Dagbók: október 2011

Mánudagur 31. 10. 11 - 31.10.2011

Í dag hófust viðtöl mín í Berlín. Hér má sjá pistil eftir fyrsta fundinn með fimm fræðimönnum hjá SWP, Stiftung Wissenschaft und Politik.

Sunnudagur 30. 10. 11 - 30.10.2011

Sýningunni á Tannhäuser í Deutsche Oper Berlin í kvöld var forkunnarvel tekið. Kristinn Sigmundsson syngur í óperunni hlutverk Landgraf Hermanns á móti Reinhard Hagen, söng Hagen að þessu sinni.

Forvitnilegt er að bera saman almenningssamgöngur í Brussel og Berlín. Meiri áhersla er lögð á þétt jarðlestanet í Berlín en í Brussel. Í Brussel kostar 1.80 evrur í lest en stysta ferð í Berlín 1.40. Í Brussel er auðvelt að kaupa afsláttarkort og þá lækkar verð á ferð í 1.20 evrur. Í Brussel gildir sama verð hvert sem maður fer innan kerfisins í Berlín eru að minnsta kosti þrír verðflokkar. Frá mínum bæjardyrum séð er þjónustan betri í Brussel en Berlín.



Laugardagur 29. 10. 11 - 29.10.2011

Listakona sem við hittum í Brussel sagði Berlín hafa tekið við af New York sem  skapandi stórborg. Berlín er safn margra hverfa sem mynda magnað stórborgarmannlíf.

Við búum í Mitte, rétt fyrir austan múrinn sem hvarf 9. nóvember fyrir 22 árum. Á leið okkar frá Potsdamer Platz (fyrir vestan) sáum við nokkra merkta götusteina. Þar stóð: hér var Múrinn. Fáir námu staðar. Þeir sem gerðu það litu til beggja handa og trúðu ekki eigin augum. Breytingin er ótrúleg á 22 árum.

Föstudagur 28. 10. 11 - 28.10.2011

Flugum í morgun frá Brussel til Berlínar. Við vorum svo heppin að ná í miða í kvöld í tónleikahöll þeirra Berlínarbúa, Die Philharmonie, þar sem Nikolaus Harnoncourt (f. 1929) stjórnaði Berliner Philharmoniker og kór sem flutti messu í C-dúr eftir Beethoven með kór og fjórum einsöngvurum. Eftir hlé flutti hljómsveitin síðan 5. sinfóníu Beethovens, Hrifingin var slík að Harnoncaourt var klappaður fram í salinn eftir að hljómsveitin hafði gengið af sviðinu.

Eftir þessa eftirminnilegu tónleika bauð Sir Simon Rattle, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, upp á síðkvöldstónleika þar sem nokkrir félagar úr hljómsveitinni léku undir hans stjórn og Magdalena Kozena, mezzoósópran og eiginkona Rattles, söng Psyché eftir Manuel de Falla og Folk Songs eftir Luciano Berio við mikla hrifningu fjölmargra áheyrenda. Tónleikagestum á fyrri tónleikunum voru boðnir þessir tæplega klukkustundar tónleikar Rattle-hjónanna sem bónus.

Fimmtudagur 27. 10. 11 - 27.10.2011

Í dag skrifaði ég síðasta pistil minn frá Brussel að þessu sinni. Þeir sem lesa hann sjá að ég hef ekki sannfærst um það af dvöl minni hér að skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að halda áfram þessari för inn í Evrópusambandið. Við þurfum að endurmeta stöðuna og nýta okkur betur þau tækifæri sem bjóðast.

Gleðilegt er að sjá að lögreglunni hefur tekist að upplýsa úra-þjófnaðinn mikla. Það sýnir hve vel og skipulega hún vinnur að málum með árangur að leiðarljósi. Þá er einnig gleðilegt að lögreglan nýtur áfram mesta trausts stofnana á Íslandi þrátt fyrir aðförina sem að henni var gerð á dögunum með þátttöku þingmanna. Virðing alþingis er áfram í lágmarki.

Ég sé að nú er enn á ný tekið til við að kenna Schengen-aðild Íslands um að alþjóðlegir glæpamenn reyni að koma ár sinni fyrir borð. Að sjálfsögðu er alþjóðleg glæpastarfsemi ekki aðild að Schengen að kenna, þvert á móti auðveldar aðildin að Schengen lögreglu allt alþjóðlegt samstarf á tímum alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Með aðildinni að EES gerðumst við aðilar að frjálsri för fólks yfir landamæri sem auðveldar okkur að setjast að utan Íslands og útlendingum að koma til Íslands og taka sér gott og illt fyrir hendur.

Nýja varðskipið Þór er komið til landsins. Ástæða er til að fagna því. Skipið gerir Íslendingum kleift að hafa forystu við að tryggja öryggi sjófarenda á Norður-Atlantshafi og sinna björgunarstörfum með fullkomnasta búnaði.

Miðvikudagur 26. 10. 11 - 26.10.2011

Enn komu leiðtogar ESB-ríkjanna saman til fundar hér í Brussel síðdegis í dag. Nú var látið minna með hvað mundi gerast á fundi þeirra en talið var fyrir viku. Þá hitti ég hér menn sem hafa aðgang að æðstu stöðum sem fullyrtu við mig að sunnudaginn 23. október yrði evru-vandinn leystur á sögulegan hátt. Þetta var áður en í ljós kom að Þjóðverjar og Frakkar voru ekki sammála. Á meðan þeir deila næst enginn árangur inna ESB og þó sérstaklega á innan evru-hópsins.

Þegar þetta er ritað hafa leiðtogar 10 ekki-evru ríkja yfirgefið fundarsalinn og 17 sitja enn sveittir yfir því hvernig bjarga eigi því sem bjargað verður. Angela Merkel sagði í þýska þinginu í dag að frá stríðslokum hefði ekki sambærileg krísa komið upp í Evrópu - félli evran, félli Evrópusambandið. Hún fékk umboð þingsins og er bundinn af því. Hún styrkir stöðu sína jafnt og þétt í evru-hópnum. Sarkozy rífur kjaft en má sín ekki mikils því að yfir Frökkum vofir að matsfyrirtæki lækki lánshæfiseinkunn þeirra.

Heitstrengingar um að bjarga evrunni og það skuli sko takast minna dálítið á talið um að Íslendingar eigi víst eftir að njóta skilnings hjá ESB,  mönnum detti aldrei í hug að ofbjóða neinni þjóð í klúbbnum. Fréttir berast hins vegar frá Grikklandi um að þar tali menn nú um land sitt sem nýlendu undir stjórn ráðandi afla á evru-svæðinu. Skyldi engum nema Grikkjum þykja að freklega hafi verið gengið á rétt þeirra og grískra stjórnvalda?

