjúkratryggninga, fyrir að leita álits ríkisendurskoðunar á greiðsluskyldu vegna nýsettrar reglugerðar. Steingrímur Ari birti bréf ráðherra og svarbréf sitt.

Dögg Pálsdóttir, hrl., bendir réttilega á það á vefsíðu sinni í dag, að lög gera ráð fyrir andmælaferli í aðdraganda áminningar, en Álfheiður virðist hafa haft það að engu. Lögmæti aðgerða hinnar dæmalausu aðgerðar hennar má því draga í efa. Slíkar efasemdir sóttu þó ekki að Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðiningi, sem hefur nýlega tekið við starfi lektors í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands, þegar rætt var við hana í kvöldfréttatíma RÚV.

Sigurbjörg dró taum Álfheiðar, en sagðist þó ekki hafa kynnt sér málið til hlítar! Á ruv.is segir frá viðtalinu á þennan hátt:

„Sigurbjörg segir ekki undarlegt að upp komi tengingar við pólitík því hér á landi sé ekki nægilega skýrt ferli eða verklag við ráðningar í æðstu embætti og stöður innan stjórnsýslunnar. Þarna komi ráðherrar beint að málum, því þeir ráði beint í störf og stöðum. Þar með sé sú hætta fyrir hendi að farið pólitískar skoðanir blandist í málið.“

Ég játa vanmátt minn við að skilja þessi orð stjórnsýslufræðingsins. Tali hún svo óljósum orðum við nemendur sína og telji jafnframt ástæðulaust, að ráðherra fari að lögum við áminningu, mun það ekki stuðla á bættum stjórnsýsluháttum.

 

Laugardagur, 03. 04. 10. - 3.4.2010

Í gærkvöldi var sýnd mynd um Bobby Fisher í sjónvarpinu. Snerist hún um komu hans hingað til lands og veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Myndin var einkennileg að allri gerð og fyrir þá, sem ekki vissu eitthvað um málið, hefur hún varla sagt mikið um það, sem raunverulega gerðist.

 

Föstudagur, 02. 04. 10. - 2.4.2010

Í kvöld er þungbúið í áttina að Fimmvörðuhálsi og fréttir herma, að lögregla og björgunarsveitir séu að smala fólki ofan af Mýrdalsjökli, því að þar sé ofviðri. Bréfvinur sagði mér, að hann hefði farið á jökulinn í dag. Þar væri troðin braut, eins km breið, fær jeppum á 35 tommu dekkjum eða stærri. Með 5 punda loftþrýsting í dekkjum væri greiðfært. Þessar upplýsingar koma mér að engu gagni, því að ég á ekki slíkan bíl. Kannski finnst einhverjum lesendum síðunnar þetta forvitnilegt og auðveldar þeim ferð að gosstöðvunum, þegar veður leyfir að nýju. Almannavarnayfirvöld sýna mikinn sveigjanleika í ákvörðunum sínum um ferðaheimildir í nágrenni jarðeldanna.

 

Fimmtudagur, 01. 04. 10. - 1.4.2010

Umferðin um Fljótshlíðarveg var gífurlega mikil í dag. Veðrið á gosstöðvunum var bjart og blöstu strókarnir við okkur héðan frá bænum okkar. Stundum mætti ætla, að fréttamenn væru frekar að segja frá spennandi sýningu en lífshættulegum náttúruhamförum.

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, þar sem samkeppniseftirliti er heimilað að skipta upp fyrirtækjum með yfirþyrmandi markaðsaðstöðu. Þá hefur samkeppniseftirlitið lagt til að Högum, sem rekur smásölufyrirtæki Baugs hér á landi, verði skipt við sölu Arion-banka á fyrirtækinu.

Í ársbyrjun 2002 urðu orðaskipti á alþingi milli Össurar Skarphéðinssonar og Davíðs Oddssonar um, hvort líða ætti risafyrirtækjum að vera markaðsráðandi. Töldu þeir báðir, að huga ætti að því að skipta þeim með valdboði, ef þau misnotuðu aðstöðu sína. Össur lagði spurningu um þetta fyrir Valgerði Sverrisdóttur, þáv. viðskiptatráðherra, sem sá öll tormerki á því að festa heimild til uppskipta á fyrirtækjum í lög. Taldi hún það brjóta í bága við stjórnarskrá.

Stjórnarskráin er óbreytt en viðskiptaráðherra annar. Skyldi hann hafa aðra lögfræðilega ráðunauta en Valgerður? Varla var hún að gæta hagsmuna stórfyrirtækja?

Ummæli Davíðs um málið á þingi drógu meðal annars þann dilk á eftir sér, að þeir Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, áttu sögufrægan fund í London laugardaginn 26. janúar 2002.