Dagbók: maí 1997

Fimmtudagur 29.5.1997 - 29.5.1997 0:00

Síðdegis fimmtudaginn 29. maí tók ég þátt í athöfn í Íslandsbanka, þar sem menntastyrkir bankans voru afhentir. Eftir það efndum við Rut til móttöku í Þjóðminjasafni fyrir þátttakendur í söguþinginu. Síðan fórum við í Hallgrímskirkju og hlýddum á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Roys Goodmanns, þar sem Hörður Áskelsson lék einleik í nýjum orgelkonsert eftir Hjálmar H. Ragnarsson. Var það eftirminnileg stund, sem við héldum upp á eftir tónleikana með móttöku fyrir tónskáld, einleikara, hljómsveit og stjórnendur Kirkjulistarhátíðar í Hallgrímskirkju.

Sunnudagur 25.5.1997 - 25.5.1997 0:00

Síðdegis sunnudaginn 25. maí tókum við þátt í messu á Þingvöllum, þegar séra Heimir Steinsson var formlega settur að nýju í starf Þingvallaprests.

Laugardagur 24.5.1997 - 24.5.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 24. maí tókum við Rut þátt í 100 ára afmælishátíð Landakotsskóla í Reykjavík. Er hann elsti starfandi barnaskóli í höfuðborginni. Hann var að vísu stofnaður rúmlega 30 árum síðar en fyrsti barnaskóli Reykjavíkur, Miðbæjarskólinn, sem síðan hætti starfsemi sinni 1970.

Fimmtudagur 22.5.1997 - 22.5.1997 0:00

Í hádegi fimmtudaginn 22. maí fór ég fyrst í símstöðina við Kirkjustræti og tók þar þátt í upphafi sjónvarpsfundar, sem fór fram í Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Var rætt um fjarlækningar og fjarnám á þessum fyrsta fundi sinnar tegundar. Eftir að hafa sagt nokkur orð í upphafi þessa fundar fór ég í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og þáði þar hádegisverð í boði nemenda og kennara ásamt formanni skólanefndar og formanni og varaformanni Bandalags kvenna í Reykjavík. Eins og kunnugt er hefur verið nokkur óvissa um framtíð skólans en nú hefur orðið að samkomulagi milli mín og forráðamanna skólans og Bandalags kvenna í Reykjavík að hefja viðræður um, að bandalagið taki að sér að reka skólann sem sjálfstæða stofnun eða einkaskóla. Stendur vilji til þess, að Reykjavíkurborg komi að þessum skólarekstri. Með þessum hætti tel ég, að unnt sé að tryggja framtíð skólans og sérstöðu hans.

Laugardagur 17.5.1997 - 17.5.1997 0:00

Ég gat ekki setið þingfund til loka 17. maí, því að klukkan 14.00 hófst athöfn í Þjóðminjasafninu, þar sem opnuð var sýningin Kirkjur og kirkjuskrúð, sem er sameiginlegt framtak Norðmanna og Íslendinga. Af því tilefni kom Turid Birkeland, menningarmálaráðherra Noregs, til landsins og tók jafnframt þátt í þjóðhátíðarhöldunum 17. maí. Við vorum saman í hátíðarmesssu í Hallgrímskirkju kl. 11 sunnudaginn 18. maí, þegar Kirkjulistarvika var sett, síðan vorum við á skartgripasýningu í Norræna húsinu kl. 16.00 og á tónleikum Norðmanna í Hallgrímskirkju klukkan 17, en um kvöldið buðum við Rut ráðherranum heim í málsverð.

Föstudagur 16.5.1997 - 16.5.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 16. maí fór ég í Kirkjuhúsið og tók þátt í stuttri athöfn, þegar þjóðmálanefnd Þjóðkirkjunnar afhenti álitsgerð sína um sjálfsvíg.

Miðvikudagur 14.5.1997 - 14.5.1997 0:00

Vegna þinglokanna urðu menn að vera við því búnir að sækja þingfundi oftar en ella og á öðrum tímum en endranær. Ekkert af mínum málum var til umræðu á næturfundum, þannig að ég slapp við að vera fram undir fimm á morgnana í þinghúsinu. Ég svaraði fyrirspurn um Z í íslensku máli síðdegis miðvikudaginn 14. maí og eftir hádegi 15. maí var hálftíma umræða utan dagskrár um samræmd próf

Laugardagur 10.5.1997 - 10.5.1997 0:00

Síðdegis laugardaginn 10. maí sat ég aðalfund Árvakurs hf.

Föstudagur 9.5.1997 - 9.5.1997 0:00

Að morgni föstudagsins 9. maí var ég viðstaddur setningu norræns skátaþings á Hótel Loftleiðum.