Þriðjudagur 25. 10. 11 - 25.10.2011

Páll Magnússon, nýráðinn forstjóri Bankasýslu ríkisins, sagði starfinu lausu í dag. Er það eðlileg afleiðing afsagnar stjórnar Bankasýslu ríkisins. Ástæða þessa umróts eru pólitísk afskipti. Þar hefur Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tekið mest upp í sig af hneykslan.

Sama dag og frá afsögn Páls er skýrt birtir Björgólfur Thor Björgólfsson á vefsíðu sinni:

„Rúmri viku eftir að búnaði í gagnaver Verne Global var skipað upp í Helguvík er enn unnið að því að koma honum fyrir í gagnaverinu á Ásbrú. Gagnaverið tekur til starfa í byrjun næsta árs. [...] Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings.

Til þess að gagnaverið yrði hér á landi þurfti pólitíska hagsmunamiðlun gagnvart alþingismönnum. Vilhjálmur Þorsteinsson annaðist hana. Vilhjálmur hlaut endurkjör sem gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi um síðustu helgi. Skyldi Helga Hjörvar ekki þykja neitt athugavert við þetta úr því að ekki mátti ráða Pál Magnússon sem forstjóra Bankasýslu ríkisins af því að hann starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra áður en Samfylkingin settist í ríkisstjórn vorið 2007?

Skinhelgi er helsta einkenni Samfylkingarinnar. Hún fær á sig nýja vídd þegar Helgi Hjörvar er boðberi hennar.



Mánudagur 24. 10. 11 - 24.10.2011

Í dag ritaði ég fjórða pistil minn hér á síðuna frá Brussel. Því skýrari sem ágreiningurinn innan ESB verður milli Þjóðverja og Frakka og milli evru-ríkjanna 17 og ekki-evru-ríkjanna 10 þeim mun undanlegri verður ákefð Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingarinnar í að setja því tímamörk hvenær viðræðum við ESB ljúki. Engu er líkara en henni sé sama um innihaldið enda helgi tilgangurinn meðalið.

Lítilþægni vinstri-grænna á þessari vegferð er meiri en menn hafa áður kynnst. Allt er þetta til þess eins af þeirra hálfu að geta setið áfram í ráðherrastólunum.

Stjórn Bankasýslu ríkisins sýnir ekki sömu lítilþægni og vinstri-grænir í ríkisstjórn þegar hún ákveður að segja af sér vegna andmæla við að Páll Magnússon var ráðinn forstjóri bankasýslunnar. Ríkisstjórn sem situr eftir að hafa tapað í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og staðið að einum ógildum stjórnlagaþingskosningum fyrir utan allt annað á auðvitað að neita að taka við afsögn stjórnar Bankasýslu ríkisins og segja í staðinn sjálf af sér.

Sunnudagur 23. 10. 11 - 23.10.2011

Í dag nutum við tónlistar í Brussel. Í morgun þegar við hlýddum á tvær Bach-kantötur í hverfiskirkju skammt frá Sablon-torgi. Síðdegis í óperunni þegar við hlýddum á Ödipus eftir rúmenska tónskáldið Enescu. Áhrifamikil sýning.

Fundi 27 ESB-leiðtoga lauk um hádegisbil og 17 evru-leiðtoga um kvöldmat. Það truflaði okkur ekki hið minnsta á ferð um borgina. Hvergi sáust merki um fundina þar sem við vorum sem sýnir hve vel hefur tekist til við að setja alla ESB-starfsemina á sama blettinn í borginni.

ESB-aðildarsinninn Vilhjálmur Þorsteinsson hlaut kosningu sem gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í dag. Hann fékk 60% atkvæða. Vilhjálmur er stjórnarformaður í CCP en forráðamenn þess fyrirtækis hafa löngum kvartað undan að þurfa að búa við íslenska krónu. Þá er hann einnig aðalmaðurinn í gagnaverinu Vern holding og hefur verið með hagsmunamiðlun vegna þess gagnvart þingmönnum.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fer mikinn vegna þess að Páll Magnússon er ráðinn forstjóri Bankasýslunnar af því að hann starfaði á sínum tíma sem aðstoðarmaður ráðherra fyrir flokk sem ekki er lengur í ríkisstjórn. Skyldi Helga Hjörvar þykja sjálfsagt og eðlilegt að forráðamaður fyrirtækja sem láta að sér kveða á pólitískum vettvangi til að breyta lögum eða alþjóðlegri stöðu Íslands sér í hag sé gjaldkeri stjórnmálaflokks?

Jóhanna Sigurðardóttir lemur á forseta Íslands og krefst þess að hann setji sér siðareglur. Hvað með fjármálastjórn og gjaldkerastarf í Samfylkingunni? Gilda engar siðareglur þar?

Laugardagur 22. 10. 11 - 22.10.2011

Að ganga um Grand Place og hjarta Brussel í dag vakti ekki neina vitund um að í borginni byggju menn sig undir leiðtogafund ESB í kvöld og á morgun. Nokkrum sinnum heyrðist ð vísu í þyrlu eða þyrlum yfir borginni og stundum sáust nokkrir svartir bílar á hraðferð með sírenur og blá ljós. Þetta hafði engin áhrif á mannfjöldann í miðborginni sem spókaði sig í sólinni. Brussel-búar fara greinilega með börn sín í miðborgarferð um helgar og gefa þeim ís, vöfflur eða jafnvel franskar kartöflur með mæjonesi.

ESB-hverfið þar sem leiðtogarnir hittast, framkvæmdastjórn ESB situr og ESB-þingmennirnir hafa skrifstofur er skammt utan við gömlu Brussel-miðborgina. Þar mátti í gær sjá skilti á strætisvagnastöðvum þar kynnt var að vagnarnir myndu ekki stöðva þar sunnudaginn 23. október vegna leiðtogafundar ESB. Þá höfðu gaddavírs-hindranir verið fluttar í hliðargötur auk þess sem járngrindum var víða staflað. Benti þetta til þess að lögregla byggi sig undir að halda mótmælendum í hæfilegri fjarlægð frá fundarstað leiðtoganna. Húsið er hins vegar hannað á þann veg að leiðtogarnir fara inn um bakdyr þess og er auðvelt að halda öllum aðkomuleiðum þangað opnum hvað sem líður því sem er að gerast á torginu framan við húsið.


