16.4.2010

Föstudagur, 16. 04. 10.

Hann gengur á með skúrum hér í Fljótshlíðinni. Ég hélt snemma í morgun, að tindur Eyjafjallajökuls mundi gægjast upp úr skýjaslæðunni. Hann lét það ógert, svo að ég hef ekki séð hann enn dagana frá því að gosið hófst. 

Skólabíllinn var á ferð milli 07.30 og 08.00 eins og venjulega og sótti börn á nágrannabæi og ók þeim út á Hvolsvöll. Fréttir herma, að tvö flóð hafi verið í Markarfljóti í nótt. Fólk fékk ekki að dveljast á 20 bæjum.IMG_7140

Nú berast fréttir af lokun flugvalla í Mið-Evrópu auk Bretlands en í norðurhluta Noregs er leyft að fljúga að nýju. Í Sky News var skýrt frá því, að vangaveltur væru í Póllandi um að fresta jarðarför forsetahjónanna, sem fórust við Smolensk, þar sem tignir gesir, þar á meðal Bandaríkjaforseti, gætu ekki verið viðstaddir vegna flugbanns.

Vinur minn í alþjóðlegum bankaheimi sendi mér þessa orðsendingu, sem gengur milli manna þar:

Since there is no C in the Icelandic alphabet, instead of cash we have decided to send you some ash. Make good use of it.

Ók til Reykjavíkur, án þess að sjá bólstur gossins nema rétt í stutta stund á fyrsta gosdegi. Samkvæmt sjónvarpsfréttum var farið að draga úr skýjahulunni undir kvöld. Myndina hér með tók Daði Runólfsson að kvöldi 16. apríl frá bænum okkar í Fljótshlíðinni. Þá létti skýjahulunni af jöklinum í skamma stund, áður en dimmdi.