Fimmtudagur 8.5.1997 - 8.5.1997 0:00

Að kvöldið 8. maí, uppstigningardags, fórum við Rut í Norræna húsið, þar sem fagnað var útgáfu þýðinga á ljóðum Knuts Ödegaards.

Miðvikudagur 7.5.1997 - 7.5.1997 0:00

Síðdegis miðvikudaginn 7. maí var dálítil athöfn í ráðuneytinu, þegar ég veitti nemendum Menntaskólans á Laugarvatni viðurkenningu vegna þátttöku þeirra í Sókrates-verkefni, sem er undir forsjá Evrópusambandsins, kom sendiherra þess hér á landi til athafnarinnar.

Þriðjudagur 6.5.1997 - 6.5.1997 0:00

Að kvöldi þriðjudagsins 6. maí fórum við Rut í Þroskaþjálfaskólann, sem var með opið hús og tók vel og vinalega á móti mörgum gestum sínum.

Mánudagur 5.5.1997 - 5.5.1997 0:00

Að morgni mánudagsins 5. maí hitti ég hóp norrænna blaðamanna, sem hér var á ferð til að kynna sér menningarlífið. Dvöldust þeir meðal annars norður í Skagafirði og fylgdust með síðustu dögum Sæluvikunnar á Sauðárkróki. Var greinilegt, að þeim hafði til dæmis þótt mikið til þess koma að sjá Pétur Gaut undir leikstjórn Gunnars Eyjólfssonar, sem einnig lék í sýningunni. Á fundi mínum með blaðamönnunum lagði ég áherslu á, að ríkið ætti ekki að hafa það að markmiði að koma sjálft á laggirnar bákni til að sinna menningarmálum heldur bæri að nýta opinbert fé til þess að styrkja einstaklinga til listsköpunar. Þótti þeim ýmsum þetta næsta ábyrgðarlaus afstaða, enda líklega vanari því að vinstrisinnar í ríkisstjórnum landa þeirra telji málum best borgið með sem mestum afskiptum ríkisins.

Laugardagur 3.5.1997 - 3.5.1997 0:00

Í hádegi laugardagsins 3. maí gat ég í nokkrar mínútur hlustað á Davíð Oddsson flytja ræðu sína hjá SVS og Varðbergi. Síðan fór ég klukkan 13 og var viðstaddur upphaf 8. fulltrúaþings Kennarasambands Íslands, þar sem ég flutti ávarp . Þaðan fór ég í hús iðnaðarmanna við Hallveigarstíg og leit stuttlega á skemmtilega sýningu á nýsköpunarverkefnum grunnskólanema, síðan skrapp ég á sýningu Sigríðar Ásgeirsdóttur í Stöðlakoti. Klukkan 16.00 vorum við Rut komin í Gerðarsafn, þar sem kom í minn hlut að opna sýningu á verkum Önnu-Evu Bergmann. Þaðan fórum við rakleiðis í Garðabæ á tónleika, sem hófust klukkan 17 og voru liður í Tónlistarhátíð í Garðabæ vegna 200 ára afmælis Schuberts. Þar komu fram Robert Holl bassabarítón og Gerrit Schuil píanóleikari, en hann er listrænn stjórnandi þessarar hátíðar. Holl kom sérstaklega til að syngja á þessum frábæru ljóðatónleikum fyrir fullu húsi þakklátra áheyrenda.

Föstudagur 2.5.1997 - 2.5.1997 0:00

Síðdegis föstudaginn 2. maí kom svonefnd stefnumótunarnefnd vegna námskrárgerðar á minn fund og gerði mér grein fyrir störfum sínum. Sigríður Anna Þórðardóttir alþingismaður er formaður nefndarinnar, sem skipuð er fulltrúum allra stjórnmálaflokka, og ég stofnaði í því skyni að veita ráðgjöf um pólitísk álitaefni vegna námskrárvinnu fyrir grunn- og framhaldsskóla. Nefndin var samhljóða í afstöðu sinni og hefur nú lokið þessum þætti starfs síns með miklum ágætum.

Fimmtudagur 1.5.1997 - 1.5.1997 0:00

Að morgni 1. maí fórum við Rut á Laugardalsvöllinn, þar sem kom í minn hlut að flytja ávarp við upphaf kyndilhlaups umhverfis landið vegna 7. smáþjóðaleikanna, sem verða haldnir og hefjast 2. júní nk. Hafði ég þann heiður að kveikja á kyndlinum og afhenda hann fyrsta hlauparanum. Finnst mér raunar fjölmiðlar gera sér lítinn mat úr þessu framtaki Ungmennafélags Íslands, sem virkjar fólk umhverfis allt landið. Að kvöldi 1. maí fórum við í Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og sáum hina margrómuðu uppfærslu Baltasar Kormáks á leikritinu Skækjan.