Föstudagur 21. 10. 11 - 21.10.2011

Á visir.is  segir 21. október „Formaður Samfylkingarinnar [Jóhanna Sigurðadóttir] segist ætla að ljúka aðildarviðræðum við ESB fyrir kosningar árið 2013. Til þess verks hafi flokkurinn verið kosinn. Landsfundur Samfylkingarinnar var settur síðdegis í dag.“

Þegar ég spyr Brussel-menn um tímasetningar varðandi aðild Íslands og viðræðurnar vilja þeir engan tíma nefna. Þegar ég segi að Jóhanna og Össur Skarphéðinsson tali eins og að ofan segir er svarið: „Stjórnmálamenn ráða því hvað þeir segja til heimabrúks. Það stjórnar ekki ferð okkar hér í Brussel.“

Vandinn við umræður um umsókn Íslands er að enginn alþjóðlegur fjölmiðill hefur auga á viðræðunum, gangi þeirra eða til að leggja mat á yfirlýsingar framkvæmdastjórnar ESB og ríkisstjórnar Íslands. Í þessu tómarúmi blakta ábyrgðarlausir álitsgjafar á borð við Egil Helgason sem stjórnast af tilfinningum í stað staðreynda eða fréttaskýrendur eins og þeir sem lýsa ESB-viðræðunum í Fréttablaðinu og Speglinum á vegum RÚV svo að ekki sé minnst á fræðimenn á bor við Eirík Bergmann Einarsson.

Þegar ummæli Jóhönnu eru lesin ber að spyrja: Ætlar forsætisráðherra Íslands að segja við ESB: Við  ljúkum við viðræðunum 2013 eða íslensk stjórnvöld hverfa frá þeim. Hvers vegna spyr enginn íslenskur fjölmiðill Jóhönnu að þessu? Er hún að ögra ESB? Jóhanna ertu að setja „deadline“ á viðræðurnar? Hvað sagði Stefan Füle við því?

Fimmtudagur 20. 10. 11 - 20.10.2011

Eins og kunnugt er hafa Evrópusamtökin sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB að mottói að rætt skuli um ESB-málefni á faglegan og upplýstan hátt með sannleikann að leiðarljósi. Hinn 20. október les ég á vefsíðu þeirra:

„DV birti í gær Sandkorn þess efnis að Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra og einn helsti andstæðingur ESB, væri staddur í Brussel til að kynna sér málin. 

Í frétt DV segir: " Björn er jafnframt í framlínu Heimssýnar þar sem hann berst gegn Evrópu. Undanfarna daga hefur hann verið í Brussel til að skoða og skilgreina."

Að sögn DV segja gárungarnir að Björn sé á styrk frá ESB til að, eins og segir í fréttinni, ...grafa undan aðildinni."

Því má svo bæta við að vefsíða sem Björn heldur úti ásamt Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, fékk fyrir skömmu styrk frá ESB!

Í herbúðum Björns og Styrmis hefur orðið "mútufé" gjarnan verið notað um ESB-fjármagn!

Heitir þetta ekki að kasta steinum úr glerhúsi á ástkæra ylhýra?“

Hið sérkennilega við þennan texta er að ekkert í honum r rétt. Ég er ekki í framlínu Heimssýnar, sit þar hvorki í stjórn né get talist virkur félagsmaður ef ég er á annað borð í félaginu. Ég hef stundum talað á fundum félagsins sé ég beðinn um það eins og ég kem í Rotary-klúbba eða á annan vettvang til að ræða ESB-mál sé um það beðið.

Þá er alrangt að ég dveljist hér í Brussel fyrir styrk frá ESB. Evrópuvaktin fékk styrk frá alþingi. Það er dæmalaust hve ESB-aðildarsinnar og eineltismennirnir á  DV leggja sig fram um að gera lítið úr alþingi vegna þessa styrks.

Hvers vegna er Evrópusamtökunum svona mikið í mun að klína því á okkur Styrmi Gunnarsson að Evrópuvaktin hafi fengið styrk frá ESB? Til að réttlæta þann stuðning sem Evrópusamtökin fá þaðan?

Þessi lygaáróður Evrópusamtakanna í skjóli DV um þennan styrk til Evrópuvaktarinnar sýnir hve lélegan málstað samtökin hafa, eitt er víst að þeim er ekki í mun að hafa það sem sannara reynist. Ef ég man rétt er þetta í annað sinn sem þau flytja þessi ósannindi.

Er það Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, sem er ábyrgur fyrir þessum ósannindum? Ég skora á ósannindamanninn að gefa sig fram!

Miðvikudagur 19. 10. 11 - 19.10.2011

Í dag lýsti ég undrun minni á Evrópuvaktinni yfir því að stækkunarmenn ESB hefðu ekki sagt mér í gær að yfirmaður þeirra, Ŝtefan Füle, væri á leiðinni til Íslands. Ég spyr mig af þessu tilefni hvort ástæðulaust sé að treysta þeim eða heitstrengingum þeirra um gegnsæi og opna umræðu. Þær nái ekki lengra en þeir telji sér henta hverju sinni.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segist túlka lög rétt en hvorki ríkislögreglustjóri né innanríkisráðuneytið. Þá segist hann einnig hafa meira vit á því núna, árið 2011, en ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðuneytið sumarið 2009 hvort ástæða hafi verið til að óttast frekari mótmæli eins og urðu í janúar 2009.

Einelti birtist í ýmsum myndum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sætir því af hálfu DV vegna Sjóvá-málsins svonefnda, það er meðferð á fjármunum fyrir hrun. DV hefur elt Bjarna vegna málsins misserum ef ekki árum saman. Nú koma álitsgjafar á borð við snillinginn Egil Helgason og setja einekti DV í tengsl við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Meinsemd í íslensku þjóðlífi stafar örugglega af óvandaðri fjölmiðlun. Hún magnast en minnkar ekki.

DV heldur áfram lygasögunni um að Evrópuvaktin hafi fengið styrk frá ESB þegar alþingi veitti henni styrk til að stuðla að umræðum um Evrópumál.

Athyglisvert er að eineltismennirnir á DV segja ekkert frá Baugs-skattamálinu eða því sem fram kemur í yfirheyrslum í því. Skýrir það kannski hvers vegna blaðið heldur áfram að sjá dagsins ljós?

