23.10.2011

Sunnudagur 23. 10. 11

Í dag nutum við tónlistar í Brussel. Í morgun þegar við hlýddum á tvær Bach-kantötur í hverfiskirkju skammt frá Sablon-torgi. Síðdegis í óperunni þegar við hlýddum á Ödipus eftir rúmenska tónskáldið Enescu. Áhrifamikil sýning.

Fundi 27 ESB-leiðtoga lauk um hádegisbil og 17 evru-leiðtoga um kvöldmat. Það truflaði okkur ekki hið minnsta á ferð um borgina. Hvergi sáust merki um fundina þar sem við vorum sem sýnir hve vel hefur tekist til við að setja alla ESB-starfsemina á sama blettinn í borginni.

ESB-aðildarsinninn Vilhjálmur Þorsteinsson hlaut kosningu sem gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í dag. Hann fékk 60% atkvæða. Vilhjálmur er stjórnarformaður í CCP en forráðamenn þess fyrirtækis hafa löngum kvartað undan að þurfa að búa við íslenska krónu. Þá er hann einnig aðalmaðurinn í gagnaverinu Vern holding og hefur verið með hagsmunamiðlun vegna þess gagnvart þingmönnum.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fer mikinn vegna þess að Páll Magnússon er ráðinn forstjóri Bankasýslunnar af því að hann starfaði á sínum tíma sem aðstoðarmaður ráðherra fyrir flokk sem ekki er lengur í ríkisstjórn. Skyldi Helga Hjörvar þykja sjálfsagt og eðlilegt að forráðamaður fyrirtækja sem láta að sér kveða á pólitískum vettvangi til að breyta lögum eða alþjóðlegri stöðu Íslands sér í hag sé gjaldkeri stjórnmálaflokks?

Jóhanna Sigurðardóttir lemur á forseta Íslands og krefst þess að hann setji sér siðareglur. Hvað með fjármálastjórn og gjaldkerastarf í Samfylkingunni? Gilda engar siðareglur þar?