 

 

 


Þriðjudagur 18. 10. 11 - 18.10.2011

Haustrigning setti svip á Brussel í morgun. Umferðin varð hæg og það tók strætisvagn minn um 15 mínútum lengur að komast á leiðarenda en þegar ég tók hann daginn áður. Ég er heppinn því að það gengur vagn úr hverfinu þar sem við búum alveg að dyrum ESB-þinghússins. Enginn fær að hitta þingmann án skráningar og þess að einhver frá viðkomandi þingmanni komi að sækja gestinn. Myndast stundum biðraðir við skráningarborðið þannig að öruggara er að hafa tímann fyrir sér.

Í kvöld fórum við í tónlistarhöll þeirra Brusselbúa og hlýddum að Penderecki, pólska tónskáldið, stjórna Sinfóníuhljómsveit Varsjá flytja eigin fiðlukonsert og 7. sinfóníu Beethovens.

Ég sé í fréttum að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lokið athugun á ásökunum ríkisendurskoðunar á hendur embætti ríkislögreglustjóra og komist að þeirri niðurstöðu að embættið hafi ekki gerst brotlegt. Ríkisendurskoðandi lét hins vegar fréttamann draga út úr sé að embættið hefði framið lögbrot. Ég lýsti undrun minni á þeirri fljótfærni ríkisendurskoðanda og taldi hann raunar hafa brotið lög með ummælum sínum. Ætluðu líka ekki einhverjir þingmenn að kalla ríkislögreglustjóra á teppið til sín vegna þessa?

Skyldu fjölmiðlamenn gera  harða hríð að embætti ríkisendurskoðanda eftir að niðurstaða innanríkisráðuneytisins hefur verið kynnt? Ég dreg það í efa. Í Baugsmálinu töldu fjölmiðlamenn og sumir stjórnmálamenn sig hafa veiðileyfi á embætti ríkislögreglustjóra og eimir greinilega eftir af því. Skyldi forsætisnefnd þingsins kalla ríkisendurskoðanda fyrir sig í tilefni af þessu máli?

Enn er einn angi Baugsmálsins til meðferðar fyrir dómstólum, skattamálið. Í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi tek ég sérstaklega fram að ég fjalli ekki um þetta skattamál, engu að síður fjargviðrast Jóhann Hauksson yfir því í nýrri bók sinni sem á að snúast spillingu á Íslandi að ég ræði ekki einn anga málsins. Leitast hann við að gera það tortryggilegt og gengur þar erinda Baugsmanna.

Óvandaðir fjölmiðlamenn eru  meinsemd í íslensku samfélagi. Þeir hika ekki við að leggja einstaklinga og embætti í einelti. Aðförin að Páli Magnússyni af hálfu fréttastofu er  nýlegt dæmi  svo og rógurinn um embætti ríkislögreglustjóra.

Mánudagur 17. 10. 11 - 17.10.2011

Í  dag sat ég fundi frá morgni til kvölds með stjórnmálamönnum og embættismönnum í Brussel, ræddi stöðu Íslands, ESB og önnur álitamál. Makríldeilan er miklu alvarlegri í augum ESB en ég hélt og skrifaði ég frétt um hana á Evrópuvaktina. Ég skrifaði hins vegar pistil þar sem ég leit til Skotlands.

Sunnudagur 16. 10. 11 - 16.10.2011

Sunnudagur í miðborg Brussel einkennist af miklum mannfjölda sem nýtur þess að setjast niður á matsölustöðum eða kaffihúsum eða líta inn í hin mörgu og glæsilegu söfn borgarinnar. Við fórum á hádegistónleika sem kenndir eru við Astoria-hótelið en eru nú í hljóðfærasafninu vegna þess að hótelið er í andlitslyftingu. Fimm blásarar ásamt píanóleikara fluttu tónlist í klukkustund fyrir góðum hópi fólks á áttundu hæð í húsi við Place des Musées sem nú hýsir safnið eftir að Old England verslunin hvarf þaðan á brott.

Fréttastofa RÚV sló því að föstu í kvöldfréttum í dag að Páll Magnússon yrði ekki forstjóri Bankasýslu ríkisins. Hann var hins vegar  ráðinn á lögmætan hátt til starfans og á „vandaðan og faglegan“ hátt að mati stjórnarformanns bankasýslunnar. Fréttastofan hefur tekið afdráttarlausa afstöðu gegn Páli eins og ég rökstyð í grein sem ég skrifaði á Evrópuvaktina og lesa má hér.

Hið einkennilega er að í fréttum RÚV er aðeins sagt frá því sem er neikvætt fyrir Pál og ráðningu hans í starfið en ekki hinu sem sýnir að staðið var að ráðningunni á lögmætan hátt. Því miður er þetta hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem hin óhlutdræga fréttastofa leggst í slíkan víking. Þetta er hins vegar með verri dæmum um misnotkun á hinni opinberu stofnun sem fréttastofan er. Skyldi enginn í stjórn RÚV hafa faglegan metnað til að taka á málum sem þessum?

Páll Magnússon var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. um fimm ára skeið. Sá grunur vaknar þegar fylgst er með framgöngu fréttastofu RÚV að þar telji einhverjir sig hafa harma að hefna gagnvart Páli.

Verði Páli bolað úr forstjórastarfinu hlýtur stjórn Bankasýslu ríkisins að segja af sér. Kannski er það skýringin á heift nokkurra stjórnarþingmanna í málinu?

 

Laugardagur 15. 10. 11 - 15.10.2011

Veðrið hefur verið mjög gott þessa daga sem við höfum dvalist í Brussel, sólríkt og bjart en greinilega er farið að kólna í lofti eins og finnst þegar gengið er í skugganum.

Ég skrifaði í dag leiðara á Evrópuvaktina og lýsti undrun minni yfir viðbrögðum ráðamanna við skýrslu tveggja sænskra sérfræðinga um öryggismál Íslands. Að óreyndu hefði ég haldið að ráðherrar og formaður utanríkismálanefndar alþingis hefðu fagnað því að erlendir sérfræðingar beindu athygli að stöðu Íslands við gjörbreyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum. Því er hins vegar ekki að heilsa.

Fyrir 40 árum sat hér vinstri stjórn sem hafði brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni. Hún fékk sænskan sérfræðing Ake Sparring frá sömu stofnun og höfundar nýju skýrslunnar til að semja fyrir sig skýrslu um stöðu Íslands í öryggismálum. Þótti þetta nokkrum tíðindum sæta en ég minnist þess alls ekki að nokkrum hafi dottið í hug að bregðast við ályktunum sérfræðingsins á sama hátt og stjórnarherrarnir gera nú.


Föstudagur 14. 10. 11. - 14.10.2011


Í dag kynnti ég mér stöðu EES-samnings í viðtölum hér í Brussel, afraksturinn má lesa hér.

Fimmtudagur 13. 10. 11 - 13.10.2011

Í dag hóf ég athuganir mínar í Brussel og hér má lesa um niðurstöður þeirra.

Miðvikudagur 12. 11. 10 - 12.10.2011

Ég hef ekki tölu á því hve margar ferðir ég hef farið til Brussel undanfarin 45 ár, borgin hefur breyst í áranna rás eins og eðlilegt er en þó er unnt að ganga að sporvögnum vísum á sama stað og áður og með sama númer og þeir hafa borið allt frá upphafi. Breytingar á borginni hafa orðið einna mestar í ESB-hverfinu svonefnda þar sem ráðherraráð, framkvæmdastjórn og þing ESB hefur aðsetur. Mestar eru byggingar þingsins enda þingmenn nálægt 800, hið undarlega er að þetta er einskonar hjáleiga þingsins því að enn er Strassborg talin heimaborg þess.

Ég les á ruv.is 12. október um að Guido Westerwelle, sem þykir misheppnaður utanríkisráðherra Þýskalands og áhrifalaus heima fyrir og annars staðar, hafi lagt áherslu á mikilvægi aðildar Íslands að ESB. Á ruv.is er sagt frá samtali fréttamanns við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands. Þar segir:

„Aðspurður hvort ekki sé skrítið eða jafnvel tilgangslítið að sækja um aðild að ESB þegar ljóst sé að sambandið verði öðruvísi eftir 2-3 ár, sagði Össur að Evrópusambandið væri stöðugt að taka breytingum. Menn hafi gengið að því.

Össur segir öllum ljóst að gera þurfi breytingar á sambandinu, á vissan hátt sé einmitt gott að aðildarríkin gangi nú í gegnum hremmingar sem muni leiða til þessara breytinga, sem hann telur víst að liggi fyrir áður en Íslendingar greiða atkvæði um hugsanlega aðild. Landslagið sem sé reitt fram sem framtíðar landslag fyrir Íslendinga verði miklu skýrara. Það verði auðveldara að taka afstöðu.“

Þessi afstaða Össurar er í samræmi við orð hans í Brussel sumarið 2010 þegar hann sagðist hafa viljað fyrir 10 árum að Ísland gengi í ESB. Að hafa svo einlægan vin ESB sem utanríkisráðherra Íslands þegar lífshagsmunir þjóðarinnar liggja undir í viðræðum við sambandið sem krefst yfirráða á Íslandsmiðum og að geta stjórnað íslenskum landbúnaði hlýtur að gleðja embættismennina í Brussel. Það fór einnig vel á með þeim Össuri og Westerwelle í Frankfurt.

Hvað á Össur annars við að öllum sé ljóst að gera þurfi breytingar á ESB? Skyldu þeir sem stjórna ESB-löndunum taka undir að „hremmingar“ þjóða þeirra séu góðar af því að ESB hagnist á þeim? Sagði ekki Össur eftir að Lissabon-sáttmálinn kom til sögunnar 1. desember 2009 að framtíðin væri blúndulögð innan ESB og þess vegna fínt að slást í hópinn?

 

Þriðjudagur 11. 10. 11 - 11.10.2011

Flugum til Amsterdam og tókum þaðan lest til Brussel þar sem við ætlum að dveljast í rúma tvær vikur. Héldum af stað klukkan 08.00 á íslenskan tíma og komum í gististað klukkan 15.00 á íslenskan tíma.

Ég sé að smáfuglar AMX jagast í mér vegna skoðana minna á Hörpu og líkja mér annars vegar við Papandreou í Grikklandi og hins vegar við don Alfredo í Orkuveitu Reykjavíkur - það er ekki leiðum að líkjast! Kvakið fer hins vegar inn um annað og út um hitt enda lýsir það betur smáfuglum í skammarkrók en mér.

Á leiðinni í flugvélinni las ég bók Jóhanns Haukssonar um þræði valdsins. Þar er skautað yfir ýmis mál án þess að segja annað um þau en það sem Jóhanni hentar til sverta Sjálfstæðisflokkinn. Ég gef mér betri tíma síðar til að skrifa um bókina. Að þeir Ævar Kjartansson og Jón Ormar Halldórsson kalli á Jóhann til að ræða um landið sem rís í útvarpinu minnir aðeins á allar greinarnar sem þau Jóhanna og Steingrímur J. hafa skrifað um sama efni án þess að nokkuð gerist.

Mánudagur 10. 10. 11 - 10.10.2011

Víkurfréttir á Suðurnesjum birtu viðtal við Oddnýju G. Harðardóttur sem nýlega var kjörin formaður þingflokks Samfylkingarinnar og var áður formaður fjárlaganefndar alþingis.  Hún ræðir meðal annars skólamál og segir:

„Ríkið verður líka að horfa til allra einkaskóla í landinu og gera það upp við sig hvað eigi að kaupa af þessum einkafyrirtækjum, hvað er það sem að við erum ekki að fá í ríkisreknu skólunum? Hvað er það sem réttlætir að einkaskólar sem reknir eru fyrir ríkisfé rukki nemendur svo um hátt skólagjald? Ég get alveg sagt fyrir mitt leyti að ég er ekki hrifin af því að ríkið sjái meira og minna um rekstur einkaskóla og síðan komi eigendur skólanna og rukki nemendur um hundruð þúsunda á önn aukreitis, og það er ríkið sem lánar fyrir skólagjöldunum. Við þurfum aðeins að staldra við þetta. Ég er ekki að tala um að banna einkaskóla, alls ekki, en mér finnst það mjög skrítinn kapítalismi að setja upp einkaskóla og ná svo í peninga til ríkisins. Við þurfum að kanna hver þörfin sé og hvað það er sem ríkið á að leggja pening í. Mér þætti skynsamlegt að ríkið léti skólana fá fé með því skilyrði að þeir rukkuðu ekki nemendur um skólagjöld.“

Þessi orð sýna að Oddný hefur ekki hugmynd um rökin á bakvið rétt einkaaðila til að reka skóla og selja þjónustu sína ríki eða sveitarfélögum. Rökin eru einföld: ríkið greiðir ákveðna fjárhæð til hvers nemanda í landinu, hann ræður því hvernig hann notar þetta fé. Innheimti skólinn sem nemandinn ákveður að sækja sérstök gjöld af þeim sem innrita sig í hann greiðir nemandinn þau.

Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur markvisst verið grafið undan einkareknum skólum og þeir gerðir tortryggilegir á ýmsan hátt og oft ranglega eins og Oddný gerir í hinum tilvitnuðu orðum. Oddný hefði gott af því að lesa grein eftir Guðmund Edgarsson málmenntafræðing um einkaframtak á framhaldsskólastigi í nýjasta hefti Þjóðmála.

Sunnudagur 09. 10. 11. - 9.10.2011

Í raun er furðulegt að fylgjast með því að í hvert sinn sem leiðtogafundur ESB-ríkjanna er fyrir dyrum koma þau Angela Merkel og Nicolas Sarkozy saman 10 dögum eða svo fyrir fundinn til að ákveða hvað eigi að gerast á honum, í aðdraganda hans eða eftir hann. Síðan eru fréttir dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman um hvernig ríkisstjórnum annarra ESB-landa gengur að hrinda ákvörðunum þeirra í framkvæmd. Slóvakar hafa til dæmis ekki enn samþykkt á þingi sínu ákvarðanir evru-leiðtogafundarins 21. júlí sl.

Í dag hittust þau Merkel og Sarkozy í Berlín til að ákveða hvað þau vilja að gerist á leiðtogafundi ESB 17. og 18. október. Þau hafa ákveðið að breyta verði starfsháttum innan ESB, að minnsta kosti á evru-svæðinu. Þeim finnst óþægilegt að ríki eins og Slóvakía eða Finnland geti tafið fyrir því sem þau ákveða. Framvegis fá ríki ekki að njóta evrunnar nema þau lúti skilyrðislaust einni stjórn í efnahags- og ríkisfjármálum.

Laugardagur 08. 10. 11 - 8.10.2011


Viðtal mitt við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna, er komið á netið og má sjá það hér.

Ung vinstri græn héldu landsfund sinn á Suðureyri 1. og 2. október og ályktuðum um ýmis mál eins og til dæmis grunnlaun presta sem þau telja of há. Þá ályktuðu þau um störf Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og sögðu henni hefði „tekist með mikilli seiglu að breyta umhverfisráðuneytinu úr þægilegri afgreiðslu fyrir leyfisveitingar vegna misgáfulegra stóriðjuverkefna á landinu í það að vera málsvari náttúrunnar“. Í þessum orðum felst andstaða við réttarríkið, það er að ráðherrar og stjórnvöld almennt skuli starfa eftir lögum en ekki eigin geðþótta. „Málsvari náttúrunnar“ hefur heimild til að fara sínu fram hvað sem landslögum líður. Hin sama hugsun kom fram hjá Árna Finnssyni náttúruverndarsinna þegar hann harmaði að ekki væru nægilega margir umhverfissinnar í nefnd alþingis sem fjallar um umhverfismál.

Ung vinstri græn telja ekki aðeins að lög og stjórnsýslureglur eigi að víkja í umhverfismálum heldur einnig í málefnum hælisleitenda. Þau segja:

„Það er siðferðislega rangt að skýla sér á bak við Dyflinnar-sáttmálann og vísa hælisleitendum aftur til annarra landa í Evrópu og síst til þess fallið að bæta vandann hnattrænt. Af sömu sökum skal Ísland ekki miða sig við önnur lönd í afgreiðslu á málum hælisleitenda heldur bæta stöðu þeirra sem hingað leita á eigin forsendum. Grundvallarhugsunin á bak við vinnslu umsókna ætti ávallt að vera að veita hælisleitendum nauðsynlega aðstoð út frá siðferðislegu mati og mannúðarsjónarmiðum en ekki út frá því hve lítið er hægt að gera með tilliti til reglugerða.“

Ísland er aðili að reglunum sem kenndar eru við Dublin og snúast um réttindi hælisleitenda, þá er landið einnig aðili að öðrum reglum sem gilda um útlendinga og för þeirra samkvæmt aðild sinni að evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk útlendingalög taka mið af þessum þjóðréttarlegu skuldbindingum. Ung vinstri græn vilja að þessu sé vikið til hliðar og harma „jafnframt að staða hælisleitenda sé enn ófullnægjandi þrátt fyrir að þessi málefni séu nú í höndum ráðherra úr röðum Vinstri grænna“.

Að samtök innan ríkisstjórnarflokks álykti á þennan veg gegn gildandi lögum og reglum í landinu og fagni því að annars vegar að einn ráðherra flokksins fari ekki að lögum og harmi hins vegar að annar ráðherra geri það lýsir vel í hvet óefni er komið undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Föstudagur 07. 10. 11 - 7.10.2011

Ég hef ekki lesið viðtalið við Jón Ásgeir Jóhannesson í DV í dag. Það ýtir hins vegar enn undir þá skoðun að ítök Jóns Ásgeirs í fjölmiðlaheiminum séu meiri en sýnist.  Þess má minnast að hann leyndi því að hann ætti Fréttblaðið í tæpt ár eftir að hann keypti það. Á þeim tíma (1. mars 2003) birti Reynir Traustason, ritstjóri og einn eigenda DV , frásagnir af stjórnarfundum Baugs og myndir af úrklippum úr fundargerð stjórnarinnar og Jón Ásgeir lýsti undrun og reiði yfir birtingunni. Þeir félagar settu með öðrum orðum á svið leikrit. Birting Fréttablaðsins úr fundargerðum Baugs hefði borið allt annan blæ ef vitað hefði verið um eignarhald Baugs á blaðinu. Viðtalið við Jón Ásgeir í DV hefði á sér annan blæ ef vitað væri að hann hefði komið blaðinu og eigendum þess fjárhagslega til hjálpar. Að sjálfsögðu neita þeir Reynir og Jón Ásgeir að um slík samskipti þeirra í þágu DV sé að ræða. Annað væri stílbrot af beggja hálfu.

Jón Magnússon hrl. og lögfræðingur minn vegna stefnu Jóns Ásgeirs gegn mér hefur nú tekið á móti greinargerð Gests Jónssonar, hrl., lögfræðings Jóns Ásgeirs. Þar kemur í raun ekkert annað fram en endurtekning á kröfum mér á hendur vegna prentvillu sem ég hef leiðrétt með afsökun til Jóns Ásgeirs. Enginn réttarágreiningur er af minni hálfu um nauðsyn þess að ómerkja orðið "fjárdrátt" þegar rætt er um dóminn yfir Jóni Ásgeiri. Hann var dæmdur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot. Að ég hafi af ásetningi ætlað að breyta dómsniðurstöðu sem var á hvers manns vörum og blekkja einhvern með því er fráleitt.

Frá því að ég gaf út bók mína Rosabaugur yfir íslandi hefur verið hnýtt í mig á dv.is í sama dúr og gert var þegar allir vissu um eignarhald Baugs group á blaðinu. Eitt af því sem DV leggur á sig til að setja mig á bás er að kalla mig „eftirlaunaþega“ eða „eftirlaunamann“. Öruggt er að þetta gerir blaðið ekki til heiðurs eftirlaunaþegum. Þvert á móti verður þessi aðferð blaðsins ekki skilin á annan hátt en þann að ritstjóranum þyki á einhvern hátt unnt að særa menn með því að vekja máls á aldri þeirra. Hefði mátt ætla að blaðamennska af þessu tagi hefði fyrir löngu runnið sitt skeið. Hún er í ætt við að víkja til háðungar að útliti manns, klæðaburði, háralit eða þyngd - svo að dæmi séu tekin af handahófi.

Lágkúra af þessu tagi dæmir sig sjálf. Selji hún blöð hagnast DV ekki á henni á almennum sölustöðum blaða eða hjá áskrifendum. Hún kann hins vegar að kalla á fjárfesta sem vilja hafa slíka blaðamennsku í hávegum.

Fimmtudagur 06. 10. 11 - 6.10.2011

Eins og sjá má hér átti ég þess kost sumarið 1999 að sækja kynningarfund hjá Apple í New York og hlusta á Steve Jobs kynna nýjung fyrirtækis síns. Nú þegar hann er allur langt um aldur fram og hvarvetna minnst fyrir að hafa markað þáttaskil fyrir allt mannkyn með hugviti sínu og dugnaði fær minningin um þennan fund nýtt gildi.

Á sínum tíma hafði ég ánetjast Makkanum en þegar ég settist á þing var þess krafist að ég hæfi að nota PC og hef ég haldið mig við þá tækni síðan, eða í 20 ár. Þar með hef ég farið á mis við nýjungarnar sem Steve Jobs kynnti og hafa valdið þáttaskilum. Þrátt fyrir að víða sé lagt hart að mér að eignast iPad hef ég staðist þrýstinginn.

Ég sé að einhverjir kveinka sér undan því að ég ítreka skoðun mína á nauðsyn góðs tónlistarsalar hér á síðunni í gær og geri gys að ungum sjálfstæðismönnum fyrir að fjargviðrast yfir húsi sem þegar er risið þrátt fyrir andstöðu þeirra.

Einkennilegast við viðbrögðin er að nú fallast í faðma smáfuglarnir á AMX og höfundur Sandkorns DV. Skyldi Reynir Traustason hafa tekið ofan hattinn í tilefni dagsins? Ætli þetta marki nýja tíma í álitsgjöf í netheimum?

Miðvikudagur 05. 10. 11. - 5.10.2011

Í dag ræddi ég við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna, í þætti mínum á ÍNN og má sjá samtalið í stöðinni nú klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ég sé að ungir sjálfstæðismenn fagna verkfalli hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) vegna andstöðu þeirra við Hörpu. Ungir sjálfstæðismenn eru ekki aðeins andstæðingar Hörpu þeir hafa kvartað yfir fullkomnum tónlistarsal hér á landi.

Þetta viðhorf er með öllu óskiljanlegt. Tók ég oft slaginn við unga sjálfstæðismenn um málið á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Þeir sætta sig ekki við niðurstöðu þeirrar rimmu og sitja eftir með sárt enni. Að þeir haldi áfram að væla eftir að hús utan um tónlistarsal er risið er með ólíkindum.  Menn taka ósigri á ólíkan hátt en að rífast yfir húsi sem er risið er fráleitt og enn fráleitara að fagna því ef ekki er nein starfsemi þar og fráleitast af öllu að fjargviðrast yfir háum tölum um fjölda gesta í húsið.

Menn mega hafa þá skoðun sem þeim sýnist á stærð umgerðarinnar um tónlistarsalinn eða frágangi ytra byrðis hans. Að láta deilur sem ávallt fylgja stórhuga framkvæmdum beinast að Sinfóníuhljómsveit Íslands sýnir að ungir sjálfstæðismenn eru hreinlega enn úti að aka í þessu máli. Haldi þeir fast í þessa óvild sína í garð fullkomins tónlistarsalar á Íslandi verður Harpa meðal annars minnisvarði um sérviskulega þráhyggju ungra sjálfstæðismanna sem einkennist af ósanngjarnri óvild.

Ráði menn sjálfir orrustuvelli sínum í stjórnmálabaráttu eiga þeir að vanda valið. Ungir sjálfstæðismenn sýna ekki mikla fyrirhyggju í þessu vali með því að ráðast á Sinfóníuhljómsveit Íslands eða tónlistarsalinn í Hörpu. Þeir eru dæmdir til að tapa þessari orrustu. Að falla fyrir málstaðinn er göfugt markmið, að falla fyrir málstað sem þegar er tapaður er stórundarlegt markmið.


Þriðjudagur 04. 10. 11 - 4.10.2011

Deilurnar milli forseta Íslands og ríkisstjórnarinnar eru komnar á sama stig og fyrir nokkru þegar þau tókust á um það Ólafur Ragnar og Jóhanna Sigurðardóttir hvort setja ætti siðareglur um forsetaembættið. Þetta tal um að unnt sé að leysa allan vanda með siðareglum er út í bláinn. Eftir því sem best er vitað hafa slíkar reglur verið settar um ráðherrana. Hver sér nokkurn mun á framgöngu þeirra? Er það í samræmi við siðareglur þeirra að ráðast á forseta Íslands eins og þau gerðu í stefnuumræðunum Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir?

Þá er einnig ástæða til að velta fyrir sér hvort það samræmist siðareglum þingmanna að sitja sem fastast að sýna forseta Íslands óvirðingu eins og Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks vinstri-grænna, gerði. Eða ganga úr þingsalnum undir ræðu forsetans eins og þingmenn vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir og Davíð Stefánsson, gerðu? Í danska þinginu gerðist það í gær að þingmenn risu ekki úr sætum þegar drottning og fjölskylda hennar gekk úr þingsalnum. Vekur það almenna hneykslan innan þings og utan.

Hið furðulega í þessum deilum forseta og forsætisráðherra er að annars vegar segir forsætisráðherra að þau Ólafur Ragnar hafi setið á löngum fundi í síðustu viku og rætt samskipti sín og embætta sinna og hins vegar segir hún að þessi mál hafi ekki verið rædd á ríkisráðsfundi þótt hún kjósi síðan að gagnrýna forsetann harðlega í stefnuræðu sinni. Við blasir að þarna er eitthvað og meira á ferðinni en fram hefur komið.

Ég vakti máls á því að kannski hefðu hæstaréttardómarar ekki viljað taka þátt í þingsetningu til að mótmæla lítilsvirðingu meirihluta þings á réttinum með ákvörðunum um stjórnlagaráðið þrátt fyrir ógildingu kosninga til stjórnlagaþings. Dómarar hafa einnig getað haft í huga að mótmælin á Austurvell kynnu að leiða til dómsmáls, þeir hafi ekki viljað gera sig vanhæfa.


Mánudagur 03. 10. 11 - 3.10.2011

Þegar stjórnarflokkarnir standa illa taka forystumenn þeirra og spunaliðar að tala um „fjórflokkinn“ og vandræði hans. Þeir kjósa að breyta eigin vanda í vandamál allra stjórnmálaflokka og fá hljómgrunn hjá hliðhollum fjölmiðlamönnum. Steingrímur J. Sigfússon notaði sama trikkið í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hann sagði vissulega rétt að mótmælendur á Austurvelli flyttu ekki stuðning við ríkisstjórnina þeir lýstu ekki heldur stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, þeir mótmæltu í raun öllum flokkum og þingmönnum. Ég sé ekki betur en á visir.is sé þessi orð Steingríms J. fyrirsagnarefni - spuninn er hafinn.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor sagði í RÚV í kvöld að pólitísk og félagsleg kreppa væri alvarlegri vandi í samfélaginu en hin efnahagslega kreppa. Pólitíska kreppan setur nú sífellt sterkari svip á samskipti ríkisstjórnar og forseta Íslands.

Forsetinn tók ríkisstjórnina í kennslustund í stjórnmálafræði við þingsetningu og sagði ráðherra verða áhrifalausa yrðu tillögur stjórnlagaráðs að ákvæðum í nýrri stjórnarskrá. Jóhanna Sigurðardóttir sat ríkisráðsfund með forseta um miðjan dag 3. október og sagði eftir þann fund að ekkert hefði verið minnst á ágreining við forseta af hálfu ráðherra. Hún kaus hins vegar að gera það á harkalegan hátt í stefnuræðunni. Steingrímur J. og síðan Svandís Svavarsdóttir véku einnig gagnrýnisorðum að gamla flokksbróður sínum, Ólafi Ragnari.

Á þremur dögum hefur þjóðin orðið vitni að því í beinni útsendingu frá alþingi að bullandi ágreiningur er milli ríkisstjórnar og forseta. Þingmenn vinstri-grænna stæra sig af því að hafa sýnt Ólafi Ragnari óvirðingu við þingsetninguna.

Þessi dónaskapur er einsdæmi ekki síður en fjarvera fulltrúa hæstaréttar við þingsetningu. Skyldu dómarar hafa ákveðið að láta ekki sjá sig til að mótmæla viðbrögðum meirihluta alþingis við ákvörðun réttarins um að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings? Forseti þingsins sér ástæðu til að finna að fjarvera dómara hæstaréttar - hefur þingforsetinn gagnrýnt þingmenn fyrir að sýna forseta lýðveldisins óvirðingu þegar hann er gestur þingheims í alþingishúsinu?


Sunnudagur 02. 10. 11 - 2.10.2011

Í Vikudegi, sjálfstæðum norðlenskum fjölmiðli, birtist frétt um það sunnudaginn 2. október að nú um mánaðamótin hafi starfsstöð í Amtsbókasafninu á Akureyri verið lokað, en þar fór fram skönnun á dagblöðum og tímaritum. Samningur var á milli safnsins og Landsbókasafns um starfsemina, en síðarnefnda safnið á tækin sem notuð voru.  Síðastliðin ár hafa þrír starfsmenn verið að störfum á stöðinni og var á tímabili unnið við verkefnið frá kl. 8 á morgnana til 20 á kvöldin. Um 30 þúsund blaðsíður voru myndaðar í hverjum mánuði að jafnaði.

Að þessari skönnun á dagblöðum og tímaritum sé hætt er til marks um að ógöngur í opinberum rekstri magnast stig af stigi. Mörgum þykir örugglega litlu skipta þótt dagblöð og tímarit séu ekki skönnuð. Hitt vil ég segja að það hefur gjörbreytt allri notkun minni á dagblöðum og tímaritum að geta nálgast þau skönnuð á vefsíðunni timarit.is, þar sem frábær leitarvél auðveldar manni að nálgast efni á svipstundu sem annars hefði kostað mikið umstang og tíma að skoða.

Ungir vinstri grænir héldu landsfund sinn á Suðureyri 1. og 2. október og beindu spjótum sínum að Ólafi Ragnari Grímssyni vegna ræðu sem hann flutti við setningu alþingis 1. október og gerð var að umtalsefni hér í gær.

Í ályktun ungra vinstri grænna segir:

„Skilningur forseta á niðurstöðum stjórnlagaráðs birtist fundinum sem alvarlegir einræðistilburðir, þar sem annar handhafi framkvæmdavalds nýtir sér óvissutíma í samfélagi og óskýr ákvæði í tillögu ráðsins til að vega að þingræðinu, sem hefur verið höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar frá stofnun lýðveldisins og sópa saman öllu framkvæmdavaldi í hendur forseta.

Þessi þróun í átt að aukinni miðstýringu ríkisvalds brýtur í bága við hugmyndir um aukið lýðræði sem er í hávegum haft hjá íslensku þjóðinni. Fundurinn veltir fyrir sér hvort forsetinn sé blindur á vilja þjóðarinnar eða hvort hann standist einfaldlega ekki mátið að auka eigin umsvif á óvissutímum.“

Þessi ályktun endurspeglar hina djúpstæðu óvild sem ríkir meðal ráðherra og stuðningsmanna þeirra í garð Ólafs Ragnars. Er með ólíkindum að æðstu menn þjóðarinnar og fylgismenn þeirra telji brýnasta mál liðandi stundar setja á deilur af þessu tagi.


 

Laugardagur 01. 10. 11 - 1.10.2011

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af þingsetningunni sem var söguleg af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna árása á þingmenn þegar þeir gengu á milli þinghúss og Dómkirkju og vegna ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar þar sem hann skýrði tillögur stjórnlagaráðs sér og embætti sínu í hag og krafðist þess að alþingi afgreiddi þær með þingrofi og nýjum kosningum fyrir forsetakosningarnar 30. júní 2012.